Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 103/2020 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 103/2020

 

Aðgengi að facebook síðu húsfélags.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 14. september 2020, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 26. október 2020, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 21. desember 2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 48 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsinu. Ágreiningur er um aðgengi að facebook síðu gagnaðila og fundargerðum ásamt fylgiskjölum þeirra í vörslu gagnaðila.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila sé óheimilt að taka ákvörðun um að facebook síða gagnaðila sé einungis fyrir íbúa hússins.
  2. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila sé óheimilt að neita umboðsmanni álitsbeiðanda um aðgang að facebook síðu gagnaðila.
  3. Að viðurkenndur verði réttur umboðsmanns álitsbeiðanda til að fá afrit af fundargerðum gagnaðila, ásamt fylgigögnum.

Í álitsbeiðni kemur fram að stjórn gagnaðila hafi ákveðið að taka til á facebook síðu gagnaðila og fjarlægja þá sem hún taldi ekki vera búsetta í húsinu. Einnig hafi verið óskað eftir ábendingum um þá sem ekki byggju í húsinu til að geta fjarlægt þá af síðunni. Á aðalfundi 2019 hafi verið samþykkt að auglýsa eftir skoðunarmanni reikninga á facebook síðunni og setja inn lista á facebook yfir helstu iðnaðarmenn sem hafi þekkingu á húsinu. Um sé að ræða vettvang fyrir umræður um húsfélagsmál.

Umboðsmaður álitsbeiðanda hafi sent póst á stjórn gagnaðila 26. ágúst 2020 þar sem óskað hafi verið eftir aðgangi að facebook síðunni, í viðhengi hafi verið afrit af umboði umboðsmanns. Sama dag hafi verið send beiðni á facebook um að fá aðgang ásamt persónulegum facebook skilaboðum til tveggja stjórnarmanna. Þann 27. ágúst 2020 hafi formaður gagnaðila svarað því að það hefði verið tekið til í hópnum og þeim sem ekki væru búsettir í húsinu hefði verið vísað úr hópnum. Í svari sama dag hafi umboðsmaðurinn skorað á stjórnina að veita henni aðgang að facebook síðu gagnaðila með vísan til 6. mgr. 40. gr. laga um fjöleignarhús fyrir 4. september 2020 þar sem hluti af starfsemi gagnaðila fari fram á facebook síðunni. Ekki hafi verið orðið við þeirri áskorun.

Umboðsmaðurinn hafi einnig óskað eftir aðgangi að fundargerðum gagnaðila 27. ágúst 2020. Einungis hafi verið veitt aðgengi að síðustu fundargerð frá árinu 2019. Skorað hafi verið á stjórn gagnaðila að senda með tölvupósti endurrit húsfundargerða samkvæmt 4. mgr. 64. gr. laga um fjöleignarhús fyrir 4. september 2020, en ekki hafi verið orðið við því.

Þá hafi húsfundir undanfarin þrjú ár dregist fram yfir 1. mars.

Í greinargerð gagnaðila segir að um facebook síðu gagnaðila gildi í raun engin lög eða reglugerðir um slíkt svo að vitað sé til. Það sé því í sjálfsvald sett fyrir stjórnir húsfélaga hvaða reglur gildi. Að mati stjórnar gagnaðila sé facebook síðan fyrst og fremst ætluð fyrir íbúa hússins og eigendur. Þegar stjórnin hafi talið að einhverjir séu á síðunni sem ekki eigi þar heima, séu þar undir dulnefni og ekki hægt að vita fyrir víst hverjir það séu eða þeir sem séu fluttir úr húsinu, sé einfaldlega lokað fyrir aðgang viðkomandi. Á einhverjum framtíðaraðalfundi verði  hægt að taka upp umræður um hvaða reglur eigi að gilda um síðuna og gera einhvers konar málamiðlanir sem flestir séu sáttir við. Hvort umboðsmaður íbúa í húsinu eigi að hafa aðgang þegar eigandinn sé sjálfur með aðgang sé matsatriði og að mati stjórnar gagnaðila óþarfi að svo stöddu.

 

Varðandi rétt eigenda og umboðsmanna þeirra til að fá afrit af fundargerðum, mætingarlistum, ársreikningum og skýrslum stjórnar, sé það óumdeilt og sjálfsagt að útvega þau gögn. Þegar álitsbeiðandi hafi beðið um gögnin hafi formaður gagnaðila tekið til öll umbeðin gögn sem hafi verið tiltæk á facebook síðunni og sent henni í tölvupósti úr tölvu formannsins. Hún hafi síðar einnig beðið um eldri fundargerðir frá þeim tíma sem enginn núverandi stjórnarmanna hafi verið í stjórn. Þau gögn hafi því ekki verið tiltæk á rafrænu formi. Við þetta tækifæri hafi ritari gagnaðila grafið upp eldri fundargerðarbók, skannað gögnin og sent álitsbeiðanda 30. september 2020. Það hafi ekki verið gert innan þess stutta frests sem álitsbeiðandi hafi sjálf sett. Þar sem hún hafi fengið umbeðin gögn sé krafa hennar hér um með öllu innistæðulaus. Eðlilega taki tíma að finna gamlar fundargerðarbækur, skanna inn gögn og senda. Ekki sé hægt að ætlast til þess að slíkt sé í forgangi og flýtimeðferð.

Varðandi aðalfundi húsfélagsins þá hafi stundum orðið tafir á slíkum fundum sem hafi þá verið útskýrðar á aðalfundum. Nú í ár hafi meðal annars orðið tafir vegna COVID-19 faraldursins en ekki sé unnt að halda fund með eigendum 48 íbúða þegar samkomutakmörkun miði við 20 manns. Markmið gagnaðila sé að halda ávallt aðalfund í mars eða apríl ár hvert. Frá 1970 hafi skýrsla stjórnar almennt verið flutt munnlega á aðalfundi og punktar settir í fundargerð í fundargerðarbók. Síðustu ár hafi þetta verið tekið saman í fundargerð sem birt hafi verið á nefndri facebook síðu. Allar eldri fundargerðir séu aðeins til á pappírsformi í fundargerðarbókum og séu almennt ekki til á rafrænu formi hjá núverandi stjórn.

III. Forsendur

Deilt er um aðgengi að facebook síðu gagnaðila. Fram kemur að gagnaðili hafi stofnað facebook síðu til þess að skapa vettvang fyrir umræður um sameiginleg málefni. Gagnaðili segir að þeir sem fái aðgang að síðunni séu íbúar hússins og eigendur íbúða í húsinu. Álitsbeiðandi gerir athugasemdir við að umboðsmanni hennar hafi verið meinaður aðgangur að síðunni.

Samkvæmt 4. tölul. 12. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, felst réttur eigenda í aðild að húsfélagi og til að eiga hlut að ákvarðanatöku um sameignina og sameiginleg málefni. Í 1. mgr. 39. gr. sömu laga segir síðan að allir eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Þá segir í 3. mgr. 58. gr. laga um fjöleignarhús að félagsmaður megi veita sérhverjum lögráða manni umboð til að mæta á fundi og greiða atkvæði. Skuli umboðsmaður leggja fram á fundinum skriflegt og dagsett umboð. Slíkt umboð megi hvenær sem er afturkalla.

Lög um fjöleignarhús taka ekki á því hvernig farið skuli með aðgengi að vefsíðum sem húsfélög kunna að stofna í kringum sameiginleg málefni í þeim tilgangi að skapa vettvang fyrir umræður eigenda þar um. Þrátt fyrir að eiginlegar ákvörðunartökur fari ekki fram á téðri vefsíðu gagnaðila má ætla að þar séu rædd ýmis málefni sem tengjast ákvörðunartökum og því eðlilegt að allir eigendur hafi þar aðgengi með hliðsjón af rétti þeirra til að eiga hlut að ákvörðunartöku um sameignina og sameiginleg málefni, sbr. fyrrnefndur 4. tölul. 12. gr. laga um fjöleignarhús og einnig 1. mgr. 39. gr. Aftur á móti gegnir öðru máli um umboðsmenn eigenda. Þótt eigendum sé heimilt á grundvelli fyrrnefndrar 3. mgr. 58. gr. laganna að veita lögráða mönnum umboð til að mæta á fundi og greiða atkvæði telur kærunefnd að þeirri heimild verði ekki jafnað til aðgangs umboðsmanns að vefsíðu gagnaðila. Telur kærunefnd ekki skilyrði til að fallast á kröfu álitsbeiðanda hér um.

Álitsbeiðandi gerir kröfu um að umboðsmaður hennar fái aðgengi að fundargerðum gagnaðila ásamt fylgigögnum. Í þessu tilliti nefnir hún að hún hafi gert kröfu um að henni yrði veitt aðgengi að nefndum gögnum fyrir 6. september 2020 með bréfi, dags. 26. ágúst 2020. Í greinargerð kemur fram að ekki hafi tekist að veita aðgengi að gögnunum innan þess stutta frests sem álitsbeiðandi hafi veitt en að aðgengið hafi verið veitt síðar í september 2020. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu álitsbeiðanda. Verður því að ætla að hér sé ekki lengur ágreiningur til staðar og er þessari kröfu álitsbeiðanda því vísað frá kærunefnd.

Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1355/2019, skal í álitsbeiðni skilmerkilega gera grein fyrir ágreiningi aðila. Einnig segir að gera skuli skýrar kröfur um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni og skuli rökstyðja kröfurnar með eins ítarlegum hætti og unnt sé. Í 4. mgr. sömu greinar segir að nefndin veiti ekki umsagnir um fræðilegar spurningar heldur taki afstöðu til krafna aðila.

Álitsbeiðandi óskar eftir áliti nefndarinnar á því hvenær skuli skila ársreikningi og skýrslu stjórnar þegar það dregst fram yfir lok apríl að halda aðalfund. Í þessu tilliti nefnir álitsbeiðandi að húsfundir síðastliðin þrjú ár hafi verið haldnir eftir 1. mars. Telur kærunefndin að um lögspurningu sé að ræða en það er ekki á valdsviði kærunefndarinnar að svara slíkri fyrirspurn.  Þá verður ekki ráðið að þetta atriði hafi komið til sérstakrar umfjöllunar innan gagnaðila. Með hliðsjón af framangreindu ber að vísa þessari kröfu frá kærunefnd. 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé ekki skylt að veita öðrum en íbúum og eigendum hússins aðgang að facebook síðu félagsins.

Öðrum kröfum álitsbeiðanda er vísað frá.

 

Reykjavík, 21. desember 2020

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira