Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 4/2023-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 4/2023

 

Hugtakið hús. Eitt hús eða fleiri. Ákvörðunartaka. Svalalokanir.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 24. janúar 2023, beindi Húsfélagið Naustavör 4-12 hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við A og Húsfélagið Naustavör 2 hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru sameiginleg greinargerð gagnaðila, dags. 16. febrúar 2023, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 24. febrúar 2023, lagðar fyrir nefndina.

Með tölvupósti 24. apríl 2023 óskaði nefndin eftir að álitsbeiðandi legði fram eignaskiptayfirlýsingu hússins, sem barst með tölvupósti álitsbeiðanda 17. maí 2023. Gagnaðilar voru upplýstir um framangreinda gagnaöflun með tölvupósti kærunefndar 19. maí 2023. Með tölvupósti 19. maí 2023 bárust viðbótarathugasemdir frá álitsbeiðanda sem voru sendar gagnaðilum með tölvupósti kærunefndar 23. maí 2023. Viðbótarathugasemdir bárust frá gagnaðilum með tölvupósti 30. maí 2023 og voru þær sendar álitsbeiðanda 1. júní 2023. Þá bárust frekari athugasemdir og gögn frá álitsbeiðanda 25. maí 2023 sem voru sendar gagnaðilum 1. júní 2023. Frekari athugasemdir bárust frá gagnaðilum 5. júní 2023 sem sendar voru álitsbeiðanda 8. júní.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 24. ágúst 2023.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða Naustavör 2-12 í Kópavogi. Álitsbeiðandi er Húsfélagið að Naustavör 4-12 en gagnaðilar eru Húsfélagið að Naustavör 2 og eigandi einnar íbúðar að Naustavör 2. Ágreiningur er um hvort Naustavör 2-12 teljist eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús og einnig hvort samþykki allra eigenda að Naustavör 2-12 þurfi fyrir því að gagnaðili sem er eigandi að Naustavör 2 setji svalalokun á svalir íbúðar sinnar.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að Naustavör 2-12 teljist eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
  2. Að viðurkennt verði að svalalokanir á húsinu Naustavör 2-12 þurfi samþykki allra eigenda, eða að minnsta kosti 2/3 þeirra í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús.

Í álitsbeiðni segir að undanfarin ár hafi gagnaðili A óskað eftir vilyrði sameigenda um að byggja svalalokun á svalir íbúðar sinnar. Málið hafi verið borið upp á aðalfundi álitsbeiðanda árið 2018 og samhliða lagt fram lögfræðiálit um álitaefnið en engin ákvörðun tekin. Álitaefnið hafi aftur verið borið upp á aðalfundi ársins 2021. Í kjölfarið hafi aftur verið fengið lögfræðiálit og niðurstaða þess verið sú að það þyrfti samþykki allra eigenda fyrir slíkum framkvæmdum og breytingum á útliti hússins. Málið hafi aftur verið borið upp á aðalfundi 5. maí 2022 þar sem meirihluti fundarmanna hafi samþykkt tillögu um að svalalokanir stæðu eigendum ekki til boða þar sem þörf væri á samþykki allra.

Á þessum árum hafi eigendur ítrekað haft samband við Kópavogsbæ sem hafi staðfest skilning þeirra á því að samþykki allra í öllu húsinu þyrfti áður en ráðist yrði í slíkar framkvæmdir. Eigendur hafi þó orðið varir við að bygging svalalokanna væri hafin 1. desember 2022. Í svörum bæjarfélagsins 5. sama mánaðar hafi komið fram að framkvæmdum væri líklega lokið og því hafi eigendur dregið lögbannsbeiðni sína til baka næsta dag. Bæjarfélagið hafi upplýst að það hefði samþykkt byggingarleyfi fyrir svölunum 6. september 2022 og svo virðist sem það hafi sjálft sótt um byggingarleyfi og staðið að framkvæmdinni í heild sinni vegna einhverskonar samkomulags við eiganda íbúðarinnar. Þann 11. desember hafi stjórn álitsbeiðanda sent bæjarfélaginu kröfu um að byggingarleyfið yrði fellt niður, endurupptekið eða afturkallað á grundvelli stjórnsýslulaga eða annarra viðkomandi laga en henni hafi verið synjað.

Húsið að Naustavör 2-12 sé eitt og sama húsið í skilningi 1. og 3. gr. laga um fjöleignarhús. Á grundvelli þeirra laga, sérstaklega 1. og 2. mgr. 30. gr., verði að liggja fyrir samþykki sameigenda í húsinu fyrir slíkum framkvæmdum og breytingum á ytra byrði og útliti þess, þ.e. svalalokunum. Sömuleiðis geti stjórnvöld ekki heimilað framkvæmdir eða breytingar á sameign án lögbundins leyfis eigenda.

Sex stigagangur séu í húsinu en stigagangur að húshluta nr. 2 sé rekinn í húsfélagi með eigin kennitölu og hinir fimm stigagangarnir séu reknir í einu og sama húsfélaginu með eigin kennitölu. Þrátt fyrir það sé um eitt og sama húsið að ræða samkvæmt 1. og 3. gr. laga um fjöleignarhús. Húsið myndi eina samfellda heild sem mannvirki. Samkvæmt lögunum sé allt ytra byrði hússins sameign allra í húsinu samkvæmt 6. og 8. gr. laganna. Skipti hér engu að mismunandi húsfélög séu til staðar fyrir mismunandi stigaganga líkt og gengur og gerist. Þar sem um eina og sama húsið sé að ræða nái skilyrði um samþykktir húsfunda yfir breytingar til íbúðarhluta alls hússins. Sé verið að gera breytingar á ytra byrði sem ekki séu á teikningum verði að boða til fundar um slíkt og gefa öllum eigendum í heildarhúsinu tækifæri til að taka afstöðu til slíkra framkvæmda. Þá sé ljóst að 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús geri þá kröfu að eigendur í öllu húsinu þurfi að samþykkja slíkar breytingar á húsfundi sé um verulegar breytingar að ræða á sameign og útliti hússins. Séu slíkar breytingar ekki verulegar sé engu að síður gerð krafa um að 2/3 hluti eigenda samþykki slíkt, sbr. 2. mgr. 30. gr., með auknum kröfum um fundarsókn, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um fjöleignarhús.

Vísað sé til 11. mgr. 29. gr. laga um fjöleignarhús. Ljóst sé að svalalokunin sé ekki á teikningum og hafi aldrei staðið til að breyta teikningum hússins. Þá megi vísa til álits kærunefndar í máli nr. 15/2014. Vísað sé til 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga, nr. 160/2010. Samþykki bæjarfélagsins hafi einungis snúið að samþykki sameigenda að stigaganginum að húshluta nr. 2 og myndi minna en 20% samþykki allra eigenda í húsinu. Skilyrði ákvæðisins séu því ekki uppfyllt með hliðsjón af reglum laga um fjöleignarhús um ákvarðanatöku í slíkum tilvikum og því ljóst að um ólögmæta framkvæmd hafi verið að ræða. Auk þess hafi framkvæmdaraðili verið í vondri trú um réttmæti leyfisveitingar álitsbeiðanda vegna framkvæmdanna og því hafi bæjarfélagið aldrei getað heimilað slíka framkvæmd til að byrja með þar sem grundvallar formskilyrði leyfisveitingarinnar hafi ekki verið til staðar.

Í greinargerð gagnaðila segir að Naustavör 2 sé sjálfstætt húsfélag með eigin heimtaugar, vatn og rafmagn, sorpgeymslu, geymslur og geymslugang, stigagang og bílageymslu. Þá tengist Naustavör 2 og 4 lítillega á einum húsgafli og þak á Naustavör 2 tengist ekki þaki á Naustavör 4. Enginn samgangur sé á milli húsanna eins og til að mynda um bílakjallara. Ekkert tengir rekstur húsanna saman nema húsfélögin sameinist um rekstur á lóðinni.

Með tilvísun í fundargerð húsfundar álitsbeiðanda hafi atferli hans fram til þessa ekki verið eins og um eina lóð eða eitt hús sé að ræða. Til að mynda hafi hann eingöngu boðað til húsfundar eigendur að Naustavör 4-12 til að fjalla um hvort heimila ætti svalalokanir. Eingöngu hafi 66,01% hluti eigna verið mættir á fundinn eða minna en áskilinn lágmarkskrafa í álitsbeiðni.

Aðdragandi málsins sé sá að bæjarfélagið hafi lagt fram til kynningar og athugasemda deiliskipulagstillögu um gerð hringtorgs þar sem Vesturvör og Naustavör mætist austast. Í kynningunni hafi komið fram að fjarlægja ætti hluta af hljóðverndarvegg sem hafi verið til staðar en það hafi reynst nauðsynlegt svo bílaumferð sem komi að austan og ætli að beygja inn á bílastæði fyrir framan Naustavör 2 og 4-12 sjái þá umferð sem sé að koma út frá þessum bílastæðum. Beygjan sé því sem næst 360 gráður og að hluta um hringtorg þannig að bílstjórnarnir þurfi að einbeita sér að fullu. Vegna þess hve beygjan sé kröpp þá sé ekki forsvaranlegt að setja hljóðvarnarvegginn upp aftur.

Gagnaðili A hafi gert athugasemd við deiliskipulagstillöguna um að rýra ætti hljóðvörn sem þegar hafi verið fyrir íbúð hans og íbúðina fyrir neðan. Deiliskipulagsbreytingin hafi á endanum verið samþykkt með fyrirvara um að bæta ætti hljóðvörn umræddra íbúða. Settur hafi verið upp timburveggur til að bæta hljóðvörn neðri íbúðar en sú ráðstöfun hafi ekki dugað fyrir þá efri. Þrátt fyrir ýmsar vangaveltur hafi eina raunhæfa leiðin reynst vera sú að setja svalalokun til að bæta hljóðvörn íbúðarinnar. Í tölvupósti þáverandi skipulagsstjóra bæjarfélagsins til álitsbeiðanda hafi hann nákvæmlega farið yfir og kynnt hvað væri í vændum með svalalokun að Naustavör 2. Þrátt fyrir þessa kynningu hafi álitsbeiðandi ekkert gert til að kynna þetta mál fyrir íbúum að Naustavör 4-12. Þar með hafi hann sýnt tómlæti sem eingöngu megi túlka sem samþykki fyrir lokuninni.

Hönnuður deiliskipulagsins, sem jafnframt sé hönnuður Naustavarar 2-12, hafi lagt til sértækar aðgerðir fyrir hljóðvörn íbúðarinnar í deiliskipulaginu og jafnframt staðfest að svalalokunin væri gott svar við vandamálinu. Svalalokunin tryggi að reglugerð um hávaðamengun sé uppfyllt. Þá sé hún inná svölunum og án nokkurra sýnilegra pósta og hafi því ekki áhrif á útlit svalahandriðs eða viðhald þess.

Svalalokunin hafi verið sett upp í byrjun desember 2022 og hafi gagnaðili A nú, um þremur og hálfu ári eftir framkvæmdina við hringtorgið, loks möguleika á að sitja á svölum sínum og njóta og nota með sama hætti og aðrir íbúar. Fordæmi séu fyrir því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála hafi samþykkt svalalokun þótt hún sé ekki á upprunalegum teikningum, þegar öryggissjónarmið eigi við. Því séu forsendur fyrir því að svalalokun þessi sé samþykkt, þar sem hún dragi úr þeirri hljóðmengun sem ella yrði á svölunum. Hljóðmengun verði að teljast öryggismál þar sem hún hafi áhrif á heilsu þess sem fyrir henni verði. Allir eigendur að Naustavör 2 hafi staðið með þessum breytingum.

Naustavör 2 sé með eigið húsfélag meðal annars vegna þess að aðstæður að Naustavör 4-12 og Naustavör 2 séu með ólíkum hætti. Félögin séu með samkomulag um kostnaðarskiptingu á viðhaldi og umhirðu lóðar. Þá séu svalalokanir heimilar í öllum húsum í bryggjuhverfinu í Kársnesi.

Um hafi verið að ræða minniháttar breytingu á ásýnd hússins, engir póstar séu í lokuninni, eingöngu sjáist í glerin sjálf sem séu þess utan gegnsæ.

III. Forsendur

Fyrri krafa álitsbeiðenda er að viðurkennt verði að Naustavör 2-12 teljist eitt hús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Gagnaðilar telja að um aðskilin hús sé að ræða enda sé Naustavör 2 með eigin heimtaugar, vatn og rafmagn, sorpgeymslu, geymslur og geymslugang, stigagang og bílageymslu. Ekkert tengi rekstur húsanna saman annað en rekstur lóðarinnar.

Í 1. gr. laga um sameign fjölbýlishúsa nr. 19/1959 sagði að fjölbýlishús teldist hvert það hús sem í væru tvær eða fleiri íbúðir. Í lögunum var enn fremur sérstaklega lögfest að allt viðhald ytra byrðis húss væri sameiginlegt. Í lögum um fjölbýlishús nr. 59/1976 var bætt við framangreinda skilgreiningu eldri laga en í 1. mgr. 2. gr. laganna sagði að þau giltu um fjölbýlishús þar sem íbúðirnar væru í eigu fleiri en eins aðila. Einnig giltu þau um raðhús og önnur samtengd hús eftir því sem við gæti átt. Á gildistíma laga nr. 59/1976 mótaðist sú meginregla að sambyggingar voru skoðaðar sem eitt hús í þessum skilningi. Nokkrir héraðsdómar hafa gengið sem allir hafa rennt stoðum undir þessa meginreglu. Mikilvægastur í þessu sambandi er þó dómur Hæstaréttar frá 26. janúar 1995 í málinu nr. 239/1992.

Með setningu laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 var stefnt að því að festa umrædda meginreglu um víðtæka túlkun hugtaksins húss enn frekar í sessi. Þetta má ráða þegar af 1. gr. laganna þar sem meðal annars er vikið að skilgreiningu hugtaksins fjöleignarhúss, en þar segir í 4. tölul. 3. mgr. að lögin gildi meðal annars um raðhús og önnur sambyggð og samtengd hús, bæði eingöngu til íbúðar og að einhverju leyti eða öllu til annarra nota, allt eftir því sem við geti átt. Í greinargerð frumvarps um nefnda 1. gr. er vikið nánar að hugtakinu sambyggð hús þar sem segir: „Með öðrum sambyggðum húsum er átt við hús, sem eru í enn minni eða lausari tengslum hvert við annað en raðhús og sambyggingar. Hér er þó fyrst og fremst verið að undirstrika hið víðtæka gildissvið frumvarpsins og varna gagnályktun.“

Í 3. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er síðan enn frekari grunnur lagður að skilgreiningu hugtaksins en 2. mgr. 3. gr. er svohljóðandi: „Þótt sambyggð eða samtengd hús teljist tvö sjálfstæð hús eða fleiri skv. 1. mgr. þá gilda ákvæði laganna eftir því sem við getur átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg eru, svo sem lóð ef hún er sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip ef því er að skipta. Sama gildir einnig ef því er að skipta um sameiginleg málefni sjálfstæðra ótengdra fjöleignarhúsa og/eða annars konar húsa.“ Á þessu er síðan hnykkt í 2. mgr. 6. gr. laganna þar sem segir: „Þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum eða hlutum (stigahúsum) sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti og hvort sem þau standa á einni lóð eða fleirum er allt ytra byrði hússins alls staðar, þak, útveggir og gaflar, í sameign allra eigenda þess.“

Kærunefnd telur að með lögfestingu umræddra lagareglna, og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem fest höfðu sig í sessi í gildistíð eldri laga, séu jafnan löglíkur fyrir því að sambyggingar, sem að öðrum skilyrðum uppfylltum falla undir ákvæði fjöleignarhúsalaganna, teljist eitt hús í skilningi þeirra laga og lúti reglum þeirra, að minnsta kosti hvað tekur til alls ytra byrðis og eignarumráða yfir því. Meginregla sú sem hér hefur verið lýst er ekki án undantekninga. Þannig eru vissulega til dæmi um hús í sambyggingu sem skilja sig svo frá öðrum húsum, bæði lagalega og á annan hátt, að með öllu sé óeðlilegt að viðhald á einstökum húsum sé lagt á alla eigendur. Í hverju einstöku tilviki þarf því raunar að fara fram mat þar sem til skoðunar koma fjölmörg atriði, svo sem úthlutunarskilmálar, lóðarleigusamningar, hönnun, þar með talið burðarþol og lagnakerfi, byggingaraðilar, byggingar- og viðhaldssaga, þinglýstar heimildir, þar með taldar eignaskiptayfirlýsingar, útlit húss og eðli máls. Benda megi á 9. gr. laga nr. 26/1994 þar sem kveðið sé á um að við aðgreiningu séreignar og sameignar megi meðal annars líta til þess hvernig staðið var að byggingu húss og hvernig byggingarkostnaði var skipt. Ekkert eitt atriði getur ráðið úrslitum í þessu sambandi heldur verður að skoða heildstætt hvert tilvik fyrir sig.

Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 26/1994 segir í athugasemdum um 9. gr. að þar sé aðeins tilgreint eitt af fleiri atriðum sem til greina geti komið í þessu efni og eigi það í sjálfu sér við um þau atriði önnur sem fjallað hefur verið um hér að framan. Þannig sé ljóst að reglu 9. gr. laganna hljóti að verða að túlka mjög þröngt í þessu sambandi þegar litið sé til hinna víðtæku ákvæða sem veiti meginreglunni stoð og hafi verið tilgreind. Benda megi á að eigendur sambyggðra húsa geti verið skyldugir til að hafa samráð á grundvelli laga um fjöleignarhús um útlitsatriði, enda þótt húsin teljist að öðru leyti sjálfstæð hús í skilningi laganna, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Aftur á móti geti útlitsatriði og viðhaldsatriði blandast saman. Geti sú spurning vaknað hvort allir eigi að ráða útliti viðgerðar en einungis sumir að borga fyrir hana. Þá beri þess að geta að atriðum eins og viðhaldssögu húss sé jafnan ekki þinglýst á eignina. Með hliðsjón af framangreindu og eðlisrökum telur kærunefnd að sem skýrust regla eigi að gilda um það hvenær hús teljist sjálfstæð eining og hvenær sambygging fleiri húsa telst eitt hús. Því beri að túlka þröngt undantekningar frá framangreindri meginreglu.

Eins og áður greinir segir í 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, að raðhús og önnur sambyggð og samtengd hús falli undir skilgreiningu á fjöleignarhúsi. Í gögnum málsins liggja fyrir teikningar og myndir af Naustavör 2-12. Húshluti nr. 2 er samfastur húshluta nr. 4 með veggjum og nær sambyggingin að húshluta nr. 8. Þá liggur fyrir að húshlutar nr. 4-8 og 10-12 eru með sameiginlega bílageymslu. Þar að auki er útlit Naustavarar 2-12 samræmt, húshlutarnir voru teiknaðir af sama arkitekt, þeir standa á sömu lóðinni og hafa sameiginlegar fráveitulagnir. Loks liggur fyrir eignaskiptayfirlýsing fyrir Naustavör 2-18, sem var innfærð til þinglýsingar 17. nóvember 2014, og gerir hún ráð fyrir að húsinu sé skipt í 62 eignir í tveimur matshlutum. Er sérstaklega tekið fram í eignaskiptayfirlýsingunni að sex stigahús séu í húsinu, þ.e. húshlutar nr. 2-12. Eignaskiptayfirlýsingin gerir þannig ráð fyrir að um eitt hús sé að ræða, þótt húsinu sé skipt í tvo matshluta.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærunefnd að Naustavör 2-12 sé eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús, sbr. sbr. 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. og 3. gr. þeirra. Er því fallist á fyrri kröfu álitsbeiðenda.

Kemur næst til úrlausnar krafa álitsbeiðanda um samþykki fyrir svalalokunum. Í 1. mgr. 56. gr. laga um fjöleignarhús segir að húsfélög séu til í öllum fjöleignarhúsum í krafti ákvæða laganna, sbr. 3. mgr. 10. gr., og þurfi ekki að stofna þau sérstaklega og formlega. Þrátt fyrir að tvær sjálfstæðar húsfélagsdeildir starfi í húsinu að Naustavör 2-12 þá geta þær eingöngu tekið ákvarðanir um sameiginleg innri málefni hverrar deildar. Ber því að fjalla um málefni sem varða sameign hússins, til að mynda ytra byrði og þar á meðal svalalokanir, á húsfundi eigenda allra.

Í 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verður ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, sé um að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. 30. gr. segir að samþykki 2/3 hluta nægi teljist breytingar á sameign ekki verulegar. Þá segir í 3. mgr. að til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi þó alltaf samþykki einfalds meiri hluta miðað við eignarhluta.

Kærunefnd horfir til þess að ekki var gert ráð fyrir svalalokuninni á upphaflegum teikningum hússins en óumdeilt virðist þó að hönnuður þess hafi fallist á svalalokun fyrir þessa einu íbúð til að bæta hljóðvist. Byggingarleyfi fékkst fyrir framkvæmdinni frá Kópavogsbæ en leyfið var síðar ógilt með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 25. maí 2023 í máli nr. 151/2022, þar sem samþykki húsfélagsins lá ekki fyrir. Í hinu umdeilda tilviki er um að ræða svalalokun sem er gler innan handriðs sem hangir í rennibrautum og opnast inn á svalir. Er þannig unnt að fjarlægja hana án mikillar fyrirhafnar. Í ljósi þessa, sem og þess að eingöngu er um að ræða svalalokun á einni íbúð hússins á grundvelli sérstakra aðstæðna, telur kærunefnd að framkvæmdirnar feli í sér breytingu á útliti hússins sem sé ekki veruleg, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús, og útheimti því samþykki 2/3 hluta eigenda. Er því um að ræða sérstaka aðstöðu sambærilegri þeirri sem var uppi í áliti kærunefndar í máli nr. 27/2011. Í ljósi þess að kærunefnd húsamála gefur einungis út álit um ágreining milli eigenda í fjöleignarhúsi, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994, sbr. og a. lið 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 1355/2019 um kærunefnd húsamála, er ekki tekin afstaða til þess hvort hið sama gildi um aðrar svalir í húsinu, enda er ekki ágreiningur um svalalokanir í öðrum tilvikum. 

Kærunefnd telur tilefni til að benda á að húsfélaginu ber að tryggja hagsmuni séreignareigenda á grundvelli 57. gr. laga um fjöleignarhús. Í því felst að mati nefndarinnar að tryggja að séreigendur búi við hljóðvist sem uppfylli skilyrði laga og viðeigandi reglugerða.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að Naustavör 2-12 teljist eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús.

Það er álit kærunefndar að ákvörðun um lokun á svölum í íbúð 0302 í Naustavör 2 þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús. Ekki er tekin afstaða til þess hvort hið sama eigi við um svalalokanir í öðrum tilvikum.

 

Reykjavík, 24. ágúst 2023

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Víðir Smári Petersen                                                 Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum