Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 5/2019

Árið 2019, 30. september, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 5/2019 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með tölvubréfi til Þjóðskrár Íslands, dags. 13. júní 2019, kærði [] ehf. kt. [], [], Dalabyggð, álagningu fasteignaskatts vegna verksmiðjuhúsa félagsins á jörðinni X, Dalabyggð, sem munu hafa borið fnr. [] frá gjaldárinu 2014 (áður fnr. []). Þær fasteignir sem hér um ræðir eru; vörugeymsla, verksmiðjuhús, fóðuriðja og lýsisskúr.

Með tölvubréfi, dags. 1. júlí 2019, var erindi kæranda framsent til yfirfasteignarmatsnefndar.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, tilkynnti yfirfasteignamatsnefnd kæranda að Þjóðskrá Íslands hefði framsent erindið til nefndarinnar og að málið yrði tekið fyrir á næsta fundi hennar. Þá var kærandi upplýstur um að óskað hefði verið eftir umsögn sveitarfélagsins Dalabyggðar vegna kærunnar og að umbeðin umsögn yrði send kæranda til kynningar og athugasemda ef einhverjar væru.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 11. júlí 2019, eftir umsögn Dalabyggðar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 1. ágúst 2019.

Umsögn sveitarfélagsins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. ágúst 2019, og var honum jafnframt gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

Með tölvubréfi, dags. 29. ágúst 2019, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir frekari upplýsingum frá sveitarfélaginu vegna málsins. Óskað var eftir nánari upplýsingum um að hvaða fasteignum ágreiningur málsaðila lyti, og hvernig álagningu fasteignaskatts á fasteignir kæranda að [] hefði verið háttað frá árinu 2012. Þá var jafnframt óskað eftir álagningarseðlum fasteignagjalda fyrir fasteignir kæranda vegna gjaldáranna 2012-2019. Umbeðin gögn bárust frá sveitarfélaginu með tölvubréfi, dags. 2. september 2019.

Með tölvubréfi, dags. 29. ágúst 2019, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir upplýsingum frá kæranda um þær fasteignir sem ágreiningurinn lyti að og hvernig notkun þeirra hefði verið háttað frá árinu 2012. Umbeðnar upplýsingar bárust frá kæranda með tölvubréfi, dags. 27. september 2019.

Málið var tekið til úrskurðar 30. september 2019.

 

  1. Málavextir

Verksmiðjuhús kæranda standa á jörðinni X, Dalabyggð, landnr. []. Fasteignirnar skiptast í vörugeymslu, verksmiðjuhús, fóðuriðju og lýsisskúr. Fasteignirnar voru fram til ársins 2005 notaðar til framleiðslu á graskögglum, en þær voru reistar í þeim tilgangi. Eftir að framleiðsla lagðist af hafa fasteignir félagsins nánast staðið auðar, en stór hluti framleiðslutækja er enn í þeim. Mannvirkin hafa þó verið að litlu leyti nýtt til  geymslu á heyvinnutækjum eins og gert var áður en framleiðslu var hætt.

Samkvæmt álagningarseðli fasteignargjalda fyrir árið 2012 var lagður fasteignaskattur á verksmiðjuhús kæranda (vörugeymslu, verksmiðjuhús, fóðuriðju og lýsisskúr), fnr. [], samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Árið 2013 var fasteignaskattur á eignirnar hins vegar lagður á samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og hefur svo verið síðan, í samræmi við áðurnefnda breytingu á árinu 2013. Umrædd breyting hafði í för með sér að álagningarprósenta fasteignaskatts vegna fasteigna kæranda hækkaði úr 0,5% í 1,32% af fasteignamati eignanna.

Með bréfi kæranda til Dalabyggðar, dags. 16. desember 2015, óskaði hann eftir því að álagning fasteignagjalda vegna verksmiðjuhúsa hans yrði leiðrétt þannig að fasteignaskattur vegna áranna 2013, 2014 og 2015 yrði lagður á samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en ekki samkvæmt c-lið sömu lagagreinar eins og gert hafði verið af hálfu sveitarfélagsins. Þá var þess jafnframt óskað að vextir og innheimtukostnaður vegna ógreiddra fasteignagjalda kæranda yrði leiðréttur til samræmis. Kærandi óskaði einnig eftir því að fyrirhugaður fasteignaskattur vegna ársins 2016 yrði lagður á eignirnar í samræmi við ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Sveitarfélagið svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2016. Í svari sveitarfélagsins kom fram að álagning fasteignaskatts á áðurnefndar fasteignir kæranda skyldi vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eins og verið hefði frá árinu 2013. Jafnframt var kæranda bent á að hann gæti skotið ákvörðun sveitarfélagsins til yfirfasteignamatsnefndar.

Með bréfi til Dalabyggðar, dags. 18. febrúar 2019, óskaði kærandi á ný eftir því að skatthlutfalli fasteignaskatts vegna verksmiðjuhúsa kæranda yrði breytt. Vísaði kærandi til þess að breyttri álagningarprósentu hefði verið mótmælt bréflega á sínum tíma án þess að sveitarfélagið hefði brugðist við þeim athugasemdum. Byggðarráð Dalabyggðar tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 28. febrúar 2019 og ákvað byggðarráð að fela formanni ráðsins og sveitarstjóra að eiga fund með fyrirsvarsmanni kæranda vegna málsins.

Formaður byggðarráðs og sveitarstjóri Dalabyggðar áttu fund með fyrirsvarsmanni kæranda þann 4. mars 2019 þar sem fulltrúar sveitarfélagsins féllust á að fresta um sinn innheimtuaðgerðum vegna ógreiddra fasteignagjalda kæranda. Í framhaldinu áttu sér stað óformleg samtöl og tölvupóstssamskipti milli forsvarsmanna sveitarfélagsins og fyrirsvarsmanns kæranda vegna málsins án þess að það leiddi til lausnar á ágreiningi aðila.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignaskatts á verksmiðjuhús hans fyrir árin 2013-2019 og hefur því kært ákvarðanir sveitarfélagsins til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

         II.            Sjónarmið kæranda.

Kærandi gerir þá kröfu að fasteignaskattur á verksmiðjuhús hans að [], Dalabyggð, sem munu hafa borið fnr. [] frá gjaldárinu 2014 (áður fnr. []), fyrir árin 2013-2019, verði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, þ.e. 0,5% af fasteignamati eignanna.

Kærandi bendir á að fram til ársins 2013 hafi skatthlutfall fasteignaskatts vegna verksmiðjuhúsa hans verið 0,5%, eða sama hlutfall og er fyrir fasteignir í hefðbundnum landbúnaði. Sú breyting, sem hafi verið gerð á skatthlutfalli fasteignanna á árinu 2013 hafi verið mjög íþyngjandi en kærandi hafi ekki fengið sérstaka tilkynningu frá sveitarfélaginu um þá breytingu. Kærandi kveðst hafa mótmælt breytingunni bréflega þegar hún var gerð en ekki hafi verið brugðist við þeim mótmælum af hálfu sveitarfélagsins.

Kærandi vísar til þess að starfrækt hafi verið graskögglaverksmiðja í fasteignunum. Sú framleiðsla hafi verið beintengd hefðbundnum landbúnaði og verið forsenda þess skatthlutfalls sem hafi verið notað fram til ársins 2013. Starfsemi kæranda hafi alla tíð heyrt undir landbúnaðarráðuneytið. Engin starfsemi sé nú í húsunum, en tún jarðarinnar séu þó áfram í ræktun og leigð til bænda í héraðinu og séu þannig mikilvægur hlekkur í að viðhalda og þjóna hefðbundnum landbúnaði, aðalatvinnuvegi héraðsins. Fasteignirnar hafi að litlu leyti verið nýttar til geymslu á heyvinnutækjum en að öðru leyti hafi eignirnar staðið auðar frá því að framleiðslu grasköggla hafi verið hætt og sé hluti framleiðslutækjanna enn í fasteignunum. Kærandi telur hins vegar að fasteignirnar séu enn nýttar í þágu landbúnaðar.

Kærandi telur rökrétt samkvæmt framansögðu að á meðan engin starfsemi fari fram í verksmiðjuhúsum hans að [] verði fasteignaskattur eignanna ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

  1. Sjónarmið sveitarfélagsins Dalabyggðar.

    Sveitarfélagið vísar til þess að mannvirki kæranda séu í dag ekki tengd landbúnaði þó þau hafi í eina tíð verið nýtt til framleiðslu á fóðri fyrir landbúnað. Mannvirkin falli hvorki undir a- eða b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og hljóti því að falla undir c-lið sama lagaákvæðis eins og aðrar fasteignir sem hvorki falli undir a- eða b-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

    Staðfest er af hálfu sveitarfélagsins að ekki hafi verið sent sérstakt bréf til að tilkynna um breytingu á gjaldflokki fasteignaskatts fyrir verksmiðjuhús kæranda vegna álagningar ársins 2013. Hins vegar hafi álagningarseðill fasteignagjalda verið sendur út í byrjun ársins 2013 og þar hafi breytingin komið fram. Það vinnulag hafi verið viðhaft til margra ára hjá sveitarfélaginu að ef breyting verði við upphafsálagningu sé sú breyting tilkynnt með álagningarseðli en ef breyting verði innan gjaldársins sé sendur sérstakur breytingaseðill.

    Sveitarfélagið kannast ekki við að kærandi hafi mótmælt gjaldflokkabreytingu fasteignaskatts þegar hún var gerð á sínum tíma. Í gögnum málsins í skjalakerfi sveitarfélagsins sé ekki að finna samskipti vegna álagningarhlutfalls fasteignaskatts fasteigna kæranda fyrr en með tölvupósti kæranda frá 16. desember 2015, þar sem óskað var eftir leiðréttingu á gjaldflokkun.

  2. Niðurstaða

Kærandi gerir þá kröfu að fasteignaskattur á verksmiðjuhús hans að [], Dalabyggð, sem munu hafa borið fnr. [] frá gjaldárinu 2014 (áður fnr. []), fyrir árin 2013-2019, verði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Ekki er kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds í lögum nr. 4/1995 og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.

Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti en þar segir:

Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kærufrestur vegna álagningar fasteignaskatts á verksmiðjuhús kæranda á árunum 2013-2019 var því löngu liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd 1. júlí 2019. Kæranda var tilkynnt um álagningu fasteignagjaldanna gjaldárin 2013-2019 með álagningarseðlum. Í álagningarseðlum vegna gjaldáranna 2013, 2014 og 2015 er að finna áletrun þar sem fram koma meðal annars upplýsingar um álagningarprósentu fasteignagjalda eftir gjaldflokkum, auk leiðbeininga um kæruheimild og kærufrest  í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Engar slíkar leiðbeiningar er að finna á álagningarseðlum vegna gjaldáranna 2016, 2017, 2018 og 2019. Þar sem fyrir liggur að meira en ár er liðið frá því að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda fyrir árin 2013-2018 lá fyrir og var tilkynnt kæranda er kröfu kæranda vegna álagningar fasteignaskatts fyrir árin 2013-2018 vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Álagning fasteignaskatts á verksmiðjuhús kæranda vegna ársins 2019 var tilkynnt kæranda með álagningarseðli fasteignagjalda, dags. 5. febrúar 2019. Eins og áður greinir verður ekki ráðið af álagningarseðli vegna gjaldársins 2019 eða öðrum gögnum málsins að veittar hafi verið leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með tölvubréfi til Þjóðskrár Íslands, dags. 13. júní 2019, kærði kærandi ákvörðun sveitarfélagsins vegna álagningar fasteignaskatts á verksmiðjuhús hans að [], Dalabyggð, meðal annars fyrir árið 2019. Kærufrestur til yfirfasteignamatsnefndar var þá liðinn. Yfirfasteignamatsnefnd telur þó afsakanlegt að kæran hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests þar sem telja verður að sveitarfélagið hafi vanrækt að veita kærendum leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga. Verður kröfu kæranda vegna álagningar fasteignaskatts fyrir árið 2019 því ekki vísað frá af þeim sökum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sem fjallar meðal annars um útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verði lagður á fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25 hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Álitaefni þessa máls lýtur að því hvort verksmiðjuhús (vörugeymsla, verksmiðjuhús, fóðuriðja og lýsisskúr) kæranda skuli talin til mannvirkja á bújörðum sem tengd eru landbúnaði og ákvarða fasteignaskatt vegna þeirra samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eða hvort fyrrgreindar eignir falli undir ákvæði c-liðar sömu lagagreinar. Telst jörðin X, Dalabyggð, þar sem áðurgreind verksmiðjuhús eru staðsett, til bújarða í merkingu a-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006, skal raunveruleg notkun fasteignar ráða því hvernig hún flokkast með tilliti til fasteignaskatts, en ekki skráð notkun hennar eða samþykki byggingaryfirvalda. Í eldri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar hefur verið byggt á framangreindum sjónarmiðum, og má þar helst nefna úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 12/2017, 5/2014, 12/2013 og 3/2009, enda liggur fyrir dómafordæmi Hæstaréttar í þá veru.

 

Af gögnum málsins verður ráðið að landbúnaður hafi verið starfræktur á jörðinni X, Dalabyggð, og að núverandi landbúnaðarstarfsemi sé þannig háttað að tún jarðarinnar séu nýtt til ræktunar og leigð út til bænda. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að verksmiðjuhús kæranda (vörugeymsla, verksmiðjuhús, fóðuriðja og lýsisskúr) á jörðinni, sem mál þetta lýtur að, hafi allt til ársins 2005 einnig verið nýtt til landbúnaðar, í þágu graskögglaframleiðslu kæranda. Álagning fasteignaskatts á verksmiðjuhúsin til ársins 2012 hafi tekið mið af því, þar sem hann hafi verið lagður á samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Graskögglaframleiðsla kæranda lagðist af árið 2005 og af gögnum málsins verður ráðið að engin starfsemi hafi frá þeim tíma verið í verksmiðjuhúsunum, sem staðsett eru utan þjóðbrautar í umtalsverðri fjarlægð frá þéttbýli á suðvesturhorni landsins. Á meðan verksmiðjuhúsin á bújörðinni X, Dalabyggð, hafa ekki verið tekin til annarrar notkunar sem óskyld er landbúnaði er það álit yfirfasteignamatsnefndar að á þau skuli leggja fasteignaskatt á grundvelli a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, enda skal raunveruleg notkun fasteignar eins og áður greinir ráða því hvernig hún flokkast með tilliti til fasteignaskatts.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda varðandi álagðan fasteignaskatt á verksmiðjuhús (vörugeymslu, verksmiðjuhús, fóðuriðju og lýsisskúr) að X, Dalabyggð, fnr. [] (áður []) fyrir árin 2013-2018, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Álagður fasteignaskattur vegna verksmiðjuhúsa (vörugeymslu, verksmiðjuhúss, fóðuriðju og lýsiskúrs) að X, Dalabyggð, fnr. [], fyrir árið 2019, skal vera samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitafélaga.

 

___________________________

Björn Jóhannesson

                                                          

________________________                                      _________________________

        Valgerður Sólnes                                                             Áslaug Árnadóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum