Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2019

Hinn 15. ágúst 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2019:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-430/2016:

Valgeir Kristinsson

gegn

Sveinbirni Frey Arnaldssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 1. Beiðni um endurupptöku
  1. Með erindi, dagsettu 6. febrúar 2019 fór Sveinbjörn Freyr Arnaldsson þess á leit að héraðsdómsmálið nr. E-430/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 21. september 2016, yrði endurupptekið.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
 2. Málsatvik
  1. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-430/2016, sem kveðinn var upp 21. september 2016, var endurupptökubeiðanda gert að greiða stefnanda 435.500 krónur auk dráttarvaxta frá 13. janúar 2016 til greiðsludags. Þá var endurupptökubeiðanda gert að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.
  2. Í málinu var deilt um lögmannsþóknun stefnanda en endurupptökubeiðandi hafði ráðið stefnanda til þess að reka fyrir sig dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjaness gegn lögmannsstofunni Opus lögmönnum. Var málið nr. E-769/2014. Fjárhæð reikningsins var samtals 435.000 krónur. Í gögnum málsins lá fyrir tímaskýrsla stefnanda, samtals 44 klukkustundir og 50 mínútur, og var hver klukkustund útseld á 23.000 krónur auk virðisaukaskatts. Heildarkostnaður samkvæmt tímaskýrslunni var 1.278.647 krónur.
  3. Óumdeilt var í málinu að stefnandi vann að dómsmáli fyrir endurupptökubeiðanda. Stefnandi fullyrti fyrir dóminum að hann og endurupptökubeiðandi hefðu rætt gjaldtöku Opus lögmanna á þeirra fyrsta fundi og af þeirri ástæðu hefði stefnandi sýnt endurupptökubeiðanda sína eigin gjaldskrá. Við skýrslutökur fyrir héraðsdómi bar sambýliskona endurupptökubeiðanda á þá leið að rætt hafi verið um að stefnandi fengi greitt fyrir vinnu sína ef málið gegn Opus lögmönnum ynnist. Stefnandi hélt því sjálfur fram að hann hefði samþykkt að taka ekki greiðslur fyrir störf sín fyrr en eftir að málinu væri lokið.
  4. Héraðsdómur taldi ósannað að lögmaðurinn hafi ekki ætlað að taka greiðslu fyrir vinnu sína ef málið tapaðist. Þá lá fyrir í málinu ítarleg tímaskýrsla þar sem gerð var grein fyrir vinnu hans í þágu endurupptökubeiðanda. Þeirri skýrslu var hvorki mótmælt né því borið við að hún væri röng. Í ljósi þeirra gagna sem fyrir lágu í málinu og þess verkefnis sem lögmaðurinn vann fyrir endurupptökubeiðanda var ekki talið að endurupptökubeiðandi hefði sýnt fram á að krafa lögmannsins hafi verið reist á óeðlilegum eða ósanngjörnum fjölda vinnustunda. Þá taldi dómurinn einnig ósannað að lögmaðurinn hafi samið svo um að hann skyldi vinna málið í sjálfboðavinnu ef það myndi tapast fyrir dómi. Samkvæmt öllu því sem fram kom var fallist á kröfur lögmannsins og var endurupptökubeiðanda einnig gert að greiða málskostnað sem þótti hæfilegur 300.000 krónur eins og áður segir.
 3. Grundvöllur beiðni
  1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og að stjórnvald, þ.e.a.s. héraðsdómur, hafi byggt ákvörðun sína á röngu mati. Ekki er vikið nánar að þessum málsástæðum í endurupptökubeiðni en vísað er til þess að dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli E-430/2016 sé efnislega rangur að mati endurupptökubeiðanda, sbr. a-lið 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Máli sínu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til þess að héraðsdómur hafi dregið rangar ályktanir af vitnisburðum og gögnum málsins. Telur endurupptökubeiðandi að rangt hafi verið hjá héraðsdómi að draga þá ályktun að „ekkert annað [liggi] fyrir en að gjaldskrá stefnanda hafi verið aðgengileg á skrifstofu stefnanda...“. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að engin gjaldskrá hafi verið aðgengileg á skrifstofu lögmannsins og það hafi ekki verið kannað til hlítar. Í raun hafi héraðsdómur tekið trúanlega frásögn téðs lögmanns, sem að mati endurupptökubeiðanda var ekki sannleikanum samkvæm.
  2. Endurupptökubeiðandi byggir á því að stórfelldir hagsmunir séu í húfi fyrir sig þar sem árangurslaust fjárnám hafi verið gert í eignum sínum í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms. Endurupptökubeiðandi geti vegna þessa ekki starfað við sölu fasteigna, sölu trygginga, sótt um lán o.s.frv. og telur því að skilyrði endurupptöku séu uppfyllt, sbr. c-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála.
 4. Niðurstaða
 1. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í héraðsdómi verði tekið til nýrrar meðferðar ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð einkamála segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
 2. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:
  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
 3. Til að fallist sé á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 192. gr. laganna segir að ef beiðni er ekki bersýnilega á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.
 4. Af hálfu endurupptökubeiðanda er byggt á því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og að dómstóllinn hafi byggt ákvörðun sína á röngu mati. Þannig hafi dómari tekið trúaanlegan framburð vitnis sem að mati endurupptökubeiðanda var ekki trúverðugur. Þannig hafi dómari ekki farið eftir staðreyndum heldur ályktað um hvað hafi gerst í raun. Á þeim grundvelli beri að samþykkja endurupptöku.
 5. Að mati endurupptökunefndar hafa ekki verið leiddar sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness, sbr. a-liður 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Sönnunarmat dómara er víðtækt og frjálst, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála.
 6. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála er því ekki uppfyllt. Af þeim sökum er ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um hvort skilyrði b- og c-liða séu uppfyllt.
 7. Í ljósi þessa skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-430/2016 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 192. gr. laganna.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Sveinbjörns Freys Arnaldssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. E-430/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 21. september 2016, er hafnað.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

 

 

Gizur Bergsteinsson

 

 

Ingibjörg Benediktsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira