Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 76/2023 Úrskurður 25. ágúst 2023

Mál nr. 76/2023                    Eiginnafn:     Fox (kk.)

Hinn 25. ágúst 2023 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 76/2023 en erindið barst nefndinni 1. ágúst. Þann 2. október 2023 var úrskurðurinn uppfærður án þess að það hafi áhrif á niðurstöðu hans en sérálit vantaði í fyrri úrskurð.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Reynir hér á hvort síðastnefnda skilyrðið um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Nafnorðið fox kemur fyrir í fornu lagamáli (Jónsbók) og merkir þar flærð eða pretti. Það er einnig notað í síðari alda máli yfir tófu, skapvarg, meinhorn. Mannanafnanefnd telur að nafnorðið hafi þannig neikvæða merkingu. Til hins er þó að líta að nafnið Fox hefur líklega ekki sömu þýðingu í huga almennings í dag og ólíklegt að ætla að það geti orðið nafnbera til ama.

Hrafn Sveinbjarnarson skilaði eftirfarandi sératkvæði í málinu:

Íslenska hvorugkynsorðið fox er að finna í lögbók Íslendinga frá 13. öld (Jónsbók) og útgáfum hennar síðan, sbr. skýringu Páls Vídalíns á orðinu. Páll Vídalín. Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Reykjavík 1854, bls. 183-184 hér samantekið:

Í Kaupabálki 11 „Enginn skal öðrum selja fox eður flærð“. Í Kaupabálki 14 er talað um „kaupfox“ og í Kaupabálki 22 er talað um „veðfox“. Í lögbókinni Járnsíðu er það kallað veðflærð sem í Kaupabálki 2 er aðeins kallað fox. Átt er við annarra manna eign sem seld er eða lögð að veði án umboðs.

Merking er svik, fals eða undirferli. Orðið er líklega komið úr frönsku faux sem þýðir fals eða svik, upprunnið í latínu, falsus dregið af sagnorðinu fallere, en af því er fals og falskur dregið.

Fox er einnig til um ref í íslensku skv. þýðingu sem eignuð er síra Katli Jörundssyni á Nomenclator omnium rerum propria nomina continens eða orðakveri sem Hadrianus Junius samdi og kom út í Antwerpen 1577. Þýðingin er í handritinu ÍB 77 fol. bls. 26. (Sbr. „Fuglakvæði“ Blanda II bls. 240.) Þar er fox meðal 19 íslenskra þýðinga á latnesku orðunum vulpes, vulpicula, á milli orðanna grenlægja og hólgýgja. Refsmerking orðsins fox kemur fram í málfræði Runólfs Jónssonar árið 1651. Í lok 18. aldar hlutu grastegundir sem þá flokkuðust undir tegundina alopecurus (refshali) nú phleum hjá Nicolai Mohr 1786 nafnið foxgras sem tekið var upp í Félagsritunum 1788.

Orðið fox er annars notað sem niðrandi um kvenfólk skv. orðabók Sigfúsar Blöndals, en þar er það skýrt sem norn (da. heks) eða skass (da. Xantippe - sem er nafn eiginkonu Sókratesar sem var sögð fræg að endemum fyrir frekju og yfirgang). Samheiti væri t.d. kvenskratti.

Í þjóðsögu í safni Jóns Árnasonar er haft eftir tröllskessu sem spyr eftir bóndadóttur sem hefur lagt á flótta úr helli hennar með ránsfeng „Sástu ekki fox fox fara hér hjá ...“ og er hægt að túlka orðið þar í merkingunni þjófur eða svikahrappur.

Merking íslenska orðsins að fornu og nýju er neikvæð. Það er notað sem ókvæðisorð.

Samþykkt hvorugkynsorðsins fox sem karlkyns eiginnafns er vafasamt, það á í yngri merkingu við konur. Að það færist á mannanafnaskrá leiðir til þess að barn getur hlotið ókvæðisorð sem eiginnafn. Það eru mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem eru ósiðleg, niðrandi eða meiðandi, eins og t.d. Flagð, Bófi, Vél, Prettur, Gabb, Kvenskratti eða Hvinn. Samhengi íslenskrar tungu rofnar fljótt ef taka á upp ókvæðisorð sem eiginnöfn á grundvelli misskilnings eða ókunnugleika. Ríkir almannahagsmunir standa til þess að íslensk tunga sé varin fyrir slíku. Ég tel að það fari í bág við amaákvæði mannanafnalaga þ.e. 3. mgr. 5. gr. að hafa fox sem eiginnafn og því ekki hægt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Fox (kk.)er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum