Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 4/2020

Árið 2020, 2. september, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 4/2020 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 2. júní 2020, kærði Árni Helgason, lögmaður, fyrir hönd X, kt. [], [], Reykjavík, úrskurð Þjóðskrár Íslands, dags. 3. mars 2020, um að fasteignamat fasteignar kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árið 2020 skyldi vera óbreytt frá því sem áður hafði verið ákveðið.

Með bréfi, dags. 5. júní 2020, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Þjóðskrá Íslands vegna kærunnar. Umsögn Þjóðskrár Íslands barst 2. júlí 2020.

Með tölvubréfi, dags. 6. júlí 2020, var fyrrgreind umsögn send kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 21. ágúst 2020.

Málið var tekið til úrskurðar 2. september 2020.

 

I.         Málavextir

Í júní 2019 tilkynnti Þjóðskrá Íslands um fyrirhugað fasteignamat allra fasteigna í landi fyrir árið 2020 sem taka ætti gildi 31. desember 2019. Þann 30. desember 2019 kom kærandi á framfæri við Þjóðskrá Íslands athugasemdum sínum við fyrirhugað fasteignamat fasteignar hans að Tunguhálsi [], Reykjavík, fnr. [] vegna ársins 2020 þar sem hann taldi m.a. að fasteignamat eignarinnar væri of hátt og endurspeglaði ekki raunverulegt verðmæti hennar. Um væri að ræða 16 ára gamla fasteign sem ekki hefði fengið viðhald eða endurbætur. Fasteignin væri að stærstum hluta lagerhúsnæði. Boðað fasteignamat ársins 2020 væri kr. 867.000.000.- sem væri hækkun um 14,4% frá fyrra ári. Vísaði kærandi til þess að samkvæmt fréttatilkynningu Þjóðskrár Íslands frá 5. júní 2019, þegar fasteignamat ársins 2020 var kynnt, að hækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis í Reykjavík hefði verið 5,9% en boðuð hækkun á fasteignamati fasteignar kæranda væri hins vegar rúmlega tvöföld fyrrgreind meðaltalshækkun og væri ekkert sem réttlætti svo mikla hækkun.

Þann 3. mars 2020 kvað Þjóðskrá Íslands upp úrskurð vegna framkominna athugasemda kæranda við fasteignamat eignarinnar. Niðurstaða úrskurðarins var sú að fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2020 skyldi standa óbreytt frá því sem áður hafði verið ákveðið. Kom fram í úrskurðinum að endurskoðun á áður tilkynntu fasteignamati eignarinnar gæfi ekki tilefni til matsbreytinga, en fasteignamat 2020 skyldi endurspegla staðgreiðsluverð fasteigna miðað við verðlag í febrúar 2019, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Með staðgreiðsluverði væri ekki átt við staðgreiðsluverð einstakrar fasteignar heldur almennt gangvirði sambærilegra fasteigna á sama matssvæði á markaði.

Með tölvupósti, dags. 6. mars 2020, óskaði kærandi eftir rökstuðningi frá Þjóðskrá Íslands vegna fyrrgreinds úrskurðar með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þjóðskrá Íslands veitti umbeðinn rökstuðning með bréfi, dags. 26. mars 2020. Í rökstuðningi Þjóðskrár Íslands kom m.a. fram að árlegt endurmat á fasteignamati eigna byggði á öllum þeim gögnum sem aðgengileg væru hverju sinni. Fasteign kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík, sem væri skráð sem 3.748 fermetra vörugeymsla, tilheyri matssvæði 9 (Hálsar) en fasteignamat iðnaðarhúsnæðis á því matssvæði hefði hækkað að meðaltali um 15,0% á milli áranna 2019 og 2020, en hækkun á fasteignamati Tunguháls [] hefði hins vegar verið örlítið lægri. Vísað var til þess að Reykjavík væri skipt upp í mörg matssvæði og þó að meðaltalshækkun á atvinnuhúsnæði fyrir alla Reykjavík hefði verið 5,9% milli áranna 2019 og 2020 þá segði það ekkert til um breytingar á einstökum matssvæðum né hvaða tegundir atvinnuhúsnæðis væru að hækka eða lækka milli ára. Fasteignamat fasteignar kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík fyrir árið 2020 væri kr. 867.000.000.-, eða kr. 231.280.- á hvern fermetra. Kaupsamningar um atvinnuhúsnæði á fyrrgreindu matssvæði 9 (Hálsar) gæfu meðalfermetraverð að fjárhæð kr. 234.292.- og miðgildi að fjárhæð kr. 256.130.- Þar af væri ein sala á atvinnuhúsnæði upp á rúmlega 8.000 fermetra og væri söluverðið kr. 229.420.- á hvern fermetra og hefði sú sala verið á árinu 2018.

Kærandi vill ekki una framangreindum úrskurði Þjóðskrár Íslands og hefur því kært hann til yfirfasteignamatsnefndar líkt og framan greinir.

 

II.        Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að úrskurður Þjóðskrár Íslands frá 3. mars 2020 um fasteignamat fasteignar hans að Tunguhálsi [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árið 2020, verði felldur úr gildi og stofnuninni gert að ákvarða lægra fasteignamat fyrir eignina. Til vara er þess krafist að fyrrgreindur úrskurður verði felldur úr gildi og Þjóðskrá Íslands gert að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju.

Kærandi telur að fasteignamat eignarinnar sé alltof hátt og ekki lögmætt. Bendir hann á að fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2017 hafi verið kr. 553.400.000.-, kr. 661.550.000.- fyrir árið 2018, kr. 757.750.000.- fyrir árið 2019 og kr. 867.000.000.- fyrir árið 2020. Á tímabilinu 2017 til 2020 hafi fasteignamat eignarinnar hækkað um 56,7% en milli áranna 2019 og 2020 hafi hækkunin verið 14,4%.

Kærandi telur þetta furðu sæta þar sem fasteignamarkaðurinn hafi verið erfiður á fyrrgreindu tímabili þar sem hægst hafi á markaðnum sem og í fjármögnun fasteignaverkefna. Í ársbyrjun 2020 hafi skollið á ein dýpsta efnahagslægð í manna minnum í kjölfar Covid-19 faraldursins. Það blasi við að faraldurinn muni hafa mikil áhrif á verð fasteigna og kollvarpa öllum forsendum fyrir fasteignamati. Telur kærandi að ógilda eigi ákvörðun um fasteignamat ársins 2020 þegar af þeirri ástæðu. Það eina sem virðist ekki breytast sé að fasteignamat eignarinnar hækki og virðist engu skipta hvað gangi á í þjóðfélaginu á sama tíma. Kærandi bendir jafnframt á að boðað fasteignamat fyrir 2021 vegna fasteignar hans að Tunguhálsi [], Reykjavík sé kr. 878.600.000.- og því sé ljóst að atburðir í umhverfinu hafi engin áhrif á mat Þjóðskrár Íslands á virði eigna. Fasteignamat eignarinnar sé óraunhæft og alltof hátt að mati kæranda. Fyrrgreind hækkun fasteignamats standi engan veginn undir sér og afar ólíklegt að fasteignin seljist á þessu verði.

Af hálfu kæranda er bent á að fasteign hans að Tunguhálsi [], Reykjavík sé að mestu leyti hrátt lagerhúsnæði sem sé 16 ára gamalt og ekki fengið viðhald í þó nokkur ár.

Kærandi telur að ákvörðun Þjóðskrá Íslands á fasteignamati eigna byggi á afar ógegnsæu kerfi. Erfitt sé fyrir eigendur fasteigna að átta sig á því hvaða kraftar búi að baki breytingum á verðmyndun eigna. Af rökstuðningi Þjóðskrár Íslands að dæma virðist sem keyrsla úr gagnagrunni sé hinn eini rétti mælikvarði á verðmæti eignar en ekki sé beitt annars konar mati. Ljóst sé að útreikningar stofnunarinnar séu langt frá því að vera óskeikulir og megi í því sambandi vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 2016 í máli nr. 477/2015.

Kærandi bendir á að hafa verði í huga að ákvörðun um fasteignamat sé grunnur að skattlagningu þar sem fasteignaeigendur greiða fasteignagjöld. Allur grundvöllur skattlagningar verði að byggja á lögum sbr. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar og í samræmi við lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar þurfi lagaheimildin og ákvörðun skattstofna að vera skýr en verulega skorti á slíkt í tilfelli þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir.

 

III.    Sjónarmið Þjóðskrár Íslands

Þjóðskrá Íslands bendir á að stofnuninni beri að endurmeta fasteignamat allra fasteigna á Íslandi einu sinni á ári miðað við metið gangverð umreiknað til staðgreiðslu, sbr. 32. gr. a laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla megi að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Þannig miðist fasteignamat ársins 2020 við verðlag fasteigna í febrúarmánuði 2019. Þróun fasteignaverðs frá þeim tíma og þar til fasteignamat tekur gildi 31. desember ár hvert geti ýmist verið til hækkunar eða lækkunar.

Í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 6/2001 skuli Þjóðskrá Íslands meta hverja fasteign til verðs eftir því sem næst verður komið á hverjum tíma. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna skuli matsverð fasteigna vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma. Í 2. mgr. sömu lagagreinar komi fram að sé gangverð fasteignar ekki þekkt skuli matsverð ákveðið eftir bestu fáanlegri vitneskju um gangverð sambærilegra fasteigna með hliðsjón af tekjum af þeim, kostnaði við gerð mannvirkja, aldri, legu með tilliti til samgangna, nýtingarmöguleikum, hlunnindum, jarðvegsgerð, gróðurfari, náttúrufegurð og öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á gangverð eignarinnar. Fyrrgreind atriði eru ekki tæmandi talin en byggt skuli á því sem gefi gleggsta mynd af raunvirði fasteignar. Við túlkun á fyrrnefndri 27. gr. laganna beri að líta til 28. gr. sömu laga en þar sé að finna grundvöll fyrir kerfisbundinni matsákvörðun og hvernig fara skuli með 2. mgr. 27. gr. laganna þegar gangverð eignar sé ekki þekkt. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laganna skuli við ákvörðun matsverðs samkvæmt 27. gr. laganna, eftir föngum finna tölfræðilega fylgni gangverðs við ýmsar staðreyndir um seldar eignir, svo sem stærð, gerð, búnað, stað o.s.frv., og sennilegt gangverð ákvarðað með útreikningum á grundvelli þeirra vísbendinga. Þjóðskrá Íslands hafi samkvæmt framansögðu nokkuð rúmar heimildir til að finna út gangvirði eigna með hliðsjón af 27. og 28. gr. laga nr. 6/2001.

Þjóðskrá Íslands bendir á að fasteignamat fyrir atvinnuhúsnæði sé metið fjöldamati með tekjuaðferð. Fasteignamat á grundvelli tekjumats, líkt og fasteignamat á grundvelli annarra matsaðferða, miði að því að finna gangverð í febrúarmánuði næst á undan matsgerð. Matsaðferðin byggi á því að finna markaðsverð leigu á atvinnuhúsnæði og umreikna það til gangverðs. Sé það gert með því að safna upplýsingum úr leigusamningum saman í einn talnasarp sem síðan er metinn með tölfræðilegum leiðum með hliðsjón af fyrirliggjandi kaupsamningum. Þjóðskrá Íslands hafi útbúið sérstök tölfræðilíkön þar sem áhrif ýmissa gæðaþátta, s.s. staðsetningar, tegundar, byggingarforms og fleira birtast sem matsstuðlar. Allir matsstuðlarnir séu aðgengilegir í ársskýrslu Þjóðskrár Íslands og gegnsæis þannig gætt um áhrif einstakra gæðaþátta á matsniðurstöðuna. Þetta sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 6/2001 þar sem fram komi að við ákvörðun matsverðs skuli eftir föngum finna tölfræðilega fylgni gangverðs við ýmsar staðreyndir um seldar eignir og skuli sennilegt gangverð ákvarðað með útreikningum á grundvelli þeirra vísbendinga. Tölfræðilegum aðferðum skuli þannig beitt við ákvörðun á matsverði fasteigna í þeim tilgangi að samræmis sé gætt við mat sambærilegra eigna. Samkvæmt framansögðu sé því alfarið hafnað að um sé að ræða ógagnsætt kerfi við fasteignamat stofnunarinnar.

Þjóðskrá Íslands telur það óumdeilt að það sé í fullu samræmi við lög að beita tekjumatsaðferðar við fasteignamat og vísar í því sambandi m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 2016 í máli nr. 477/2015. Í forsendum fyrir beitingu tekjumatsaðferðarinnar komi fram að breytingum á matsaðferðum Þjóðskrár Íslands hafi verið ætlað tvennt, annars vegar að laga skekkju milli gangverðs og fasteignamats og hins vegar að tryggja jafnræði þannig að sambærilegar eignir séu metnar með sama hætti.

Þjóðskrá Íslands bendir á að höfuðborgarsvæðinu sé skipt upp í mörg matssvæði, þar sem verð sambærilegra eigna innan hvers matssvæðis er talið sambærilegt. Fasteignamat fasteignar ræðst m.a. af því matssvæði sem viðkomandi fasteign tilheyrir. Meðaltalshækkun eða meðaltalslækkun fasteignamats milli ára sé mismunandi eftir matssvæðum. Þá sé einnig greint á milli þess hvort um sé að ræða skrifstofu-, verslunar- og iðnaðarhúsnæðis innan sömu matssvæða. Ekki sé því mögulegt að miða við meðaltalshækkun eða lækkun á fasteignamati alls atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem verð fasteigna geti eðli málsins samkvæmt verið mjög mismunandi eftir matssvæðum og tegundum atvinnuhúsnæðis.

Bent er á að meðaltalshækkun á fasteignamati iðnaðarhúsnæðis á matssvæði 9 (Hálsar), sem er það matssvæði sem fasteign kæranda tilheyrir, hafi verið 14,5% milli áranna 2019 og 2020. Fasteignamat fasteignar kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík hafi hins vegar hækkað um 14% milli sömu ára, sem sé aðeins undir meðaltalshækkun iðnaðarhúsnæðis á matssvæði 9. Kaupsamningar um iðnaðarhúsnæði á matssvæðinu frá 1. janúar 2017 gefi meðal fermetraverð að fjárhæð kr. 236.000.- og miðgildi að fjárhæð kr. 237.000.-. Fasteignamat á fermetra að Tunguhálsi [], Reykjavík sé kr. 202.000.- og meðalfasteignamat á íðnaðarhúsnæði á matssvæðinu sé kr. 206.000.- og miðgildið kr. 193.000.-

Þjóðskrá Íslands bendir á að fasteign kæranda sé með betri húsum á matssvæðinu. Eignin sé á áberandi stað sem hafi auglýsingagildi, þá séu næg bílastæði og góð aðkoma að eigninni. Viðurkenndum og lögmætum aðferðum hafi verið beitt við fasteignamat fasteignar kæranda líkt og við mat annarra fasteigna og er því alfarið hafnað að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað.

Vegna tilvísunar kæranda til þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn komi til með að hafa á verð og mat fasteigna bendir Þjóðskrá Íslands á að stofnuninni sé skylt að fylgja lögum nr. 6/2001 þar sem fram komi að skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla megi að eignin hafi í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Þjóðskrá Íslands sé ekki heimilt að víkja frá fyrrgreindri lagaskyldu.

Þjóðskrá Íslands bendir á að yfirfasteignamatsnefnd hafi áður úrskurðað um fasteignamat fasteignar kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík, sbr. mál yfirfasteignamatsnefndar nr. 10/2018. Framkvæmd fasteignamats fyrir árið 2020 hafi verið óbeytt frá fyrra mati, stuðst hafi verið við sömu aðferð milli ára og ekkert sem gefi tilefni til að ætla að núverandi fasteignamat sé ekki réttilega metið samkvæmt matslíkani. Telur Þjóðskrá Íslands að kæran sé tilhæfulaus enda yfirfasteignamatsnefnd nýlega búin að fella úrskurð um fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2018 þar sem ítarlega hafi verið farið ofan í málið og matsforsendur skoðaðar.

 

IV.      Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda, dags. 21. ágúst 2020, er bent á að samkvæmt 2. gr. laga nr. 6/2001 beri að meta hverja fasteign til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma og nánar sé kveðið á um í þeim lögum. Ákveðin rannsóknarskylda hvíli á Þjóðskrá Íslands sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem stofnunin hafi heimildir til að afturkalla ákvarðanir sínar ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tl. 24. gr. sömu laga. Ákvörðun um fasteignamat sé grundvöllur að álagningu fasteignagjalda og telst ákvörðun um hækkun fasteignamats því íþyngjandi ákvörðun fyrir kæranda

Kærandi bendir á að fyrir liggi að verð atvinnuhúsnæðis hafi lækkað verulega vegna efnahagslægðarinnar sem nú gengur yfir og rekja má til Covid-19 faraldursins. Því til stuðnings megi vísa til umfjöllunar í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika frá 1. júlí sl. þar sem fram komi að verðvísitala atvinnuhúsnæðis hafi lækkað um tæp 12% að raunverði milli ára á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og vænta megi frekari verðlækkana á árinu. Það skjóti því mjög skökku við að hækkun fasteignamats fasteignar kæranda milli áranna 2019 - 2020 skuli vera 14,4%. Það fari illa saman við fullyrðingar Þjóðskrár Íslands um að einungis sé horft til fasteignamats í febrúar árið á undan. Svo virðist sem Þjóðskrá Íslands ætli við mat á virði fasteigna árið 2020 að horfa fullkomlega fram hjá einni dýpstu efnahagslægð í meira en öld og augljósum áhrifum hennar á fasteignaverð.

 

V.     Niðurstaða

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurður Þjóðskrár Íslands frá 3. mars 2020 um fasteignamat fasteignar kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árið 2020, verði felldur úr gildi og Þjóðskrá Íslands gert að ákvarða lægra fasteignamat fyrir eignina. Til vara er þess krafist að fyrrgreindur úrskurður verði felldur úr gildi og Þjóðskrá Íslands gert að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju.

Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði fasteign kæranda að Tunguhálsi [], Reykjavík þann 18. september 2018 í fylgd fulltrúa kæranda í tilefni af máli nefndarinnar nr. 10/2018 sem varðaði sömu fasteign og hér um ræðir. Tilgangurinn með skoðuninni var m.a. að leiða í ljós hvort fasteignin væri á einhvern hátt ranglega skráð eða ástand fasteignar eða aðrar aðstæður sem hana varða gæfu til kynna að hún væri ekki réttilega metin samkvæmt matslíkani fyrir atvinnuhúsnæði. Skoðun eignarinnar staðfesti að um væri að ræða mjög vel staðsett atvinnuhúsnæði sem hentaði vel til þeirrar starfsemi sem þar væri rekin sem og annarrar sambærilegrar starfsemi. Um sérhæft atvinnuhúsnæði væri að ræða sem uppfyllti allar nútímakröfur fyrir þá starfsemi sem því væri ætlað og væri almennt ástand eignarinnar gott miðað við aldur. Ekki væri að sjá að fasteignin þarfnaðist verulegs viðhalds eða að ástand hennar að öðru leyti gæfi til kynna að hún væri ekki réttilega metin. Í ljósi þess að aðeins tæp tvö ár eru liðin frá skoðun yfirfasteignamatsnefndar á eigninni og ekki er byggt á því í málinu að ástand eða aðrar aðstæður varðandi eignina hafi breyst á þeim tíma, var að mati yfirfasteignamatsnefndar ekki talin þörf á því að skoða eignina að nýju við meðferð þessa máls.

Kærandi kærði til yfirfasteignamatsnefndar ákvörðun Þjóðskrár Íslands varðandi fasteignamat þeirrar fasteignar sem hér um ræðir fyrir árið 2018, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 10/2018. Þær röksemdir sem færðar voru fram af hálfu kæranda í fyrrgreindu máli voru flestar þær sömu og kærandi teflir nú fram til stuðnings kröfum sínum í því máli sem hér um ræðir. Yfirfasteignamatsnefnd komst að þeirri niðurstöðu í áðurgreindu máli að ekkert væri fram komið sem gæfi tilefni til að ætla að fasteignamat eignarinnar fyrir áðurnefnt ár væri ofmetið eða of hátt miðað við markaðsvirði hennar.

Gögn málsins gefa til kynna að meðaltalshækkun fasteignamats iðnaðarhúsnæðis á matssvæði 9 (Hálsar) milli áranna 2019 og 2020 hafi verið 14,5%. Hækkun á fasteignamati fasteignar kæranda milli sömu ára var örlítið undir fyrrgreindri meðaltalshækkun, eða 14,4%. Sú hækkun sem hér um ræðir byggir m.a. á upplýsingum varðandi breytingar á leiguverði milli ára auk breytinga á verði eigna með hliðsjón af kaupsamningum á umræddu matssvæði sem hvoru tveggja liggja til grundvallar þeim matsforsendum sem búa að baki tekjuaðferðinni við ákvörðun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis.

Kærandi hefur í rökstuðningi sínum vísað til þess að fasteignamat fasteignar hans að Tunguhálsi [], Reykjavík sé óraunhæft og afar ólíklegt sé að fasteignamatið endurspegli gangverð eignarinnar. Í því sambandi hefur kærandi sérstaklega vísað til þess að samdráttur hafi verið á fasteignamarkaði og verð fasteigna hafi verið að lækka. Þá blasi við enn frekari lækkun á verði fasteigna sem rekja megi til þeirrar efnahagslægðar sem blasi við vegna Covid-19 farsóttarinnar. Vegna tilvísunar kæranda til þess efnahagslega samdráttar sem sannanlega hefur orðið hér á landi á árinu 2020 sökum Covid-19 verður ekki litið fram hjá því að samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 15. gr. laga nr. 83/2008, skal skráð matsverð fasteignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð. Þannig kveða lögin á um það að fasteignamat ársins 2020 skuli taka mið af ætluðu gangverði fasteigna í febrúar 2019. Sú efnahagslega óvissa sem nú ríkir og rekja má til farsóttarinnar Covid-19 kann að óbreyttu að hafa áhrif á gangverð fasteigna. Munu áhrif farsóttarinnar í fyrsta lagi koma fram í fasteignamati eigna vegna ársins 2021.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um fasteign kæranda sem og tölulegum samanburði við aðrar sambærilegar eignir á sama matssvæði er það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að fasteignamat fasteignar kæranda vegna ársins 2020, sé of hátt eða að ekki hafi verið rétt að málum staðið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hafnað aðalkröfu kæranda um að úrskurður Þjóðskrár Íslands frá 3. mars 2020 varðandi fasteignamat Tunguháls [], Reykjavík, fnr. [], verði felldur úr gildi og Þjóðskrá Íslands gert að ákvarða lægra fasteignamat fyrir eignina. Varakröfu kæranda um að fyrrgreindur úrskurður verði felldur úr gildi og Þjóðskrá Íslands gert að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju, er einnig hafnað.

Úrskurðarorð

Úrskurður Þjóðskrár Íslands, dags. 3. mars 2020, varðandi fasteignamat Tunguháls [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árið 2020, er staðfestur.

 

___________________________

  Björn Jóhannesson

         ________________________                                                                         _______________________

                  Axel Hall                                                                                       Valgerður Sólnes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum