Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2019

Hinn 4. júní 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 16/2019

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. S-61/2018:

Ákæruvaldið

gegn

x

og kveðinn upp svohljóðandi        

ÚRSKURÐUR:

 1. Beiðni um endurupptöku
  1. Með bréfi til endurupptökunefndar, dags. 5. nóvember 2019, hefur x farið þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-61/2018, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 21. desember 2018, verði endurupptekið. Endurupptökubeiðandi óskar eftir því að Auður Björg Jónsdóttir lögmaður verði skipuð til að gæta réttar hennar og að lögmanninum verði ákvörðuð þóknun vegna starfa sinna.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðnina. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.
 2. Málsatvik
  1. Með ákæru 30. janúar 2018 var endurupptökubeiðanda gefin að sök líkamsárás með því að hafa sunnudaginn 25. desember 2016 við […] í […]veist með ofbeldi að y, sem hafi tuttugu dögum áður fætt barn, og sparkað í maga hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á kviðarhols- og grindarholslíffærum. Í ákæru var þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Var þess krafist að endurupptökubeiðandi yrði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaður. Við meðferð málsins gerði brotaþoli kröfu um greiðslu miskabóta úr hendi endurupptökubeiðanda.
  2. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2018 var endurupptökubeiðandi sakfelld fyrir líkamsárás en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Endurupptökubeiðanda var gert að greiða allan sakarkostnað sem og að greiða brotaþola miskabætur og málskostnað.
  3. Í forsendum dómsins segir meðal annars svo:

   „Gegn neitun ákærðu stendur afdráttarlaus framburður brotaþola um að ákærða hafi sparkað í kvið hennar. Fyrir liggur að brotaþoli greindi sambýlismanni sínum frá meintu sparki ákærðu þegar hún kom aftur inn í íbúð þeirra og það sama gerði hún í samtali við lögreglu skömmu síðar. Jafnframt heyrist brotaþoli nefna í spurnartóni á áðurnefndri upptöku af símtali ákærðu við Neyðarlínuna að ákærða hafi sparkað í hana. Þá hefur brotaþoli borið um að hana hafi verkjað í kviðinn eftir spark ákærðu og blæðingar hafist að nýju, en brotaþoli hafði átt barn 20 dögum áður en atvik máls gerðust. Fyrir liggur að brotþoli leitaði sér aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítala strax eftir að hún hafði rætt við lögreglu á vettvangi. Í framlögðu læknisvottorði B, sérfræðilæknis á bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi, dagsettu 28. mars 2017, sem reifað er í kafla I hér að framan, kemur fram að kviður brotaþola hafi verið mjúkur við skoðun. Á honum hafi verið eðlilegt húðslit eftir fæðingu en „... örlítil eymsli í efri hluta kviðar en einnig yfir þvagblöðrustað.“ Greindi læknirinn brotaþola með áverka „... á kviðarholslíffæri/-um með grindarholslíffæri/-um.“ Þá kom fram í skýrslu læknisins fyrir dómi að engin bein áverkamerki hefðu sést á kviði brotaþola. Hins vegar hefði læknirinn við skoðun sína greint maráverka í neðri hluta kviðarhols brotaþola. Hún hefði bæði við þreifingu og ómskoðun endurtekið reynst vera aum á því svæði. Áverkann kvað læknirinn hafa samrýmst frásögn brotaþola um að hún hefði fengið spark í magann og hefðu lýst eymsli ekki verið neitt sem búast hefði mátt við eftir hefðbundinn barnsburð.

   Að öllu því heildstætt virtu sem hér hefur verið rakið þykir dómnum sannað, gegn neitun ákærðu, með framburði brotaþola og því sem honum er til stuðnings samkvæmt framansögðu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærða hafi á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir veist með ofbeldi að brotaþola með því að sparka í magann á henni með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á kviðarhols- og grindarholslíffærum.“

  4. Endurupptökubeiðandi mun hafa beiðst leyfis Landsréttar til að áfrýja dóminum. Með bréfi Landsréttar 12. apríl 2019 var endurupptökubeiðanda tilkynnt að umsókn hennar hafi verið hafnað. Í bréfinu kemur fram að niðurstaðan byggi á því að ekki séu líkur til þess að niðurstöðu héraðsdóms verði breytt svo einhverju nemi og verði ekki fallist á að úrslit málsins varði svo mikilvæga hagsmuni endurupptökubeiðanda að skilyrði 2. mgr. 198. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála teljist uppfyllt. Þá er tekið fram að ekki séu efni til að veita leyfi til áfrýjunar á öðrum þeim ástæðum sem greinir í ákvæðinu.
  5. Endurupptökubeiðandi mun í kjölfarið hafa beiðst þess að Landsréttur endurskoðaði afstöðu sína til leyfisbeiðninnar. Með bréfi Landsréttar 27. september 2019 var endurupptökubeiðanda tilkynnt að erindi hennar hafi verið hafnað.

   

   

 3. Grundvöllur beiðni
  1. Í endurupptökubeiðni rekur endurupptökubeiðandi málsatvik eins og þau horfa við henni, þar með talið atvik í aðdraganda og í kjölfar þess að hin ætlaða líkamsárás átti sér stað. Í beiðninni kemur fram að brotaþoli hafi leitað á slysadeild þar sem hún hafi upplýst að þetta kvöld hafi byrjað að blæða á ný frá legi hennar. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til vottorðs læknisins B þar sem því sé lýst að hann hafi ómað kvið brotaþola en ekki fundið áverkamerki. Í vottorðinu sé tekið fram að brotaþoli hafi verið aum viðkomu í efri hluta kviðar og yfir þvagblöðrustað auk þess sem bent sé á að blæðingar skömmu eftir barnsburð geti verið óreglulegar. Endurupptökubeiðandi dregur þá ályktun af vottorðinu að læknirinn hafi hvorki getað staðfest áverka á brotaþola né að blætt hafi frá kvið hennar eða að blæðingar hafi hætt þremur dögum áður eins og brotaþoli hafi haldið fram.
  2. Í beiðni sinni víkur endurupptökubeiðandi því næst að framburði læknisins fyrir dómi. Kveður endurupptökubeiðandi þá hafa verið komið „annað hljóð í hann“ og honum virst „mjög mikið í mun“ að staðfesta að hann hafi merkt raunverulega áverka hjá brotaþola. Þá hafi hann gengið mun lengra í þeirri skýrslu sem hann gaf fyrir dómi heldur en í áðurnefndu vottorði. Fyrir dómi hafi vitnið meðal annars sagst geta staðfest að blætt hafi frá legi brotaþola með vísan til þess að hann hafi séð blóð í nærbuxum hennar þegar hann hafi dregið þær niður til að setja inn í hana ómtæki. Vitnið hafi sagst muna vel eftir blóðdropum í nærbuxunum en ekki munað hvert andlegt ástand brotaþola hafi verið. Vitnið hafi einnig sagst hafa athugað sannleiksgildi frásagnar brotaþola um eymsli á ákveðnum stað á maga með því að þrýsta ómtæki á sama svæði að innanverðu. Vitnið hafi talið ljóst að brotaþoli væri að segja satt þar sem hún hafi kveinkað sér á sömu stöðum er hún var þreifuð „að innan og utan“. Í forsendum dómsins sé haft eftir vitninu að brotaþoli hafi „bæði við þreifingu og ómskoðun endurtekið reynst vera aum á því svæði.“
  3. Endurupptökubeiðandi kveðst hafa kannað hvort kviður kvenna sé ómaður upp um leggöng á slysa­deild Landspítala. Því hafi verið svarað til að slíkt ómtæki væri ekki til á bráðamóttöku heldur færu slíkar rannsóknir fram á kvennadeild spítalans. Endurupptökubeiðandi telur með vísan til þessa að fram sé komin staðfesting á því að læknirinn hafi ekki skýrt satt og rétt frá fyrir dómi og að það réttlæti að mál hennar verði endurupptekið á grundvelli b-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Endurupptökubeiðandi telur að aðrir stafliðir ákvæðisins geti jafnframt átt við um beiðni hennar.
  4. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að atburðarrás málsins sé til á hljóðupptöku Neyðarlínu og megi heyra að brotaþoli hafi verið allt annað en kurteis eða verið að reyna að ræða við sig. Frásögn brotaþola fái ekki stoð í hljóðupptökunni. Brotaþoli hafi til dæmis sagt að höggið hafi verið mikið og að hún hafi kveinkað sér en það komi ekki fram á hljóðupptökunni. Brotaþoli hafi sagst hafa skellt bílstjórahurðinni í kjölfar höggsins en á hljóðupptökunni megi heyra endurupptökubeiðanda biðja brotaþola í tugi skipta um að fara frá bifreiðinni. Með vísan til þessa byggir endurupptökubeiðandi á því að framburður brotaþola hafi ekki aðeins verið ótrúverðugur heldur hafi hann ekki samrýmst hljóðupptöku af því sem fram fór. Þá hafi ekki verið unnt að staðreyna neina áverka á brotaþola og hún ekkert minnst á blæðingar frá legi fyrr en á slysadeild.
  5. Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi sig hafa verið ranglega sakfellda. Þá hafi hún ekki fengið að nýta sjálfsögð mannréttindi sín til að bera dóminn undir æðra dómstig þar sem Landsréttur hafi ekki talið skilyrði til að veita áfrýjunarleyfi.
 4. IV.Viðhorf gagnaðila
  1. Með bréfi, dags. 3. mars 2020, sendiríkissaksóknari endurupptökunefnd athugasemdir sínar við beiðni endurupptökubeiðanda. Í bréfi ríkissaksóknara segir meðal annars svo:

   „Í tilefni af framkominni beiðni um endurupptöku og staðhæfingu dómfelldu um að vitnið B læknir hafi borið með röngum hætti fyrir dómi óskaði ríkissaksóknari eftir því að fá frá Héraðsdómi Reykjaness upptöku af framburði umrædds vitnis. Eftir að hafa hlustað á upptöku af framburði vitnisins getur ríkissaksóknari engan veginn tekið undir staðhæfingar dómfelldu um að fram sé komin staðfesting á því að vitnið hafi ekki skýrt satt og rétt frá fyrir dómi. Í framburði sínum fyrir dómi lýsti læknirinn því m.a. að hann hefði gert ómskoðun á kvið brotaþota og við þá ómskoðun hefði hann verið að leita eftir merkjum um innvortis blæðingar. Kvaðst hann jafnframt hafa greint eymsli brotaþola við þreifingu og ómskoðun og lýsti því að við slíka greiningu væri m.a. unnt að fylgjast með sjúklingi þegar ómtæki væri þrýst niður í vefi. Læknirinn tók á hinn bóginn skýrt fram að hann hefði ekki gert innri kvenskoðun á brotaþola og á upptökunni kemur hvergi fram að brotaþoli hafi verið þreifuð „að innan og utan“, eins og haldið er fram [í] beiðni dómfelldu til endurupptöku­nefndar. Þá kemur heldur ekki fram á upptökunni að læknirinn hafi dregið nærbuxur brotaþola niður til að setja inn í hana ómtæki, eins og haldið er fram í beiðni dómfelldu. Þess í stað svaraði læknirinn því neitandi hvort brotaþoli hefði farið úr nærbuxum við skoðunina en sagði hana þess í stað hafa tekið niður buxurnar þegar hann var að gera skoðun á kvið hennar og hefði hann þá séð blóð í nærfötum hennar.“

  2. Með vísan til þessa telur ríkissaksóknari að beiðni endurupptökubeiðanda eigi ekki við rök að styðjast. Þá vísar ríkissaksóknari til umsagnar embættisins um beiðni endurupptöku­beiðanda um áfrýjunarleyfi. Það sé mat embættisins að endurupptökubeiðandi hafi þegar teflt fram og fengið umfjöllun Landsréttar um þau atriði sem ætla má að beiðnihennar um endurupptöku byggist á samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Telur ríkissaksóknari einsýnt að hafna beri beiðninni.
 5. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
  1. Með bréfi, dags. 27. mars 2020, bárust endurupptökunefnd sjónarmið endurupptökubeiðanda við athugasemdir ríkissaksóknara. Í bréfinu kemur fram að lögmaður endurupptökubeiðanda hafi óskað eftir að hlýða á framburð vitnisins B, en í forsendum héraðsdóms sé lagt til grundvallar að vitnið hafi getað staðfest áverka brotaþola, meðal annars með því að þreifa og óma brotaþola. Fyrir dómi hafi vitnið lýst því að með því að óma hafi hann þrýst á svæði sem ekki væri augljóst að hann væri að þrýsta á og þannig í raun kannað sannleiksgildi framburðar brotaþola. Við aðalmeðferð málsins hafi því verið uppi sá misskilningur að vitnið hafi ómað brotaþola „innan frá“ enda augljóst á hvaða hluta maga væri verið að ýta með ómtæki að utanverðu. Endurupptökubeiðandi áréttar að vitnið hafi ekki getað staðfest áverka á brotaþola. Þá áréttar endurupptökubeiðandi að framburðar brotaþola sé ekki í samræmi við framburð barnsföður síns og upptöku Neyðarlínu. Með vísan til þessa sé beiðnin einkum byggð á c-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  2. Endurupptökubeiðandi kveður vitnið B hafa verið tregt til að staðfesta áverka brotaþola án þess að leggja til grundvallar lýsingar brotaþola sjálfs. Vitnið hafi ekki getað staðfest annað en að brotaþoli hafi sagt að sér væri illt er hann ýtti annað hvort með fingrum eða ómtæki á neðri hluta kviðar hennar. Enginn munur sé fyrir sjúkling hvort læknir ýti með fingri eða ómtæki á utanverðan kvið enda ómtæki aðeins á stærð við tvo fingur. Ekkert sé til í því að læknirinn hafi notað „trikk“ til að kanna hvort brotaþoli væri sjálfri sér samkvæm með því að þrýsta á svæði sem hafi ekki verið augljóst að þrýst væri á. Augljóst sé á hvaða hluta kviðar sé þrýst með ómtæki fyrir utan hversu ótrúlegt sé að læknirinn hafi framkvæmt sérstakt trúverðugleikapróf á sjúklingi.
  3. Í forsendum dómsins sé vísað til þess að vitnið B hafi greint maráverka á neðri hluta kviðar. Að mati endurupptökubeiðanda skiptir þó öllu að hann hafi ekki getað greint neitt mar með rannsókn sinni heldur hafi niðurstaðan aðeins byggst á því sem brotaþoli hafi sagt, þ.e. að sér hafi verið illt er hann hafi komið við neðri hluta kviðar brotaþola. Læknirinn hafi þannig ekki getað staðfest sjálfstætt neina áverka á brotaþola og hafi skýrsla hans því einungis byggst á orðum brotaþola. Það eina sem vitnið hafi getað staðfest er að brotaþoli hafi kveinkað sér er hann þrýsti á neðri hluta kviðar hennar með fingrum og ómtæki. Þannig hafi ekki verið til staðar nein staðfesting á ætluðum áverkum brotaþola. Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi að dómari hafi lagt rangt mat á framburð vitnisins og því beri að fallast á endurupptöku á grundvelli c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  4. Endurupptökubeiðandi áréttar einnig að framburður brotaþola samræmist ekki hljóðupptöku Neyðarlínu. Brotaþoli hafi sagt endurupptökubeiðanda hafa öskrað og æpt fyrir framan heimili sitt sem sé ekki rétt. Þá hafi brotaþoli sagst hafa rætt við endurupptökubeiðanda kurteislega um að hún væri ekki góð móðir, en á hljóðupptöku megi heyra að svo hafi ekki verið. Brotaþoli hafi enn fremur sagst hafa tjáð endurupptökubeiðanda að það væri lélegt að koma með son endurupptökubeiðanda og barnsföður hennar skyndilega í jólaumgengni en á hljóðupptöku megi heyra að það sé rangt. Brotaþoli hafi auk þess sagst hafa kveinkað sér er hún fékk högg í magann en á hljóðupptöku heyrist ekkert óp, vein eða kvein. Þá hafi brotaþoli sagst hafa skellt hurðinni og labbað inn til sín í kjölfar þess að hún hafi fengið högg í magann, en á hljóðupptöku megi heyra að endurupptökubeiðandi hafi beðið hana í tugi skipta að fara frá bifreiðinni eftir að brotaþoli hafi spurt hana hvort hún hafi sparkað í sig.
  5. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að fyrir dómi hafi barnsfaðir endurupptökubeiðanda sagst hafa farið aftur inn eftir samskipti sín við endurupptökubeiðanda þar sem hann hafi kvartað yfir því við brotaþola að endurupptökubeiðandi hafi hringt í lögreglu. Í skýrslu sinni fyrir dómi hafi hann sagt brotaþola hafa fengið nóg af þessu drama í endurupptökubeiðanda og rokið út til að tala við hana. Af þessu sé ljóst að brotaþoli hafi hvorki farið út til að ræða umgengni eða móðurhlutverkið við endurupptökubeiðanda, eins og fram hafi komið í framburði barnsföður endurupptökubeiðanda, heldur að endurupptökubeiðandi hafi vogað sér að hringja í lögreglu. Þá hafi hvorki barnsfaðir endurupptökubeiðanda né sá læknir sem hafi skoðað hana staðfest að brotaþoli hafi kastað upp eða verið flökurt. Telur endurupptökubeiðandi það ótrúverðugt að brotaþoli hafi ekki sagt þessum aðilum frá umræddum einkennum. Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi framburð brotaþola hafa verið rangt metinn.
  6. Þótt brotaþoli hafi sagt barnsföður endurupptökubeiðanda og lækni að endurupptökubeiðandi hafi sparkað í sig þá hafi hvorugur þeirra verið vitni að atburðum og geti ekki vitnað um annað en það sem brotaþoli hafi sagt þeim. Framburður endurupptökubeiðanda hafi verið stöðugur frá upphafi á meðan hægt sé að hrekja framburð brotaþola með því að bera hann saman við skýrslur barnsföður endurupptökubeiðanda og vitnisins B annars vegar og hljóðupptöku Neyðarlínu hins vegar.
  7. Að lokum áréttar endurupptökubeiðandi að forsendur héraðsdóms standist ekki. Framburður brotaþola hafi ekki verið í samræmi við gögn málsins og þegar um orð brotaþola gegn orðum endurupptökubeiðanda sé að ræða, skipti það miklu máli við mat á trúverðugleika. Það teljist t.d. ekki sönnun fyrir broti að brotaþoli tjái sambýlismanni sínum og lögreglu sögu sína. Þá segir í athugasemdunum að jafnvel þó brotaþoli hafi leitað á slysadeild, með enga áverka sem hægt er að staðfesta aðra en þá að hún hafi sagst vera aum viðkomu, sé það ekki sönnun fyrir sekt endurupptökubeiðanda. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að vitnið B hafi aðspurt sagt að ef það hefði ekki heyrt sögu brotaþola hefði því ekki dottið í hug að hún hefði orðið fyrir áverka og að greining þess á því að hún hafi verið með maráverka í neðra kviðarholi hafi byggt á því einu að hún hafi lýst því að hún væri aum er vitnið hafi þrýst á maga hennar að utanverðu. Í héraðsdómi hafi komið fram að sannað hafi verið með framburði brotaþola og því sem hafi verið framburðinum til stuðnings að ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum að endurupptökubeiðandi hafi sparkað í maga brotaþola. Þetta er að mati endurupptökubeiðanda rangt mat og telur endurupptökubeiðandi að framburður brotaþola um það sem gerðist umræddan dag eigi sér ekki stoð í framburðum neinna vitna og að enginn áverki hafi verið læknisfræðilega staðfestur. Verði því að heimila endurupptöku.
 6. Niðurstaða
 1. Beiðni endurupptökubeiðanda er tekin til úrskurðar á grundvelli ákvæða XXXIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 228. gr. laganna segir að nú hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur sé liðinn og geti þá endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, „sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið“, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju þeirra skilyrða, sem nánar eru tilgreind í stafliðum a til d, er fullnægt.
 2. Þau skilyrði sem koma fram í stafliðum a til d eru svohljóðandi:
  1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
  2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
  3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
  4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
 3. Endurupptökubeiðni styður beiðni sína einkum við b- og c-liði 1. mgr. 228. gr. laganna.
 4. Að því er snertir b-lið ákvæðisins virðist endurupptökubeiðandi einkum byggja beiðni sína á því að vitnið B læknir, sem hafi skoðað brotaþola á bráðamóttöku, hafi borið ranglega um að hann hafi ómað kvið brotaþola innan frá. Kveðst endurupptökubeiðandi hafa fengið staðfest að slík ómskoðun sé ekki gerð á bráðamóttöku heldur á kvennadeild. Af þeim sökum sé ljóst að vitnið hafi borið ranglega fyrir héraðsdómi. Vegna þessa skal tekið fram að endurupptökunefnd hefur hlýtt á hljóðupptöku af skýrslu vitnisins og er ekki unnt að fallast á að vitnið hafi borið ranglega fyrir dóminum. Í framburði sínum tók vitnið það sérstaklega fram að það hafi ekki gert innri kvenskoðun á brotaþola. Staðhæfing endurupptökubeiðanda þar um á þess vegna ekki við rök að styðjast eins og bent er á í umsögn ríkissaksóknara. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að skilyrði b-liðar ákvæðisins sé uppfyllt.
 5. Hvað c-lið ákvæðisins snertir byggir endurupptökubeiðandi beiðni sína á því að framburður brotaþola samræmist ekki öðrum sönnunargögnum, einkum framburði endurupptökubeiðanda og barnsföður hennar. Jafnframt sé framburður brotaþola í ósamræmi við það sem fram komi á hljóðupptöku Neyðarlínunnar. Þá staðfesti framburður læknisins fyrir dómi ekki áverka brotaþola. Af þessu tilefni tekur endurupptökunefnd fram að lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir að dómari meti trúverðugleika ákærða og vitna, sbr. 115. gr. og 7. mgr. 122. gr. laganna. Endurupptökunefnd getur ekki endurmetið trúverðugleika framburða fyrir dómi. Af forsendum dómsins er ljóst að niðurstaða málsins réðst fyrst og fremst af mati dómara á efni og trúverðugleika framburða fyrir dómi. Með hliðsjón af þessu verður að mati endurupptökunefndar ekki talið að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðuna. Jafnframt liggur fyrir að Landsréttur hefur nú þegar tekið afstöðu til þess hvort veita skuli endurupptökubeiðanda leyfi til að áfrýja dóminum á grundvelli 198. gr. laga um meðferð sakamála. Í bréfi Landsréttar til lögmanns endurupptökubeiðanda 12. apríl 2019 kemur fram að rétturinn hafi ekki talið uppfyllt skilyrði 2. mgr. 198. gr. laganna til að verða við umsókn endurupptökubeiðanda um áfrýjunarleyfi. Niðurstaða Landsréttar byggði meðal annars á því að ekki væru líkur til þess að niðurstöðu héraðsdóms yrði breytt svo einhverju næmi. Að mati endurupptökunefndar felast ríkari kröfur í c-lið 1. mgr. 228. gr. laganna en í framangreindu skilyrði 2. mgr. 198. gr.
 6. Ekkert er fram komið um að skilyrði a- og d-liða 1. mgr. 228. gr. laganna séu uppfyllt.
 7. Samkvæmt framansögðu verður beiðni endurupptökubeiðanda hafnað.
 8. Þóknun lögmanns endurupptökubeiðanda ákveðst 248.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Úrskurðarorð

Beiðni X um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-61/2018, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 21. desember 2018, er hafnað. Þóknun lögmanns hennar, Auðar Bjargar Jónsdóttur, 248.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira