Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 54/2021 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 23. september 2021

í máli nr. 54/2021

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða leigu að fjárhæð 332.500 kr. vegna tímabilsins 1. september 2019 til 30. júní 2020.

Með kæru, dags. 20. maí 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 21. maí 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð barst ekki frá varnaraðila, þrátt fyrir ítrekaða beiðni kærunefndar þar um með bréfi, dags. 8. júlí 2021. Þá reyndi kærunefnd árangurslaust að ná símasambandi við varnaraðila.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu munnlegan leigusamning um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að C frá 1. september 2019 til 30. júní 2020. Ágreiningur er um vangreidda leigu.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi ekki greitt leigu á tímabilinu september 2019 til júní 2020. Ótímabundinn leigusamningur hafi verið gerður, sbr. 10. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Sóknaraðili hafi ítrekað reynt að útkljá þetta mál en varnaraðili hafi aldrei svarað. Sóknaraðili hafi haft samband við lögfræðing til að skora á varnaraðila til að greiða leiguna en engin viðbrögð hafi borist frá varnaraðila.

Varnaraðili hafi flutt í húsnæðið ásamt fyrri sambýlismanni sínum í september 2019. Á þeim tíma hafi sóknaraðili verið flutt út en hún hafi verið eigandi íbúðarinnar ásamt fyrri sambýlismanni varnaraðila. Það hafi alltaf legið fyrir að varnaraðili ætti að greiða leigu fyrir þann tíma sem hún dveldi í íbúðinni. Fyrstu mánuðina eftir að sóknaraðili og fyrri sambýlismaður varnaraðila höfðu erft húsnæðið hafi þau ekki áttað sig á hvað væri eðlilegt leiguverð. Um áramótin 2019/2020 hafi það legið fyrir og þau komið sér saman um leigu að fjárhæð 66.500 kr. á mánuði fyrir þau bæði, svo að hlutur varnaraðila hafi verið 33.250 kr.

III. Niðurstaða            

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.

Í 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan leigusamning teljist þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gildi öll ákvæði laganna um réttarsamband þeirra. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar ákveðst upphæð leigunnar þá sú fjárhæð sem leigusali geti sýnt fram á að leigjandi hafi samþykkt.

Sóknaraðili segir að aðilar hafi gert munnlegan leigusamning á tímabilinu 1. september 2019 til 30. júní 2020 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila. Fram kemur að mánaðarleg fjárhæð leigunnar hafi verið ákveðin 66.500 kr. og að helmingur þeirrar fjárhæðar komi í hlut varnaraðila að greiða en hinn helmingurinn í hlut fyrrum sambýlismanns hennar. Fyrir tíu mánaða leigutímabil nemi krafan því samtals 332.500 kr. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila sem og leigugreiðsluáskorun sem send hafi verið með bréfi, dags. 21. apríl 2021, hafi engin viðbrögð borist. 

Jafnvel þó að varnaraðili hafi ekki látið málið til sín taka verður að gera þá lágmarkskröfu til sóknaraðila að hún sýni fram á tilvist kröfu sinnar. Sóknaraðili leggur ekki fram leigusamning og engar greiðslur hafa farið fram á grundvelli hins meinta samnings. Þá virðist krafan einkum byggð á því að varnaraðili hafi haft afnot af húsnæðinu þar sem hún hafi verið sambýliskona manns sem átt hafi húsnæðið með sóknaraðila. Með hliðsjón af framansögðu telur kærunefnd ekki unnt að leggja orð sóknaraðila einnar til grundvallar í þessu efni og vísar kröfunni frá á þeim grunni að hún sé vanreifuð.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru sóknaraðila er vísað frá kærunefnd.

 

 

Reykjavík, 23. september 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira