Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2021

Árið 2021, 22. júní, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 4/2021 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 7. apríl 2021, kærði X, kt. [], [], [], ákvörðun Grímsness- og Grafningshrepps varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar hennar að Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 10. mars 2021.

Með tölvubréfi, dags. 9. apríl 2021, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst nefndinni með bréfi, dags. 28. apríl 2021.

Með tölvubréfi, dags. 28. apríl 2021, var umsögn sveitarfélagsins send kæranda og henni gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfum, dags. 5. og 6. maí 2021.

Málið var tekið til úrskurðar 22. júní 2021.

I.         Málavextir       

Kærandi á fasteignina, Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi, sem er 88,4 fermetra sumarbústaður, byggður árið 2006. Félag í eigu kæranda, Yehf., hafði á árunum 2016 - 2018 leyfi til reksturs gististaðar í flokki II í fasteigninni á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en leyfið féll úr gildi þann 5. febrúar 2019. Meðan fyrrgreint rekstrarleyfi var í gildi mun sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur, hafa ákvarðað fasteignaskatt vegna fasteignarinnar í samræmi við ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Á árunum 2019 og 2020 var hins vegar skráð leyfi fyrir heimagistingu (gististað í flokki I) í fasteigninni samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 og var fasteignaskattur vegna eignarinnar á þeim árum ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. 

Í lok febrúar 2021 gaf Grímsnes- og Grafningshreppi út greiðsluseðlar vegna álagðra fasteignagjalda í sveitarfélaginu vegna ársins 2021. Greiðsluseðlar fasteignagjalda vegna fyrrgreindrar fasteignar kæranda gáfu til kynna umtalsverða hækkun á gjöldunum frá því sem verið hafði fyrir árið 2020. Kærandi sendi sveitarfélaginu tölvupóst þann 9. mars 2021 þar sem óskað var eftir leiðréttingu á álagningu fasteignagjalda ársins 2021 þar sem svo virtist sem um einhvern misskilning hefði verið að ræða við álagningu gjaldanna. Vísaði kærandi til þess að ekki væri um atvinnuhúsnæði að ræða og fasteignin yrði ekki í útleigu á árinu 2021.

Í svari sveitarfélagsins til kæranda þann 10. mars 2021 kom fram að við skoðun á auglýsingum á vefmiðlum hefði komið í ljós að fasteign kæranda að Ásabraut [], Grímnes- og Grafningshreppi hefði verið auglýst til útleigu á vefsíðunni www.airbnb.com og því bæri að skattleggja hana eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða þar sem eignin hefði verið nýtt í ferðaþjónustu. Fram kom að ef lokað yrði fyrir auglýsingar varðandi útleigu eignarinnar yrði gerð breyting á álagningu fasteignagjaldanna við næstu breytingarálagningu fyrir næsta gjalddaga fasteignagjaldanna þann 1. apríl 2021.

Þann 10. mars 2021 var álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda breytt og þá þannig að fasteignaskattur vegna tímabilsins 1. janúar 2021 til 10. mars sama ár var ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en samkvæmt a-lið sömu lagagreinar fyrir annan hluta ársins.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignarskatts vegna fasteignarinnar fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 10. mars 2021 og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.        Sjónarmið kæranda

Af kæru verður ráðið að kærandi geri kröfu um að fasteignaskattur vegna fasteignarinnar að Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Kærandi vísar til þess í kæru að í upphafi ársins 2019 hafi hún sent Grímsnes- og Grafningshreppi tölvupóst með ósk um að rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II í fasteigninni yrði fellt niður þegar í stað og í framhaldinu hafi hún óskað eftir leyfi til svokallaðrar heimagistingar (gististaðar í flokki I) samkvæmt lögum nr. 85/2007. Kærandi hafi haft leyfi til heimagistingar í fasteigninni á árunum 2019 og 2020 en síðan ákveðið að sækja ekki um nein leyfi fyrir gistingu á árinu 2021 þar sem hún hafi ákveðið að hafa fasteignina ekki til útleigu á yfirstandandi ári og hafi sveitarfélaginu ítrekað verið tilkynnt um þá ákvörðun. Ekki hafi verið ætlunin að selja gistingu í eigninni á árinu 2021 og því hafi eins og áður sagði ekki verið sótt um leyfi til sölu gistinga í fasteigninni, hvorki rekstrarleyfi né leyfi til heimagistingar samkvæmt lögum nr. 85/2007.

Kærandi kveðst hafa verið búinn að loka fyrir allar bókanir á vefsíðunni www.airbnb.com þar sem fasteignin verði ekki til útleigu á árinu 2021.

III.      Sjónarmið sveitarfélagsins, Grímsnes- og Grafningshrepps.

Grímsnes- og Grafningshreppur hafnar kröfu kæranda og gerir jafnframt kröfu um að álagning fasteignaskatts vegna Ásabrautar 40, Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. 229-7212, fyrir árið 2021, eins og henni var breytt 10. mars 2021, verði staðfest.

Kærandi vísar til þess að fyrrgreind fasteign kæranda hafi verið auglýst til útleigu á vefmiðlum á tímabilinu 1. janúar 2021 til 10. mars 2021 þrátt fyrir að ekki hafi verið sótt um leyfi til sölu gistinga í eigninni. Í samræmi við það hafi álagning fasteignaskatts á fasteignina verið ákveðin samkvæmt gjaldfokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá 1. janúar 2021 til 10. mars 2021, en samkvæmt a-lið sama ákvæðis eftir þann tíma. Fasteignin hafi verið tekin úr auglýsingu þann 10. mars 2021 og þá þegar hafi sveitarfélagið framkvæmd breytingarálagningu og fært fasteignina úr gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 yfir í gjaldflokk a-liðar sömu lagagreinar.

Vísað er til þess að óumdeilt sé að fasteignin hafi verið auglýst til útleigu á vefnum www.airbnb.com á fyrrgreindu tímabil án þess að skráð hafi verið leyfi fyrir heimagistingu í eigninni á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Heimfærsla undir gjaldflokka fasteignaskatts byggi á raunverulegri notkun fasteigna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006. Þó svo að kærandi hafi ekki fengið útgefið rekstarleyfi eða leyfi til heimagistingar á grundvelli laga nr. 85/2007 breyti það ekki þeirri staðreynd að sumarbústaðurinn hafi verið auglýstur til útleigu til ferðamanna þannig að kærandi teljist hafa nýtt fasteignina fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á fyrrgreindu tímabili, sbr. til hliðsjónar úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 13/2016, 11/2017 og 2/2020.

Sveitarfélagið vísar jafnframt til þess að yfirfasteignamatsnefnd hafi í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á frístundahús (sumarbústaði) sem nýtt séu hluta úr ári sem gististaðir fyrir ferðamenn, sbr. t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 9/2017. Álagning samkvæmt c-lið ákvæðisins skuli í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin sé nýtt fyrir ferðaþjónustu, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016. Sveitarfélagið þurfi ekki að bera hallann af því að tilskilins leyfis hafi ekki verið aflað á umræddu tímabili.

Sveitarfélagið telur að það skipti ekki máli í þessu sambandi hvernig eiganda fasteignarinnar tókst til við að nýta hana í atvinnurekstri sínum og það geti ekki ráðið ákvörðun um álagningu fasteignaskatts.

Þó svo að kærandi kveði það ekki hafi verið ætlunin að leigja fasteignina út umrætt tímabil þá geti það ekki breytt því að sveitarfélaginu hafi borið að fella eignina undir gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eins og gert hafi verið. Fasteignin hafi verið auglýst á hinu skilgreinda tímabili til útleigu og hafi kærandi því sannanlega getað leigt hana út á þeim tíma, þó að kærandi kveði nú að það hafi ekki verið ætlunin, sbr. m.a. mál yfirfasteignamatsnefndar nr. 2/2020.

Sveitarfélagið telur samkvæmt framansögðu að álagning fasteignaskatts á fasteign kærenda fyrir umrætt tímabil byggi alfarið á lögum nr. 4/1995 með tilliti til túlkunar yfirfasteignamatsnefndar.

IV.      Athugasemdir kæranda

Kærandi vísar til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 9/2017 og dóms Landsréttar í máli nr. 821/2018 til stuðnings kröfum sínum en þar hafi verið talið að heimagisting sem uppfyllti skilyrði laga nr. 85/2007 teldist ekki til atvinnurekstrar líkt og ferðaþjónusta annars geri.

Kærandi bendir á að ekki hafi verið ætlunin að selja gistingu án leyfa á árinu 2021 og það hafi heldur aldrei verið gert. Ekki hafi staðið til að leigja sumarbústaðinn út á árinu 2021 vegna Covid-19 farsóttarinnar enda landið verið lokað fyrir ferðamönnum. Um leið og kæranda hafi verið ljós álagning fasteignagjalda ársins 2021 hafi eiginmaður hennar fari á skrifstofu sveitarfélagsins og tilkynnt að fasteignin yrði ekki til útleigu á árinu 2021, en hann hafi þá fengið þau fyrirmæli að ekki væri nægilegt að ,,dekka” síðuna til eigin nota á vefmiðlum eins og gert hafði verið. Starfsmaður sveitarfélagsins hafi sagt að nauðsynlegt væri að taka fasteignina alveg út af sölusíðunni sem kærandi hafi þá þegar gert. Sú ákvörðun hafi hins vegar í för með sér mikið tekjutap fyrir kæranda því ákveði hún síðar að fara af stað á nýjan leik með útleigu á eigninni til ferðamanna tapist góðar umsagnir viðskiptavina auk þess sem þá þurfi að taka nýjar myndir af eigninni. Kærandi vekur jafnframt athygli á því að á árinu 2020 hafi fasteignin aðeins verið í útleigu í 37 daga.

Kærandi telur sig ætíð hafa farið að lögum og bendir á að ekki hafi verið hægt að bóka gistingu í sumarbústaðnum á tímabilinu 1. janúar 2021 til 10. mars 2021 þar sem búið hafi verið að taka fasteignina frá til eigin nota allt árið 2021. Kærandi hafi verið búin að ákveða að sækja ekki um leyfi til útleigu í fasteigninni á yfirstandandi ári þar sem ekki hafi staðið til að leigja fasteignina út.

Þá bendir kærandi á að þegar hækkun fasteignagjalda eignarinnar hafi verið mótmælt í byrjun ársins 2016 hafi sveitarfélagið jafnframt verið upplýst um að eignin yrði einungis í sumarleigu og ekki stæði til að leigja eignina yfir 90 daga á ári. Þá hafi komið fram af hálfu starfsmanns sveitarfélagsins að fasteignagjöld eignarinnar yrðu ekki lækkuð og ekki skipti máli varðandi álagningu gjaldanna hvernig kæranda tækist að nýta eignina í atvinnurekstri sínum. Á þessum þremur árum hafi kærandi hins vegar aldrei leigð eignina út í meira en 90 daga á ári.

Kærandi áréttar að ekki hafi verið gefið út rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í fasteigninni eftir árið 2018. Á árinu 2019 og 2020 hafi kærandi verið með leyfi til heimagistingar en á árinu 2021 hafi verið ákveðið að sækja ekki um neitt leyfi, hvorki rekstrarleyfi né leyfi til heimagistingar. Það sæti furðu að sveitarfélagið skuli þá hafa ákveðið að leggja fasteignagjöld á eignina eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða. Gerð sé krafa um leiðréttingu fasteignagjaldanna vegna þess tímabils ársins 2021 þar sem lagður sé fasteignaskattur á eignina samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 enda hafi eignin ekki verið nýtt til atvinnurekstrar og aldrei verið ætlunin að eignin yrði til útleigu á árinu 2021. Kærandi áréttar að ávallt hafi verið farið að lögum og að sveitarfélaginu hafi verið tilkynnt um að fasteignin yrði ekki til útleigu á árinu 2021.

V.        Niðurstaða

Kærandi gerir kröfu um að fasteignaskattur vegna fasteignar hennar að Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, verði alfarið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að álagning fasteignaskatts vegna eignarinnar fyrir árið 2021, eins og henni var breytt þann 10. mars 2021, verði staðfest.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaður-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

i a-liðar gr. 3. gr. laga nr. 4/h falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaður-, skrifstofu- og verslunarhlið Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni er þar meðal annars tilgreind ,,mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.” Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna, en gististaðir í skilningi þeirra laga eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

Álitaefni þessa máls snýr að því hvernig ákvarða skuli fasteignaskatt á fasteign kæranda að Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 10. mars 2021. Af gögnum málsins virðist óumdeilt að fasteign kæranda hafi verið auglýst á vefsíðunni www.airbnb.com á fyrrgreindu tímabili. Að sögn kæranda mun hins vegar ekki hafa verið hægt að bóka gistingu í eigninni á áðurgreindu tímabili þar sem lokað hafi verið fyrir bókanir sökum þess að kærandi hafði tekið eignina frá á vefsíðunni til eigin nota. Kærandi hefur einnig upplýst að tekin hafi verið ákvörðun um að sækja ekki um leyfi til gistinga í eigninni á árinu 2021 þar sem ekki standi til að hafa eignina í útleigu á yfirstandandi ári. Sveitarfélagið, Grímsnes- og Grafningshreppur, hefur hins vegar vísað til þess að fasteignin hafi verið auglýst til útleigu á vefsíðu þrátt fyrir að ekki hafi verið sótt um leyfi til sölu gistingar í eigninni. Þó kærandi hafi ekki ætlað sér að leigja eignina út til gistingar á fyrrgreindu tímabili breyti það ekki þeirri staðreynd að eignin hafi sannanlega verið auglýst til útleigu á fyrrgreindu tímabili.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að gisting sem boðin er á vefsíðunni www.airbnb.com sé leyfisskyld, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/2015 og 18/2015, enda sé um að ræða sölu á gistingu sem teljist til ferðaþjónustu. Um slíka sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá hefur einnig komið fram í fyrri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs, sbr. m.a. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/1995. Hefur í því sambandi verið vísað til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild er með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka.

Þá hefur verið talið að sveitarfélögum sé heimilt að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á frístundahús (sumarbústaði) sem nýtt eru hluta úr ári sem gististaðir til ferðamanna. Skal álagning samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin er nýtt til ferðaþjónustu en eigendum ber að tilkynna fyrirfram um það tímabil innan hvers árs sem þeir ætla að nýta eignina með þeim hætti, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur jafnframt komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2015 og 18/2015. Það fyrirkomulag að eigendur fasteigna geti tilkynnt í lok ákveðins tímabils eða í lok hvers ár hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað er að mati yfirfasteignamatsnefndar andstæðum lögum nr. 4/1995 sem og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Af málsatvikum verður ráðið að kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram til heilbrigðiseftirlits sveitarfélagsins hvernig nýtingu fasteignarinnar að Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi, yrði háttað á árinu 2021 og að eignin yrði ekki til nýtt til útleigu til ferðamanna. Þegar það er haft í huga að fasteignin var auglýst á vefsíðu þar sem boðin er gisting til ferðamanna verður að telja að nauðsynlegt hafi verið fyrir kæranda að tilkynna sveitarfélaginu fyrirfram um að fasteignin yrði eingöngu nýtt til eigin nota á árinu 2021 þannig að fasteignaskattur vegna eignarinnar yrði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir allt árið 2021, sbr. t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 18. maí 2021 í máli nr. 1/2021. Ekki verður talið að nægilegt hafi verið að taka eignina frá á vefsíðunni til eigin nota með þeim hætti sem gert var af hálfu kæranda, sbr. t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 19. september 2016 í máli nr. 13/2016. Með hliðsjón af þessu er það álit yfirfasteignamatsnefndar að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að ákvarða fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á tímabilinu 1. janúar 2021 til 10. mars 2021.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður staðfest sú ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps að fasteignaskattur fasteignar kæranda að Ásabraut [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], verði ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 10. mars 2021 og samkvæmt a-lið sömu lagagreinar fyrir annan hluta ársins 2021.

 

Úrskurðarorð

Álagning fasteignaskatts vegna Ásabrautar [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, eins og henni var breytt 10. mars 2021, er staðfest.

 

                  ______________________________

  Björn Jóhannesson

 

        ___________________________                                                        ___________________________

                      Axel Hall                                                                         Valgerður Sólnes

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira