Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 8/2025 Úrskurður 24. mars 2025

Mál nr. 8/2025                     Millinafn:       Gríndal

Hinn 24. mars 2025 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 8/2025 en erindið barst nefndinni 21. janúar 2025.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt millinafn þurfa öll skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn, að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa áunnið sér hefð í íslenskumáli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
  2. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.
  3. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Millinafnið Gríndal telst dregið af íslenskum orðstofnum, nafnorðunum grín og dalur. Það hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn karla né kvenna. Það er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Hér reynir þó á skilyrði nr. fjögur um að millinafn sé ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Millinafnið Gríndal felur í sér gáska og gamansemi, en um leið alvöruleysi, sem getur haft í för með sér ama nafnhafa t.d. með því að vera ekki tekinn alvarlega þegar mikið liggur við. Slík nafngift kann að eiga við til skemmtunar í gamanleikjum eða skáldskap, en nefndin telur að fyrri hluti nafnsins sé þess eðlis að nafnið geti orðið nafnbera til ama með sama hætti og ef orð eins og brandari, glens o.s.frv. væru notuð sem mannanöfn.

Bent skal á að fullveðja einstaklingur sem hefur í hyggju að kjósa sér nafn af einhverjum ástæðum sem að öllu jöfnu kynni að valda barni sem nafnhafa ama, getur í daglegu lífi sínu viðhaft það nafn þótt það fái ekki opinbera skráningu hjá stjórnvöldum og færist ekki á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd hlutast ekki til um gælunöfn, listræn nöfn eða önnur þau nöfn eða nefni sem kunna að tíðkast í daglegu lífi utan opinberrar skráningar.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Gríndal er hafnað. 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta