Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 54B/2020 Úrskurður 30. október 2020

Reykjavík, 30. október 2020

 

 

 

 

 

Efni: Mál mannanafnanefndar nr. 54/2020 – Svar við beiðni um endurupptöku.      

 

13. október sl. barst mannanafnanefnd beiðni xxx um endurupptöku á máli nr. 54/2020 þar sem ekki var fallist á að samþykkja eiginnafnið Manuela. Á fundi nefndarinnar 19. október sl. var fjallað um endurupptökubeiðnina og ákveðið að afgreiða hana með eftirfarandi hætti:

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún hefur verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef: ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í endurupptökubeiðninni er bent á að nokkur dæmi séu um að nafnið Manuela hafi fengist skráð í tilvikum þar sem við á nafnréttur manna af erlendum uppruna. Í þessu máli séu báðir foreldrar nafnbera af erlendum uppruna og því gangi ákvörðun mannanafnanefndar gegn 65. gr. stjórnarskrár sem banni að mismuna fólki eftir uppruna. Í lögum um mannanöfn eru ákvæði um nafnrétt manna af erlendum uppruna, en mál af því tagi heyra ekki undir mannanafnanefnd heldur eru þau afgreidd hjá Þjóðskrá Íslands.

Í úrskurði mannanafnanefndar í máli 54/2020 kemur fram að miðað við að framburður nafnsins sé Manúela þá uppfylli rithátturinn Manuela ekki skilyrði 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, sem segir að nafn skuli „ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.“ Í endurupptökubeiðninni er bent á að mannanafnanefnd hafi samþykkt önnur nöfn sem rituð eru með sambærilegum hætti, s.s. Gabriela, Emilia, Diego og Susie. Ekki er rétt að mannanafnanefnd hafi samþykkt nafnið Emilia á mannanafnaskrá, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 98/2011 og mannanafnaskrá þar sem nafnið er ekki að finna. Um nöfnin Gabriela, Diego og Susie háttar þannig að þótt ritháttur þeirra sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þá telst vera hefð fyrir þessum rithætti, sbr. úrskurði í málum nr. 91/2016 (Gabriela), nr. 75/2018 (Diego) og nr. 22/2016 (Susie).

Til nánari útskýringar á niðurstöðu fyrrgreindra úrskurða er rétt að benda á að í lagaákvæðinu sem um ræðir, þ.e. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr., er talað um hefð fyrir rithætti tiltekins nafns, en ekki um hefð fyrir tilteknum bókstaf eða samstöfu. Til þess að hægt sé að fallast á að ritháttur nafns, sem víkur frá almennum ritreglum íslensks máls, hafi unnið sér hefð í íslensku verða að jafnaði að vera ákveðið mörg dæmi um þennan rithátt nafnsins, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar sem tilfærðar eru í úrskurði nefndarinnar nr. 54/2020. Ritháttur annars nafns myndar aftur á móti ekki grundvöll hefðar fyrir nafnið sem um ræðir. Til dæmis er nafnið Walter ekki ritað í samræmi við almennar íslenskar ritreglur þar sem bókstafurinn w er ekki hluti af íslensku stafrófi. Hins vegar er Walter á mannanafnaskrá með þessum rithætti þar sem nafnið telst hafa unnið sér hefð í íslensku. Þetta hefur þó ekki í för með sér að bókstafurinn w hafi unnið sér hefð og leiðir ekki til þess að önnur nöfn rituð með w, t.d. Wilma, teljist hafa unnið sér hefð í málinu. Sama gildir um samstöfuna ue. Ekki er til dæmis hægt að fallast á að hefð sé fyrir rithættinum Samuel á þeirri forsendu að samstafan ue komi fyrir í nafninu Manuel sem hefur unnið sér hefð í íslensku. Þessi túlkun er í samræmi við texta laga, nr. 45/1996, um mannanöfn og greinargerð með frumvarpi að lögunum.

Í endurupptökubeiðninni er bent á að Manuela sé kvenkynsmynd eiginnafnsins Manuel sem samþykkt hefur verið af mannanafnanefnd. Rithátturinn Manuel brýtur í bág við almennar ritreglur íslensks máls miðað við að framburður nafnsins sé Manúel. Aftur á móti telst rithátturinn Manuel hafa unnið sér hefð í íslensku, sbr. úrskurð í máli nr. 30/2016 (Manuel). Almenna reglan er eins og fyrr segir að ritháttur eins nafns myndar ekki grundvöll hefðar fyrir rithætti annars nafns. Í endurupptökubeiðninni er aftur á móti byggt á því að ritháttur kvenmannsnafnsins Manuela standi í sérstökum tengslum við ritháttinn Manuel á samsvarandi karlmannsnafni.

Hægt er að fallast á að í sumum tilvikum eru sérstök tengsl á milli nafna. Dæmi um það eru mismunandi ritmyndir sama nafns, sbr. t.d. Nathalia ~ Natalía og Marzellíus ~ Marsellíus. Þetta á einnig við nöfn sem telja má orðhlutalega skyld, svo sem kvenmannsnöfn sem leidd eru af karlmannsnöfnum, t.d. Einara leitt af Einar og Baldína leitt af Baldur, og gælunöfn sem leidd eru af öðrum nöfnum, t.d. Jónsi leitt af Jón og Stína leitt af Kristín. Þegar metið er hvort tiltekinn ritháttur nafns hafi unnið sér hefð í íslensku virðist eðlilegt að líta til þess hvort samsvarandi ritháttur tíðkist í öðru nafni sem hefur sérstök tengsl – á borð við þau sem hér var lýst – við nafnið sem verið er að meta. Ekki verður séð að þessi undantekning hafi veruleg áhrif á gildi þeirrar reglu að hefð í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga skírskoti til ritháttar ákveðinna nafna en ekki til tiltekinna bókstafa eða samstafna. Jafnframt er þessi túlkun að ákveðnu leyti í samræmi við mikilvæga reglu í íslenskri stafsetningu, þ.e. að stofn orða hafi sem líkasta ritmynd þrátt fyrir framburðarmun á milli ólíkra orðmynda, sbr. dæmi á borð við marg-ur og marg-t, hag-i og hag-a og vatn-i og vatn-s (yfirleitt vass í framburði).

Í fyrrgreindum úrskurði mannanafnanefndar í máli nr. 54/2020 var ekki tekið tillit til þess hvort rithátturinn Manuela gæti talist styðjast við hefð í rithætti karlmannsnafnsins Manuel sem kvenmannsnafnið Manuela er leitt af. Þar af leiðandi telur mannanafnanefnd skilyrði fyrir endurupptöku málsins vera uppfyllt og kveður upp svohljóðandi úrskurð í málinu sem hefur fengið málsnúmerið 54B/2020:

Í úrskurði mannanafnanefndar í máli nr. 54/2020 kom fram að rithátturinn Manuela er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls miðað við að eðlilegur framburður nafnsins sé Manúela. Einnig kom fram að samkvæmt vinnulagsreglum mannanafnanefndar við mat á hefð í skilningi 5. og 6. gr. mannanafnalaga telst rithátturinn Manuela ekki hafa unnið sér hefð í íslensku. Vinnulagsreglurnar eru mannafnanefnd til stuðnings við mat sitt, en ekki ráðandi um niðurstöðuna bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast. Þar sem Manuela getur talist leitt af karlmannsnafninu Manuel, sem hefð er fyrir að rita með samstöfunni ue, lítur mannanafnanefnd svo á að rithátturinn Manuela styðjist við hefð í íslensku.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Manuela (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd nafnsins Manúela (kvk.).

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum