Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Nr. 70/2019 - Álit

Kattahald.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 70/2019

 

Kattahald.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 11. júlí  2019, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 14. ágúst 2019, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 30. ágúst 2019, og athugasemdir gagnaðila, mótteknar 30. ágúst 2019, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 26. september 2019.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið D, alls fjóra eignarhluta og tvo stigaganga. Aðilar eru eigendur hvor að sínum eignarhlutanum í sama stigagangi. Ágreiningur er um hvort álitsbeiðendum sé heimilt að vera með innikött í íbúð sinni.

Kröfur álitsbeiðenda eru:

  1. Að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að hafna kröfum álitsbeiðenda um kattahald.
  2. Að viðurkennt verði að álitsbeiðendum sé heimilt að halda innikött í íbúð sinni.

Í álitsbeiðni kemur fram að í mars 2018 hafi álitsbeiðendur óskað eftir því við gagnaðila að þau fengju að halda innikött í íbúð sinni. Samkvæmt 33. gr. a. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sé hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang. Þar sem einungis séu tvær íbúðir í stigaganginum sé ljóst að álitsbeiðendur þurfi samþykki gagnaðila fyrir kattahaldi. Fyrstu svör gagnaðila, þ.e. í tölvupósti sendum 24. mars 2018, hafi verið þau að hún myndi skoða málið þegar þau hefðu farið í framkvæmdir á séreign sinni sem tengist leka sem hafi verið í húsinu. Að mati álitsbeiðenda fái slíkt ekki staðist, enda ekki unnt að byggja höfnun á kattahaldi á algerlega óskyldu skilyrði sem ekki sé unnt að tengja kattahaldi með neinum málefnalegum hætti. Byggist höfnun þessi ekki á neinum málefnalegum forsendum varðandi kattahaldið sjálft. Árétta beri að álitsbeiðendur hafi þegar látið laga svalir í íbúð sinni og hafi í hyggju að láta skipta um glugga í íbúðinni, en hvað sem öðru líði hafi þessi atriði enga þýðingu varðandi ósk þeirra um kattahald. Samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laga um fjöleignarhús skuli gæta jafnræðis gagnvart álitsbeiðendum varðandi samþykki fyrir dýrahaldi og sé með öllu óheimilt að mismuna þeim þar sem þau hafi jafnan rétt og aðrir íbúar til kattahalds. Verði því að telja að ekki sé unnt að þvinga fram niðurstöðu um lögmæti kattahalds með því að setja alls óskyld skilyrði fyrir því. Álitsbeiðendur telji að engin haldbær ástæða sé fyrir höfnun gagnaðila á ósk þeirra, enda myndi kattahaldið ekki hafa nein áhrif á sameiginlegt rými hússins eða aðra íbúa. Gagnaðili hafi ekki sýnt fram á það með gögnum að fyrir hendi sé ofnæmi, hvorki hjá henni né dóttur hennar.

Vísað sé til 3. mgr. 33. gr. b. laga um fjöleignarhús um það að húsfélag geti með reglum og ákvörðunum á húsfundi sett hunda- og kattahaldi í slíku húsi skorður með einföldum meirihluta, enda séu þær eðlilegar, málefnalegar og á jafnræði reistar. Engar slíkar eðlilegar og málefnalegar skorður séu fyrir hendi í tilviki álitsbeiðenda. Til hliðsjónar vísi þau til ákvæðis 6. mgr. 33. gr. a. laga um fjöleignarhús um leiðsögu- og hjálparhunda, en liggi fyrir samþykki um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi í samræmi við ákvæðið en eigandi eða einhver í hans fjölskyldu sé með ofnæmi fyrir hundum eða köttum á svo háu stigi að sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skuli kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti ofnæmislækna og sérfræðinga á öðrum sviðum, sé því að skipta. Þrátt fyrir að hér sé hvorki um leiðsögu- né hjálparhund að ræða hljóti svipuð sjónarmið að gilda varðandi höfnun annarra íbúa á kattahaldi, þ.e. að sýna fram á ofnæmi með haldbærum gögnum, eigi slíkt að vera tæk ástæða til að hafna kattahaldi. Verði því að skýra framangreind ákvæði í samræmi við hvert annað.

Í greinargerð gagnaðila segir að fyrir liggi að aðilar séu með sameiginlegan inngang í skilningi 1. mgr. 33. gr. a. laga um fjöleignarhús. Því þurfi samþykki hennar að liggja fyrir. Hvergi í lögunum sé kveðið á um að neitun um samþykki fyrir kattahaldi þurfi að fylgja einhver sérstakur rökstuðningur. Aðeins sé sagt að samþykki fyrir slíku dýrahaldi þurfi að vera fyrir hendi. Hún telji því að ekki sé þörf á sérstökum rökstuðningi fyrir neitun hennar. Það skuli þó tekið fram að dóttir hennar sé með ofnæmi fyrir köttum.

Í athugasemdum álitsbeiðanda eru fyrri sjónarmið ítrekuð. Þá segir að það hljóti jafnframt að þurfa að horfa til þess að hugsanlegt kattahald muni ekki hafa nein áhrif á aðra íbúa hússins þar sem um sé að ræða innikött sem ekki verði í sameiginlegum stigagangi aðila. Aðrir íbúar hafi veitt samþykki sitt og sé eigandi íbúðar í hinum stigaganginum jafnan með ketti. Það standist því ekki sjónarmið um jafnræði íbúa hússins að engar athugasemdir séu gerðar við kattahald í einni íbúð, en álitsbeiðendum sé aftur á móti meinað að halda innikött í íbúð sinni.

Í athugasemdum gagnaðila segir að hún finni ekki í lögum um fjöleignarhús sérstaka skilgreiningu um innikött, heldur einungis kattahald.

III. Forsendur

Deilt er um hvort álitsbeiðendum sé heimilt að halda kött íbúð sinni. Aðilar málsins eiga hvor sína íbúðina í sameiginlegum stigagangi.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er hunda- og kattahald háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang. Aðilar deila stigagangi og þannig ljóst að samþykki gagnaðila þarf til þess að álitsbeiðendum sé heimilt að halda kött í íbúð sinni. Ekki verður lagt mat á réttmæti rökstuðnings gagnaðila fyrir synjun hennar á samþykki fyrir kattahaldi í íbúð álitsbeiðenda, enda gerir lagaákvæðið ekki ráð fyrir því að sérstakar ástæður þurfi að liggja að baki atkvæði hennar í þessum efnum.

Í 4. mgr. sömu greinar segir að gæta skuli jafnræðis við veitingu samþykkis samkvæmt 1. mgr. og sé óheimilt að mismuna eigendum sem eigi jafnan rétt í þessu efni. Álitsbeiðendur benda á í þessu sambandi að í næsta stigagangi við þau sé kattahald heimilað. Kærunefnd telur að ákvæðið taki til eigenda innan sama stigagangs eða eigenda sem hafi sama inngang en merki ekki að mismunandi reglur um kattahald geti ekki gilt í hvorum stigaganginum fyrir sig í sama húsinu.

Þá telur kærunefnd að ekki sé unnt að jafna tilviki þessu við þau tilvik sem falla undir 33. gr. d. laga um fjöleignarhús, enda er það ákvæði bundið við leiðsögu- og hjálparhund.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðenda.

 

Reykjavík, 26. september 2019

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira