Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 61/2022 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 10. nóvember 2022

í máli nr. 61/2022

 

A og B

gegn

C og D

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðilar: A, og B, bæði til heimilis að E.

Varnaraðilar: C, og D, bæði til heimilis að F.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðilum beri að greiða leigu fyrir tímabilið 1.-11. maí 2022 að fjárhæð 85.000 kr.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 12. júlí 2022, beindu sóknaraðilar til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 13. júlí 2022, var varnaraðilum gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 19. júlí 2022, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðilum greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 25. júlí 2022, til upplýsingar og var sóknaraðilum veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti 2. ágúst 2022 og voru þær sendar varnaraðilum með bréfi kærunefndar, dags. 3. ágúst 2022. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 16. ágúst 2022, og voru þær sendar sóknaraðilum með bréfi kærunefndar, dags. 17. ágúst 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. febrúar 2022 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að G. Ágreiningur er um hvort varnaraðilum beri að greiða leigu fyrir tímabilið 1.-11. maí 2022.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðilar segja að þau hafi sagt leigusamningnum upp. Varnaraðilar hafi beðið um að fara fyrr og samkomulag orðið um að þau greiddu aðeins leigu fyrir þá daga í maí sem þau væru í íbúðinni. Þau hafi skilað íbúðinni 11. maí og leiga fyrir 1. -11. maí sé 85.000 kr. sem ekki hafi fengist greidd.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðilar segja að í lok febrúar hafi sóknaraðilar sagt ótímabundnum leigusamningi aðila upp og þau talið að þau ættu að yfirgefa íbúðina 1. júní. Varnaraðilar hafi fengið annað húsnæði 1. maí.

Ástæða þess að þau hafni kröfu sóknaraðila sé sú að uppsögn ótímabundins leigusamnings sé sex mánuðir en þau hafi yfirgefið íbúðina eftir tvo og hálfan mánuð. Þau hafi þurft að standa undir kostnaði við flutninga tvisvar sinnum á tveimur mánuðum. Annar varnaraðila hafi eytt sjö dögum í þrif á húsnæðinu og þrátt fyrir að sóknaraðilar hafi ítrekað neitað að þau væru að selja húsnæðið hafi þau séð um viku eftir að þau hafi flutt út að það hefði verið sett á sölu.

Það sé sanngjarnt að þessari upphæð sé sleppt vegna þeirra miklu fjárútláta sem varnaraðilar hafi orðið fyrir ásamt því sem annað þeirra hafi orðið fyrir miklu tilfinningalegu tjóni og hafi fengið taugaáfall.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að uppsagnarfrestur samkvæmt samningi sé sex mánuðir. Varnaraðilar hafi beðið um að fara fyrr og samið hafi verið um að greitt yrði fyrir dagana þar til þau skiluðu íbúðinni. Þau hafi skilað 11. maí og leiga fyrir það tímabil sé 85.000 kr.

 

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir að þau hafi flutt inn 1. febrúar [2022] og 27. sama mánaðar hafi sóknaraðilar sagt leigusamningnum upp. Sóknaraðilar hafi sagt að uppsögnin tæki gildi 1. mars og að þau þyrftu að skila húsnæðinu 1. júní.

Eftir að hafa rætt við lögfræðing hafi varnaraðilar komist að því að uppsagnarfrestur væri sex mánuðir. Þau hafi náð að útvega annað húsnæði og fengið upplýsingar um að það yrði tilbúið á tímabilinu 1.-5. maí. Sóknaraðilar hafi verið upplýst um það og svarað því játandi að varnaraðilar gætu skilað íbúðinni fyrr.

Þau hafi yfirgefið íbúðina fjórum og hálfum mánuði fyrr sem hafi verið sóknaraðilum til hagsbóta. Þau hafi boðist til að kaupa íbúðina en sóknaraðilar neitað því og upplýst að íbúðin yrði áfram innan fjölskyldunnar. Um viku eftir að þau hafi flutt út hafi íbúðin þó verið sett á sölu. Þá hafi flutningskostnaður fallið á varnaraðila og sú ómælda vinna sem því fylgi að flytja.

VI. Niðurstaða            

Óumdeilt er að aðilar komu sér saman um að greidd yrði leiga þar til afnotum varnaraðila lyki. Kærunefnd telur að þar sem óumdeilt er meðal aðila að varnaraðilar skiluðu íbúðinni 11. maí 2022 beri þeim að greiða leigu til þess dags. Ástæður þær sem varnaraðilar nefna um að þau hafi orðið fyrir miklum fjárútlátum og tilfinningalegu tjóni vegna flutninganna leiða ekki til þess að skylda þeirra til þess að greiða leigu fyrir afnot leiguhúsnæðisins falli niður. Verður því fallist á að varnaraðilum beri að greiða 85.000 kr.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðilum ber að greiða leigu að fjárhæð 85.000 kr.

 

Reykjavík, 10. nóvember 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira