Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 2/2024

Árið 2024, 16. júlí, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 2/2024 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 8. apríl 2024, kærði Ágúst Ólafsson, lögmaður fyrir hönd X, kt. [], Hraunbergi [], Reykjavík, ákvörðun Reykjavíkurborgar varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteigna kæranda að Hraunbergi [], Reykjavík, fnr. [], [], [], [] og [], fyrir árin 2022 - 2023.

Með tölvubréfi, dags. 16. apríl 2024, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Reykjavíkurborgar  vegna kærunnar. Umbeðin umsögn sveitarfélagsins barst nefndinni með bréfi, dags. 9. júlí 2024.

Með tölvubréfi, dags. 9. júlí 2024, var umsögn Reykjavíkurborgar send lögmanni kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með tölvubréfi, dags. 12. júlí 2024.

Málið var tekið til úrskurðar 16. júlí 2024.

 

I.         Málavextir       

Kærandi er eigandi fimm íbúða í fasteigninni að Hraunbergi [], Reykjavík en húsnæðið var upphaflega skráð og nýtt sem atvinnu- og skrifstofuhúsnæði. Þann 25. nóvember 2021 staðfesti borgarráð Reykjavíkur byggingarleyfisumsókn kæranda um að breyta hluta af fasteigninni í íbúðarhúsnæði með því að gera fimm nýjar íbúðir og koma fyrir svölum á vesturhluta 2. hæðar eignarinnar.  Byggingarleyfi vegna breytinganna var gefið út 30. ágúst 2022. Ný eignaskiptayfirlýsing fyrir fasteignina var gefin út 15. júlí 2022 og var hún staðfest af byggingarfulltrúanum í Reykjavík þann 15. september 2022. Að sögn Reykjavíkurborgar mun embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík hafa sent Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynningu um breytta notkun á hluta fasteignarinnar þann 26. apríl 2023 og var breytingin staðfest af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun degi síðar. Þá mun  lokaúttekt vegna áðurnefnds byggingarleyfis hafa farið fram 24. maí 2023. 

Þann 9. október 2023 sendi lögmaður kæranda bréf til Reykjavíkurborgar þar sem m.a. var vísað til þess að ný eignaskiptayfirlýsing fyrir fasteignina að Hraunbergi [], Reykjavík, hefði verið gefin út 15. júlí 2022 sem byggingarfulltrúi hefði staðfest. Taldi kærandi að frá og með 15. júlí 2002 bæri að ákvarða fasteignaskatt vegna íbúðaeignanna í samræmi við ákvæði a. liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Yrði ekki fallist á þá dagsetningu bæri í síðasta lagi að miða við útgáfu byggingarleyfis þann 30. ágúst 2022 þegar framkvæmdir hófust við að breyta húsnæðinu í íbúðarhúsnæði. Gerði lögmaður kæranda kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum fasteignaskatti vegna íbúðanna frá og með 15. júlí 2022.

Í tölvupósti Reykjavíkurborgar til lögmanns kæranda þann 12. október 2023 kom fram að álagningu fasteignaskatts vegna fjögurra eigna með fasteignanúmerin [], [], [] og [] hefði verið breytt um miðjan september 2023 að beiðni byggingarfulltrúa, en eign með fasteignanúmerið [] hefði ekki enn fengið álagningu. Breytingaálagningu eignanna mætti sjá á www.island.is. Lögmaður kæranda sendi Reykjavíkurborg tölvupóst 18. desember 2023 þar sem áréttuð var fyrri afstaða um að ákvarða bæri fasteignaskatt vegna eignanna samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá og með 15. júlí 2022 auk þess sem ítrekuð var krafa um endurgreiðslu á ofgreiddum fasteignaskatti frá þeim tíma. Þá var vakin athygli á því að upplýsingar á www.island.is gæfu til kynna að álagningu fasteignaskatts vegna eignanna hefði verið breytt 26. apríl 2023. Þann 22. febrúar 2024 sendi embætti byggingarfulltrúa tölvupóst til lögmanns kæranda þar sem fram kom að breyting á álagningu fasteignaskatts væri háð úttekt á útgefnum byggingarleyfum, þ.e. að staðfest væri að þær breytingar hefðu verið gerðar sem sótt hefði verið um. Í tilviki kæranda hafi ekki verið hægt að þinglýsa nýrri eignaskiptayfirlýsingu fyrir fasteignina fyrr en að lokinni úttekt á útgefnu byggingarleyfi eins og verklagsreglur kveði á um og miðist breyting á skráningu við þinglýsingardag.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteigna hans að Hraunbergi [], Reykjavík, fyrir árin 2022-2023 og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.        Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að yfirfasteignamatsnefnd úrskurði að fasteignaskattur vegna fasteigna hans að Hraunbergi [], Reykjavík, fnr. [], [], [], [] og [] skuli ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá og með dagsetningu eignaskiptayfirlýsingar þann 15. júlí 2022. Þá er einnig gerð krafa um að Reykjavíkurborg verði gert að endurgreiða kæranda ofgreiddan fasteignaskatt vegna eignanna frá og með 15. júlí 2022.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005 sé fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falli undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skuli skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b- og c-lið sama lagaákvæðisins allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falli undir a-lið ákvæðisins séu íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd séu landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið 3. mgr. 3. gr. laganna falli sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið sama ákvæðisins falli allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt séu fyrir ferðaþjónustu.

Kærandi bendir á að fasteignir hans að Hraunbergi [], Reykjavík hafi verið skráðar sem atvinnuhúsnæði og álagning fasteignaskatts verið í samræmi við þá skráningu, þ.e. samkvæmt ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006 skal raunveruleg notkun fasteignar ráða því hvernig hún flokkast með tilliti til fasteignaskatta.  Á fundum skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar þann 16. desember 2020 og borgarráðs Reykjavíkur þann 7. janúar 2021 hafi verið samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Breiðholts III, austurdeild, vegna lóðarinnar nr. [] við Hraunberg. Með breytingunni hafi verið bætt við heimild til að gera íbúðir á efri hæðum eignarinnar, en umræddar fasteignir kæranda sé þær eignir sem um ræðir. Eignaskiptayfirlýsing frá 15. júlí 2022 hafi verið unnin í samræmi við ofangreint, en þar eru umræddar eignir tilgreindar sem íbúðir. Kærandi telur ljóst að frá þeirri dagsetningu beri að skattleggja fyrrgreindar fasteignir í samræmi við ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Þann 30. ágúst 2022 hafi verið gefið út byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæðinu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði fyrir fimm nýjar íbúðir og koma fyrir svölum á vesturhluta 2. hæðar fasteignarinnar.

Með bréfi, dags. 9. október 2023, hafi Reykjavíkurborg verið krafin um endurgreiðslu á ofgreiddum fasteignaskatti. Í svari Reykjavíkurborgar frá 22. febrúar 2024 hafi komið fram að ætíð þurfi að fara fram úttektir á útgefnum byggingarleyfum til að staðfesta þær breytingar sem sótt hafi verið um. Fyrr sé ekki hægt að gera breytingar á skráningu eignar. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi ekki verið hægt að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu fyrr en lokið hafi verið við úttekt á byggingarleyfi eins og verklagsreglur segi til um og því hafi breyting á skráningu eignanna verið frá þinglýsingardegi.

Kærandi telur að rökstuðningur Reykjavíkurborgar fyrir neitun á leiðréttingu og endurgreiðslu ofgreidds fasteignaskatts sé rangur. Skattleggja beri umræddar fasteignir samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá dagsetningu eignaskiptayfirlýsingar þann 15. júlí 2022. Samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 85/2006 ráði raunveruleg notkun fasteignar því hvernig hún flokkast með tilliti til fasteignaskatta. Eignaskiptayfirlýsing, dags. 15. júlí 2022, sem hafi verið staðfest af Reykjavíkurborg, eigi að ráða því hvernig umræddar fasteignir kæranda flokkast með tilliti til fasteignaskatta enda tilgreini eignarskiptayfirlýsingin að um sé að ræða íbúðir. Í síðasta lagi ætti að miða við útgáfu byggingarleyfis þann 30. ágúst 2022 er framkvæmdir hófust við að breyta húsnæðinu í íbúðarhúsnæði enda var þá ljóst að húsnæðið yrði ekki nýtt sem atvinnuhúsnæði.

III.      Sjónarmið sveitarfélagsins, Reykjavíkurborgar

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess aðallega krafist að kröfum kæranda verði hafnað, þ.m.t. kröfu um endurgreiðslu fasteignaskatts vegna fasteigna kæranda að Hraunbergi [], Reykjavík fyrir árin 2022-2023.

Sveitarfélagið vísar til þess að óumdeilt sé að fasteignin að Hraunbergi [], Reykjavík hafi verið skráð sem atvinnuhúsnæði og skattlögð frá upphafi samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þá sé einnig óumdeilt að sú breyting sem gerð var á skilmálum deiliskipulags Breiðholts III, austurdeild, vegna lóðarinnar við Hraunberg [] hafi verið samþykkt í borgarráði Reykjavíkur þann 7. janúar 2021 og byggi fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsing frá 15. júlí 2022 á þeirri breytingu. Hins vegar sé deilt um það í málinu hvenær beri að breyta skattstofni fasteigna vegna breytinga á notkun á hluta fasteignarinnar.

Eignaskiptayfirlýsing varðandi breytta notkun á húsnæðinu að Hraunbergi [] hafi verið dagsett 15. júlí 2022, en yfirlýsingin sé á ábyrgð kæranda. Kærandi hafi fengið útgefið byggingarleyfi þann 30. ágúst 2022 til að breyta hluta fasteignarinnar í íbúðarhúsnæði. Eignaskiptayfirlýsingin var staðfest af hálfu embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík þann 19. september 2022. Kærandi hafi hins vegar ekki farið með eignaskiptayfirlýsinguna í þinglýsingu fyrr en 23. júní 2023 en þá hafi sýslumaður hafnað þinglýsingu þar sem m.a. hafi komið í ljós að um var að ræða eignatilfærslu í sameign og skorti samþykki þinglýstra eigenda fyrir þeirri breytingu, sbr. 16. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Lokaúttekt byggingarfulltrúa hafi farið fram 24. maí 2023 og voru þá gerðar athugasemdir af hálfu byggingarfulltrúa og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þann 21. maí 2024 barst tilkynning frá byggingarstjóra um að búið væri að koma til móts við þær athugasemdir.

Sveitarfélagið bendir á að þegar byggingaráform fyrir Hraunberg [] voru samþykkt hafi það skilyrði verið sett að eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis og henni þinglýst fyrir lokaúttekt, sbr. stimplun á forsíðu eignaskiptayfirlýsingarinnar um að skráning öðlist ekki gildi fyrr en við þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingar. Þar sem um var að ræða breytingu á þegar byggðu fjöleignarhúsi var ekki hægt að breyta skráningu eigna í fasteignaskrá nema að eignaskiptayfirlýsingu væri þinglýst samhliða. Kæranda mátti þannig vera ljóst að breytt skráning öðlaðist ekki gildi fyrr en að eignaskiptayfirlýsingu hefði verið þinglýst. Þrátt fyrir fyrrgreint skilyrði hafi embætti byggingarfulltrúa ákveðið að koma til móts við kæranda og gefa út byggingarleyfi áður en eignskiptayfirlýsing var samþykkt þar sem höfundur yfirlýsingarinnar hafði sent inn staðfestingu til byggingarfulltrúa um að vinna á eignaskiptayfirlýsingu væri hafin. Það sé hefðbundið verklag hjá byggingarfulltrúa að samþykkja slíkar beiðnir til að ekki verði verktöf hjá umsækjanda byggingarleyfis þar sem staðfesting á eignaskiptayfirlýsingum geti tekið tíma.

Skattflokki fasteignar vegna álagningar fasteignaskatts sé hins vegar ekki breytt fyrr en nýrri eignaskiptayfirlýsingu  hafi verið þinglýst. Breytingin geti aldrei orðið við samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum, enda hafa framkvæmdaraðilar heilt ár til að fá útgefið byggingarleyfi og tvö ár til að framkvæma, en staðreyndin sé sú að stundum verði ekkert af framkvæmd.

Sveitarfélagið vekur athygli á því að í því máli sem hér um ræðir hafi verið komið til móts við kæranda þar sem honum hafi gengið erfiðlega að fá alla þinglýsta eigendur fasteignarinnar til að samþykkja nýja eignaskiptayfirlýsingu. Eftir beiðni kæranda hafi úttektarmaður frá embætti byggingarfulltrúa farið á staðinn þann 14. apríl 2023 til að staðfesta að breytingar á fasteigninni væru vel á stað komnar eða lokið til að hægt væri að senda inn tilkynningu um breytta notkun á hluta fasteignarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Mikið lá á vegna lánamála kæranda og vildi embætti byggingarfulltrúa því aðstoða kæranda í erfiðum aðstæðum með að breyta notkun hluta fasteignarinnar þrátt fyrir að eignaskiptayfirlýsing væri ekki komin í þinglýsingu. Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík sendi  tilkynningu um breytta notkun á viðkomandi eignum til  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þann 26. apríl 2023 og staðfesti stofnunin þá breytingu 27. apríl 2023. Breytt notkun var þó ekki afturvirk í áramótastöðu vegna álagðra fasteignagjalda enda var ekki beðið um úttekt byggingarfulltrúa fyrr en í apríl 2023.

Þá bendir sveitarfélagið á að kærandi hafi verið upplýstur um það í tölvupósti þann 12. október 2023 að breyting á álagningu fasteignaskatts fjögurra eigna kæranda hafi verið breytt í kerfum Reykjavíkurborgar um miðjan september 2023 að beiðni byggingarfulltrúa. Inneign fasteignaskatts hafi þá verið reiknuð og ógreiddir gjalddagar greiddir með inneignum. Þar sem kærandi hafi ekki verið með skráðan bankareikning hjá Reykjavíkurborg til að greiða út eftirstöðvar inneignanna hafi kæranda verið bent á hvernig best væri að skrá slíkar upplýsingar sem og að inneignir yrðu næst greiddar út 7. nóvember 2023. Þá hafi kærandi jafnframt verið upplýstur um að fasteignaskattur hefði ekki verið lagður á þá eign sem er með fasteignanúmerið [].

Sveitarfélagið mótmælir túlkun kæranda á dómi Hæstaréttar í máli nr. 85/2006 og bendir á að í því máli hafi eigendur viðkomandi fasteignar nýtt eignina sem íbúðarhúsnæði þó hún væri skráð með öðrum hætti. Í því máli sem hér um ræðir hafi staðið yfir breytingar á atvinnuhúsnæði yfir í íbúðarhúsnæði en þær breytingar hafi ekki gengið í gegn og ekki verið að fullu lokið. Húsnæðið hafi því ekki verið notað sem íbúðarhúsnæði líkt og í máli nr. 85/2006, a.m.k. ekki á tímabilinu frá 15. júlí 2022, þegar eignaskiptayfirlýsingin var undirrituð, og til og með 27. apríl 2023 þegar skráning um breytta notkun var gerð af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í ljósi þess telur kærandi að hafna beri kröfum kæranda þar sem ekki séu forsendur fyrir endurgreiðslu fasteignaskatts í samræmi við kröfu kæranda. 

IV.       Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda mótmælir hann umsögn Reykjavíkurborgar og vísar m.a. til þess að hún sé of seint fram komin og því eigi ekki að taka tillit til hennar.

 

V.        Niðurstaða

I.

Álitaefni þessa máls snýr að  álagningu fasteignaskatts vegna fasteigna kæranda að Hraunbergi [], Reykjavík, fnr. [], [], [], [] og [], fyrir tímabilið 15. júlí 2022 til 26. apríl 2023. Gerir kærandi þá kröfu að álagður fasteignaskattur vegna fyrrgreindra fasteigna fyrir áðurnefnt tímabil verði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og ofgreiddur fasteignaskattur endurgreiddur. Reykjavíkurborg telur hins vegar að álagning fasteignaskatts fyrir fyrrgreint tímabil skuli vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og að ekki sé tilefni til að gera frekari leiðréttingu á álagningu fasteignaskatts vegna eignanna en þegar hafi verið gert af hálfu sveitarfélagsins.

II.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga. Fasteignum skal skipt upp í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu. i a-liðar gr. 3. gr. laga nr. 4/h falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaður-, skrifstofu- og verslunarhlið Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs, sbr. m.a. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 13/2021.

III.

Í lögum nr. 4/1995 er ekki kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds og fer því um hann samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef kæra berst að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. þess segir svo að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Fasteignaeigendum, þ.m.t. kæranda, er alla jafnan tilkynnt um álagningu fasteignagjalda í janúar ár hvert með sérstökum álagningarseðli, en álagningarseðlar Reykjavíkurborgar hafa síðustu árin verið sendir rafrænt í pósthólf fasteignaeigenda á vefsíðunni www.island.is.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi þann 9. október 2023 haft samband við Reykjavíkurborg og gert athugasemdir við álögð fasteignagjöld vegna fasteigna hans að Hraunbergi [], Reykjavík, fnr. [], [], [], [] og []. Í framhaldinu áttu sér stað samskipti milli aðila m.a. varðandi þær forsendur sem lágu að baki álagningu gjaldanna á árunum 2022 og 2023. Þann 13. september 2023 gerði Reykjavíkurborg breytingarálagningu vegna fasteignagjalda ársins 2023 þar sem fasteignaskattur vegna eignanna var ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá og með 26. apríl 2023 í stað c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem byggt hafi verið á við upphaflega álagningu fasteignaskatts fyrir árið 2023. Ekki var af hálfu Reykjavíkurborgar fallist á að gera frekari leiðréttingu á álagningu fasteignaskatts vegna eignanna.

Kærufrestur vegna álagningar fasteignaskatta á fasteignir kæranda að Hraunbergi [], Reykjavík fyrir  árin 2022 og 2023 var löngu liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd þann 8. apríl 2024.

Kæranda var tilkynnt um álagningu fasteignaskatts gjaldársins 2022 með álagningarseðlum fasteignagjalda útgefnum 21. janúar 2022, þar sem meðal annars komu fram upplýsingar um að álagningin miðaðist við fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði. Á álagningarseðlunum var m.a. tilgreint að nánari upplýsingar varðandi álagningu fasteignagjalda ársins 2022 mætti sjá á vefslóðinni https://reykjavik.is/sites/default/files/2022-01/Alagningarsedill_2022_bakhlid.pdf. Vefsíða þessi er ekki lengur aðgengileg og því er ekki unnt að staðreyna hvaða upplýsingar voru tilgreindar þar, þ. á m. hvort komið hafi fram upplýsingar um kæruheimild eða kærufrest vegna álagningar gjaldanna í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá er slíkar upplýsingar ekki að finna á vefsíðunni https://www.reykjavik.is/fasteignagjold, en á álagningarseðlunum er tilgreint að nánari upplýsingar megi sjá á þeirri slóð.

Þá var kæranda tilkynnt um álagningu fasteignaskatts gjaldársins 2023 með álagningarseðlum fasteignagjalda útgefnum 19. janúar 2023, þar sem meðal annars komu fram upplýsingar um að álagningin miðaðist við fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði. Á álagningarseðlunum var m.a. tilgreint að nánari upplýsingar varðandi álagningu fasteignagjalda ársins 2023 mætti sjá á vefslóðinni https://reykjavik.is/sites/default/files/2023-01/Alagningarsedill_2023_bakhlid.pdf. Á vefsíðunni koma m.a. fram upplýsingar um kæruheimild eða kærufrest vegna álagningar gjaldanna í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, þótt í smáu letri sé. Þar er m.a. tekið fram að álagning fasteignaskatts sé kæranleg til yfirfasteignamatsnefndar og að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá álagningu. Yfirfasteignamatsnefnd telur mikilvægt að slíkar leiðbeiningar komi fram með skýrum hætti og að nýtt verklag í tengslum við rafræna álagningarseðla sé ekki jafn skýrt og fyrra verklag.

Þar sem fyrir liggur að meira en ár var liðið frá því að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda fyrir árin 2022 og 2023 lá fyrir og var tilkynnt kæranda og þar til kærandi kærði álagninguna til yfirfasteignamatsnefndar, er kröfu hans vegna álagningar fasteignaskatts vegna fasteigna hans við Hraunberg [], Reykjavík, fyrir árin 2022 og 2023 vísað frá yfirfasteignamatsnefnd, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 5/2019 og1/2022. Af framansögðu leiðir jafnframt að vísa verður frá yfirfasteignamatsnefnd kröfu kæranda um endurgreiðslu á álögðum fasteignaskatti vegna tilgreindra fasteigna hans við Hraunberg [], Reykjavík.

Með vísan til alls þess sem að framan er öllum kröfum kæranda í máli þessum vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda varðandi álagningu og endurgreiðslu fasteignaskatt vegna fasteigna hans að Hraunbergi [], Reykjavík, fnr. [], [], [], [] og [], fyrir árin 2022 og 2023 er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

                  ________________________

  Björn Jóhannesson

 

______________________                                                      ______________________

                Axel Hall                                                                                       Valgerður Sólnes

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum