Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 122/2021 Úrskurður 17. nóvember 2021

Mál nr. 122/2021                  Eiginnafn:     Linnet (kk.)

 

 

Hinn 17. nóvember 2021 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 122/2021 en erindið barst nefndinni 3. september.

Samkvæmt 1. gr. núgildandi laga um mannanöfn, nr. 45/1996, eru flokkar mannanafna þrír. Í fyrsta lagi eiginnöfn, í öðru lagi millinöfn og í þriðja lagi kenninöfn. Samkvæmt 8. gr. laganna eru kenninöfn tvenns konar, föður- eða móðurnöfn annars vegar og ættarnöfn hins vegar. Nafnið Linnet er skráð í þjóðskrá sem ættarnafn en í þessu máli er óskað eftir því að bera það sem eiginnafn.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. núgildandi laga um mannanöfn er rétturinn til að bera ættarnafn takmarkaður við niðja þeirra sem báru ættarnafn við gildistöku laganna eða á gildistíma fyrri laga um mannanöfn, nr. 37/1991. Samkvæmt sömu grein laganna er óheimilt að taka upp nýtt ættarnafn.

Á 20. öld var ekki óalgengt að komist væri hjá takmörkunum sem giltu um ættarnöfn með því að gefa þau sem eiginnöfn. Með setningu núgildandi mannanafnalaga var tekinn upp nýr flokkur nafna, svonefnd millinöfn, í þeim tilgangi að koma til móts við óskir fólks um að bera ættarnöfn án þess þó að horfið væri frá banni við að taka upp ný ættarnöfn. Millinöfn eru þess vegna frábrugðin ættarnöfnum að því leyti að þau eru ekki kenninöfn. Í greinargerð með lögunum kemur fram að vilji löggjafans stóð til þess að í staðinn fyrir að komist væri hjá takmörkunum er gilda um ættarnöfn með því að gefa þau sem eiginnöfn hefði fólk kost á því að bera ættarnöfn sem millinöfn, en þó einungis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, enda segir í greinargerðinni að „[s]ú meginregla að ættarnöfn skuli ekki almennt heimil sem millinöfn styð[ji]st við þá ríkjandi skoðun í persónurétti, bæði íslenskum og erlendum, að ættarnöfn njóti mun ríkari nafnverndar en eiginnöfn.“

Í 1. mgr. 7. gr. mannanafnalaga segir að ættarnöfn séu einungis heimil sem millinöfn ef eitthvert eftirfarandi skilyrða er uppfyllt (2.–5. mgr.):

  • Hver maður, sem ber ættarnafn í þjóðskrá, má breyta því í millinafn.
  • Hver maður, sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess, má bera það sem millinafn.
  • Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.
  • Maður á og rétt á að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn. Honum er einnig heimilt að taka sér nafnið sem millinafn beri maki hans það sem millinafn skv. 2. eða 3. mgr.

Mannanafnanefnd telur að gagnálykta megi út frá 1. mgr. 7. gr. laganna að ættarnöfn séu ekki heimil sem eiginnöfn og almennt ekki sem millinöfn, þ.e. að ekki sé heimilt að gefa ættarnöfn nema í þeim tilvikum þar sem það er sérstaklega heimilað.

Einnig verður að líta til þess að fyrirkomulag núgildandi mannanafnalaga er með þeim hætti að hvert það nafn sem mannanafnanefnd samþykkir að gefa megi sem eiginnafn færist á mannanafnaskrá og er þaðan í frá öllum heimilt. En eins og fyrr segir tók löggjafinn við setningu núgildandi laga um mannanöfn mið af þeirri „ríkjandi skoðun í pesrónurétti, bæði íslenskum og erlendum, að ættarnöfn njóti mun ríkari nafnverndar en eiginnöfn.“

Mannanafnanefnd telur tilgang fyrrgreindra ákvæða 7. gr. mannanafnalaga og þau lögmætu sjónarmið, sem bent er á í greinargerð með lögunum, að samkvæmt ríkjandi skoðun í persónurétti njóti ættarnöfn ríkari nafnverndar en eiginnöfn, sem og þá skýru aðgreiningu mismunandi flokka mannanafna, sem tilgreind er í 1. gr. laganna, leiða til þess að ekki sé heimilt að fallast á að ættarnöfn séu samþykkt á mannanafnaskrá sem eiginnöfn. Hér má einnig hafa hliðsjón af rökstuðningi í úrskurðum nefndarinnar í málum nr.  23/2013 (Hreinsdóttir) og 94/2021 (Gunnarson).

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Linnet (kk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira