Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2022 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 7. apríl 2022

í máli nr. 13/2022

 

A

gegn

B ehf.

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B ehf.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða leigu að fjárhæð 100.000 kr. og greiða bætur sem nemur 100.000 kr.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 17. febrúar 2022, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 18. febrúar 2022, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 3. mars 2022, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 4. mars 2022, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd 10. mars 2022 og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 15. mars 2022. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 23. mars 2022, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 25. mars 2022. Viðbótarathugasemdir bárust frá sóknaraðila 25. mars 2022 og voru þær sendar varnaraðila með tölvupósti kærunefndar, dags. 28. mars 2022.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2023 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu leigu fyrir júlí 2021.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili gerir ýmsar athugasemdir við ástand hins leigða við upphaf leigutíma. Meðal annars að íbúðin hafi verið illa skipulögð, sturtuhurð hafi vantað, skápur verið óhreinn sem og ofn og raki stafað frá veggjum. Þá hafi tvö herbergjanna verið ónothæf og aðeins tveir litlir gluggar verið sem loftræsting. Enginn ísskápur hafi verið til staðar og engin hljóðeinangrun en mikill hávaði hafi stafað frá nágrönnum sem og graslykt.

Sóknaraðili hafi lagt mikið á sig við að flytja á milli bæjarfélaga og hann því boðið 50.000 kr. til að slíta samningnum. Honum hafi verið sagt að það yrði ekkert vandamál þar sem auðvelt væri að finna leigjendur. Varnaraðili hafi þó ekki fallist á boðið svo að sóknaraðili hafi boðið 75.000 kr. Varnaraðili hafi þá sagt að það þyrfti að þrífa og sóknaraðili því gert ráð fyrir að hann vildi einnig greiðslu fyrir þrifin. Sóknaraðili hafi því fallist á 100.000 kr. Varnaraðili hafi síðan sagt að sóknaraðili ætti að þrífa. Sóknaraðili hafi fallist á það fengi hann 25.000 kr. til baka. Að endingu hafi varnaraðili lokið samningnum eftir fimm daga og ekki skilað fjármunum sóknaraðila.

Sóknaraðili hafi farið fram á 25.000 kr. endurgreiðslu en varnaraðili lokað á hann. Sóknaraðili fari fram á fulla endurgreiðslu að fjárhæð 100.000 kr. Hann hafi skilað íbúðinni hreinni en hún hafi verið við upphaf leigutíma. Einnig fari hann fram á auka 100.000 kr. fyrir hótanir sem hafi valdið honum miklum áhyggjum og ferðum á lögreglustöðina.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að íbúðin hafi öll verið endurnýjuð frá grunni árið 2015. Allar innréttingar, hurðir, eldhús, eldhústæki, baðherbergi og fleira. Allar raflagnir, pípulagnir og frárennsli.

Sóknaraðili hafi undirritað leigusamning 29. júní 2021 og hafi gildistími samningsins verið tímabundinn frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2023. Honum hafi síðan snúist hugur og viljað bakka úr samningnum. Fallist hafi verið á að sóknaraðili greiddi leigu fyrir einn mánuð, enda liðið á mánuðinn og hann búinn að vera þar í nokkrar nætur.

IV. Niðurstaða            

Samkvæmt leigusamningi aðila var mánaðarleg fjárhæð leigu 107.500 kr. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að sóknaraðili hafi greitt 100.000 kr. í leigu fyrir júlí 2021 og hann yfirgefið íbúðina nokkrum dögum eftir upphaf leigutíma. Í kæru gerir sóknaraðili ýmsar athugasemdir við íbúðina en engin gögn styðja þær lýsingar. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa snúist hugur eftir gerð leigusamningsins og viljað hætta við hann.

Leigusamningur aðila var tímabundinn til 30. júní 2023 en sóknaraðili rifti honum 5. júlí 2021. Kveðið er á um heimildir leigjenda til að rifta leigusamningi í 60. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Kærunefnd telur að engin þeirra eigi við hér og riftun sóknaraðila því ólögmæt. Eru því ekki skilyrði til að fallast á að varnaraðila beri að endurgreiða honum leigu fyrir júlí. Þá eru engin efni til að verða við bótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila á grundvelli ákvæða húsaleigulaga. Verður því að hafna kröfum sóknaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

 

Reykjavík, 7. apríl 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira