Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2021-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 12/2021

 

Kostnaður vegna stíflulosunar. Endurgreiðslur til eigenda. Lögmæti aðalfundar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 10. febrúar 2021, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 10. mars 2021, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 19. mars 2021, athugasemdir gagnaðila, dags. 28. mars 2021, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 8. og 9. apríl 2021, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 2. júní 2021.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls þrjá eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í risi en gagnaðili er eigendur íbúða á miðhæð og í kjallara. Ágreiningur er um kostnaðarþátttöku húsfélagsins í reikningi vegna losunar á stíflu, endurgreiðslu til eigenda vegna vinnu iðnaðarmanna við húsnæðið og lögmæti aðalfundar sem var haldinn 26. maí 2020.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eigi rétt á endurgreiðslu úr hússjóði vegna kröfu sem hún greiddi úr eigin vasa þar sem hússjóður hafi verið tómur vegna ryðstíflu í sameiginlegu niðurfallsröri, með dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.
  2. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eigi rétt á greiðslu úr hússjóði vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna frá ríkissjóði ásamt dráttarvöxtum.
  3. Að viðurkennt verði að húsfundur meðeigenda álitsbeiðanda sem haldinn var 26. maí 2020 sé ólögmætur, svo og allar kröfur þeirra á hendur álitsbeiðanda sem séu byggðar á honum.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi eigi tvær kröfur á hendur hússjóði. Annars vegar fyrir losun ryðstíflu í sameiginlegu niðurfallsröri og hins vegar vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu frá ríkissjóði. Álitsbeiðandi hafi þegar greitt sinn hlut í fyrrnefndu kröfunni, eigendur í kjallara hafi greitt seint en eigandi miðhæðar aldrei. Að lokum hafi álitsbeiðandi greitt hlut miðhæðar úr eigin vasa sem prókúruhafi fyrir tóman hússjóð og þá með innheimtukostnaði og dráttarvöxtum vegna kjallara og miðhæðar. Seinni krafan varði ofgreiðslu fyrri eiganda miðhæðar til hans sjálfs og eiganda í kjallara af endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu frá ríkissjóði en hann hafi sleppt álitsbeiðanda.

Fyrir sölu íbúðar á miðhæð hafi álitsbeiðandi reynt að innheimta skuldina vegna losunar á ryðstíflunni og hún lýst kröfunni í söluverðið við tvær síðustu sölur íbúðarinnar en krafan sé enn ógreidd. Álitsbeiðandi hafi árangurslaust gert tvær kröfur á hússjóð árið 2017 og einnig árið 2018. Hún hafi svo lýst kröfum í söluverð fyrri eiganda íbúðar á miðhæð. Hann hafi hundsað þær en ætlað að greiða féllist álitsbeiðandi á „að skrifa undir skúrinn“ en hún hafi neitað því. Síðar hafi hún árangurslaust gert kröfu á hendur núverandi eiganda miðhæðar.

Það hafi óvænt flætt vatn úr röri út um allt gólf á efstu hæð þegar ryðstífla hafi orðið í niðurfallsröri. Álitsbeiðandi hafi ekki vitað hvað væri í gangi og þegar haft samband við pípulagningaþjónustu. Pípulagningamaður hafi komið næstum strax og fljótt séð að um stíflu væri að ræða og hafi sjálfur haft samband við stífluþjónustu fyrir álitsbeiðanda. Engin krafa hafi verið gerð á hendur húsfélagsins vegna þjónustu pípulagningamannsins.

Rörið, sem vatnið hafi komið úr, hafi farið niður í sameiginlegt niðurfallsrör í vegg á milli miðhæðar og þakhæðar. Pípulagningamennirnir, sem hafi verið þrír, hafi reynt að komast inn í rörið úr kjallara og af miðhæð. Í inntaksrými í kjallara hafi þeir opnað gamalt rör og þar hafi verið ryð. Þeir hafi komist inn í miðhæð en þar hafi verið fastur veggskápur fyrir rörinu. Þeir hafi því þurft að opna rörið frá efstu hæð. Meðeigendum álitsbeiðanda hafi verið sama um þetta og hundsað bréf eða nótur sem hafi verið sett í póstlúgu og við hurðir þeirra.

Fyrri eigandi íbúðar á miðhæð hafi skuldað hússjóði og hússjóður hafi síðan skuldað álitsbeiðanda vegna ryðstíflu þegar hann hafi greitt sjálfum sér og eigendum íbúðar í kjallara út endurgreiðslu virðisaukaskatts úr hússjóði. Þá hafi eldri kröfur verið útistandandi á hússjóð sem hafi átt að greiða fyrst. Fyrri eigandi hafi ekki átt að fá neitt beint af endurgreiðslu skattsins.

Álitsbeiðandi hafi gert nokkrar kröfur á fyrri eiganda fyrir sölu hans og svo lýst kröfum í fasteign hans í húsinu fyrir sölu, án árangurs.

Krafa vegna ofgreiðslu fyrri eiganda úr hússjóði af fjármunum frá Ríkisskattstjóra vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts hafi svo verið gerð í hússjóð árið 2018 á annan fyrri eiganda og á eigendur í kjallara, án árangus. Álitsbeiðandi telur að húsfélagið skuldi sér vegna endurgreiðslu skatts frá ríkissjóði af vinnu iðnaðarmanna.

Þann 1. júní 2020 hafi eigandi íbúðar á miðhæð sent álitsbeiðanda tölvupóst með fundargerð húsfundar sem hafði verið haldinn nokkrum dögum áður. Álitsbeiðandi hafi skrifað honum ekki löngu seinna og sagt fundinn ólöglegan. Hann hafi svarað og sagt að til fundarins hefði verið boðað með tölvupósti. Álitsbeiðandi hafi ekki fundið tölvupóst hjá sér með fundarboði. Svar hans um tölvupóst dugi ekki. Eitt bréf í póstkassa eða í tölvupósti hefði dugað, en ekkert bréf um fund hafi komið til álitsbeiðanda.

Í júní 2020 hafi jafnframt birst óskiljanleg krafa frá gagnaðila á hendur álitsbeiðanda. Þann 28. júní 2020 hafi álitsbeiðandi sent eiganda íbúðar á miðhæð tölvupóst og viljað vita fyrir hvað krafan væri. Einnig hafi hún farið fram á að skoða stöðu hússjóðs og sjá hvort kröfum í hússjóð hefði verið eytt en hann hafi sagt álitsbeiðanda að lesa fundargerðina og að hann væri sjálfur ekki búinn að komast inn í sjóðinn. Ekkert hafi komið fram í svari hans hvað hafi orðið um kröfurnar vegna ryðstíflunnar og ofgreiðslu úr hússjóði af endurgreiðslu virðisaukaskatts. Álitsbeiðandi hafi enn ekki getað skoðað hússjóðinn. Þá hafi ekki komið skýrt fram í hinni svokölluðu fundargerð hvað nákvæmlega væri verið að krefja um. Álitsbeiðandi fái þannig í hverjum mánuði óútskýrða kröfu frá  gagnaðila til viðbótar við húsgjald og fjárhæðirnar séu aldrei þær sömu.

Farið sé fram á að fallið verði frá ólögmætum kröfum. Þá andmæli álitsbeiðandi kröfum frá gagnaðila á meðan hún eigi ógreiddar kröfur á félagið. Þar að auki andmæli hún því að allar kröfur úr hússjóði fari eftir hlutfallstölum. Því sé mótmælt að öllum fjármunum verði aðeins safnað inn á einn reikning með óskýrum og ruglingslegum hætti.

Í greinargerð gagnaðila segir að vegna kröfu álitsbeiðanda vegna greiðslu fyrir vinnu við losun ryðstíflu í lögn í gólfi íbúðar hennar skuli tekið fram að þau gögn sem fylgt hafi álitsbeiðninni séu fyrst að birtast meðeigendum hennar núna, þrátt fyrir endurteknar beiðnir þeirra um gögnin.

Vegna fundarboðs með móttökukvittun 2. júní 2015 muni eigandi íbúðar í kjallara eftir að hafa móttekið það. Þáverandi eigandi íbúðar á miðhæð hafi talið að fundurinn væri ekki löglega boðaður þar sem álitsbeiðandi hafi ekki verið í stjórn húsfélagsins og eigendur því ekki mætt. Einnig hafði álitsbeiðandi ráðist í viðgerðir án samþykkis annarra eigenda sem hafi viljað að yrði farið í ryðhreinsun á lögnum í sameign, yrði það gert fyrir allt húsið en ekki eina íbúð. Einnig hafi ástandið ekki talist alvarlegt og því hefði átt að halda fund fyrst og ákveða þar aðgerðir áður en ráðist yrði í þær. Vegna húsfundar 8. júní 2015 virðist álitsbeiðandi hafa mætt ein á fundinn og tekið ákvarðanir um að viðgerðir sem hún hafi nú þegar verið búin að láta framkvæma, yrðu greiddar af húsfélaginu.

Þá reiknist gagnaðila til að eigendur íbúðar í kjallara hafi greitt hærra hlutfall en sem nemi þeirra hlut í viðgerðinni.

Afstaða eiganda íbúðar í kjallara sé sú að viðgerðin hafi ekki verið þess eðlis að eignir lægju undir skemmdum og því hefði átt að halda aðalfund sem fari með æðsta vald húsfélags. Þar hefði átt að taka ákvörðun um framkvæmdir fyrir sameignina í heild. Í ljósi þess krefjist eigandi íbúðar í kjallara endurgreiðslu að fjárhæð 30.489 kr. sem hann hafi óvart greitt í heimabanka eftir að álitsbeiðandi hafi sett greiðsluseðil í heimabankann fyrir hönd húsfélagsins. Til vara fari hann fram á að honum verði endurgreiddur mismunurinn að fjárhæð 10.107 kr., verði fallist á kröfu álitsbeiðanda. Afstaða eiganda íbúðar á miðhæð sé sú að farið sé fram á að kröfu álitsbeiðanda um greiðslu úr hússjóði að fjárhæð 101.802 kr. verði hafnað. Af ofangreindum upplýsingum að dæma sé ljóst að krafa álitsbeiðanda sé úr lausu lofti gripin.

Þegar greiðslur í hússjóð séu skoðaðar fyrir árin 2014 til 2016 komi í ljós að álitsbeiðandi, sem hafi verið umsjónarmaður hússjóðs á þeim tíma, hafi krafið aðra eigendur um hússjóðsgjöld en sjálf greitt lægri upphæð, þrátt fyrir hærra eignarhlufall í húsinu. Sé miðað við greiðslur og hlutfallslega eign íbúðar álitsbeiðanda skuldi hún hússjóði 37.761 kr. Farið sé fram á viðurkenningu á því að henni beri að gera upp þessa skuld á núvirði að fjárhæð 43.862 kr. samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands.

Vegna kröfu álitsbeiðanda um endurgreiðslu virðisaukaskatts megi sjá af yfirliti bankareiknings gagnaðila að eigandi íbúðar í kjallara hafi fengið endurgreiðslu að fjárhæð 108.855 kr. þann 14. mars 2017, fyrri eigandi miðhæðar hafi fengið endurgreiðslu að fjárhæð 181.811 kr. sama dag og álitsbeiðandi hafi fengið endurgreiðslu að fjárhæð 178.691 kr. þann 11. maí 2018. Ástæðan fyrir hærri endurgreiðslu til fyrri eiganda miðhæðar en hlutfallsprósenta í sameign gefi til kynna sé sú að hann hafi greitt meira fyrir framkvæmdina en hlutfallstala hafi gefið til um vegna sérframkvæmda á íbúð hans. Ástæðan fyrir seinkun á greiðslu til álitsbeiðanda gæti hafa verið sú að hún hafi ekki greitt sinn hluta til verksins í gegnum hússjóð. Staðreyndin sé aftur á móti sú að endurgreiðslan hafi borist henni.

Gagnaðili fari því fram á að þessari kröfu álitsbeiðanda um endurgreiðslu úr hússjóði að fjárhæð 274.572 kr. verði vísað frá. Hún hafi þegar fengið endurgreiðslu úr hússjóði

Vegna kröfu álitsbeiðanda um að viðurkennt verði að aðalfundur 2020 hafi ekki verið lögmætur hafi núverandi eigendur íbúðar á miðhæð ekki verið í stjórn húsfélagsins fyrir aðalfundinn og verið nýlega búin að kaupa íbúð sína og hafi þau ekki talið það vera í þeirra verkahring að boða til aðalfundar. Það hafi því verið eigendur íbúðar í kjallara sem hafi boðað til aðalfundarins 25. maí 2020. Fyrir liggi tölvupóstur, sendur 13. maí 2020, þar um. Einnig hafi þau hengt upp fundarboð í sameign, þar á meðal á hurð sem leiði niður í kjallara og álitsbeiðandi noti oft. Annað eintak hafi verið hengt á vegg beint á móti hurð álitsbeiðanda. Það sé því ómögulegt að álitsbeiðandi hafi ekki fengið fundarboð í tæka tíð, sérstaklega með tilliti til þess að hún hafi rifið niður fundarboðið í sameign innan sólarhrings frá því að það hafi verið hengt upp. Í bréfi álitsbeiðanda til gagnaðila segi hún að það megi ekki hengja upp nótur í sameign og hún hafi þannig viðurkennt að hafa séð fundarboðið. Fyrir þetta bréf hafði álitsbeiðandi ekki tilkynnt gagnaðilum að hún vildi ekki að fundarboð yrðu hengd upp í sameign. Eigendur íbúðar á miðhæð hafi því hengt fundarboðið upp í sameign að beiðni eigenda íbúðar í kjallara 16. maí 2020. Farið sé fram á að þessari kröfu álitsbeiðanda verði vísað frá.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að hún hafi ekki opnað hússjóðinn árið 2014 heldur 2007. Eigandi miðhæðar hafi ekki beðið um gögn vegna krafnanna fyrr heldur hafi þær verið hundsaðar.

Ryðstíflan hafi verið í sameiginlegu niðurfallsröri en álitsbeiðandi ekki vitað það fyrr en eftir að hafa kallað til pípulagningamann. Álitsbeiðandi hafi spurt einn stíflumanninn hvað myndi gerast ef þau myndu bíða með losun á ryðstíflunni og hvort það myndi flæða aftur út um rörið og hann svarað því játandi. Ekki hafi verið um að ræða hreinsun á ryði úr lögnum heldur hafi þurft að losa ryðstíflu. Álitsbeiðandi hafi talið yfirvofandi hættu vera til staðar vegna flóðsins og skýringa stíflumannsins.

Engin stjórn hafi verið starfandi og fundurinn í júní 2015 verið löglegur þótt álitsbeiðandi hafi verið ein.

Hafi álitsbeiðandi gert villu við útreikning kröfunnar verði það leiðrétt.

Fyrri eigandi miðhæðar hafi komist inn í hússjóðinn árið 2016 og krafið álitsbeiðanda um 3.000.000 kr. árið 2016 fyrir viðgerðir. Hún hafi greitt allar viðgerðir beint til verktaka svo að færslur frá henni komi ekki fram í sjóðnum. Engin endurgreiðsla eða millifærslu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts hafi borist álitsbeiðanda en tvær greiðslur hafi farið inn í eldri reikninga sem álitsbeiðandi hafi greitt úr eigin vasa og komi endurgreiðslu skattsins ekki við. Hin minni hafi verið vegna níu ára prent- og póstgjalda á meðan álitsbeiðandi hafi verið prókúruhafi og greitt allan póst úr eigin vasa. Hin stærri hafi verið hluti af eldri reikningi vegna fjármuna sem álitsbeiðandi hafi greitt úr eigin vasa vegna matsmanns og/eða nauðsynlegra viðgerðarmála. Álitsbeiðandi ráði ekki við orðalag bankans en þetta hafi ekki verið millifærslur. Matsmaður og skýrsla hans hafi verið hluti af nauðsynlegum viðgerðum og hafi lögmaður farið yfir skýrsluna. Álitsbeiðandi viti ekki hvers vegna það standi millifærsla á bankayfirliti en engin millifærsla hafi farið af reikningum til hennar vegna endurgreiðslu skattsins.

Þá sé andsvari gagnaðila vegna lögmæti fundarins mótmælt. Álitsbeiðandi hafi í fyrsta skipti í máli þessu séð tölvupóst eiganda íbúðar í kjallara en álitsbeiðandi hafi fyrir löngu lokað á allan póst frá eigendum í kjallara og fyrri eiganda íbúðar á miðhæð. Ekkert af pósti frá eiganda íbúðar í kjallara hafi borist í pósthólf álitsbeiðanda. Ekki fundarboð, upplýsingar um pípulagningamann eða reikningar. Álitsbeiðandi hafi ekki vitað að fundur hefði verið haldinn árið 2020. Hún hafi upplýst eiganda íbúðar á miðhæð 1. júní 2020 um að hún fengi ekki tölvupósta frá eigendum íbúðar í kjallara.

Miðað við gögn í greinargerð gagnaðila hafi tölvupóstar áfram komið frá eiganda íbúðar í kjallara til eiganda miðhæðar, stílaður bæði á hann og álitsbeiðanda. Pósturinn hafi aldrei verið móttekinn og eigandi miðhæðar hafi vitað frá 1. júní 2020 að álitsbeiðandi sæi ekki póstinn.

Þá gerir álitsbeiðandi nýjar kröfur vegna gagna sem gagnaðilar lögðu fram með greinargerð sinni í máli þessu.

Í athugasemdum gagnaðila eru fyrri sjónarmið ítrekuð. Þá segir vegna kröfu í lið II að útskýringar álitsbeiðanda á því að millifærsla á reikning hennar 11. maí 2018 að fjárhæð 178.691 kr. sé vegna vinnu matsmanns og lögmanns sem hafi unnið skýrslu fyrir hana vegna kröfunnar í kröfulið I, hljómi eins og eftiráskýringar. Skýrt sé að þessi fjárhæð sé vegna endurgreiðslu skattsins.

Fundarboð hafi verið sent með tölvupósti og tilkynningar hengdar upp í sameign með lögformlegum fyrirvara. Álitsbeiðandi hafi valið að loka á pósta frá öðrum eigendum og geti gagnaðili ekki borið ábyrgð á því.

III. Forsendur

Samkvæmt 37. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er eiganda heimilt að gera brýnar ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón á sameign eða einstökum séreignarhlutum og ekki þola bið eftir sameiginlegri ákvörðun húsfélagsins eða stjórnar þess, sé því að skipta. Skuli hann, svo sem frekast sé kostur, gæta þess að slíkar ráðstafanir verði ekki umfangsmeiri og kostnaðarsamari en nauðsyn krefur og telst þá kostnaðurinn sameiginlegur.

Álitsbeiðandi segir að vatn hafi flætt úr röri um gólf í íbúð hennar og hún þegar haft samband við pípulagningaþjónustu. Pípulagnaverktakinn hafi þegar séð að um stíflu væri að ræða og haft samband við stífluþjónustu. Starfsmenn stífluþjónustunnar hafi losað stífluna sem hafi verið í sameiginlegu niðurfallsröri og snúist ágreiningur um greiðsluþátttöku eigenda í reikningi vegna þeirrar vinnu. Álitsbeiðandi segir að hún hafi greitt reikninginn og að eigendur íbúðar í kjallara hafi síðar greitt sinn hlut en eftir standi að eigandi miðhæðar greiði sinn hlut.

Fyrir liggur lýsing starfsmanns stífluþjónustunnar á losun stíflunnar og kemur þar fram að hún hafi verið við eldhúsvask, þurft hafi að saga lögn í sundur og þá komið í ljós að um væri að ræða uppsafnað ryð í 87° hliðargrein í gólfplötu íbúðarinnar í sameiginlegri lögn. Lögnin sé innan veggja og tengi saman hæðarkút við frárennsli frá íbúð álitsbeiðanda við íbúðir á neðri hæð.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd gögn málsins ekki bera annað með sér en að um hafi verið að ræða slíkt ástand að bregðast hafi þurft hratt við þar sem flætt hafi í íbúð álitsbeiðanda vegna stíflu í sameiginlegu niðurfallsröri hússins. Þegar af þeirri ástæðu er fallist á greiðsluskyldu húsfélagsins á grundvelli 37. gr. laga um fjöleignarhús. Eigendum ber því að greiða hlutdeild í umdeildum reikningi í samræmi við eignarhlutfall þeirra í húsinu og þar með þá dráttarvexti sem féllu til þar sem það dróst að greiða reikninginn. Kærunefnd tekur ekki afstöðu til þess hvort krafa álitsbeiðanda gagnvart gagnaðila kunni að vera fyrnd.

Kemur næst til álita krafa álitsbeiðanda um viðurkenningu á því að hún eigi rétt á endurgreiðslu úr hússjóði á virðisaukaskatti vegna vinnu við húsnæðið. Framkvæmdir stóðu yfir árið 2016 og er um að ræða endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna þeirrar vinnu. Gagnaðili segir að tollstjóri hafi endurgreitt hússjóði 457.886 kr. árið 2017 og leggur gagnaðili fram bankayfirlit af reikningi húsfélagsins sem sýnir millifærslu til álitsbeiðanda að fjárhæð 178.691 kr. sem framkvæmd var 11. maí 2018. Þá hafi hún sama ár fengið endurgreiðslur að fjárhæð 14.451 kr. og 1.646 kr. úr hússjóði. Álitsbeiðandi segir að framangreindar millifærslur hafi ekki varðað endurgreiðslu skattsins heldur endurgreiðslu vegna eldri reikninga sem hún hafi greitt úr eigin vasa. Engin gögn liggja til stuðnings þessari fullyrðingu álitsbeiðanda. Telur kærunefnd gögn málsins þannig fremur benda til þess að álitsbeiðandi hafi þegar fengið endurgreiddan skatt af vinnu iðnaðarmanna við húsnæðið árið 2016 og fellst því ekki á kröfu álitsbeiðanda hér um.

Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús skal stjórnin boða skriflega til aðalfundar og með sannanlegum hætti með minnst 8 og mest 20 daga fyrirvara. Búi félagsmaður ekki í húsinu verður hann að tilkynna húsfélaginu um heimilisfang sem senda skal fundarboð til, óski hann eftir að fá það í hendur.

Álitsbeiðandi krefst viðurkenningar á því að húsfundur sem haldinn hafi verið 26. maí 2020 sé ólögmætur. Byggir krafan á því að ekki hafi verið boðað til fundarins með lögmætum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins var boðað til fundarins með tölvupósti eiganda íbúðar í kjallara 13. maí 2020 til allra eigenda. Einnig var fundarboð sett á hurðir í sameign hússins 16. maí 2020 og á vegg sem er á móti hurð að íbúð álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi vísar til þess að hún sé búin að loka fyrir tölvupóstsendingar frá eiganda íbúðar í kjallara og kveðst hún hafa rifið fundarboðið í sameigninni niður þar sem óheimilt sé að hengja þar upp nótur.

Kærunefnd telur að almennt verði að miða við að húsfélögum sé unnt að boða til húsfundar með tölvupóstum og með því að hengja upp fundarboð í sameign hússins. Kærunefnd telur þannig að það að álitsbeiðandi kjósi að móttaka ekki tölvupósta frá einstaka eigendum eða að lesa ekki fundarboð sem eru hengd upp í sameign hússins verði að vera á hennar ábyrgð. Kærunefnd telur að boðun fundarins hafi verið í samræmi við ákvæði 2. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús og verður því ekki fallist á þessa kröfu álitsbeiðanda.

Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1355/2019, segir að áður en nefndin tekur mál til meðferðar skal það að jafnaði hafa hlotið afgreiðslu innan hús­félags.

Í málatilbúnaði álitsbeiðanda fylgdi með lýsing hennar á eldri og núverandi samskiptum innan húsfélagsins. Út frá þeirri lýsingu spruttu kröfur af hálfu gagnaðila sem kærunefnd telur að taka verði til afgreiðslu innan húsfélagsins áður en þær koma til úrlausnar af hálfu nefndarinnar. Þá gerir álitsbeiðandi nokkrar nýjar kröfur í athugasemdum sínum vegna gagna sem gagnaðili lagði fyrst fram við gagnaöflun í máli þessu og telur kærunefnd að sá ágreiningur verði jafnframt að koma til úrlausnar innan húsfélagsins áður en hann kemur til úrlausnar hjá nefndinni. Þessum kröfum aðila er því vísað frá kærunefnd.

 


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að greiða reikning ásamt dráttarvöxtum vegna losunar á ryðstíflu.

Kröfum álitsbeiðanda í liðum II-III er hafnað.

Öðrum kröfum aðila er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 2. júní 2021

f.h. kærunefndar húsamála

 

Auður Björg Jónsdóttir formaður

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira