Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 2/2020

Árið 2020, 20. apríl, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 2/2020 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 27. janúar 2020, kærðu X, kt. [], [], [], Y, kt. [], [], [] og Z, kt. [], [], [], ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 22. mars 2019.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, eftir umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 13. febrúar 2020.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2020, var umsögn sveitarfélagsins send kærendum og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi, dags. 2. mars 2020.

Málið var tekið til úrskurðar 20. apríl 2019.

  1. Málavextir

    Kærendur eiga fasteignina, Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi, sem er 89 fermetra sumarbústaður, byggður árið 2009. Eignin var í upphafi ársins 2019 auglýst til útleigu á vefnum www.airbnb.com. Í lok febrúar 2019 voru gefnir út af Grímsnes- og Grafningshreppi greiðsluseðlar vegna álagðra fasteignagjalda ársins 2019. Greiðsluseðlarnir gáfu til kynna umtalsverða hækkun fasteignagjalda vegna fasteignar kærenda frá því sem verið hafði fyrir árið 2018. Kærendur höfðu samband við sveitarfélagið og óskuðu eftir skýringum á þessari hækkun. Sveitarfélagið gaf þá skýringu að gjaldflokki eignarinnar hefði verið breytt frá fyrra ári og að fasteignaskattur ársins 2019 væri ákvarðaður samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en ekki samkvæmt gjaldflokki a-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna eins og áður hefði verið. Vísaði sveitarfélagið til þess að fasteignin hefði verið auglýst til útleigu og því bæri að skattleggja hana eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða.

    Þann 2. mars 2019 sóttu kærendur um leyfi til heimagistingar í fasteigninni samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og fengu slíkt leyfi útgefið 20. mars 2019. Í kjölfar þess fóru kærendur fram á það við Grímsnes- og Grafningshrepp að fasteignagjöld eignarinnar yrðu endurákvörðuð. Þar sem engin svör bárust við erindinu var það ítrekað af kærendum þann 9. október 2019. Sveitarfélagið svaraði erindi kæranda sama dag þar sem fram kom að fallist hefði verið á að breyta gjaldflokki fasteignarinnar frá og með 20. mars 2019, þ.e. frá þeim degi sem leyfi til heimagistingar var gefið út. Var fasteignaskattur eignarinnar því ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá 20. mars 2019 en samkvæmt c-lið sömu lagagreinar fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til .

    Kærendur vilja ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignarskatts vegna fasteignar þeirra fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019 og hafa því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

  2. Sjónarmið kærenda

    Kærendur gera aðallega þá kröfu að fasteignaskattur vegna fasteignar þeirra að Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir tímabilið 1. janúar til 20. mars 2019, verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en til vara að fasteignaskattur vegna fyrrgreinds tímabils verði einungis ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir þá 28 daga sem eignin var í útleigu en að öðru leyti samkvæmt a-lið áðurnefndrar lagagreinar.

    Kærendur byggja kröfur sínar í málinu á því að sú ákvörðun sveitarfélagsins að miða álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019 við c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 styðjist ekki við fullnægjandi lagaheimildir.

    Kærendur benda á að ákvörðun sveitarfélagsins sé verulega íþyngjandi fyrir þá og hafi umtalsverð áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra. Ákvörðunin hafi ekki verið kærendum ljós fyrr en í byrjun mars 2019 við móttöku á fyrsta greiðsluseðli fasteignagjalda ársins 2019. Þeir hafi þegar í stað hætt allri útleigu á fasteigninni og sótt um leyfi til heimagistingar samkvæmt lögum nr. 85/2007. Hefði kærendum verið það ljóst í upphafi ársins 2019 að fasteignagjöld ársins yrðu ákvörðuð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 hefði fasteignin aldrei verið leigð út án tilskilinna leyfa.

    Þá vísa kærendur til þess að hvergi komi fram í lagaákvæðum um álagningu fasteignagjalda að fasteignir í útleigu, svokallaðri heimagistingu, skuli skattlagðar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir þann tíma sem þær séu auglýstar til útleigu án leyfis til heimagistingar. Þetta fái m.a. stuðning í svari sveitarfélagsins til kærenda, dags. 10. október 2019, þar sem fram komi að þessi framkvæmd taki mið af ,,vinnureglum sveitarstjórnar”. Ekki sé hægt að ætlast til þess að kærendur kunni skil á vinnureglum sveitarstjórnar, enda sé þeim ekki kunnugt um að þær séu birtar opinberlega.

    Kærendur vísa einnig til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvæðinu komi fram að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Kærendur telja einsýnt að sú ákvörðun sveitarfélagsins að ákvarða álagningu fasteignaskatts á fasteign þeirra fyrir umrætt tímabil samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 feli í sér brot á meðalhófsreglu. Markmiðinu með ákvörðuninni hafi auðsýnilega mátt ná með öðrum og mun vægari aðferðum. Þessu til stuðnings vísa kærendur í viðbrögð sín þegar þeim var álagningin ljós, þar sem þeir hafi þegar í stað hætt útleigu eignarinnar og óskað eftir leyfi til heimagistingar. Sveitarfélagið hafi átt þess kost að senda kærendum ábendingu um að leyfi til heimagistingar skorti og gera þeim ljósar afleiðingar þess á álagningu fasteignargjalda ef leyfis yrði ekki aflað.

    Þá benda kærendur á að þeir fái ekki séð á hvaða grundvelli sveitarfélagið byggi þá ákvörðun sína að ákvarða beri fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir allt tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019. Óumdeilt sé að fasteignin hafi aðeins verið í útleigu í 28 daga af þeim 79 dögum sem umrætt tímabil nái yfir. Verði komist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að ákvarða fasteignarskatt eignarinnar á umræddu tímabili samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 hljóti sú heimild einvörðungu að ná til þeirra daga sem fasteignin hafi sannanlega verið í útleigu, þ.e. í 28 daga.

     

  3. Sjónarmið sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps

    Grímsnes- og Grafningshreppur gerir aðallega kröfu um að málinu verði vísað frá yfirfasteignamatsnefnd þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni þann 27. janúar 2019. Vísar sveitarfélagið til þess að kærendur hafi verið upplýstir um endurálagningu fasteignaskatts með tölvupósti, dags. 9. október 2019, en kæra þeirra sé dagsett 27. janúar 2020. Þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi því verið liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað þar sem ekki séu skilyrði til að taka þær til greina. Bent er á að fasteignin hafi verið auglýst til útleigu á vefnum www.airbnb.com á tímabilinu 1. janúar til 20. mars 2019 án þess að hún hafi verið skráð fyrir heimagistingu á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Heimfærsla undir gjaldflokka fasteignaskatts byggi á raunverulegri notkun fasteigna, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006. Það að kærendur hafi ekki fengið útgefið rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 85/2007 breyti ekki þeirri staðreynd að sumarbústaðurinn hafi verið leigður út til ferðamanna og kærendur því nýtt fasteignina fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. til hliðsjónar úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 13/2016 og 11/2017. Því er hafnað af hálfu sveitarfélagsins að það hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart kærendum enda hafi ákvörðun um útleigu alfarið verið í höndum kærenda og þeim verið leiðbeint þegar þess hafi verið óskað.

    Sveitarfélagið vísar til þess að yfirfasteignamatsnefnd hafi í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á sumarbústaði sem nýttir séu hluta úr ári sem gististaðir fyrir ferðamenn, sbr. t.d. úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 9/2017. Álagning samkvæmt c-lið ákvæðisins skuli í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin er nýtt fyrir ferðaþjónustu, sbr. til hliðsjónar úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016. Sveitarfélagið þurfi ekki að bera hallann af því að tilskilins leyfis hafi ekki verið aflað á umræddu tímabili.

    Vegna varakröfu kærenda bendir sveitarfélagið á að það hvernig kærendum tókst til við að nýta sumarbústaðinn í atvinnurekstri sínum geti ekki ráðið ákvörðun um álagningu fasteignaskatts á eignina. Álagning skuli byggja á raunverulegri nýtingu. Þó svo að kærendur hafi tekið ákvörðun um að leigja ekki fasteignina út á því tímabili sem umsókn þeirra um heimagistingu var til meðferðar hjá stjórnvöldum, þ.e. frá 2. - 20. mars 2019, þá hafi fasteignin engu að síður fallið undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á því tímabili. Sveitarfélagið geti ekki borið ábyrgð á því hve langan tíma tók að afla leyfis til heimagistingar. Fasteignin hafi verið auglýst til útleigu á tímabilinu og kærendur sannarlega getað leigt hana út þrátt fyrir að þeir hafi kosið að gera það ekki.

    Sveitarfélagið telur samkvæmt framansögðu að álagning fasteignaskatts á fasteign kærenda fyrir umrætt tímabil byggi alfarið á lögum nr. 4/1995 með tilliti til túlkunar yfirfasteignamatsnefndar.

  4. Athugasemdir kærenda

    Kærendur mótmæla frávísunarkröfu sveitarfélagsins og segja það ekki rétt að þeir hafi verið upplýstir um endurálagningu fasteignagjalda með tölvupósti þann 9. október 2019. Hið rétta sé að sveitarfélagið hafi einungis sent einum kærenda tölvupóst þann dag þar sem hann hafi verið upplýstur um forsendur breyttrar álagningar. Aðrir eigendur eignarinnar hafi hins vegar ekki verið upplýstir með sama hætti um þessar breytingar. Því sé útilokað að líta svo á að kærufrestur hafi byrjað að líða 9. október 2019 þar sem ekki hafi allir eigendur fasteignarinnar verið upplýstir á þeim tíma um endurálagninguna. Þá hafi í áðurnefndum tölvupósti sveitarfélagsins í engu verið vikið að kærufresti til yfirfasteignamatsnefndar. Gera verði þá kröfu til sveitarfélagsins að það upplýsi um kærufrest við birtingu stjórnsýsluákvörðunar, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.

    Kærendur vísa enn fremur til þess að sumarbústaður þeirra hafi á umræddu tímabili verið notaður til eigin nota að undanskildum þeim 28 dögum sem bústaðurinn var í útleigu. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006 komi fram að raunveruleg notkun eigi að ráða því hvernig fasteign flokkist með tilliti til fasteignaskatts. Með hliðsjón af því telja kærendur ljóst að aðeins eigi að fella fasteignina undir gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í þá daga sem fasteignin var raunverulega í útleigu, eða í samtals 28 daga á tímabilinu 1. janúar 2019 til 20. mars 2019.

    Kærendur telja að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 13/2016 hafi ekki fordæmisgildi fyrir það mál sem hér sé til meðferðar. Í því máli hafi viðkomandi sveitarfélag sent tilkynningu fyrirfram til eigenda fasteignar áður en til breytingar á álagningu fasteignaskatts kom og tilkynnt þeim að til stæði að fella fasteign þeirra undir ákvæði c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Engin slík tilkynning hafi verið send í því máli sem hér um ræðir og með réttu hafi hluti kærenda aldrei fengið tilkynningu um endurálagninguna. Þannig hafi sveitarfélagið ekki fylgt meginreglum stjórnsýslulaga við ákvörðunina.

  5. Niðurstaða

I.

Kærendur gera aðallega kröfu um að fasteignaskattur vegna fasteignar þeirra að Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019, verði alfarið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en til vara að álagningunni fyrir fyrrgreint tímabil verði skipt þannig að fasteignaskattur verði ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir þá 28 daga sem eignin var í útleigu en samkvæmt a-lið sömu greinar fyrir annan hluta tímabilsins.

Grímsnes- og Grafningshreppur gerir aðallega kröfu um að málinu verði vísað frá yfirfasteignamatsnefnd þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni, en til vara er þess krafist að öllum kröfum kærenda í málinu verði hafnað.

II.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Ekki er kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds í lögum nr. 4/1995 og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti en þar segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

 

Kærendum var tilkynnt um álagningu fasteignagjalda ársins 2019 með álagningarseðlum, dags. 22. febrúar 2019, en álagningarseðlar sveitarfélagsins voru sendir rafrænt í pósthólf fasteignaeigenda á vefsíðunni www.island.is.

 

Í gögnum málsins kemur fram að einn kærenda hafi sent Grímsnes- og Grafningshreppi tölvupóst þann 25. mars 2019 þar sem hann upplýsti sveitarfélagið um að gefið hefði verið út leyfi til heimagistingar samkvæmt lögum nr. 85/2007 í fasteign kærenda og í ljósi þess óskaði hann eftir því að fasteignagjöld eignarinnar yrðu endurákvörðuð. Ekki verður séð að fyrrgreindu erindi hafi verið svarað af sveitarfélaginu fyrr en 9. október 2019 og þá eftir ítrekun. Í svari sveitarfélagsins kom fram að álagningu fasteignagjalda eignarinnar hefði verið breytt og að sú breyting miðaðist við 20. mars 2019 þegar leyfi til heimagistingar var gefið út. Þá kom einnig fram í svari sveitarfélagsins að hægt væri að kæra ákvörðunina til yfirfasteignamatsnefndar, en ekki var þar getið um kærufrest.

Ljóst er að kærufrestur vegna fyrrgreindrar ákvörðunar sveitarfélagsins var liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd þann 27. janúar 2020. Ekki verður hins vegar séð af gögnum málsins að kærendum hafi verið leiðbeint um kærufrest vegna áðurnefndrar ákvörðunar sveitarfélagsins í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi þess telur yfirfasteignamatsnefnd afsakanlegt að kæran hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests þar sem telja verður að sveitarfélagið hafi vanrækt að veita kærendum leiðbeiningar um kærufrest. Verður málinu því ekki vísað frá yfirfasteignamatsnefnd af þeim sökum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

III.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaður-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind ,,mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.” Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig er almennt talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna en gististaðir í skilningi þeirra laga eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

IV.

Álitaefni þessa máls snýr að því hvernig ákvarða skuli fasteignaskatt á fasteign kæranda að Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019. Af gögnum málsins virðist óumdeilt að kærendur buðu gistingu gegn endurgjaldi í fasteign sinni í upphafi ársins 2019 og auglýstu eignina í því skyni á vefsíðunni www.airbnb.com. Að sögn kærenda var eignin leigð út í 28 daga á því tímabili sem hér um ræðir. Kærendur hafa einnig upplýst að þeir hafi hætt útleigu á fasteigninni í byrjun mars 2019 þegar þeim var ljós ástæða þess að fasteignagjöld eignarinnar fyrir árið 2019 höfðu verið ákvörðuð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og ákváðu þá að sækja þegar í stað um leyfi til heimagistingar samkvæmt 1. mgr. 3 gr. laga nr. 85/2007 sbr. 1. gr. laga nr. 67/2016.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að gisting sem boðin er á vefsíðunni www.airbnb.com sé leyfisskyld, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/2015 og 18/2015, enda sé um að ræða sölu á gistingu sem telst til ferðaþjónustu. Um slíka sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í fyrri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar hefur komið fram að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs, sbr. m.a. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/1995. Í þessu sambandi vísast einnig til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild er með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka.

Talið hefur verið að sveitarfélögum sé heimilt að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á frístundahús (sumarbústaði) sem nýtt eru hluta úr ári sem gististaðir til ferðamanna. Skal álagning samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin er nýtt til ferðaþjónustu en eigendum ber að tilkynna fyrirfram um það tímabil innan hvers árs sem þeir ætla að nýta eignina með þeim hætti, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016.

Með hliðsjón af málsatvikum í því máli sem hér um ræðir og fyrri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar m.a. frá 19. september 2016 í máli nr. 13/2016 og frá 20. febrúar 2018 í máli nr. 13/2017 verður að telja að kærendur hafi nýtt sumarbústað sinn fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, áður en kærendur fengu leyfi til heimagistingar í eigninni þann 20. mars 2019. Því verður að telja að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að ákvarða fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 meðan eignin var nýtt til ferðaþjónustu. Kröfu kærenda um að fasteignaskattur vegna eignarinnar fyrir fyrrgreint tímabil verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er því hafnað.

Kærendur hafa til vara gert þá kröfu að álagningu fasteignaskatts fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019 verði skipt og hún ákvörðuð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir þá 28 daga sem eignin var í útleigu á fyrrgreindu tímabili en samkvæmt a-lið sömu greinar fyrir annan hluta tímabilsins. Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar og tilkynna heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags um það fyrirfram, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2015 og 18/2015. Það fyrirkomulag að eigendur fasteigna geti tilkynnt í lok ákveðins tímabils eða í lok hvers árs hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað er að mati yfirfasteignamatsnefndar andstætt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Óumdeilt er að kærendur tilkynntu ekki um slíka aðgreiningu útleigutímabila fyrirfram vegna ársins 2019. Þó svo að fasteign kærenda hafi eingöngu verið leigð út í 28 daga á því 79 daga tímabili sem hér um ræðir breytir það ekki þeirri staðreynd að ekki liggur annað fyrir í gögnum málsins en að fasteignin hafi verið til reiðu fyrir útleigu til ferðamanna á hinu skilgreinda tímabili, a.m.k. fram í byrjun mars 2019 þegar kærendur tóku ákvörðun um að sækja um leyfi til heimagistingar. Þannig verða kærendur að teljast hafa nýtt sumarbústað sinn til ferðaþjónustu, í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, allt tímabilið og er ekki fallist á að greiða skuli einungis fyrir þá daga sem fasteignin var í útleigu. Það hversu mikil nýting gistirýmisins var innan auglýsts útleigutímabils getur ekki ráðið gjaldflokkun fasteignaskatts. Er því ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um að skipta álagningu fasteignaskatts á téða fasteign eftir nýtingu gistirýmisins á því tímabili sem hér um ræðir og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. sbr. 6. gr. laga nr. 4/1995.

V.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður staðfest sú ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps að fasteignaskattur fasteignar kæranda að Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], verði ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 20. mars 2019 og samkvæmt a-lið sömu lagagreinar fyrir annan hluta ársins 2019.

Úrskurðarorð

Álagning fasteignaskatts vegna Sogsbakka [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2019, eins og henni var breytt 9. október 2019, er staðfest.

 

__________________________________

Björn Jóhannesson

 

        _______________________________                                           ________________________________

                      Axel Hall                                                                         Valgerður Sólnes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum