Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 2/2022

 

Árið 2022, 20. maí, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 2/2022 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 3. febrúar 2022, kærði X, kt. [], [], [], [], ákvörðun Ísafjarðarbæjar varðandi álagningu fasteignaskatts á fasteignina [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], fyrir árið 2022.

Með tölvubréfi, dags. 24. febrúar 2022, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Ísafjarðarbæjar vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst nefndinni með bréfi, dags. 9. mars 2022.

Með tölvubréfi, dags. 17. mars 2022, var umsögn sveitarfélagsins send kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi, dags. 24. mars 2022.

Málið var tekið til úrskurðar 20. maí 2022.

 

I.         Málavextir       

Kærandi er þinglýstur eigandi að 50% eignarhluta í fasteigninni [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], samkvæmt gjafaafsali, dags. 1. desember 1991. Samkvæmt þinglýsingarvottorði eignarinnar er hinn hluti (50%) eignarinnar í eigu dánarbús Y. Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um hvernig skiptum á fyrrgreindu dánarbúi hafi verið háttað. 

Í lok janúar 2022 gaf Ísafjarðarbær út álagningarseðla vegna álagðra fasteignagjalda í sveitarfélaginu fyrir árið 2022. Samkvæmt álagningarseðli fyrir fasteignina [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], var kæranda gert að greiða öll álögð fasteignagjöld vegna eignarinnar en ekki einungis 50% gjaldanna sem eins og áður sagði nemur þinglýstum eignarhluta hans í fasteigninni. Kærandi kveðst hafa óskað eftir því við Ísafjarðarbæ að þetta yrði leiðrétt, þar sem honum bæri einungis að greiða álögð gjöld í samræmi við þinglýstan eignarhlut hans í fasteigninni, en á það hafi ekki verið fallist af hálfu sveitarfélagsins.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.        Sjónarmið kæranda

Af kæru verður ráðið að kærandi geri kröfu um að honum verði einungis gert að greiða 50% af álögðum fasteignaskatti vegna fasteignarinnar að [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], þar sem hann sé einungis þinglýstur eigandi að 50% eignarhluta í jörðinni samkvæmt þinglýstum heimildarskjölum. Því til viðbótar gerir kærandi kröfu um að yfirfasteignamatsnefnd geri sitt ýtrasta til að upplýsa hvaða lögpersónur séu meðeigendur kæranda að jörðinni þar sem embætti sýslumanns hafi ekki getað veitt þær upplýsingar.

Í fylgiskjali með kæru kemur fram að jörðin [] í [] sé skráð að 50% í eigu manns sem hafi látist á árinu 1954. Kærandi sé eigandi að hinum hluta jarðarinnar samkvæmt þinglýsingarbók en ekki hafi tekist að fá niðurstöðu í það hver eða hverjir fara skuli með eignarhald dánarbúsins. Umræddur eignarhlutur hafi komið til skipta samkvæmt erfðafjárskýrslu en enginn af skylduerfingjum dánarbúsins hafi þrátt fyrir það nokkurn tímann verið skráðir fyrir þessum eignarhluta í jörðinni og þá hafi eignarhlutinn heldur ekki verið tilgreindur við skipti á dánarbúum fyrrgreindra skylduerfingja þegar dánarbú þeirra komu til skipta.

Kærandi vísar til þess að á árinu 1969 hafi yfirfasteignamatsnefnd yfirfarið fasteignamat eigna í Vestur-Ísafjarðarsýslu eftir að öllum lögboðnum fyrirvörum hafi verið fullnægt og hafi fjármálaráðherra í framhaldinu samþykkt fasteignamatið. Matskráin hafi verið innsigluð og gegnumdregin en þar komi m.a. fram að Z hafi verið 100% eigandi jarðarinnar. Kærandi hafi síðar eignast hlut Z í jörðinni. Kærandi leiti svara við því hvort þessi skjöl hafi ekkert gildi og jafnframt hvernig yfirfasteignamatsnefnd hafi komist að fyrrgreindri niðurstöðu varðandi eignarhald jarðarinnar og þá hvort hún sé enn sama sinnis. Kærandi óski eftir upplýsingum um hvort fundargerðir nefndarinnar frá þessum árum séu enn til og hvort mögulegt sé að fá aðgang að þeim, en þeirri kröfu til stuðnings vísar kærandi til laga nr. 28/1963 og upplýsingarskyldu stjórnvalda.

III.      Sjónarmið sveitarfélagsins, Ísafjarðarbæjar.

Ísafjarðarbær krefst þess að gjaldskylda kæranda á fasteignaskatti eignarinnar; [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], standi óbreytt í samræmi við álagningarseðil ársins 2022. Þá er krafist frávísunar á öðrum liðum í kröfugerð kæranda.

Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skuli árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar séu fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr. laganna. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga sé kveðið á um að eigandi fasteignar skuli greiði skattinn nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samnings-bundin jarðarnot sé að ræða en þá greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda.

Vísað sé til þess að jörðin [] í [] sé í eigu kæranda, til jafns í óskiptri sameign með Y, en líklegt þyki að dánarbú Y hafi yfirtekið eignarréttindi hans, sbr. skráningu í fasteignaskrá og þinglýsingarbók. Eigendum beri skylda til að greiða fasteignaskatt af eigninni og fylgi fasteignaskattinum lögveð í þeirri fasteign sem hann sé lagður á.

Sveitarfélagið byggir á því að þegar eigendur eða notendur fasteignar séu tveir eða fleiri verði fyrrgreind ákvæði laga nr. 4/1995 ekki skilin með öðrum hætti en að þeir beri sameiginlega óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldanna. Því til stuðnings sé bent á að öll fasteignin standi til tryggingar greiðslu álagðs fasteignaskatts. Í samræmi við það hafi kærandi verið krafinn um greiðslu alls álagðs fasteignaskatts vegna eignarinnar, í samræmi við sameiginlega ábyrgð hans með sameiganda eignarinnar. Þá sé þess að geta að sameigendur í sérstakri sameign beri að meginstefnu til óskipta ábyrgð (in solidum) á skuldbindingum sem stafa af sameigninni gagnvart þriðja manni.

Sveitarfélagið telji að vísa beri frá þeirri kröfu kæranda að yfirfasteignamatsnefnd geri sitt ýtrasta til að upplýsa hvaða lögpersónur séu meðeigendur hans að jörðinni. Að mati sveitarfélagsins falli þessi liður í kröfugerð kæranda utan valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995.

 


 

IV.      Athugasemdir kæranda

Kærandi kveðst taka undir það með sveitarfélaginu að eigendum fasteigna beri að greiða skatt af eignum sínum í samræmi við ákvæði laga nr. 4/1995. Kærandi hafi verið að vonast til þess að það kæmi til með að skýrast með kærunni hverjir væru meðeigendur hans að umræddri fasteign. Hann fái hins vegar ekki betur séð en sveitarfélaginu hafi ekki tekist að skýra það frekar en öðrum sem hann hafi leitað til í þeim efnum. Sveitarfélagið vinni greinilega úr þeim rafrænu gögnum sem því berist og líti á þau sem réttan sannleika og því sé álagning sveitarfélagsins eðlileg út frá þeim gögnum eingöngu. Sveitarfélagið hafi þó haft eitthvað við þessi gögn að athuga því talað sé um að eignarhaldið sé líklega í höndum dánarbúsins, en þeirri ályktun sé kærandi ósammála.

Kærandi kveðst einnig ósammála þeirri túlkun sveitarfélagsins að um solidariska ábyrgð sé að ræða á greiðslu fasteignaskattsins þegar einungis ein lögpersóna sé skráð eigandi, slíkt gangi einfaldlega ekki upp. Hér sé um pro rata ábyrgð að ræða þar sem réttindum og skyldum sé skipt upp, auk þess sem bent sé á að hér sé ekki um viðskiptaskuld að ræða.

Þá bendir kærandi á að hann hafi allt frá árinu 1992 og fram til ársins 2020 verið skráður 100% eigandi fyrrgreindrar fasteignar í fasteignaskrá ríkisins en honum hafi þó verið kunnugt um að látin persóna til áratuga væri skráður meðeigandi hans í þinglýsingarbók. Hann hafi ekki haft miklar áhyggjur af þessu enda fengið fullvissu sýslumanns fyrir því að það væri óþarfi. Síðan hafi afkomandi hins látna komist á snoðir um þessa misræmisskráningu og farið í framhaldinu fram á að skilað yrði inn til sýslumanns einkaskiptagerð vegna dánarbúsins. Ekki hafi þó komið til þess enda löngu búið að skipta dánarbúinu og sýslumaður verið búinn að senda kæranda formlegt erindi þar um. Nú beri hins vegar svo við að í fasteignamati ársins 2020 sé númerið 417067-AAA0 orðið meðeigandi kæranda, sem sé væntanlega einhvers konar kennitala látins manns. Kærandi spyr hvort þetta fái staðist lög og því leiti hann ásjár yfirfasteignamatsnefndar og freisti þess jafnframt að fá upplýsingar um hverjir séu þessir meðeigendur hans, ef þeir eru þá nokkuð til.

V.        Niðurstaða

Kærandi gerir kröfu um að yfirfasteignamatsnefnd geri sitt ýtrasta til að upplýsa hvaða lögpersónur séu meðeigendur kæranda að jörðinni [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], þar sem embætti sýslumanns hafi ekki getað veitt þær upplýsingar. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um valdsvið yfirfasteignamatsnefndar. Þar kemur fram að úrskurðum Þjóðskrár Íslands um gjaldstofn samkvæmt 3. gr. sömu laga megi skjóta til yfirfasteignamatsnefndar auk þess sem nefndin skeri úr um gjaldskyldu komi upp ágreiningur þar að lútandi. Með vísan til þessa telur nefndin það utan valdssviðs hennar að úrskurða um eignarhald á jörðinni. Umræddri kröfu kæranda er því vísað frá nefndinni. Kæranda er þó bent á að mögulegt er að nálgast eldri gögn frá yfirfasteignamatsnefnd á Þjóðskjalasafni.

Eftir stendur ágreiningur um hvort kærandi sé gjaldskyldur vegna alls fasteignaskatts af eyðijörðinni [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], þrátt fyrir að kærandi sé einungis þinglýstur eigandi að 50% hluta jarðarinnar. Telur kærandi að honum beri einungis að greiða álagðan fasteignaskatt jarðarinnar í samræmi við þinglýsta eignarheimild en af hálfu Ísafjarðarbæjar er vísað til þess að sameigendur fasteigna beri sameiginlega og óskipta ábyrgð á greiðslu fasteignaskattsins enda fylgi skattinum lögveð í þeirri fasteign sem hann sé lagður á. 

Af gögnum málsins virðist það óumdeilt að kærandi sé þinglýstur eigandi að 50% eignarhluta í jörðinni [], Ísafjarðarbæ, en 50% eignarhluti jarðarinnar sé þinglýst eign dánarbús. Þó virðast ekki liggja fyrir upplýsingar um skipti á umræddu dánarbúi né í hlut hvaða erfingja helmingur jarðarinnar kom.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá, sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr. laganna. Sveitarstjórn annast álagningu fasteignaskatts og ber eiganda fasteignar að greiða skattinn nema um leigujarðir, leigulóðir og önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða þó greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í lögum nr. 4/1995 er ekki kveðið á um hver réttarstaða sveitarfélaga er gagnvart hverjum og einum eiganda sem eiga fasteign í sérstakri sameign þegar kemur að innheimtu fasteignaskatts. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að við þessar aðstæður gildi sú almenna regla eignarréttar, að hafi með löglegum hætti verið stofnað til skuldbindinga vegna sameignar gagnvart þriðja manni, sé ábyrgð sameigenda gagnvart honum óskipt. Af því leiðir að þótt hver og einn sameigandi beri réttindi og skyldur í samræmi við eignarhlutföll sín geti hann eigi að síður borið fulla ábyrgð á skuldbindingum vegna sameignarinnar, en sameigandi sem greiði kröfu í heilda eða að hluta geti eftir atvikum átt endurkröfu á hendur öðrum sameigendum í samræmi við eignarhlutföll þeirra í sameigninni. Sameigendur, sem eigi fasteign í sérstakri sameign, beri þannig óskipta ábyrgð á greiðslu fasteignaskatts sem lagður sé á fasteignina. 

Með hliðsjón af þessu er það álit yfirfasteignamatsnefndar að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að krefja kæranda um greiðslu álagðs fasteignaskatts vegna fasteignarinnar að [], Ísafjarðarbæ, fnr. [].

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu fasteignaskatts vegna jarðarinnar [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], fyrir árið 2022, staðfest.

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda, X, um að yfirfasteignamatsnefnd geri sitt ýtrasta til að upplýsa hvaða lögpersónur séu meðeigendur kæranda að jörðinni [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], er vísað frá nefndinni.

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar varðandi álagningu fasteignaskatts vegna jarðarinnar [], Ísafjarðarbæ, fnr. [], fyrir árið 2022, er staðfest.

 

          ________________________

                      Áslaug Árnadóttir 

 

_______________________                                     ______________________

                  Axel Hall                                                                     Valgerður Sólnes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum