Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 91/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 91/2015


Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 76/2015; kæra A og B, dags. 8. janúar 2015 og móttekin 15. sama mánaðar. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærandi kærði með skriflegri kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, dags. 8. janúar 2015, það að hann hafi ekki fengið reiknaða leiðréttingu á verðtryggðum fasteignaveðlánum sínum. Kærandi lýsir málsatvikum með þeim hætti að hann hafi talið sig hafa sótt um leiðréttingu 5. júní 2014 á vefsvæðinu leiðrétting.is.  Hann hafi síðar verið að fara yfir skuldayfirlit sitt sem fram hafi komið í fyrirliggjandi gögnum og verið í samskiptum við embætti ríkisskattstjóra vegna þess. Kærandi segir starfsmann ríkisskattstjóra hafa upplýst hann um að frekari útskýringar og leiðréttingar á skuldastöðu hans kæmust að með eðlilegum hætti við úrvinnslu umsóknar hans. Hið sama hafi endurskoðandi hans sagt honum þegar hann ræddi við hann. Kærandi hafi síðan farið inn á vefsvæðið leiðrétting.is aftur  eftir að niðurstöður voru birtar. Kveðst hann þá hafa séð að hann hafi aldrei sótt um leiðréttingu. Hann hafi m.ö.o. farið inn á vefsvæðið 5. júní, fyllt út umsókn sína en ekki hafa staðfest eða sent hana. Kærandi ítrekar í kæru sinni að hann hafi alltaf ætlað sér að sækja um leiðréttingu og að hann hafi ekki skoðað vefinn leiðrétting.is frá 5. júní þar til niðurstaða í öllum þorra leiðréttingarmála lá fyrir. Með vísan til tilgangs laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, óskar kærandi þess að úrskurðarnefndin kanni mál hans og taki þær aðgerðir sem kærandi viðhafði sem gilda umsókn.

            Kærandi sendi tvö fylgiskjöl með kæru sinni. Annars vegar er um að ræða tölvupóst starfsmanns ríkisskattstjóra til hans, dags. 5. júní 2015. Þar er ekki fjallað um umsókn kæranda um leiðréttingu. Hins vegar er útprentun af vefnum leiðrétting.is, dags. 19. maí 2014. Þar má sjá að auður er reitur sem ætlast er til að hakað sé í en þar segir: „Staðfesting. Hér með staðfestir umsækjandi að hafa kynnt sér reglur um öflun og miðlun upplýsinga samanber 6. gr. laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.“ Þar fyrir neðan er reitur sem ber heitið „senda“ og annar sem ber heitið „hætta við“.

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefnd aflaði frá ríkisskattstjóra fór kærandi inn á vefinn leiðrétting.is 19. maí 2015 en ekki eftir það. Er það í samræmi við útprentun kæranda.  Fyrir liggur að ekki var reiknuð út leiðréttingarfjárhæð í tilviki kæranda.  


II.

Kærandi skilaði kæru sinni til úrskurðarnefndar í almennu bréfi. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 skal umsókn um leiðréttingu beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri ákvað að umsókn og málsmeðferð yrði í gegnum vefinn leiðrétting.is. Ekki er tekið á því í lögum nr. 35/2014 hvernig kærumeðferð samkvæmt lögunum skuli vera. Í reglugerð nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, segir í 3. mgr. 10. gr. að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd og birting úrskurða nefndarinnar skuli vera rafræn. Í framkvæmd hefur málsmeðferðin hjá úrskurðarnefndinni farið fram í gegnum vefinn leiðrétting.is. Að mati úrskurðarnefndar verður að liggja fyrir skýr sérlagaheimild ef hægt á að vera að einskorða málsmeðferð kæra við rafræna meðferð. Þar sem slík sérlagaheimild liggur ekki fyrir, heldur aðeins reglugerðarheimild, var kæranda heimilt að senda skriflega kæru til nefndarinnar, enda ljóst að almennt ákvæði 1. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 veitir aðeins heimild fyrir rafrænni stjórnsýslu.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að umsókn kæranda. Af kæru má ráða að óumdeilt er að kærandi sótti ekki um leiðréttingu eða lauk a.m.k. ekki við umsóknarferli sitt. Kæranda var ekki ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, af þeim sökum. Ekki er hægt að skilja kæru á annan veg en að kærandi krefjist þess að litið verði á þá aðgerð hans að fara inn á vefinn leiðrétting.is þann 19. maí 2014 sem svo að hann hafi sótt um leiðréttingu og honum verði ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að umsóknartímabilið hófst 15. maí 2014 og því lauk 1. september 2014. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 átti umsókn um leiðréttingu að vera beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákvað og málsmeðferðin átti að vera rafræn. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 35/2014 kom fram að gert væri ráð fyrir því að ósk um leiðréttingu væri gerð að frumkvæði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði sem nýtt hefði verið til eigin nota á því tímabili sem leiðréttingunni var ætlað að taka til. Með hliðsjón af fjölda umsækjenda var á því byggt að umsóknar- og úrvinnsluferli yrði rafrænt og var ríkisskattstjóra veitt heimild til að ákveða hvernig og á hvaða formi umsækjanda yrði gert að gera grein fyrir umsókn sinni.

Fyrir liggur að ríkisskattstjóri ákvað að umsókn og málsmeðferð yrði í gegnum vefinn leiðrétting.is. Kærandi byggir kröfu sína á því að hann hafi farið inn á vefinn og staðið í þeirri trú að hann hafi lokið umsóknarferlinu en komist að því síðar að hann hafi ekki staðfest umsókn sína.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi sótti ekki um leiðréttingu og honum var því ekki ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð samkvæmt 9. gr. laga nr. 35/2014. Því liggur ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun. Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 26. gr. laga nr. 37/1993 er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd.


Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum