Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2020

Árið 2020, 27. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 10/2020 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 24. ágúst 2020, kærði Hulda Árnadóttir, lögmaður, fyrir hönd Landsvirkjunar, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. í júní 2020, um endurmat fyrir árið 2021 þar sem ákveðið var að skrá og meta til fasteignamats vinnubúðir kæranda við Búrfellsvirkjun, Skeljastöðum 11, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fnr. 220-2843 en um er að eftirtalda matshluta; 280101, skrifstofa, 290101, starfsmannahús, 300101, starfsmannahús, 310101, starfsmannahús, 320101, starfsmannahús, 550101, starfsmannahús og 560101, starfsmannahús

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2020, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Þjóðskrá Íslands og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, vegna kærunnar. Umsögn Þjóðskrár Íslands barst 2. október 2020, og umsögn sveitarfélagsins barst, 10. október 2020.

Með bréfi, dags. 5. október 2020, voru umsagnir Þjóðskrár Íslands og sveitarfélags sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi, dags. 19. október 2020.

Málið var tekið til úrskurðar 27. nóvember 2020.

I.                    Málavextir

Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 7. apríl sl. var Landsvirkjun tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun um fasteignamat og brunabótamat sjö matshluta vinnubúða kæranda við Búrfellsvirkjun, Skeljastöðum 11, Skeiða- og Gnúpverjahreppi í kjölfar áskorunar um brunabótamat, dags. 28. ágúst 2017. Endurmat fasteignamats ársins 2021 var síðan tilkynnt kæranda í júní 2020.

Um er að ræða fasteign kæranda að Búrfellsvirkjun, fnr. 220-2843. Skiptist fasteignin í 71 matshluta en kæran varðar 7 matshluta þeirra. Þessir matshlutar eru vinnubúðir í eigu kæranda sem settar voru upp á fasteigninni sem tímabundin svefn-, matar- og skrifstofuaðstaða fyrir starfsmenn kæranda og samstarfsaðila hans við framkvæmdaeftirlit með byggingu Búrfellsstöðvar II. Framkvæmdatími var áætlaður frá 2016 til 2018 en verkið og þar með notkun búðanna hefur dregist til 2020. Vegna þessa er óvíst hvenær vinnubúðirnar verða fjarlægðar. Vinnubúðir sem þessar hafa verið notaðar við önnur verkefni kæranda og fluttar á milli framkvæmdasvæða, s.s. við Sultartangavirkjun, Kárahnjúkavirkjun og Búðarhálsvirkjun. Vinnubúðunum er einungis ætlað að standa á meðan framkvæmdum stendur við Búrfellsvirkjun II.

Um færanlegar vinnubúðir er að ræða og frágangur þeirra því þannig að unnt er að flytja þær á milli staða og þær settar saman af til þess gerðum einingum sem lagðar eru ofan á trébita. Vinnubúðirnar hvíla á timburásum sem lagðar eru ofan á hellur á malarfyllingu sem eru síðan stagaðar niður með vírum.

Í júní 2020 barst kæranda endurmetið fasteignamat Þjóðskrár Íslands vegna ofangreindra matshluta sem tekur gildi 31. desember 2020 og gildir fyrir árið 2021. Kærandi telur að ekki séu lagaskilyrði til þess að skrá matshlutana í fasteignaskrá og meta þá til fasteignamats enda sé ekki um fasteignir að ræða heldur lausafé. Af þeim sökum hefur kærandi kært framangreinda ákvörðun Þjóðskrár Íslands til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.                  Sjónarmið kæranda.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um skráningu matshlutanna í fasteignaskrá og endurmat þeirra til fasteignamats í júní 2020 verði fellt úr gildi. Þá krefst kærandi þess að yfirfasteignamatsnefnd leggi fyrir Þjóðskrá Íslands að afmá viðkomandi matshluta úr fasteignaskrá og fella niður fasteignamat þeirra.

Kærandi byggir fyrst og fremst á því að hvorki sé lagastoð til að skrá matshlutana í fasteignaskrá né meta þá til fasteignamats þar sem ekki sé um að ræða fasteignir í skilningi laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og hefðbundinnar skilgreiningar fasteignahugtaksins, heldur lausafé. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001 skuli í fasteignaskrá skrá allar fasteignir í landinu. Þá segir í 2. gr. laganna að hverja fasteign skuli meta til verðs eftir því sem næst verði komist á hverjum tíma samkvæmt nánari ákvæðum laganna. Ennfremur segi í 1. mgr. 3. gr. laganna að hugtakið fasteign í skilningi þeirra sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Samkvæmt 1. gr. eldri laga nr. 94/1976 um fasteignaskráningu og fasteignamat, töldust þau mannvirki til fasteigna sem við landið væru tengd. Með setningu laga nr. 6/2001 hafi verið gerð breyting á fasteignarhugtaki laganna til samræmis við hefðbundna skilgreiningu fasteigna í eignarrétti, sbr. fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 3. gr. þeirra. Af framangreindu sé því ljóst að til þess að hljóta skráningu í fasteignaskrá og fá fasteignamat þurfi mannvirki eða hlutar þess að falla innan hugtaksins fasteign.

Til þess að mannvirki teljist varanlega við land skeytt hafi að meginstefnu verið litið til þess hvort mannvirki hafi varanleg tengsl við land í tvennum skilningi, annars vegar hversu varanlegur frágangur sé á tengslum mannvirkis við land og hins vegar hve varanleg réttindi eiganda mannvirkisins séu til að láta það standa á landi. Kærandi telji hvorugt skilyrðanna uppfyllt. Eins og rakið hafi verið sé vinnubúðunum eingöngu ætla að standa í skamman tíma á meðan framkvæmdum við Búrfellsvirkjun II sé ólokið og verði búðirnar þá fjarlægðar. Þá séu vinnubúðirnar settar upp með þeim hætti að auðveldlega megi flytja þær án fyrirvara enda séu þær lagðar ofan á tréstólpa og haldið niðri með vírum, en ekki steyptar í jörðu. Þeim sé því ekki varanlega komið fyrir á svæðinu. Þá megi nefna að vinnubúðirnar séu ekki fylgifé með fasteignum á svæðinu enda séu þær ekki nauðsynlegar til nota á öðrum mannvirkjum. Atvik í þessu máli séu því ekki sambærileg þeirri skipalyftu sem talin var hafa fallið undir fasteignarhugtakið í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar nr. 18/2012. Þessu til viðbótar sé réttur kæranda til þess að vinnubúðirnar standi á svæðinu ekki með þeim hætti að áhrif hafi á eðli þeirra sem lausafé. Sem dæmi um skýringu á fasteignarhugtakinu í tengslum við sambærileg mannvirki vísist til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 14/2020. Þó að ágreiningur málsins hafi verið á sviði skipulagsréttar hafi úrlausnarefnið átt það sammerkt með þessu máli að þar hafi reynt á hvort tilteknum gámi, sem notaður hafi verið við tilraunir á skiljuvatni frá jarðhitaborholum í landi Reykjahlíðar, hafi verið skeytt við land með varanlegum hætti. Gámurinn hafi hvílt ofan á forsteyptum undirstöðum og úrskurðarnefndin hafi talið þær undirstöður ekki vera viðamiklar og að auðvelt væri að fjarlægja þær. Ekki væri því hægt að telja þær jarðfastar eða að þær væru varanlega skeyttar við landið. Kærandi telji að af úrskurðinum megi ráða að umræddur gámur hafi ekki uppfyllt það skilyrði fasteignarhugtaksins að vera varanlega skeyttur við land. Þess beri að geta að frágangur undirstaða umrædds gáms hafi verið mun varanlegri en þeirra vinnubúða sem um sé deilt í þessu máli.

Þá vísar kærandi einnig til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 171/2016. Í málinu hafi reynt á hvort tilteknar vinnubúðir skyldi meta til brunabóta samkvæmt 2. gr. laga nr. 48/1997 um brunatryggingar. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000 sé húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir sem séu varanlega skeyttar við land til tiltekinna afnota. Í ljósi þess að um færanlegar vinnubúðir hafi verið að ræða sem aðeins var komið fyrir í takmarkaðan tíma, sbr. skilgreiningu starfsmannabúða í byggingarreglugerð nr. 112/2012, hafi ekki verið talið að um væri að ræða mannvirki sem væri varanlega skeytt við land.

Til hliðsjónar vísar kærandi til dóms Hæstaréttar 13. júní 1996 í máli nr. 168/1995 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að tiltekinn sumarbústaður teldist til lausafjár en ekki fasteignar enda væri hann ekki skeyttur við land þar sem hann hafi staðið á trébitum. Undirstöður vinnubúða kæranda séu nokkuð sambærilegar undirstöðum sumarbústaðarins í því máli. Til stuðnings því að vinnubúðir kæranda teljist til lausafjár en ekki fasteignar vísar kærandi enn fremur til skilgreiningar á hugtakinu starfsmannabúðir í 77. tölul. greinar 1.2.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 en þar segi að starfsmannabúðir séu færanlegt húsnæði sem ætlað sé til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi. Líkt og fram komi í umræddu ákvæði séu starfsmannabúðir samkvæmt þessari skilgreiningu fluttar tímabundið inn á tiltekin framkvæmdasvæði. Að framkvæmdatíma loknum séu þær fluttar brott vegna annarra framkvæmda eða á geymslusvæði. Telji kærandi því að vinnubúðir hans, sem séu starfsmannabúðir, geti ekki talist fasteign eða byggingar sem varanlega séu skeyttar við jörðu heldur lausafé sem standi tímabundið á viðkomandi stað.

Ákvæðum laga um fasteignaskráningu og fasteignamat hafi verið breytt frá því úrskurður yfirfasteignamatsnefndar nr. 6/1987 hafi verið kveðinn upp en í því máli hafi verið talið að timbureiningarhús teldist fasteign á grundvelli ákvæða eldri laga nr. 94/1976. Að mati kæranda sé lagaumhverfið nú þannig að vinnubúðir sambærilegar þeim sem kærandi hafi við Búrfellsvirkjun teljist ekki til fasteignar í skilningi laga nr. 6/2001. Í ljósi þessara lagabreytinga sé sérstakt tilefni til að fá úrlausn yfirfasteignamatsnefndar um ágreiningsefnið. Með vísan til alls framangreinds beri að taka til greina kröfu kæranda.

III.               Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands segir að árlega sé allt fasteignamat endurmetið, skv. 32. gr. laga nr. 6/2001. Skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla megi að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Þannig miðist fasteignamat 2020 á öllu landinu við verðlag fasteigna í febrúarmánuði 2019. Þróun fasteignaverðs frá þeim tíma og þar til fasteignamat taki gildi 31. desember ár hvert geti ýmist verið til hækkunar eða lækkunar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseignin skuli metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lauk eða eftir að hún sé tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. annast Þjóðskrá Íslands virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamatsins sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fari fram. Skuli matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geta af eldi og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Nánar sé kveðið á um tilhögun brunabótamats í reglugerð nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu og vísist til hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994 geti Þjóðskrá Íslands endurmetið skyldutryggðar húseignir þegar stofnunin sjái ástæðu til og sé það brunabótamat, eins og fyrsta brunabótamat, húseiganda að kostnaðarlausu. Húseiganda sé ætíð heimilt á sinn kostnað að óska eftir endurmati Þjóðskrár Íslands á húseign hans skv. 4. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 6. mgr. 2. gr. sömu laga sé húseiganda sem ekki vilji una mati Þjóðskrár Íslands heimilt að vísa ágreiningi þar um til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 5. gr. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald skuli Fasteignamat ríkisins tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverðs þar sem það eigi við, þegar að virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veiti þeim þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu vegna innheimtu gjaldsins, þ. á m. skráða eigendur húseigna samkvæmt fasteignaskrá. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.

Þá vísar Þjóðskrá Íslands til þess að kærandi byggi jafnframt kröfu sína um ógildingu á þeirri staðreynd að vinnubúðir séu lausafé en ekki fasteign í skilningi laga. Sé vísað til skilgreiningar byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem vinnubúðir séu skilgreindar svo: ,,Starfsmannabúðir – færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.“ Því sé ekki um að ræða fasteign eða byggingar sem séu varanlega skeyttar við jörðu, heldur lausafé.

Þjóðskrá Íslands fellst ekki á að vinnubúðir séu lausafé. Í því sambandi megi t.a.m. vísa til skilgreiningar 3. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 þar sem fram komi að til mannvirkja teljist einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar séu til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.

Þjóðskrá Íslands fellst heldur ekki á þá túlkun kæranda að mannvirkin séu ekki varanlega staðsett að Búrfellsvirkjun og bendi á að mannvirkin séu fest við landið og tengd vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum enda séu búðirnar ætlaðar til svefns, matar, daglegrar dvalar og vinnu. Þá geri lög ekki ráð fyrir öðru en að mannvirki séu varanlega skeytt við landið og sem slík verið mannvirki tengd fyrrgreindum veitum. Þjóðskrá Íslands telji ljóst að röksemdir kæranda þess efnis að hann eigi að geta skráð mannvirki sem og notið allra réttinda sem fylgi skráningu mannvirkisins, svo sem vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum, án þess t.a.m. að greiða lögmæt gjöld fyrir samræmist ekki lögum og reglum. Fylgi skráningu fasteignar ýmis réttindi sem leiði til kostnaðar fyrir viðkomandi sveitarfélag.

Þá byggir Þjóðskrá Íslands á því að skeytingin teljist varanleg og vísar máli sínu til stuðnings til niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 6/1987 þar sem ágreiningur var á milli kæranda og sveitarfélags um skyldu kæranda til að svara fasteignaskatti af tilteknum mannvirkjum, sem tengdust Blönduvirkjun. Í málinu voru timburhús í landi Eiðstaða og Lambasteinsdragi sem áður voru notuð við Hrauneyjafossvirkjun og/eða Sultartangastíflu og sum húsanna við Búrfellsvirkjun. Í lýsingu húsanna sé meðal annars sagt: „Húsin eru þannig sett upp, að þeim er stillt upp á 12,5 x 12,5 cm timburása, sem lagðir eru ofan á hellur á malarfyllingu og stagaðir niður með vírum.“ Í niðurstöðu málsins segir: „Verður ekki talið að, að þau tengsl mannvirkja þeirra, sem í máli þessu greinir, séu svo losaraleg, að þau verði talin til lausafjár en ekki fasteignar í skilningi laga nr. 94/1976 og reglugerðar nr. 406/1978.

Af þeim sökum fellst Þjóðskrá Íslands ekki á þá málsástæðu kæranda að umrædd mannvirki séu ekki varanlega skeytt við land. Það sé mat stofnunarinnar að tengsl húsanna við land séu ekki svo losaraleg að um sé að ræða lausafé. Að mati Þjóðskrár Íslands skipti þar engu þótt húsin eigi aðeins að standa á meðan framkvæmdir á svæðinu standi yfir. Fasteignum sé ætlað að standa um tiltekinn tíma en í skilningi laga og reglna skipti tímalengdin engu máli um það, hvort greiða skuli af þeim tilskilin gjöld eða ekki. Þó svo að húsin séu reist í afmörkuðum tilgangi þá séu þau varanlega skeytt við landið og þar með talin fasteign í skilningi laga. Slík túlkun hafi verið t.a.m. staðfest af yfirfasteignamatsnefnd, svo sem í ofangreindu máli nr. 6/1987.

Með vísan til alls ofangreinds er það álit Þjóðskrár Íslands að lagastoð sé fyrir skráningu og mati á tilgreindri fasteign og að ekki skuli fella niður ákvarðanir stofnunarinnar um að skrá og meta vinnubúðir að Búrfellsvirkjun í fasteignamati og til brunabótamats.

IV.                Umsögn sveitarfélags

Í umsögn sveitarfélagsins, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er tekið undir endurmat Þjóðskrár Íslands á fasteignamati vinnubúða og skrifstofu við Búrfellsvirkjun frá júní 2020. Að mati sveitarfélagsins sé það hafið yfir vafa að umræddar vinnubúðir og skrifstofa teljist til fasteigna sem skuli skrá í fasteignaskrá og því séu ekki efni til að taka kröfur kæranda til greina. Að auki hafi kærandi viðurkennt í verki að skrá skuli matseiningarnar í fasteignaskrá og/eða sýnt af sér tómlæti sem leiði af sér sömu niðurstöðu, þ.e. að hafna beri kröfum kæranda í málinu.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Búrfellsvirkjun sé gert ráð fyrir vinnubúðum á ákveðnum lóðum á framkvæmdatíma við byggingu Búrfellsstöðvar II. Í kæru kæranda komi fram að framkvæmdatími hafi verið áætlaður frá 2016-2018 en verkið hafi dregist til 2020 og óvíst sé hvenær vinnubúðirnar verði fjarlægðar. Vinnubúðirnar hafa því staðið á svæðinu í minnst 5 ár og óvíst hversu lengi þær muni standa. Vinnubúðirnar séu tengdar rafmagni, vatni og fráveitukerfi, þ.e. tengingu við rotþróarkerfi.

Þá segir að Þjóðskrá Íslands hafi birt endurmat sitt í júní 2020, þar sem tilvísaðar vinnubúðir og skrifstofa hafi verið endurmetnar til fasteignamats. Röksemdir kæranda lúti einkum að því að vinnubúðirnar og skrifstofan geti ekki talist fasteignir enda séu mannvirkin ekki við landið skeytt og vinnubúðunum sé einungis ætlað að standa í skamman tíma. Því beri að fella niður fasteignamat matshlutanna og afmá þá úr fasteignaskrá. Þetta geti sveitarfélagið ekki fallist á.

Um skráningu og mat fasteigna fari nú samkvæmt lögum nr. 6/2001 sem leystu af hólmi lög nr. 94/1976. Hugtakið fasteign sé þar skilgreint með hefðbundnum hætti, sem afmarkaður hluti lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega séu við landið skeytt, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þau lög geri hvoru tveggja ráð fyrir að fasteignir séu skráðar sem heild og einnig skuli skrá hluta þeirra og einstök mannvirki sem sérstakar eindir í Landskrá fasteigna. Í 2. gr. laganna segi að hverja fasteign skuli meta til verðs eftir því sem næst verði komist á hverjum tíma og nánar sé kveðið um í lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skuli árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar séu í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá og í 2. mgr. lagagreinarinnar segi að stofn til álagningar fasteignaskatts skuli vera fasteignamat þeirra. Sem fyrr segi varði mál þetta vinnubúðir og skrifstofu sem ætlað sé að standa í afmarkaðan tíma við Búrfellsvirkjun, á meðan framkvæmdir við Búrfellsstöð II standi yfir og einkum um hvort þær teljist fasteignir í skilningi laga nr. 6/2001.

Að mati sveitarfélagsins er hafið yfir vafa að um fasteignir sé að ræða. Frágangur mannvirkjanna sé með þeim hætti að þau hafi varanleg tengsl við landið og að auki hafi þau staðið í um 5 ár á svæðinu og sé ætlað að standa í einhvern tíma til viðbótar. Að mati sveitarfélagsins geti tímalengd þó ekki ráðið niðurstöðu um það hvort um fasteign sé að ræða enda verði mannvirkjum ekki forðað frá fasteignamati á grundvelli yfirlýsinga um brottflutning í óljósri framtíð, þegar flutningur bygginga sé í raun háður ákvörðunum eigenda. Í því samhengi megi benda á að það hafi ekki haft áhrif á skyldu aðila til að greiða gjöld af bráðabirgðahúsnæði, þó því sé einungis ætlað að standa í skamman tíma. Þá séu mannvirkin tengd vatns- og skólplögnum, sem og rafmagni. Megi einnig fullum fetum bera mannvirkin saman við sumarbústaði sem almennt teljist til fasteigna og séu undirorpnir fasteignamati.

Vísað er til þess að yfirfasteignamatsnefnd hafi áður tekið til úrskurðar hvort vinnubúðir sem þessar teljist til fasteigna og skuli þ.a.l. skrá í fasteignaskrá og vera grundvöllur fasteignamats, sbr. mál nr. 6/1987. Talið hafi verið að tengsl bráðabirgðahúsa við land væru ekki svo losaraleg að um lausafé væri að ræða. Skipti þar engu þótt húsin ættu aðeins að standa til 7 ára meðan framkvæmdir á svæðinu, sambærilegar þeim sem hér um ræði, stæðu yfir. Þau hafi verið talin varanlega skeytt við landið og þar með talin fasteign í skilningi laga. Uppsetning vinnubúðanna hafi þar verið nánar lýst með eftirfarandi hætti:

„Húsin eru þannig sett upp, að þeim er stillt upp á 12,5 x 12,5 cm. timburása, sem lagðir eru ofan á hellur á malarfyllingu og stagaðir niður með vírum. eru einingarnar festar við ásana með málmgyrði. Sjálfstætt frárennslikerfi er fyrir hverja húsþyrpingu. Einingarnar hafa verið notaðar, flestar þeirra við Hrauneyjarfossvirkjun (innfluttar 1978-79) eða Sultartangastíflu (innfluttar 1982), en sumar við Búrfellsvirkjun (innfluttar 1967), og hafa verið við fleiri virkjanir.“

 

Uppsetning þeirra vinnubúða við Búrfellsvirkjun sem mál þetta varði sé lýst með sambærilegum hætti í erindi kæranda. Kærandi haldi því fram að úrskurðurinn hafi ekki þýðingu þar sem lagaumhverfið sé nú breytt en úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp í tíð eldri laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976. Þýðing lagabreytinganna sé þó ekki nánar skýrð í erindi kæranda. Sveitarfélagið mótmæli þessum sjónarmiðum enda sé krafan um tengsl mannvirkja við land óbreytt frá því framangreindur úrskurður yfirfasteignamatsnefndar hafi verið kveðinn upp. Ákvæði 2. gr. eldri laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976 var svohljóðandi:

,, Fasteign samkvæmt lögum þessum telst vera annað tveggja:

1.      Land, þ.e. hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja getur talist sjálfstæð eind.

2.      Mannvirki, þ.e. hvert það mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á eða verið við það tengt, með hliðsjón af þeim rétti til lands sem mannvirkinu fylgir.

Ef um er að ræða sérgreindan eignarrétt eða sérstaka notkun einstakra hluta mannvirkja, sem eðlilegt er að skoða sem sjálfstæðar eindir, skal samkvæmt lögum þessum farið með slíka eignarhluta sem fasteignir, enda liggi skipting og eignarhlutföll fyrir í þinglýstum heimildum.”

 

Með hinum nýju lögum hafi verið lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins fasteign til samræmis við hefðbundna skilgreiningu í eignarrétti á hugtakinu, sbr. 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga nr. 6/2001:

,, Fasteign samkvæmt lögum þessum er afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.

Fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skal skrá sem sérstakar eindir í [fasteignaskrá] 1) svo sem hér segir:

    a. land, þ.e. hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja getur talist sjálfstæð eind,

    b. mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á eða verið við það tengt,

    c. séreignarhlutar í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús,

    d. hlutar mannvirkja ef um sérstaka notkun þeirra er að ræða,

    e. ræktun,
    f. hlunnindi,
    g. önnur réttindi tengd fasteignum.

Ráðherra getur með reglugerð ákveðið nánari skráningu samkvæmt framansögðu og að skrá skuli fleiri eindir fasteigna en þær sem taldar eru í 2. mgr.”

Lagabreytingin hafi engin áhrif haft á það hvernig meta beri það hvort mannvirki séu varanlega tengd landi. Þá sé sambærileg skilgreining á þeim eindum sem skuli skrá í fasteignabók. Hafi tilvitnaður úrskurður yfirfasteignamatsnefndar því fullt fordæmisgildi fyrir mál þetta og hafi því verið svarað að sá frágangur sem viðhafður sé við hin umþrættu mannvirki teljist hafa varanleg tengsl við landið. Með vísan til alls framangreinds sé um fasteign að ræða og beri að hafna kröfum kæranda í málinu.

 

Svo sem rakið hafi verið lúti sjónarmið kæranda í reynd ekki að endurmati á skráðu matsverði fasteignanna heldur að því hvort matseiningarnar skuli yfir höfuð skráðar í fasteignaskrá. Sveitarfélagið telji að kærandi hafi viðurkennt í verki að umræddar matseiningar yrðu skráðar í fasteignaskrá til grundvallar fasteignamats. Eignirnar hafi verið skráðar í fasteignaskrá í nokkurn tíma án þess að kærandi hafi andmælt því. Hafi kærandi því í verki viðurkennt skráningu eignanna og/eða sýnt af sér slíkt tómlæti að hafna beri kröfum hans í málinu.

Í kæru kæranda til yfirfasteignamatsnefndar sé ýmsum öðrum röksemdum teflt fram til stuðnings þess að vinnubúðirnar og skrifstofan teljist fremur lausafé en fasteign. Verði hér vikið að þeim sjónarmiðum.

Kærandi vísi til tveggja úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, annars vegar í máli nr. 14/2020 og hins vegar í máli nr. 171/2016 en þar hafi reynt á sérákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010 og laga nr. 48/1994 um brunatryggingar. Hafi málin ekki fordæmisgildi fyrir mál þetta enda reyndi ekki á inntak fasteignahugtaksins. Þá gerir sveitarfélagið athugasemdir við þær forsendur sem þar sé að finna, einkum ályktanir í síðarnefnda málinu þar sem segi að færanlegar starfsmannabúðir séu „eðli máls samkvæmt“ ekki jarðfastar eða varanlega skeyttar við jörð. Niðurstaðan sé ekki nánar rökstudd. Augljóst sé að meta þurfi varanleika slíkra starfsmannabúða í hverju og einu tilviki fyrir sig, einkum með hliðsjón af eldri úrskurði yfirfasteignamatsnefndar sem vísað hafi verið til hér að framan. Þessi afgreiðsla sé ekki í samræmi við það.

Af hálfu sveitarfélagsins sé einnig mótmælt að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 167/1995 hafi þýðingu fyrir það mál sem hér sé til meðferðar. Fyrrgreint dómsmál hafi varðað sumarhús í byggingu, sem hafi staðið á lóð við heimili gerðarþola, sem hafi unnið að fullnaðarfrágangi sumarhússins en fyrirhugað hafi verið að flytja sumarhúsið í land Skriðufells í Gnúpverjahreppi. Við þær aðstæður hafi verið talið að sumarhúsið teldist til lausafjár en fullyrða megi að annað hefði verið upp á teningnum ef búið væri að flytja sumarhúsið á sinn stað. Til skýringa megi benda á að í ritinu Fasteignir og fasteignakaup, eftir Viðar Má Matthíasson, sé undirstrikað að flest sumarhús myndu vafalaust teljast fasteignir eftir að þeim hafi verið fundinn staður og þau sett niður og vitnað til þessa dóms.

Þá sé óljóst af erindi kæranda hvaða þýðingu skilgreining á hugtakinu starfsmannabúðir í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi að hafa fyrir málstað kæranda. Megi þar benda á að samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki teljist starfsmannabúðir til hugtaksins mannvirki og sé sú skilgreining því fremur til stuðnings sjónarmiðum Þjóðskrár Íslands í þessu máli.

Með vísan til alls framanrakins telur sveitarfélagið rétt að hafna kröfum kæranda í málinu.

 

V.                  Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda vegna umsagna sveitarfélags og Þjóðskrár Íslands segir að í fyrsta lagi sé á því byggt í umsögnum bæði Þjóðskrár Íslands og sveitarfélagsins að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 6/1987 hafi fordæmisgildi fyrir þetta mál. Í umsögn sveitarfélagsins sé t.a.m. vísað til þess að setning laga nr. 6/2001 hafi engin áhrif haft á hvernig meta bæri það hvort mannvirki séu varanlega tengd landi.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. eldri laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna hafi fasteign samkvæmt lögunum verið talin m.a. hvert það mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á landi verið við það tengt. Með 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um sama efni hafi fasteignahugtakið verið skilgreint með öðrum hætti, þ.e. sem afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgi og þeim mannvirkjum sem varanlega séu við landið skeytt. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segi um 3. gr.:

„Hér er lögð til breyting frá gildandi lögum á skilgreiningu hugtaksins fasteign. Fyrri skilgreining var í ósamræmi við hefðbundna skilgreiningu á fasteign samkvæmt eignarrétti og auðkenningar á einstökum skikum jarða með landnúmerum. Skilgreiningin fylgir nú hefðbundinni skilgreiningu í eignarrétti…“

Fyrrnefndur úrskurður hafi verið kveðinn upp í gildistíð eldri laga nr. 94/1976 og forsendur hans því reistar á lagaákvæði sem hafi verið í ósamræmi við hefðbundna skilgreiningu á fasteignarhugtakinu. Í gildandi lögum sé á hinn bóginn fylgt hefðbundinni skilgreiningu. Úrskurðurinn hafi því ekki fordæmisgildi í þessu máli enda ljóst að lagaumhverfið hafi breyst.

Í öðru lagi sé á því byggt í fyrrnefndum umsögnum að vinnubúðir kæranda geti ekki talist til lausafjár enda séu þær varanlega skeyttar við landið. Sér í lagi sé vísað til þess að vinnubúðirnar séu tengdar vatns- og skólplögnum, sem og rafmagni, og sem fyrr vísað í forsendur úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 6/1987. Kærandi geti ekki fallist á þessi sjónarmið. Eins og rakið hafi verið hafi lögum um skráningu og mat fasteigna verið breytt frá því sem gilti þegar umræddur úrskurður hafi verið kveðinn upp. Á þeim tíma hafi mátt skilja lögin þannig að það dygði að mannvirki væru tengd landi, s.s. með frárennsliskerfi, til að þau teldust til fasteigna. Þessu hafi verið breytt með lögum nr. 6/2001 og sé aðaláherslan samkvæmt þeim lögum á að mannvirki sé skeytt við land með varanlegum hætti. Þó að vinnubúðirnar séu tengdar vatns- og skólplögnum geti sú tenging ekki talist varanleg í skilningi laganna. Líkt og gildi um festingar vinnubúðanna sé mjög auðvelt að aftengja búðirnar frá lögnum og fjarlægja af staðnum og séu tengingar aðeins til bráðabirgða. Þar megi nefna að búðirnar hafi sitt eigið fráveitukerfi, s.s. rotþró, sem verði fjarlægt á sama tíma og búðirnar. Þessi tenging sé því ekki varanlegri en þau stög sem haldi vinnubúðunum niðri. Þá sé því hafnað sem fram komi í umsögn sveitarfélagsins að bera megi saman vinnubúðir kæranda og hefðbundna sumarbústaði. Fæstir sumarbústaðir hér á landi séu lagðir ofan á forsteyptar plötur og stagaðir niður með vírum með þeim hætti sem gert sé í tilviki vinnubúða kæranda.

Í þriðja lagi sé því mótmælt sem haldið sé fram í umsögn sveitarfélagsins að kærandi hafi fyrir tómlæti glatað rétti sínum til að halda uppi þeim kröfum sem gerðar séu í málinu. Kærð sé skráning og endurmat Þjóðskrár Íslands frá júní 2020 og hafi kæran borist yfirfasteignamatsnefnd innan allra lögmæltra fresta samkvæmt lögum nr. 6/2001. Auk þess eigi sjónarmið um tómlæti á þessu réttarsviði fyrst og fremst við þegar óskað sé endurupptöku á ákvörðunum þegar kærufrestur sé annars liðinn. Svo hátti ekki til í þessu máli. Í þeim tilvikum dugi tómlæti þó ekki eitt og sér til að hafna endurupptöku heldur þurfi að framkvæma heildarmat á aðstæðum öllum, sbr. sjónarmið í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 16/2015. Það sé því fyrst við ósk um endurupptöku fyrri ákvarðana sem tómlætisáhrif komi til skoðunar. Kærandi telji í öllu falli að skilyrði endurupptöku séu uppfyllt, þó það sé ekki úrlausnarefni þessa máls. Ef niðurstaða í málinu verði kæranda hagfelld megi ætla að um sé að ræða nýjar upplýsingar þess eðlis að hefðu þær legið fyrir í fyrri ákvörðunum hefðu þær mögulega leitt til annarrar niðurstöðu, sbr. sjónarmið sem fram komi í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 3/2017. Niðurstaða í þessu máli hafi auk þess fordæmisgildi og varði verulega hagsmuni kæranda. Einnig beri að árétta að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að stjórnsýsluframkvæmd við fasteignaskráningu eigi sér fullnægjandi lagastoð, s.s. um álagningu fasteignagjalda til framtíðar.

Að lokum árétti kærandi að það hafi vissulega þýðingu í þessu máli að hafa hliðsjón af úrlausnum annarra nefnda innan stjórnsýslunnar þar sem reynt hafi á inntak fasteignahugtaksins þó ekki hafi lög nr. 6/2001 verið til skoðunar í þeim málum. Fasteignarhugtakið sé enda samræmt þvert á hin ýmsu svið stjórnsýslunnar. Ennfremur telji kærandi hjálplegt að hafa hliðsjón af skilgreiningu hugtaksins mannvirkis í 12. tölul. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 51. tölul. 1.2.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segi að mannvirki teljist hvers konar jarðföst, manngerð smíð, en einnig tímabundnar og lausar byggingar, s.s. starfsmannabúðir. Starfsmannabúðir teljist því almennt ekki jarðföst mannvirki heldur lausar byggingar.

VI.                Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að þeirri ákvörðun Þjóðskrár Íslands að skrá sem fasteignir nánar tilgreinda sjö matshluta mannvirkis í eigu kæranda við Búrfellsvirkjun, Skeljastöðum 11 í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Matsandlagið tekur nánar tiltekið til vinnubúða kæranda vegna stækkunar virkjunarinnar. Ákvörðun Þjóðskrár Íslands var tekin á þeim grundvelli að um væri að ræða fasteign í merkingu 3. gr. laga nr. 6/2001 sem meta bæri til verðs samkvæmt 2. gr. sömu laga. Getur sveitafélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur þar með lagt fasteignaskatt á matsandlagið, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitafélaga. Kærandi telur á hinn bóginn að matsandlagið teljist ekki fasteign í merkingu 3. gr. laga nr. 6/2001.

Óumdeilt er að matsandlagið, vinnubúðir kæranda, telst til mannvirkis að lögum, þ. á m. samkvæmt lögum nr. 160/2010 og 3. gr. laga nr. 6/2001. Deila aðilar um hvort matsandlagið teljist fasteign í merkingu 3. gr. laga nr. 6/2001. Ráðast úrslit málsins nánar tiltekið af því hvort matsandlagið teljist mannvirki sem varanlega er við landið skeytt í merkingu 1. mgr. 3. gr. laganna.

Áður er fram komið að kærandi beindi erindi 24. ágúst 2020 til yfirfasteignamatsnefndar, þar sem kærð var ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá ótilgreindum degi í júní 2020 um endurmat matsandlagsins, vinnubúða kæranda, fyrir árið 2021. Áður hafði Þjóðskrá Íslands tilkynnt kæranda 7. apríl 2020 að matsandlagið yrði tekið til fasteignamats og brunabótamats. Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 geta hagsmunaaðilar kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Barst kæra kæranda innan þriggja mánaða kærufrests samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er hún þar með tæk til meðferðar fyrir nefndinni.

Samkvæmt lýsingu kæranda tekur matsandlagið til vinnubúða í hans eigu sem settar voru upp á fasteigninni að Búrfellsvirkjun sem tímabundin svefn-, matar-, og skrifstofuaðstaða fyrir starfsmenn kæranda og samstarfsaðila hans við framkvæmdaeftirlit með byggingu Búrfellsstöðvar II. Hafi framkvæmdatími verið áætlaður frá 2016 til 2018 en verkið hafi dregist til 2020 og sé óvíst hvenær vinnubúðirnar verði fjarlægðar. Hafi sömu vinnubúðir áður verið notaðar við önnur verkefni kæranda og fluttar á milli framkvæmdasvæða, þ. á m. Sultartangavirkjun, Kárahnjúkavirkjun og Búðarhálsvirkjun. Sé vinnubúðunum ætlað að standa á meðan framkvæmdir við Búrfellsstöð II vari. Um sé að ræða færanlegar vinnubúðir og sé frágangur þeirra þannig að unnt sé að flytja þær til með einföldum hætti. Séu vinnubúðirnar settar saman af til þess gerðum einingum sem lagðar séu ofan á trébita. Trépallar séu fyrir framan og aftan hurðir á einingunum til að auðvelda aðgengi og snjómokstur. Hvíli vinnubúðareiningarnar á timburásum sem lagðir séu ofan á hellur á malarfyllingu. Séu einingarnar stagaðar niður með vírum. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að af ljósmyndum sem kærandi hefur lagt fyrir yfirfasteignamatsnefnd, sem sýna vinnubúðirnar og undirstöður þeirra, verði skýrlega ráðið að þetta sé rétt lýsing á matsandlaginu. Þetta styðji og teikningar af undirstöðum vinnubúðanna sem kærandi hefur lagt fram. Einnig er fram komið að matsandlagið sé tengt vatnsveitu, rafmagni og fráveitulögnum. Kveður kærandi auðvelt að aftengja búðirnar frá lögnum og fjarlægja af staðnum og séu tengingarnar aðeins til bráðabirgða. Hafi búðirnar til dæmis sitt eigið fráveitukerfi, þ. á m. rotþró, sem verði fjarlægð um leið og búðirnar.

Samkvæmt b. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki, þ. á m. mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á eða verið við það tengt. Í 1. mgr. 3. gr. sömu laga segir að fasteign samkvæmt lögum þessum sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Af þessu verður ráðið að til þess að matsandlagið, vinnubúðir kæranda, geti talist til fasteignar sem skrá skuli í fasteignaskrá þarf mannvirkið að hafa verið gert í landi eða á eða verið við það tengt, svo og að vera varanlega við landið skeytt.

Ákvæði 3. gr. laga nr. 6/2001 kom í lög með 3. gr. laga nr. 47/2000 um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976 með síðari breytingum. Í lögskýringargögnum með ákvæðinu sem varð að 3. gr. laga nr. 47/2000 segir að hér sé lögð til breyting frá gildandi lögum á skilgreiningu hugtaksins fasteign. Fyrri skilgreining hafi verið í ósamræmi við hefðbundna skilgreiningu á fasteign samkvæmt eignarrétti og auðkenningar á einstökum skikum jarða með landnúmerum. Skilgreiningin fylgi nú hefðbundinni skilgreiningu á eignarrétti, þ.e. að fasteign sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgi og mannvirkjum sem varanlega sé við landið skeytt. Jafnframt séu hér skilgreindar svonefndar skráningareindir í Landsskrá fasteigna sem myndi eina fasteign eða mannvirki. Slíkar skráningareindir séu land, mannvirki, séreignarhluta fjöleignarhúsa, hluta mannvirkja, ræktun, hlunnindi og önnur réttindi. Heimilt sé með reglugerð að bæta við fleiri skráningareindum fyrir einstaka hluta fasteigna. Í eldri lögum nr. 94/1976 var ekki að finna áskilnað þess efnis sem nú greinir í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 3. gr. laga nr. 74/2000, um að mannvirki skyldi vera varanlega við landið skeytt, heldur aðeins að til fasteignar teldust þau mannvirki sem við land væru tengd, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1976 og úrskurð yfirfasteignamatsnefndar 18. desember 1987 í máli nr. 6/1987. Hefur sá úrskurður nefndarinnar því ekki fordæmisgildi við úrlausn máls þessa.

Við úrlausn um hvort uppfyllt sé skilyrði þess að mannvirki teljist til fasteignar í merkingu 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001, um að mannvirki séu varanlega við landið skeytt, hefur í réttarframkvæmd verið litið til varanlegra tengsla mannvirkis við land í tvennum skilningi. Annars vegar hversu varanlegur frágangur sé á tengslum mannvirkis við land og hins vegar hve varanleg þau réttindi séu sem eigandi mannvirkis hefur til að láta það standa á landi.

Síðargreinda atriðið lýtur að heimild til þess að láta mannvirkið standa. Í 1. mgr. 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 er fjallað um tengslin milli eignarréttar að landi og eignarréttar að byggingum sem á landi standa og þar segir í 1. mgr. að sá sem hafi þinglýsta eignarheimild að eign njóti einnig slíkrar heimildar að einstökum hlutum hennar, þ. á m. byggingum sem reistar hafi verið eða reistar verði á eigninni, nema fasteignabók nefni annan rétthafa. Að áliti yfirfasteignamatsnefndar skortir ekki á að kærandi njóti varanlegra réttinda til að láta matsandlagið, vinnubúðirnar, standa á landinu sem um er að ræða, því það er enda staðsett nærri öðrum mannvirkjum Búrfellsvirkjunar sem kærandi hefur óumdeilanlega yfir að ráða.

Fyrrgreinda atriðið snýr að ytri frágangi mannvirkis, þ.e. því hversu varanlegur frágangur sé á tengslum mannvirkis við land. Eins og áður er fram komið hefur matsandlagið, vinnubúðir kæranda, tvíþætt tengsl við land. Annars vegar þannig að vinnubúðareiningarnar hvíla á timburásum sem lagðir eru ofan á hellur á malarfyllingu. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að sá frágangur sé ekki með þeim hætti að hann uppfylli áskilnað 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um að mannvirki sé varanlega við landið skeytt enda verður matsandlagið fyrirhafnarlítið flutt af fyrrgreindum undirstöðum sínum og á brott þegar framkvæmdum lýkur og er það beinlínis til þess ætlað. Hins vegar tengist matsandlagið lagnakerfi í þágu vatnsveitu, rafmagns og fráveitu. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að þótt tengsl matsandlagsins verði við þetta varanlegri en ella, sé til þess að líta að tenging þessi sé tímabundin og ætluð til að tryggja lágmarkskröfur um nútímaþægindi sem ekki verði án komist í mannvirkjum sem ætluð eru til búsetu eða vinnu, þ. á m. flytjanlegar starfsmannabúðir. Verði frágangur við þetta ekki svo varanlegur að hann uppfylli fyrrgreindan áskilnað 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001. Það er því niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að matsandlagið teljist ekki fasteign í merkingu 3. gr. laga nr. 6/2001 og geti þar með hvorki sætt skráningu í fasteignaskrá né verið metið til verðs samkvæmt fyrirmælum laganna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er felld úr gildi ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. í júní 2020, um endurmat fasteignamats vinnubúða Búrfellsvirkjunar, Skeljastöðum 11, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fnr. 229-2843, vegna ársins 2021 og lagt fyrir Þjóðskrá að taka málið til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. í júní 2020, um endurmat fasteignamats vinnubúða Búrfellsvirkjunar, Skeljastöðum 11, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fnr. 229-2843, vegna ársins 2021 er felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá að taka málið til meðferðar að nýju.

 

 

___________________________

Björn Jóhannesson

 

_________________________                                                                 ________________________

                  Axel Hall                                                                                            Valgerður Sólnes

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira