Mál nr. 6/2025 Úrskurður 23. janúar 2025
Mál nr. 6/2025 Eiginnafn: Kanína
Hinn 23. janúar 2025 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 6/2025 en erindið barst nefndinni 9. janúar.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Eiginnafnið Kanína tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Kanínu, og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Aftur á móti reynir hér á hvort uppfyllt sé skilyrði um að nafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Nafnið Kanína er leitt af samnafninu kanína sem er heiti vel þekktrar dýrategundar sem oft er höfð sem gæludýr. Þótt nokkur dýraheiti séu einnig notuð sem mannanöfn, svo sem Björn, Úlfur, Arna og Lóa, eru heiti gælu- eða húsdýra almennt ekki notuð sem mannanöfn.
Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að það séu auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi. Jafnframt er bent á að ákvæðið um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé vandmeðfarið þar sem erfitt sé að leggja hlutlægt mat á ama. Áréttað er að ákvæðinu skuli beita mjög varlega og er tekið fram að eðlilegt sé að ákvæðinu sé því aðeins beitt að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega. Þegar svo háttar að fullorðinn einstaklingur sækir um að taka upp nýtt nafn er ekki unnt að fullyrða að nafnið verði nafnbera til ama. Hins vegar verður ekki hjá því komist að hafa í huga að með því að setja nafn á mannanafnaskrá er það um leið orðið mögulegt nafn fyrir nýfædd börn. Mannanafnanefnd ber því að meta hvort nafn sé þess eðlis að það geti orðið barni til ama. Má í því sambandi nefna að í beiðni umsækjanda kemur fram að nafnið hafi fyrst verið brandari en síðan fest við umsækjanda. Telur mannanafnanefnd að nafnið Kanína geti orðið nafnbera til ama og uppfylli því ekki skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn.
Bent skal á að fullveðja einstaklingur sem hefur í hyggju að kjósa sér nafn af einhverjum ástæðum sem að öllu jöfnu kynni að valda barni sem nafnhafa ama, getur í daglegu lífi sínu viðhaft það nafn þótt það fái ekki opinbera skráningu hjá stjórnvöldum og færist ekki á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd hlutast ekki til um gælunöfn, listræn nöfn eða önnur þau nöfn eða nefni sem kunna að tíðkast í daglegu lífi utan opinberrar skráningar.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Kanína er hafnað.