Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 116/2023-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 116/2023

 

Frístundabyggð: Snjómokstur. Vatnsveita.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 15. október 2023, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, móttekin 3. nóvember 2203, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 15. nóvember 2023, frekari skýringar álitsbeiðanda vegna beiðni kærunefndar, dags. 28. apríl 2024, og viðbótargögn sem bárust frá álitsbeiðanda 24. maí 2024, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 6. nóvember.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er umráðamaður tveggja lóða í frístundabyggðinni en gagnaðili er félag um sameiginlega hagsmuni í frístundabyggðinni. 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I. Að viðurkennt verði að þar sem ekki liggi fyrir samþykki aðalfundar fyrir snjómokstri í miðri viku sé gagnaðila óheimilt að greiða kostnað vegna þess.

II. Að viðurkennt verði að félagsmenn sem hafi greitt fyrir rekstur nýrrar vatnsveitu í frístundabyggðinni eigi að geta tengst henni án þess að greiða landeiganda tengigjald.

III. Að viðurkennt verði að félagsmönnum sem ekki hafi tengingu við nýju vatnsveituna beri ekki að greiða kostnað vegna reksturs hennar.

Álitsbeiðandi hefur verið umráðamaður lóðar í frístundabyggðinni í tæp 20 ár. Hún kveður að fyrstu árin hafi deiliskipulag ekki legið fyrir og örfá frístundahús verið til staðar sem hafi öll tengst sömu vatnslögninni. Síðar hafi fólk hafið búsetu í frístundahúsum í byggðinni allt árið um kring. Þannig hafi myndast tvær fylkingar, þ.e. fólk sem noti frístundahús á sumrin og um helgar og síðan fólk sem sé þar búsett. Vegna búsetu fólks allan ársins hring hafi tíðni snjómoksturs aukist og hann jafnvel verið pantaður í miðri viku án þess að samþykki aðalfundar liggi fyrir.

Ný vatnsveita hafi verið tekin í notkun og kostnaður vegna hennar aukist verulega þar sem það hafi þurft að stækka hana í nokkur skipti, greiða gjald og þá hafi þurft að kaupa tankbíl með vatni enda notkun á kerfinu aukist með búsetu í frístundabyggðinni allan ársins hring. Rekstur veitunnar sé sameiginlegur og því einkennilegt að þeir sem þurfi að tengja inn á hana þurfi að greiða landeiganda tengigjald að fjárhæð 350.000 kr.

Gagnaðili kveðst fá styrki frá hreppnum vegna snjómoksturs sem hafi staðið undir kostnaði. Á aðalfundi 7. október 2023 hafi allir reikningar, þar á meðal vegna snjómoksturs, verið samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta og engum mótatkvæðum. 

Gagnaðili geri ekki kröfu um tengigjöld við vatnsveitu og geti því ekki veitt undanþágur. Téður landeigandi hafi verið á aðalfundinum en hann hafi engar athugasemdir fengið varðandi þetta mál frá fundarmönnum.

Það falli undir hlutverk gagnaðila að sjá um gerð og rekstur á sameiginlegum vatnsveitum. Síðasta vetur hafi vatn klárast úr tönkum í þurrkatíð og stjórnin ákveðið að panta vatnsbíl til að koma í veg fyrir frost- og vatnsskemmdir í húsum. Kostnaður vegna þessa á hverja lóð hafi numið um 1.400 kr. Álitsbeiðandi hafi kosið að vera ótengd vatnsveitunni, eins og fleiri í byggðinni, en þrátt fyrir það beri henni að greiða full félagsgjöld. Sömu rök eigi við um sparkvöll á svæðinu til dæmis, sem ekki allir félagsmenn nýti en greiði þó gjöld vegna.

III. Forsendur

Krafa I 

Í fundargerð aðalfundar sem haldinn var 27. október 2019 segir að snjómokstur eigi aðeins að fara fram á löngum helgum og um jól og páska. Tekið var fram að vilji aðilar mokstur á öðrum tímum verði þeir að standa straum af kostnaði vegna þessa sjálfir. Gögn málsins styðja ekki málatilbúnað álitsbeiðanda í þá veru að gagnaðili hafi greitt kostnað vegna snjómoksturs umfram þessa heimild en gagnaðili kveður styrk frá hreppnum hafa staðið straum af kostnaði vegna snjómoksturs í frístundabyggðinni. Álitsbeiðandi hefur ekki hnekkt þessari fullyrðingu en byggir á því að ekki sé fullvíst með að hreppurinn komi framvegis til að með að veita slíkan styrk. Að öllu þessu virtu verður að hafna þessari kröfu álitsbeiðanda enda ekkert sem styður það að gagnaðili hafi farið út fyrir heimildir sínar til greiðsluþátttöku vegna snjómoksturs. Nefndin telur þó tilefni til að benda á að rétt sé að bera upp til atkvæðagreiðslu innan félagsins ef fyrirhugað er að rýmka greiðsluþátttöku í framtíðinni.

Krafa II

Á grundvelli 19. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús fellur það undir hlutverk gagnaðila að taka ákvörðun um gerð og rekstur á sameiginlegum aðveitum og fráveitum. Vegna fjölgunar á frístundahúsum í byggðinni var sett ný vatnsveita í stað þeirrar sem fyrir var, en ekki hafa allir félagsmenn tengst nýju vatnsveitunni, þar á meðal álitsbeiðandi. Krafa álitsbeiðanda varðar lögmæti þess að gagnaðili hafi synjað henni um að tengjast nýju vatnsveitunni nema hún greiði tiltekið gjald til landeiganda fyrir að tengjast veitunni. Samkvæmt svörum álitsbeiðanda við fyrirspurn nefndarinnar er um að ræða sjálfstætt gjald sem landeigandi innheimtir óháð gagnaðila en gagnaðili kveðst í greinargerð sinni ekki geta veitt undanþágur vegna gjaldsins, enda innheimti hann það ekki. Vatnsveitan er í eigu landeigandans en allur rekstur og kostnaður við stækkun hennar er greiddur af gagnaðila. Þar sem ákvæði laga nr. 75/2008 gera ekki ráð fyrir því að landeigandinn verði aðili að málum hjá nefndinni getur ágreiningur um lögmæti þessa gjalds ekki komið til úrlausnar af hálfu nefndarinnar.

Líkt og fyrr segir hefur gagnaðila verið falið lögum samkvæmt að taka ákvarðanir um gerð og rekstur á sameiginlegum aðveitum og fráveitum, sbr. 19. gr. laga nr. 75/2008. Gagnaðili hefur í tilfelli þessu ákveðið að fyrirkomulag vatnsveitu sé með þeim hætti að gerður var samningur við landeiganda um að félagið tæki yfir rekstur á vatnsveitu sem hann kom fyrir í frístundabyggðinni og er í eigu hans. Innifalið í því er að landeigandi innheimtir tiltekið gjald af hverjum og einum félagsmanni fyrir að tengjast vatnsveitunni. Telur nefndin því að félagsmönnum sé ekki stætt á öðru en að greiða gjaldið, enda er það hluti af því fyrirkomulagi sem gagnaðili hefur tekið ákvörðun um vegna vatnsveitu í frístundabyggðinni. Aftur á móti getur nefndin að öðru leyti ekki tekið afstöðu til lögmæti þessa gjalds, enda er landeigandinn ekki aðili að málinu, sbr. það sem fyrr greinir.

Krafa III

Umráðamönnum lóða undir frístundahús er skylt að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008. Á grundvelli 8. tölul. 1. mgr. 20. gr. sömu laga skal taka ákvörðun um árgjald til félagsins á aðalfundi sem skal halda árlega og hefur það verið gert í tilviki gagnaðila. Innifalið í árgjaldinu er kostnaður vegna sameiginlegrar vatnsveitu og á grundvelli 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2008 er umráðamanni lóðar skylt að greiða sinn hluta kostnaðar sem hlýst af ákvörðun sem löglega hefur verið tekin. Að þessum ákvæðum virtum er ljóst að álitsbeiðanda ber að greiða árgjaldið en ekki er unnt að fallast á að hún skuli undanþegin hluta gjaldsins þar sem hún felli sig ekki við ákvörðun meirihluta eigenda um fyrirkomulag sameiginlegrar vatnsveitu í byggðinni.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 6. nóvember 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Sigurlaug Helga Pétursdóttir                                     Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta