Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 82/2021 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 82/2021

 

Notkun bílastæðis. Bygging svala.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 26. ágúst 2021, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 29. september 2021, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 21. október 2021, og athugasemdir gagnaðila, dags. 4. nóvember 2021, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 23. nóvember 2021.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið D, alls fjóra eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í risi en gagnaðilar eru eigendur íbúðar á 1. hæð hússins. Ágreiningur er um notkun gagnaðila á bílastæði sem og byggingu þeirra á svölum.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að gagnaðilum sé óheimilt að leggja bifreið sinni fremst á lóð hússins og útbúa þar bílastæði.
  2. Að viðurkennt verði að gagnaðilum hafi verið óheimilt að setja svalir á húsið í september 2020 með tilheyrandi breytingu á samþykktum teikningum.

Í álitsbeiðni kemur fram að bílskúr í eigu gagnaðila sé staðsettur fyrir aftan húsið á lóð þess en óumdeilt sé að þau hafi umferðarrétt að honum. Engin innkeyrsla sé þó að bílskúrnum heldur sé lítill hluti hellulagður við gangstétt sem gagnaðilar noti sem bílastæði. Þau telji sig eiga bílastæðið og leyfi ekki öðrum eigendum að nota það. Í eignaskiptayfirlýsingu segi að ekkert bílastæði sé heimilað á lóðinni. Gagnaðilar hafi ekki fengið samþykki eigenda fyrir því stæði sem sé þar nú, en það hafi komið fyrir að fleiri bílum sé lagt á lóðinni, þar á meðal húsbílum, eftir endilangri innkeyrslunni þannig að aðgengi að baklóð sé heft.

Undanfarin ár hafi umræður átt sér stað á milli eigenda um að setja svalir utan á hvern eignarhluta og breyta þannig samþykktum teikningum, að fengnum tilskildum leyfum. Hver eigandi sæi um sína svalaframkvæmd þegar hann hefði tök á. Árið 2016 hafi álitsbeiðandi samþykkt svalaframkvæmdir gagnaðila, en það hafi verið teikningar með breytingum á aðaluppdráttum hússins sem nauðsynlegt hafi verið að framkvæma áður en sótt yrði um byggingarleyfi. Þær breytingar hafi fengið tilskilið samþykki yfirvalda, dags. 17. apríl 2018. Þar hafi komið fram að breytingum skyldi lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis. Þá hafi einnig verið skilyrt að ný eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfisins og lokaúttekt byggingarfulltrúa áskilin.

Fram komi í 2.4.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 að þessi tilkynning veiti umsækjanda ekki heimild til að hefja byggingarframkvæmdir. Gagnaðilar hafi ekki sótt um byggingarleyfi en samt byrjað framkvæmdir í september 2020. Á þeim tíma hafi samþykkt byggingaráform verið útrunnið þar sem meira en tvö ár hafi verið liðin frá útgáfu samþykktarinnar. Ásamt því að svalirnar hafi ekki verið byggðar í samræmi við þær teikningar sem álitsbeiðandi hafi samþykkt og legið fyrir árið 2016. Gagnaðilar hefðu því þurft að sækja aftur um breytingu á aðaluppdráttum því að teikningum hafði verið breytt. Ljóst sé því að samþykki álitsbeiðanda hafi ekki legið fyrir eins og svalirnar hafi verið byggðar ásamt því að samþykki hans hafi verið háð þeim skilyrðum að tilskilin leyfi fengjust, sem aldrei hafi fengist.

Í greinargerð gagnaðila segir að óumdeilt sé að bílskúr þeirra sé nýttur sem slíkur, þrátt fyrir að innkeyrsla að honum sé ekki hellulögð alla leið að honum. Jafnframt sé óumdeilt að hluti innkeyrslunnar hafi verið nýttur sem bílastæði frá því að þessu fyrirkomulagi við innkeyrslu að bílskúrnum hafi verið komið á og frá því að gagnaðilar hafi keypt íbúð sína árið 2013. Planið hafi verið útbúið mun fyrr og þessi nýting verið athugasemdalaus þar til nú.

Kærunefnd hefur í mörgum álitsgerðum, svo sem í máli nr. 28/2000, talið að ákvæði 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um fjöleignarhús þýði að eðli máls samkvæmt sé öll innkeyrslan að bílskúr sérnotaflötur bílskúrseigenda, enda beri hann af henni allan kostnað svo sem stofnkostnað, viðhald, umhirðu og fleira. Það leiði því af eðli máls og áðurnefndum 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um fjöleignarhús að fyrir framan bílskúr sé einkabílastæði. Aðstæður hljóti að ráða því í hverju máli fyrir sig hvar í innkeyrslunni að umræddu stæði verði best fyrir komið. Hinn hellulagði hluti innkeyrslu gagnaðila sé eðli málsins samkvæmt hluti innkeyrslunnar og þar með hluti af séreign gagnaðila. Samkvæmt ákvæðum laganna og eðli máls sé gagnaðilum því heimilt að nýta þennan hluta innkeyrslunnar sem bílastæði.

Réttur gagnaðila til að nýta séreign þeirra, sem leiði beint af lögum og eðli máls, gangi framar óljósum ummælum í eignaskiptayfirlýsingu en þau eigi auk þess ekki við í málinu. Í eignaskiptayfirlýsingunni sé fjallað um lóð og bílastæði í sérstökum kafla og segi þar að ekkert bílastæði sé heimilað á lóðinni. Þar sé augljóslega vísað til sameiginlegrar lóðar allra eigenda, enda sé í kjölfarið fjallað um að skyldur og réttindi lóðarinnar skiptist eftir hlutfallstölum. Það eigi ekki við um séreign gagnaðila.

Í eignaskiptayfirlýsingunni felist að á hinni sameiginlegu lóð séu ekki heimiluð bílastæði. Það breyti því þó ekki að innkeyrsla að bílskúr gagnaðila sé séreign þeirra og þeim sé að lögum heimilt að leggja bifreið sinni á þeim hluta innkeyrslunnar sem afmarkaður sé sem slíkur. Innkeyrslan sé ekki hluti af lóðinni eins og það hugtak sé notað í áðurnefndum hluta eignaskiptayfirlýsingarinnar. Bann við heimild til að gera bílastæði á lóðinni taki því ekki til bílastæðisins í innkeyrslunni. Vísað sé að öðru leyti til álits kærunefndar í máli nr. 131/2020.

Í álitsbeiðni sé álitaefnið afmarkað þannig að krafist sé viðurkenningar á því að gagnaðilum sé óheimilt að útbúa bílastæði á þeim hluta innkeyrslunnar sem ágreiningur lúti að. Það hljóti að vera óumdeilt að á þessum hluta innkeyrslunnar hafi nú þegar verið útbúið bílastæði og hafi það fyrirkomulag verið við lýði, bæði þegar gagnaðilar hafi keypt íbúð sína árið 2013 sem og þegar álitsbeiðandi hafi keypt íbúð sína árið 2015. Kærunefnd geti því einungis sett fram álit á því hvort gagnaðilum sé heimilt að nýta bílastæðið.

Í öðru lagi sé krafist viðurkenningar á því að gagnaðilum hafi verið óheimilt að setja svalir á húsið í september 2020. Engar kröfur séu gerðar um að viðurkennd verði skylda til að fjarlægja svalirnar. Gagnaðilar hafi þegar reist þær og feli álitsbeiðnin þannig í sér lögspurningu. Þegar af þeirri ástæðu hafi álitsbeiðandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunefndar og beri að vísa þessum hluta frá en taki nefndin þennan hluta til skoðunar sé einsýnt að hafna beri kröfunni.

Um byggingu svala hafi ítrekað verið fjallað á húsfundum. Á árinu 2016 hafi náðst samkomulag allra eigenda um byggingu svala á öllum þremur hæðum hússins. Af því tilefni hafi allir eigendur undirritað yfirlýsingu 4. ágúst 2016 þar sem bygging svala á norðausturhlið hafi verið heimiluð. Yfirlýsingin hafi verið skilyrðislaus og ótímabundin.

Gagnaðilar hafi hafist handa við framkvæmdir á grundvelli yfirlýsingarinnar eftir að hún hafi legið fyrir. Þær svalir sem gagnaðilar hafi nú reist séu alfarið í samræmi við teikningar sem hafi fylgt yfirlýsingunni. Fullyrðingar um annað séu rangar, enda órökstuddar með öllu. Þar sem álitsbeiðandi hafi þannig veitt samþykki sitt fyrir byggingu svalanna verði þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum hans, sbr. til hliðsjónar álit í máli kærunefndar nr. 129/2020.

Samþykki álitsbeiðanda og annarra eigenda sé einkaréttarlegur samningur sem ráðstafi hagsmunum aðila hans með lögmætum og óafturkræfum hætti. Jafnframt uppfylli samningurinn skilyrði laga um fjöleignarhús fyrir því að teljast samþykki allra eigenda við slíkum ráðstöfunum. Við þetta samþykki séu eigendur bundnir, þar með talið álitsbeiðandi. Þær röksemdir, sem nú sé byggt á í álitsbeiðni um að umrætt samþykki hafi verið skilyrt og að samþykki yfirvalda fyrir byggingu svalanna hafi verið haldið annmörkum, séu eftiráskýringar. Algjörlega sé óútskýrt í álitsbeiðni hvernig þessir meintu formannmarkar eigi að leiða til þess að hinn einkaréttarlegi samningur um byggingu sé fallinn niður eða að hann sé ógildur.

Hvað sem því líði sé ótvírætt að öll tilskilin leyfi liggi fyrir um framkvæmdina. Árið 2017 hafi gagnaðilar sótt um leyfi til að byggja svalirnar, ásamt eigendum 2. hæðar og álitsbeiðanda. Í framhaldi af því hafi málið farið í grenndarkynningu sem hafi verið athugasemdalaus og samþykki byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdinni hafi verið gefið út 17. apríl 2018 með því eina skilyrði að lokaúttekt væri áskilin. Formreglur um gerð skráningatöflu hafi leitt til þess að útgáfa formlegs byggingarleyfis hafi tafist. Gagnaðilar hafi byrjað framkvæmdir áður en leyfið hafi verið gefið út, en sótt um samþykki fyrir þeim þegar þeim hafi verið lokið. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hafi gefið samþykki fyrir breytingunni 21. september 2021. Eini fyrirvarinn á því hafi verið sá að uppfæra skuli eignaskiptayfirlýsingu hússins til samræmis við breytinguna, sem gagnaðilar muni gera.

Af samþykki borgaryfirvalda leiði að meintir ágallar á framkvæmdinni teljist ekki lengur fyrir hendi. Borgaryfirvöld, sem séu eini aðilinn sem mögulega hefði getað byggt á umræddum ágöllum, muni ekki gera það úr þessu. Hinir meintu ágallar geti ekki haft nein réttaráhrif gagnvart gagnaðilum.

Þá skuli það ítrekað að álitsbeiðandi geti ekki með hlutlægum hætti byggt einkaréttarlegar kröfur á mögulegum ágöllum sem lýsi sér í því að formkröfum byggingaryfirvalda hafi ekki verið fylgt. Í það minnsta verði álitsbeiðandi að sýna fram á orsakasamband á milli hinna meintu ágalla og þess að hann hafi orðið fyrir réttarskerðingu. Mögulegir ágallar á opinberum leyfum eða formkröfum hafi engin áhrif á að álitsbeiðandi hafi með einkaréttarlegum gerningi ráðstafað hagsmunum sínum með bindandi hætti þegar hann hafi samþykkt breytinguna. Það samþykki verði hvorki afturkallað né ógilt á grundvelli sjónarmiða um meinta ágalla á opinberum leyfum.

Að síðustu beri að halda því til að haga að dómaframkvæmd Hæstaréttar sé skýr þegar komi að kröfum um að fjarlægja mannvirki á grundvelli grenndarsjónarmiða, hyggist álitsbeiðandi tengja kröfu sína slíkum sjónarmiðum síðar meir. Í öllum þeim dómum þar sem fallist hafi verið á að mannvirki skuli fjarlægt hafi þurft að vera til staðar þrjú grundvallaratriði. Í fyrsta lagi brot á einhverjum þeim reglum sem gildi um öflun leyfis til framkvæmdarinnar, í öðru lagi að framkvæmdaraðili sé í vondri trú um annars vegar umrædd brot og hins vegar afstöðu gagnaðila til framkvæmdarinnar og í þriðja lagi að brot á útgáfu leyfanna hafi leitt til þess að gagnaðili hafi orðið af rétti til að hafa áhrif á framkvæmdina. Þessi aðferðafræði eigi sér skýrt fordæmi í dómum Hæstaréttar í málum nr. 444/2008, 406/2010 og 138/2012. Ekkert framangreindra grundvallaratriða eigi við í þessu máli.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að samkvæmt upplýsingum fyrri eigenda hafi stæðið verið nýtt af öllum eigendum en ekki sem séreign eignarhluta gagnaðila. Þannig hafi verið sátt með stæðið, líkt og álitsbeiðandi hafi lagt undir gagnaðila en hann ítrekað hafnað.

Í 9 tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús komi fram að einkabílastæði fyrir framan bílskúr sé í séreign. Hellulagða bílastæðið sé þó ekki fyrir framan bílskúrinn heldur fremst á lóðinni. Þótt gagnaðilar eigi skilyrðislausan rétt til að komast að bílskúr sínum sé ekki þar með sagt að innkeyrslan sé í séreign, enda ekki minnst á það í eignaskiptayfirlýsingunni.

Lögin eigi ekki við þann hluta lóðarinnar sem gagnaðilar nýti sem bílastæði og sé eignaskiptayfirlýsingin skýr hvað þetta varði. Þá segi í 6. gr. laga um fjöleignarhús að allir þeir hlutar lóðar sem ekki séu ótvírætt í séreign séu í sameign.

Vísað sé til álits kærunefndar í máli nr. 131/2020 og 37/2004. Bílskúr gagnaðila sé nýttur sem geymsla. Einnig sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 388/2010.

Ótvírætt sé að átt sé við alla lóð hússins í eignaskiptayfirlýsingunni eins og almennt í öllum eignaskiptayfirlýsingum. Væri aftur á móti hluti lóðarinnar í séreign væri það sérstaklega tekið fram en það hefði ekki í för með sér að hann væri ekki hluti af lóðinni. Fullyrðing gagnaðila um að séreign þeirra sé ekki hluti af lóðinni þar sem fram komi í eignaskiptayfirlýsingunni að réttindi og skyldur lóðarinnar skiptist eftir hlutfallstölum, ýti enn frekar undir afstöðu álitsbeiðanda um að umrætt svæði sé í sameign. 

Því sé alfarið hafnað að samþykki álitsbeiðanda fyrir svölum hafi verið án skilyrða. Eðli málsins samkvæmt sé það krafa eigenda að viðbygging við húsið sé byggð eftir samþykktum teikningum og samþykkt af byggingaryfirvöldum. Þá hafi það ekki verið fyrr en álitsbeiðandi hafi tilkynnt óleyfisframkvæmdina til byggingarfulltrúa að gagnaðilar hafi sótt um samþykki.

Byggingarfulltrúi eigi ekki að gefa út byggingarleyfi nema samþykki eigenda samkvæmt lögum um fjöleignarhús liggi fyrir. Samþykki álitsbeiðanda hafi legið fyrir eins og teikningarnar hafi verið árið 2016. Sú mynd sem fylgi samþykki eigenda sé uppkast sem gagnaðilar hafi gert en það sé ekki eftir arkitekt. Sjá megi að teikningar arkitekts sem Reykjavíkurborg hafi samþykkt, séu ekki eins. Núverandi útlit svalanna og svalahurðar sem komin sé upp sé ekki samkvæmt því sem arkitekt hafi lagt upp með og álitsbeiðandi samþykkt. Þá sé teikningin ekki sérteikning heldur breyting á aðaluppdráttum hússins.

Gagnaðilar hafi brotið einkaréttarlegan samning á milli eigenda þar sem þau hafi ekki viljað samþykkja svalir við eignarhluta álitsbeiðanda. Það gefi augaleið að hefði álitsbeiðandi vitað að gagnaðilar ætluðu ekki að samþykkja svalir við hans eignarhluta hefði hann aldrei samþykkt svalir við eignarhluta þeirra. 

Hefðu gagnaðilar sótt aftur um breytingu á aðaluppdráttum eins og þeim hafi borið hefði álitsbeiðandi ekki veitt samþykki sitt, enda hafi gagnaðilar verið búnir að brjóta samkomulagið þeirra á milli þar sem þau neiti álitsbeiðanda um svalir við hans eignarhlut.

Í athugasemdum gagnaðila segir að aðstæður við húsið séu þannig að frá götu liggi innkeyrsla að bílskúr gagnaðila. Op sé á steingirðingu umhverfis fasteignina sem marki innkeyrsluna og skiptist hún í hellulagt stæði næst götunni og grasblett upp að bílskúrnum. Eðli málsins samkvæmt geti bílastæðið ekki verið í sameign. Væri það svo hefðu gagnaðilar ekki óhindraðan aðgang að bílskúrnum sem sé frumforsenda þess að hægt sé að nýta bílskúrinn. Því sé hafnað sem röngu og andstæðu samkvæmt lögum um fjöleignarhús og eðli máls að umrætt stæði sé í sameign.

Það sé ótvírætt af ákvæðum laga um fjöleignarhús og framkvæmd kærunefndar að bílastæði við bílskúra þurfi ekki að vera alveg upp við þá til að teljast séreign. Bílastæðin geti verið spölkorn frá sjálfri bílskúrsbyggingunni, en skilyrðið sé að bílastæðið sé í innkeyrslu að bílskúrnum. Þess háttar bílastæði teljist séreign þess sem eigi bílskúrinn, sbr. meðal annars álit kærunefndar í málum nr. 28/2000 og 131/2020.

Bílskúrinn sé nýttur sem bílskúr og fylgi honum öll réttindi sem slíkri byggingu eigi að fylgja. Áréttað sé til dæmis að ekki sé búið í bílskúrnum. Að þessu leyti sé grundvallarmunur á málavöxtum í þessu máli og þeim sem hafi verið til meðferðar í máli kærunefndar nr. 131/2020. Þar sem bílskúrinn sé og hafi alltaf verið nýttur sem slíkur verði að komst að þeirri niðurstöðu að innkeyrslan öll sé sérnotaflötur gagnaðila.

Lög um fjöleignarhús eigi við um allt húsið og lóð þess, þar með talið bílastæði, sbr. 1. gr. laganna. Lögin eigi því við um bílastæðið og það álitaefni sem hér sé til úrlausnar.

Það sé rangt að gagnaðilar vilji ekki samþykkja svalir við eignarhluta álitsbeiðanda. Slíkt samþykki liggi fyrir og sé sama samþykki og svalagerð gagnaðila byggi á. Það liggi aftur á móti ekki fyrir samþykki við því að hann reisi annars konar svalir á öðrum stað á húsinu, en það sé sú krafa sem hann hafi nýlega sett fram og hafi orðið kveikjan að deilum í húsinu.

III. Forsendur

Samkvæmt 4. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða lóðarhluti. Samkvæmt 6. gr. sömu laga eru allir þeir hlutar lóðar sem ekki eru ótvírætt í séreign, í sameign. Í 5. tölul. 8. gr. kemur fram að undir sameign fjöleignarhúss falli öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni, þar með talið bílastæði nema þinglýstar heimildir kveði á um að það sé séreign eða það byggist á eðli máls. Í 9. tölul. 5. gr. sömu laga kemur fram að undir séreign falli hluti lóðar, til dæmis bílastæði, sem sé séreign samkvæmt þinglýstum heimildum eða eðli máls, svo sem einkabílastæði fyrir framan bílskúr.

Gagnaðilar eiga bílskúr á lóð hússins. Í eignaskiptayfirlýsingu hússins, innfærðri til þinglýsingar 24. mars 2013, segir í kafla um lóð og bílastæði að ekkert bílastæði sé heimilað á lóðinni.

Kærunefnd telur að réttur eiganda bílskúrs til að keyra að honum og frá sé skilyrðislaus og hefur í mörgum álitsgerðum talið að ákvæði 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um fjöleignarhús þýði að eðli máls samkvæmt sé öll innkeyrsla að bílskúr sérafnotaflötur bílskúrseiganda, enda beri hann af henni allan kostnað, svo sem stofnkostnað, viðhald, umhirðu og fleira. Í máli þessu háttar svo til að ekki hefur verið lögð innkeyrsla alla leið frá götu að bílskúrnum heldur er svæðið fyrir framan hann grasilagt þar til kemur að téðu bílastæði, sem liggur við götuna í áttina að bílskúrnum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvenær bílastæðið var útbúið eða af hverjum en það var þegar til staðar þegar báðir aðilar keyptu eignarhluta sína í húsinu. Þannig er ekki unnt að fallast á kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðilum hafi verið óheimilt að útbúa bílastæðið. Þá telur kærunefnd að þrátt fyrir að innkeyrslan að bílskúrnum sé að hluta til grasilögð beri að líta svo á að um sé að ræða sérafnotaflöt gagnaðila með vísan til 9. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús, enda telur nefndin að í því ákvæði felist að tryggja eiganda óhindrað aðgengi að bílskúr sínum. Þrátt fyrir ákvæði í eignaskiptayfirlýsing um að bílastæði séu óheimil á lóðinni er ljóst að stæðið var útbúið og það áður en aðilar þessa máls eignuðust hlut í húsinu. Þar sem gagnaðilar eiga óhindraðan aðgang að bílskúr sínum geta þeir einir nýtt stæðið og er kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðilum sé óheimilt að nýta það því hafnað.

Gagnaðilar fara fram á frávísun kröfu álitsbeiðanda í lið II á þeirri forsendu að um lögspurningu sé að ræða. Þau benda á að svalirnar hafi þegar verið settar upp og engin krafa verið gerð um að þær verði teknar niður. Kærunefnd telur gögn málsins bera með sér að ágreiningur sé til staðar á milli aðila hér um og hefur álitsbeiðandi til að mynda krafist þess að gagnaðilar samþykki uppsetningu hans á svölum en að öðrum kosti muni hann fara fram á að svalir gagnaðila verði niður teknar, sbr. bréf Húseigendafélagsins fyrir hönd álitsbeiðanda, dags. 30. apríl 2021. Kærunefnd telur því að rétt sé að leyst verði úr þessu ágreiningsefni.

Í 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu, verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, sé um að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal á útliti hússins.

Fyrir liggur samþykki allra eigenda fyrir uppsetningu svala á norðausturhlið hússins samkvæmt meðfylgjandi teikningu, dags. 4. ágúst 2016. Álitsbeiðandi byggir á því að svalir þær sem gagnaðilar settu upp árið 2020 hafi ekki verið í samræmi við teikningar sem fyrrnefnt samþykki hafi verið bundið við. Gagnaðilar mótmæla þessu og segja að svalirnar séu í samræmi við teikningarnar. Telur kærunefnd álitsbeiðanda ekki hafa fært sönnur fyrir að samþykki hans fyrir byggingu svala hafi verið bundið við sérstaka teikningu eða að þær svalir sem reistar hafi verið séu svo ólíkar þeirri teikningu að útheimt hefði þurft nýtt samþykki. Þá telur nefndin það ekki hafa áhrif á samþykki eigenda fyrir uppsetningu svala á grundvelli laga um fjöleignarhús, þrátt fyrir að tímarammi byggingarleyfis hafi runnið út.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 23. nóvember 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira