Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 119/2021 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 15. febrúar 2022

í máli nr. 119/2021

 

A ehf.

gegn

B ehf.

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Aldís Ingimarsdóttir verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A ehf.

Varnaraðili: B ehf.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að honum hafi verið heimilt að rifta leigusamningi aðila með vísan til 6. tölul. 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Einnig krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt mati kærunefndar, sbr. 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Með kæru, móttekinni 7. desember 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 10. desember 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 27. desember 2021, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 5. janúar 2022, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 12. janúar 2022, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 18. janúar 2022. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti, dags. 21. janúar 2022, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 27. janúar 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 15. mars 2021 til 31. mars 2022 um leigu sóknaraðila á skrifstofurými í eigu varnaraðila að C. Ágreiningur er um lögmæti riftunar sóknaraðila á leigusamningnum.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að við undirritun leigusamningsins hafi hann talið að venjan væri að gera samninga til eins árs í senn en unnt væri að segja þeim upp með þrjátíu daga fyrirvara hvenær sem væri á tímabilinu. Sóknaraðili hafi litið á ráðstöfunina sem tímabundna á meðan hann væri að leita að hentugra húsnæði. Samkvæmt munnlegum upplýsingum varnaraðila og óskýrum og illskiljanlegum skilmálum um uppsögn leigusamningsins hafi sóknaraðili þannig verið í góðri trú um að þrjátíu daga uppsagnarfrestur væri í gildi, auk þess sem leigufélag í eigu varnaraðila tiltaki á vefsíðu sinni að boðið sé upp á sveigjanlega samninga, hvort sem það sé fyrir eina klukkustund eða nokkur ár.

Í lok sumars 2021 hafi sóknaraðili fengið tilboð um skrifstofuhúsnæði nær heimili sínu og á hagstæðari kjörum. Því hafi hann farið þess á leit við varnaraðila að segja upp leigusamningnum með þrjátíu daga fyrirvara 26. október 2021 en varnaraðili hafnað því. Sóknaraðili hafi því ekki séð sér annað fært en að rifta samningnum og varnaraðili mótmælt ástæðum riftunarinnar. Í kjölfarið hafi sóknaraðili leitað eftir því að aðilar kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um styttri uppsagnarfrest en því hafi ekki verið svarað.

Riftun sóknaraðila sé á því byggð að brotið hafi verið í bága við leiguskilmála og þá sér í lagi 6., 8., 11., 14., 21. og 31. gr., auk reglna um rafræna vöktun. Vegna brots á 6. gr. hafi aðgangsstjórnunar að rýminu ekki verið gætt og þar með öryggi rýmisins stefnt í hættu. Móttaka við inngang á jarðhæð hafi aldrei verið mönnuð og heldur ekki sú sem hafi verið uppi í almenna rýminu, en á vefsíðu varnaraðila segi að starfsfólk eigi að vera í móttöku. Hurð sem leiði inn í almenna rýmið á 3. hæð hafi oftar en ekki verið opin upp á gátt og mikil truflun af viðskiptavinum annarra fyrirtækja og erfitt hafi verið að ná í starfsfólk varnaraðila til að aðstoða þá viðskiptavini. Auk þess hafi aðgangsstýring á lyftu ekki verið virk á almennum vinnutíma svo að í raun hafi hver sem er getað komið í rýmið að vild.

Varðandi brot á 8. gr. hafi ítrekað verið mikill hávaði í sameiginlegum rýmum vegna skorts á hljóðvist. Þótt hurð væri lokuð að skrifstofu sóknaraðila hafi borist þangað hljóð frá aðliggjandi skrifstofu. Mikið hafi verið um framkvæmdir í húsinu og fólk labbað upp og niður gangana á símafundum.

Varðandi brot á 11. gr. hafi nánast daglega farið fram fundir í fremsta rými á Hafnartorgi. Bæði hafi verið um að ræða fjarfundi og aðrir leigutakar fengið fólk á fundi til sín. Sóknaraðili geti ekki séð að leyfi hafi verið fengin fyrir þesum fundum og það hafi aldrei neinn verið til staðar í móttökunni til þess að fá upplýsingar um það eða fá leyfi. Mikið ónæði hafi hlotist af þessum fundum og þá sér í lagi fjarfundum þar sem fólk hafi oft ekki gert sér grein fyrir því hversu hátt það væri að tala.

Varðandi brot á 14. gr. hafi móttakan aldrei verið mönnuð. Þannig hafi hver sem væri getað komið inn í rýmið, án þess að skrá sig. Þetta hafi bæði haft þær afleiðingar að öryggi rýmisins væri ótryggt og þar með hafi öryggi skrifstofurýmis sóknaraðila ekki verið tryggt með nægjanlegum hætti.

Varðandi brot á 21. gr. hafi sóknaraðili ekki orðið var við að sóttvarnareglum væri fylgt. Sprittbrúsar hafi ítrekað verið tómir og sóknaraðili ekki séð að yfirborðsfletir væru þrifnir með reglulegu millibili. Þar sem aðgangsstýringu að rýminu hafi ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti hafi einnig verið erfiðara að passa upp á takmarkanir settar af yfirvöldum til að tryggja sóttvarnir.

Varðandi brot á 31. gr. séu upptökuvélar á víð og dreif um almenna rýmið og óljóst hvort þær vísi inn á lokuð skrifstofurými. Engar merkingar séu til að upplýsa um staðsetningu þeirra eða hvernig rafrænni vöktun sé háttað, það er hvort upptaka sé í gangi, hver hafi aðgengi að myndefninu og hvernig geymslu þess sé háttað. Þá sé vísað til 3. gr. reglna um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga, nr. 837/2006, auk þess sem óljóst sé með öllu hvort verið sé að fylgja greinum 4., 5. og 7. í reglum nr. 837/2006. Einnig megi benda á 14. gr. laga nr. 90/2018. Ákvæði laga og reglna um rafræna vöktun hafi ekki verið uppfyllt sem verði tilkynnt til Persónuverndar.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi falast eftir því að gera þjónustusamning og honum verið gerð grein fyrir því hvaða þjónusta væri í boði og verð á henni, þ.e. á húsnæðinu og þjónustunni, sem færi eftir því til hversu langs tíma hann hygðist leigja. Boðið hafi verið upp á að þjónustan yrði leigð frá mánuði til mánaðar, sem væri dýrasti kosturinn, eða að gerður yrði tímabundinn samningur til lengri tíma og að afsláttur yrði meiri eftir því sem tímabundni þjónustusamningurinn tæki til lengri tíma. Sóknaraðili hafi ákveðið að gera þjónustusamning frá 15. mars 2021 til 31. mars 2022. Verð fyrir þjónustuna hafi miðast við það og sé 60.000 kr. Fyrir hvern mánuð og taki breytingum svo sem samið hafi verið um.

Um sé að ræða þjónustusamning sem feli það í sér að sóknaraðili hafi aðgang að húsnæðinu. Vegna þess sem fram komi í kæru skuli þess getið að aðrir hafi ekki aðgang að húsnæðinu en þeir sem séu með þjónustusamning og starfsfólk varnaraðila. Aðgangsstýringin sé rafræn og fylgst sé með af skrifstofu varnaraðila hverjir leiti inngöngu í húsnæðið. Tekið sé á móti þeim sem hafi ekki aðgang eða þeim vísað frá, eigi þeir ekki lögmætt erindi.

Sóknaraðili hafi fyrst gert athugasemdir við þjónustuna eftir að hafa óskað eftir því að segja samningnum upp. Þess vegna liggi fyrir að utan þess að þau atriði sem sóknaraðili nefni í kæru séu röng, séu þau fyrst tilkomin eftir að hann hafi reynt að rifta samningnum. Varnaraðili hafi hafnað beiðni sóknaraðila um riftun og krafið hann um greiðslu samkvæmt samningnum til loka hans. Ágreiningur aðila snúist því um hvort tímabundinn þjónustusamningur skuli falla brott þegar sóknaraðili telji sér henta eða hvort virða beri samningsskilmála.

Sóknaraðili vilji losna undan tímabundnum samningi þar sem hann hafi leigt annað húsnæði en það sé varnaraðila óviðkomandi. Engar riftunarástæður séu fyrir hendi hvað samning aðila varði og hafi varnaraðili staðið við öll ákvæði hans. Ekki verði séð með hvaða hætti og á hvaða lagalegu forsendum unnt sé að víkja til hliðar tímabundnum samningi þegar engar þær ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti slíkt.

Það sé rangt að aðgangsstýringar sé ekki gætt. Starfsmaður varnaraðila fylgist stöðugt með, en húsnæðið sé læst nema fyrir þá sem hafi rétt á að koma þar inn og hafi sérstök aðgangskort. Komi einstaklingur að hinu læsta rými og eigi erindi við aðila þjónustasamninga varnaraðila þá fylgist starfsmaður varnaraðila með því og opni fyrir viðkomandi og annist um móttöku og láti viðkomandi þjónustuaðila vita. Eigi viðkomandi ekki pantaðan tíma og/eða þjónustuaðili geti ekki tekið á móti honum, sé honum vísað frá.

Vegna kvörtunar um hávaða sé í fyrsta lagi almennt ekki um hávaða að ræða nema í algjörum undantekningartilvikum. Það sé rétt að það séu fundir og stundum fjölmennir og það megi öllum vera ljóst sem nýti sér þjónustuna. Nokkur mismunandi stór fundarherbergi séu í húsnæðinu sem séu til útleigu og eitt fundarherbergið taki rúmlega þrjátíu manns. Það sé aftur á móti enginn hávaði eða ónæði vegna þessa umfram það sem gera megi ráð fyrir í sameiginlegum rýmum sem þessum og þess sé gætt að ekki sé um óeðlilega mikinn hávaða að ræða tengdum fundarhöldum í sameiginlegum rýmum. Þessi athugasemd sóknaraðila sé úr lausu lofti gripin og hávaði minni en búast megi við miðað við þann fjölda fólks sem nýti sameiginlega aðstöðu þjónusturýmisins.

Fyrir liggi og hafi sóknaraðila verið ljóst um hverskonar rými væri að ræða og til hvers þau væru nýtt. Honum hafi verið kynnt að um væri að ræða þjónustu sem hann gæti nýtt eins og aðrir þeir sem hafi keypt þjónustu af varnaraðila. Rýmið sé að öðru leyti með þeim hætti að þangað komi einstaklingar í fjarvinnu, þess vegna erlendis frá, og standi þeim til boða að nýta sér ákveðið rými tímabundið en þeir séu þá staðsettir í þar til gerðum rýmum sem séu opin. Enginn hávaði eða ónæði stafi frá þeim. Enginn geti komist inn í sameiginlegt rými nema sá hinn sami hafi aðgangskort á grundvelli þjónustusamnings við varnaraðila.

Sóttvarnareglum sé fylgt út í æsar. Sprittbrúsar séu við inngöngudyr og í sameiginlegu eldhúsi og fundarherbergjum. Farið sé fram á að fólk virði fjarlægðarmörk og samskipti í sameiginlegu rými séu með þeim hætti að það sé nánast sjálfgefið að þau séu virt. Þessi ástæða sóknaraðila sé með miklum ólíkindum, einkum og sér í lagi vegna þess að varnaraðili hafi lent mjög illa í smitum vegna COVID-19 í upphafi smitsjúkdómsins og hafi gætt þess allt frá þeim tíma að gæta að sóttvarnareglum í hvívetna.

Upptökumyndavélar séu til staðar og farið sé eftir gildandi reglum til að tryggja persónuvernd, en jafnframt að öryggis þeirra sem fari um þjónusturýmið sé gætt. Ekki liggi ljóst fyrir hvað það sé sem sóknaraðili setji út á hvað þetta varði. Fylgt sé öllum reglum varðandi það með hvaða hætti megi tryggja öryggi þeirra sem þarna séu og nauðsynlegt sé að gera það þar sem margir eigi leið um þjónusturýmið á hverjum degi.

Jafnvel þótt öll þessi atriði, sem sóknaraðili hafi nefnt væru rétt, gætu þau aldrei leitt til þess að hann gæti einhliða rift tímabundnum samningi aðila.

Kæra sóknaraðila sé tilefnislaus með öllu. Kröfugerð hans sé eingöngu tilkomin vegna þess að hann hafi viljað rifta samningnum, án þess að nokkrar forsendur væru fyrir hendi og án þess að hann hafi kvartað yfir nokkru við varnaraðila fyrr en hann hafði fundið annað húsnæði fyrir starfsemi sína, en það hafi verið og sé varnaraðila með öllu óviðkomandi.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að ljóst sé að hér standi orð á móti orði. Hvað varði skilning varnaraðila að um tímabundinn samning hafi verið að ræða haldi sóknaraðili því enn fram að ekki hafi verið skýrt hverjir skilmálar samningsins hafi verið og þá sér í lagi þeir er vörðuðu uppsagnarfrest. Sóknaraðili hafi aðallega viljað rifta samningnum þar sem hann hafi skilið þetta sem svo að það væri heimilt að segja samningum upp með mánaðarfyrirvara þótt hann hefði undirritað samninginn.

Um sé að ræða fyrirtæki sem sérhæfi sig í útleigu á rýmum og hefði fyrirtækinu því verið í lófa lagið að tryggja að skilningur leigjenda á samningum og skilmálum væri í lagi. Varnaraðili sé fyrirtæki sem sérhæfi sig í útleigu á rýmum og húsnæði undir nafni D og því hljóti það að vera skylda og ábyrgð forsvarsmanna B ehf. að tryggja réttan skilning leigjanda sem eðli máls samkvæmt sé ekki lögaðili sem hafi sérhæfingu á sviði húsaleigu og gerð húsaleigusamninga. Í þessu tilviki sé um að ræða munnlegt loforð forsvarsmanna B ehf. og óskýran leigusamning sem í ofanálag hafi verið sendur sóknaraðila á ensku sem sé ekki móðurmál hans og því líklegri til þess að valda óskýrleika og misskilningi. Sóknaraðili hljóti að hafa mátt treysta því að þær upplýsingar sem hann hafi fengið munnlega væru réttar og hafi byggt undirritun sína á samningnum á því trausti.

Áður en til riftunar hafi komið hafði sóknaraðili bæði falast eftir því að semja um styttri uppsagnarfrest og þegar því hafi verið hafnað hafi hann boðist til að koma til móts við varnaraðila, annaðhvort með því að finna nýjan leigjanda eða biðja um frekara samtal um hvernig leiða mætti málið til lykta áður en til riftunar kæmi. Því hafi ekki verið svarað og því hafi það verið mat sóknaraðila að það hefði haft lítið upp á sig að vera að senda umræddar ábendingar til varnaraðila áður en til riftunar kæmi.

Varðandi brot á reglum nr. 21 og 31. sé um mögulegt brot á reglugerðum og lögum að ræða. Sprittbrúsar hafi oft verið tómir og enn sé staðið við það að óljóst hafi verið hvenær yfirborðsfletir hefðu verið þrifnir og þá sérstaklega í samhengi við það að sú viðvera starfsfólks, sem varnaraðili leggi mikla áherslu á í greinargerð sinni, hafi ekki verið til staðar.

Forsendur séu fyrir riftun sóknaraðila og lögð sé áhersla á að sóknaraðili hafi reynt að fara vægari leið með formlegri beiðni um að munnlegu loforði varnaraðila yrði fylgt við uppsögn, auk frekari umleitana um aðstoð við að finna nýjan leigjanda eða eiga frekara samtal um téðan samning.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir að sóknaraðili bendi réttilega á að orð standi gegn orði en varnaraðili hafi lagt fram gögn sem sýni að sóknaraðili hafi fengið fullnægjandi upplýsingar og engar athugasemdir gert fyrr en hann hafði sagt upp leigunni. 

Sóknaraðili hafi þekkingu af samningum og viti nákvæmlega hvað hafi verið um að ræða og hvað samið hafi verið um. Auk þess sé þjónustusamningurinn auðskilinn, þjónustukaupa hafi staðið til boða að gera samning til mismunandi langs tíma og hafi kosið að hafa samninginn með þeim hætti sem hann sé. 

Fullyrðingum um að varnaraðili hafi brotið húsreglur og ekki uppfyllt þau ákvæði sem vísað sé til í þjónustukaupasamningnum sé vísað á bug sem röngum og á það bent að af hálfu sóknaraðila hafi ekki verið sýnt fram á eitt eða neitt í því sambandi, en hefði þó átt að vera auðvelt þar sem vísað sé til viðtala við ónafngreinda aðila um það mál í málatilbúnaði sóknaraðila. Þessar fullyrðingar séu rangar og ósannaðar. 

VI. Niðurstaða            

Deilt er um hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að rifta leigusamningi aðila. Samningurinn er tímabundinn til 31. mars 2022 en þá framlengist hann sjálfkrafa samkvæmt ákvæðum hans, nema honum sé sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, lýkur tímabundum leigusamningi á umsömdum degi, án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Þá er í 60. gr. sömu laga kveðið á um riftunarheimildir leigjanda þar sem segir í 6. tölul. 1. mgr. að leigjanda sé heimilt að rifta leigusamningi sé eðlilegum afnotum eða heimilisfriði hans verulega raskað með ónæði og óþægindum vegna verulegra eða ítrekaðra brota annarra þeirra sem afnot hafa af sama húsi, á umgengnis- eða grenndarreglum, enda hafi leigusali, þrátt fyrir skriflegar áskoranir, vanrækt skyldur sínar samkvæmt 4. mgr. 30. gr. eða atvik séu að öðru leyti með þeim hætti að eðlilegt sé og sanngjarnt að leigjandi megi rifta leigusamningi. Slík atvik geti til dæmis bæði varðað eðli brota og ónæðis og eins að frekari brot og óþægindi séu fyrirsjáanleg og líkleg. Í 2. mgr. 60. gr. segir að tilkynning um riftun samkvæmt 1.-8. tölul. skuli vera skrifleg og skuli henni fylgja rökstuðningur fyrir riftuninni.

Í tölvupósti sóknaraðila til varnaraðila 25. ágúst 2021 segir að sé einhver að bíða eftir skrifstofu geti hann gefið sína skrifstofu eftir og að verðið sem varnaraðili væri að bjóða væri helmingi hærra en á öðrum tilgreindum stað, en það væri eina ástæðan fyrir því að hann hefði viljað færa sig um set. Með bréfi sóknaraðila, dags. 28. október 2021, fór hann síðan fram á að honum yrði heimilt að segja leigusamningi upp með þrjátíu daga fyrirvara. Áskilinn var réttur til riftunar, yrði ekki fallist á uppsögnina. Varnaraðili hafnaði uppsögninni og með bréfi, dags. 2. nóvember 2021, rifti sóknaraðili samningum með vísan til 6. tölul. 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga og upplýsti að varnaraðili hefði brotið í bága við nánar tilgreind ákvæði leiguskilmála og rafræna vöktun, líkt og hann tilgreindi jafnframt í fyrra bréfi sínu.

Í kæru tekur sóknaraðili fram að hann hafi fengið boð um skrifstofuhúsnæði á hagstæðari kjörum og nær heimili sínu og hann því farið þess á leit við varnaraðila að segja leigusamningnum upp með þrjátíu daga fyrirvara, en hann kveður varnaraðila hafa upplýst munnlega að það væri mögulegt. Varnaraðili hafnar því að hafa upplýst sóknaraðila um það en hann bjóði aftur á móti upp á þann valmöguleika í þjónustu sinni að leigja skrifstofurými frá mánuði til mánaðar og þá með þrjátíu daga uppsagnarfresti en leigugjald sé þá hærra. Sóknaraðili hafi valið að gera tímabundinn leigusamning til eins árs og þar með með lægra leigugjaldi. Telur kærunefnd gögn málsins ekki styðja þá fullyrðingu sóknaraðila um að hann hafi mátt líta svo á að hann gæti sagt samningi aðila upp með mánaðar fyrirvara.

Samkvæmt fyrrnefndum 6. tölul. er það skilyrði riftunar að leigusali hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 4. mgr. 30. gr. laganna þrátt fyrir skriflegar áskoranir eða að atvik séu að öðru leyti með þeim hætti að eðlilegt sé og sanngjarnt að leigjandi megi rifta samningi. Í 4. mgr. 30. gr. húsaleigulaga segir að leigusala sé skylt að hlutast til um að aðrir þeir sem afnot hafi af húsi því sem hið leigða húsnæði sé í, fari að settum umgengnisreglum og gæti að öðru leyti ákvæða þessa kafla á þann veg að hagsmunir leigjanda séu tryggðir.

Kærunefnd telur gögn málsins ekki benda til annars en að sóknaraðili hafi fyrst gert athugasemdir í þá veru að eðlilegum afnotum af hinu leigða væri raskað vegna þjónustu varnaraðila og annarra sem hafi aðgang að húsnæðinu með fyrrnefndu bréfi sínu í lok október, sbr. til að mynda það að í tölvupósti 25. ágúst 2021 nefndi sóknaraðili leiguverðið sem einu ástæðu þess að hann hefði hug á að færa sig um set. Þannig bendir ekkert til þess að varnaraðili hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 4. mgr. 30. gr. húsaleigulaga, auk þess sem ekki er um að ræða slíkar umkvartanir af hálfu sóknaraðila að riftun gæti varðað, að minnsta kosti ekki án þess að varnaraðila yrði gefinn kostur til úrbóta. Verður því ekki fallist á að sóknaraðila hafi verið heimilt að rifta leigusamningi aðila. Kröfu sóknaraðila í málinu er því hafnað.

Samkvæmt 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga getur kærunefnd gert sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað sé kæra bersýnilega tilefnislaus að mati nefndarinnar. Með vísan til þessa ákvæðis fer varnaraðili fram á að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða honum málskostnað. Þrátt fyrir að niðurstaða nefndarinnar sé sú að ekki sé tilefni til að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu, telur nefndin engu að síður að skýr ágreiningur hafi verið til staðar aðila á milli á grundvelli húsaleigulaga. Verður því ekki fallist á málskostnaðarkröfu varnaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfum aðila er hafnað.

 

 

Reykjavík, 15. febrúar 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Aldís Ingimarsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira