Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 146/2020-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 2. júní 2021

í máli nr. 146/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða honum kostnað sem hann hefur ofgreitt vegna notkunar á heitu vatni.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 25. nóvember 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 18. janúar 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 26. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 27. janúar 2021. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 28. janúar 2021, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2021, óskaði kærunefnd eftir að varnaraðili legði fram reikninga sem liggja til grundvallar kröfum á hendur sóknaraðila vegna hita og rafmagns í íbúðinni og sameigninni á árunum 2019 og 2020. Einnig var óskað eftir útreikningum varnaraðila. Umbeðin gögn bárust með tölvupósti varnaraðila 6. maí 2021 og voru þau send sóknaraðila með tölvupósti kærunefndar, dags. 10. maí 2021.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. ágúst 2017 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C Ágreiningur er um kostnað vegna hitunar.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að síðastliðin tvö ár hafi hann og nágrannar hans fengið óvanalega háa reikninga vegna notkunar á heitu vatni. Árið 2018 hafi þau fengið reikninga að fjárhæð 75.000 kr. sem hafi þegar þurft að greiða en eftir að sóknaraðili hafði rætt við nágranna sinn hafi hann óskað eftir að reikningar yrðu sendir mánaðarlega þar sem þau hefðu ekki efni á að greiða þá með eingreiðslu.

Sóknaraðili fái nú reikninga að fjárhæð 26.000 kr. mánaðarlega. Það geti ekki verið vegna notkunar á heitu vatni í húsinu þar sem fjórar íbúðir séu þá að greiða yfir 1.000.000 kr. á ári.

Varnaraðili sendi reikningana í gegnum innheimtu þannig að sóknaraðili sé tilneyddur til að greiða þá til að koma í veg fyrir að lenda á vanskilaskrá. Sóknaraðili hafi aldrei fengið yfirlit af mæli og geti þannig ekki séð hvað sé í gangi.

Frá árinu 2020 hafi leiga verið 205.000 kr. á mánuði en í nóvember 2020 hafi leigan verið 238.000 kr. Það sé verið að troða þessum ólöglega reikningi inn í leiguverðið.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að sóknaraðili, sem sé nú fluttur úr hinu leigða, hafi leigt íbúðina frá því í ágúst 2014. Kostnaður vegna rafmagns og hita hafi ekki verið innifalinn í leiguverði og sérstaklega tekið fram í leigusamningi aðila um rekstrarkostnað að „leigjandi greiðir rafmagn, hita og gjöld í hússjóð skv. upplýsingum/innheimtu frá húsfélagi“.

Um sé að ræða 600 fermetra hús og sé rukkað fyrir hita og rafmagn í sameign samkvæmt leiguhluta hvers og eins. Það sem sé verið að krefja sóknaraðila um mánaðarlega árið 2020 sé notkunin árið 2019 og áætlun fyrir árið 2020 dreift á tíu mánuði. Í tilfelli sóknaraðila hafi mánaðarleg upphæð sem hann hafi átt að greiða fyrir það tímabil, þ.e. notkun fyrir árið 2019 og áætlun fyrir árið 2020 verið 25.777 kr.

Sóknaraðili hafi verið látinn vita af þessu fyrirkomulagi með tölvupósti, dags. 10. desember 2019. Ný áætlun sé tilbúin fyrir árið 2021, byggð á notkun ársins 2020, og sé upphæðin sem sóknaraðili hafi átt að greiða næstu tíu mánuði verið 11.000 kr.

Leigjendur varnaraðila hafi aldrei verið krafðir um greiðslu vegna hússjóðs heldur einungis fyrir heitt vatn og rafmagn í sameign.

Leiga sóknaraðila hafi með eðlilegum hætti hækkað í samræmi við breytingar á vísitölu úr 190.000 kr. í um það bil 208.000 kr. á þessu tímabili. Þá hafi leigan tímabundið verið lækkuð frá og með desember 2020 í 190.000 kr. eða um 18.000 kr. til að koma til móts við sóknaraðila og hafi reikningur vegna rafmagns verið felldur niður fyrir desember.

Leigan hafi ekki verið há miðað við markaðsverð á sambærilegri íbúð og þá sérstaklega á þessu svæði.

IV. Niðurstaða

Í 2. mgr. 23. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að þegar íbúðarhúsnæði sé í fjöleignarhúsi skuli leigusali greiða sameiginlegan kostnað samkvæmt 43. gr. laga um fjöleignarhús, svo sem framlag til sameiginlegs reksturs og viðhalds sameignar, þar á meðal vegna hitunar og vatnsnotkunar í sameign. Samkvæmt 23. gr. a. húsaleigulaga greiðir leigjandi vatns-, rafmagns- og hitunarkostnað í hinu leigða húsnæði. Þó er heimilt að víkja frá nefndri kostnaðarskiptingu séu slík frávik tilgreind í leigusamningi samkvæmt 23. gr. b.

Í leigusamningi aðila er sérstaklega tekið fram í 6. gr. að sóknaraðili greiði rafmagn, hita og gjöld í hússjóð samkvæmt upplýsingum/innheimtu frá húsfélagi.

Með tölvupósti varnaraðila, dags. 19. desember 2019, var sóknaraðili upplýstur um að það þyrfti að senda honum reikning vegna notkunar á heitu vatni fyrir síðasta ár. Enn væri verið að bíða eftir yfirliti og að reikningar yrðu gerðir í framhaldinu. Einnig var tekið fram að reikningunum yrði skipt niður eins og best væri fyrir sóknaraðila. Samkvæmt framangreindu greiddi sóknaraðili reikninga sem námu tæplega 26.000 kr. mánaðarlega í tíu mánuði árið 2020 vegna notkunar á heitu vatni fyrir árin 2019 og 2020 en vegna ársins 2020 var um að ræða áætlaðan kostnað.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili endurgreiði sér þá fjárhæð sem hann greiddi fyrir hita á þeim grunni að fjárhæðin hafi verið of há miðað við stærð hinnar leigðu eignar. Ekki liggja fyrir gögn í málinu sem styðja fullyrðingu sóknaraðila um að hitakostnaður hafi verið of hár en reikningar varnaraðila voru lagðir fram í málinu. Telur kærunefnd því ekki tilefni til að fallast á kröfu sóknaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

 

Reykjavík, 2. júní 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira