Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 3/2024

Árið 2024, 3. september, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 3/2024 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 3. maí 2024, kærði Bjarni Aðalgeirsson, lögmaður fyrir hönd X, kt. [], Norðurljósavegi [], Grindavík, ákvörðun Grindavíkurbæjar varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda að Norðurljósavegi [], Grindavík, fnr. [], fyrir árið 2024.

Með tölvubréfi, dags. 8. maí 2024, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Grindavíkurbæjar  vegna kærunnar. Umbeðin umsögn sveitarfélagsins barst nefndinni með bréfi, dags. 22. maí 2024.

Með tölvubréfi, dags. 22. maí 2024, var umsögn Grindavíkurbæjar send lögmanni kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 30. maí 2024.

Málið var tekið til úrskurðar 3. september 2024.

 

I.         Málavextir        

Með lögum nr. 4/2024 kom bráðabirgðaákvæði XXIX inn í lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sem heimilaði bæjarstjórn Grindavíkurbæjar að falla frá álagningu fasteignaskatts, í heild eða að hluta, á árinu 2024 vegna óvissu af völdum náttúruhamfara sem ógna öryggi íbúa sveitarfélagsins. Í ákvæðinu kom fram að bæjarstjórn Grindavíkurbæjar væri jafnframt heimilt að gera greinarmun á fasteignum þegar fasteignaskattur væri felldur niður í heild eða hluta á grundvelli ákveðinna atriða, þ.e. í hvaða flokk fasteignir falla samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, staðsetningar fasteigna í þéttbýli eða dreifbýli og staðsetningar fasteigna á hættusvæðum sem skilgreind væru af Veðurstofu Íslands. Lögin voru liður í aðgerðum stjórnvalda í því að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin í sveitarfélaginu vegna aðsteðjandi náttúruvár.

Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar þann 5. febrúar 2024 samþykkti bæjarstjórnin að falla frá álagningu fasteignaskatts á árinu 2024 á allar fasteignir sem féllu undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og sem væru innan þéttbýlismarka Grindavíkur samkvæmt gildandi aðalskipulagi Grindavíkurbæjar 2018-2022. Auk þess var samþykkt að falla frá álagningu fasteignaskatts á eignir sem væru innan hættusvæðis 3 samkvæmt hættumatskorti Veðurstofu Íslands, útg. 1. febrúar 2024, kl. 15.00. Aðrar fasteignir innan sveitarfélagsins kæmu hins vegar til með að fá álagðan fasteignaskatt á árinu 2024.

Fasteign kæranda að Norðurljósavegi [], Grindavík, þar sem rekið er hótel, er ein af þeim fasteignum innan sveitarfélagsins sem féll utan fyrrgreindrar ákvörðunar um niðurfellingu fasteignaskatts og fékk því álagðan fasteignaskatt á árinu 2024. Kærandi sendi bæjarstjórn Grindavíkurbæjar erindi þann 22. mars 2024 þar sem hann vakti m.a. athygli á því að hótelið hefði meira og minna verið lokað frá 9. nóvember 2023 og óljóst væri hvert framhaldið yrði vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesi. Taldi kærandi að með ákvörðun sinni frá 5. febrúar 2024 hefði bæjarstjórn mismunað aðilum, án þess að málefnaleg sjónarmið hefðu legið þar að baki. Óskaði kærandi eftir skýrum svörum frá bæjarstjórn hvað hefði valdið því að slík ákvörðun hefði verið tekin auk þess sem óskað var upplýsinga um hvort að um endanlega ákvörðun væri að ræða eða hvort vænta mætti þess að málið yrði endurskoðað.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins frá 5. febrúar 2024 varðandi álagningu fasteignaskatts á fasteign hans að Norðurljósavegi [], Grindavík, fnr. [], fyrir árið 2024 og hefur því kært ákvörðunina til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.        Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði niður álagning fasteignaskatts árið 2024 á fasteign hans að Norðurljósavegi [], Grindavík, fnr. [], og að ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar um niðurfellingu fasteignaskatts frá 5. febrúar 2024 taki þannig jafnframt til kæranda.

Kærandi vísar til þess að sveitarstjórn Grindavíkurbæjar beri að virða grundvallarreglur stjórnskipunar og stjórnsýslulaga við ákvarðanatöku sína, þ.m.t. jafnræðisreglu, lögmætisreglu, meðalhófsreglu og rannsóknarreglu. Telur kærandi að brotið hafi verið gegn þessum grundvallarreglum með því að undanskilja fasteign hans við niðurfellingu fasteignaskatts og því beri að fallast á kröfur hans í málinu.

Að mati kæranda felur fyrrgreind ákvörðun bæjarstjónar Grindavíkurbæjar í sér mismunun á grundvelli þess hvort fasteign sé innan eða utan þéttbýlis. Fasteign kæranda að Norðurljósavegi [], Grindavík falli undir ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þar sem eignin sé nýtt fyrir ferðaþjónustu. Samkvæmt bókun bæjarstjórnar frá 5. febrúar 2024 ræðst það af því hvort fasteign sé innan eða utan skilgreindra þéttbýlismarka hvort fasteignaskattur árið 2024 séu felldir niður eða ekki. Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 4/2024 hafi ekki verið að finna sérstaka umfjöllun um til hvaða málefnalegu forsendna beri að líta við beitingu mismunandi meðferðar á milli mannvirkja innan eða utan þéttbýlis né megi ráða að fremur sé gert ráð fyrir að fasteignaskattar verði felldir niður af eignum innan þéttbýlis eða utan þess. Löggjafinn hafi ekki tekið ákvörðun um álagningu fasteignaskatts innan eða utan þéttbýlis né veitt nein viðmið um hvenær beri að fella þessa tekjustofna niður heldur hafi ákvörðunarvald um þetta atriði verið falið bæjarstjórn Grindavíkur. Við framsal svo víðtæks valds verði að gera ríkar kröfur til stjórnvalds um að gætt sé málefnalegra sjónarmiða. Sé horft til annarra ákvæða laga nr. 4/1995 sé raunar sérstök heimild til að fella niður álag á fasteignir í dreifbýli, sbr. 5. mgr. 3. gr. laganna og því hefði að mati kæranda verið nærtækara að beita þeirri heimild til niðurfellingar á fasteignir utan þéttbýlis.

Kærandi byggir á því að þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir að skilgreining þéttbýlis sé notuð sem viðmið við niðurfellingu fasteignaskatts, þá verði mismunandi meðferð eftir sem áður að byggja á málefnalegum forsendum í samræmi við jafnræðisreglu, sbr. 65. gr. stjórnarskárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar beri við beitingu áðurnefndrar heimildar að leggja mat á mismunandi stöðu eigenda mannvirkja í dreifbýli og þéttbýli og hvort lögmætt sé að mismuna fasteignaeigendum á þeim grunni, þ.e. hvort slíkur munur sé á stöðu þeirra að málefnalegt sé að grundvalla mismunun á þeim forsendum. Ekki verði séð að nokkur málefnaleg rök hafi verið sett fram, hvorki í lögum nr. 4/2024 né í ákvörðun bæjarstjórnar, fyrir því að mismuna fasteignaeigendum á þeim grundvelli að fasteign sé utan skilgreindra þéttbýlismarka. Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hafi komið fram að við skýringu á ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga þar sem vísað sé til fasteigna í þéttbýli og dreifbýli beri að beita þeim skilgreiningum sem fram komi í skipulagslögum enda sé um að ræða löggjöf sem tengist órjúfanlegum böndum og beri að túlka með ytri sambærisskýringu. Kærandi fái því ekki séð hvernig skilgreining á dreifbýli og þéttbýli geri stöðu kæranda ólíka stöðu annarra eigenda mannvirkja fyrir ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Vegna fyrrgreinds nefndarálits bendir kærandi á að sveitarfélagið hefur skilgreint þéttbýlissvæði sitt í aðalskipulagi mun rýmra en skilgreining skipulagslaga geri ráð fyrir. Þannig hafi dreifbýli, þ.e. svæði sem falli utan framangreindrar þéttbýlisskilgreiningar, austan við þéttbýlis-kjarnann í Grindavík, verið skilgreint innan þéttbýlis í aðalskipulagi og því hafi eigendur fasteigna þar notið niðurfellingar fasteignaskatts samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun bæjarstjórnar. Bæjarstjórn hafi þannig nú þegar víkkað út mörk þéttbýlis út fyrir skilgreiningu skipulagslaga þannig að hún nái til flestra mannvirkja í sveitarfélaginu en þó ekki fasteignar kæranda án þess þó að nokkur munur sé á stöðu hans og þeirra sem felldir hafa verið innan þéttbýlis og niðurfellingin taki til. Í öllu falli verði ekki séð að rannsókn hafi farið fram á stöðu kæranda og stöðu annarra hvað þetta varðar. Þannig hafi bæjarstjórnin ekki uppfyllt skyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að honum hafi borið að fá sömu niðurfellingu og aðrir eigendur fasteigna enda ekki munur á stöðu hans og þeirra.

Þá vekur kærandi athygli á því að í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 4/2024 komi fram að sveitarfélagið þurfi sérstaklega að huga að því að jafnræðis verði gætt við allar ákvarðanir sem teknar verði á grundvelli laganna. Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþings hafi verið áréttað að við alla ákvarðanatöku bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar á grundvelli laganna beri að fylgja skráðum og óskráðum réttarreglum stjórnskipunar og stjórnsýsluréttarins, s.s. jafnræðisreglu, réttmætisreglu og meðalhófsreglu. Jafnræðisregla stjórnsýslu-réttarins feli það almennt í sér að skylt sé að gæta jafnræðis milli borgaranna og í 11. gr. stjórnsýslulaganna sé þetta orðað svo að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti. Fyrrgreind regla sé til lítils ef þeir aðilar sem séu í sambærilegri stöðu hafi ekki jafna möguleika á að koma til greina við ákvarðanir stjórnvalda sem fela í sér niðurfellingu á sköttum og gjöldum. Kærandi hafi ekki notið jafnrar stöðu á við aðra lögaðila sem séu í sambærilegri stöðu í sveitarfélaginu við ákvörðun um niðurfellingu fasteignaskatts.

Kærandi telur að ofangreindum grundvallarreglum hafi ekki verið fylgt af bæjarstjórn Grindavíkurbæjar þegar ákvörðun var tekin um að fella niður fasteignaskatt á nánast öllum fasteignum nema fasteign kæranda og vísar kærandi í því sambandi til 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Þótt lögin veiti heimild til að beita ákveðnum hlutlægum viðmiðum við flokkun á gjaldendum þá verði mismun eftir sem áður að vera á grundvelli jafnræðissjónarmiða, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 389/2011.  Þá hefði jafnframt borið að líta til þess að ef munur er á stöðu aðila innan og utan þéttbýlis þá hafi verið heimilt að gefa eftir hluta fasteignaskatts og því hefði verið eðlilegt og í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að fella niður hluta fasteignaskatts ef staða kæranda væri ekki allskostar sambærileg við aðra eigendur hótela innan þéttbýlis. Ekki verði séð að bæjarstjórn hafi rannsakað stöðu kæranda og annarra sem féllu utan niðurfellingar og borið saman við aðra sem fengu niðurfellingu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bendir kærandi á að í bókun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar frá 5. febrúar 2024 komi fram að fallið sé frá álagningu fasteignaskatts á eignir sem séu innan hættusvæðis 3, samkvæmt hættumatskorti Veðurstofu Íslands, útg. 1. febrúar 2024, kl. 15.00. Í lögum nr. 4/2024 komi fram að heimilt sé að fella niður fasteignaskatt á grundvelli staðsetningar fasteigna á hættusvæðum sem skilgreind eru af Veðurstofu Íslands. Það kort sem vísað er til í bókun bæjarstjórnar hafi verið gefið út 1. febrúar 2024 og hafi gilt til 8. febrúar 2024. Frá þeim tíma hafi hættumatskortið og mat á vá verið uppfært reglulega eftir því sem ástæða hafi þótt til en ekki verði séð að ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið breytt þrátt fyrir það. Mannvirki kæranda hafi ávallt verið innan þeirra hættusvæða sem Veðurstofa Íslands hafi skilgreint, þ.m.t. á korti, útg. 1. febrúar 2024, kl. 15.00. Á korti Veðurstofu Íslands séu hættusvæði flokkuð í númeraði röð og fjallað sérstaklega um mismunandi hættur innan hvers svæðis. Hvert svæði sé afmarkað með ferhyrningi. Fasteign kæranda sé innan svæðis 1 en áætla megi að það sé í um 600-800 metra fjarlægð frá svæði 3 á kortinu.

Hættumatskort Veðurstofu Íslands hafi verið uppfært 23. apríl 2024 og gildi það til 7. maí 2024. Á því korti sé hætta á svæði 1 metin ,,töluverð” og hætta á gasmengun talin ,,mjög mikil”. Kærandi bendir á að staðan á þeim svæðum sem skilgreind séu sem hættusvæði sé sambærileg, a.m.k. með tilliti til reksturs ferðaþjónustu. Bæjarstjórn hafi því ekki verið heimilt að flokka svæði innan hættusvæða sem skilgreind hafi verið sem hættusvæði af Veðurstofu Íslands þannig að á hluta þeirra séu fasteigna-skattar felldir niður en ekki á öðrum. Bæjarstjórn hafi borið að fella niður fasteignaskatta á öllu hættusvæðinu eins og það sé skilgreint af Veðurstofu Íslands. Því til viðbótar telur kærandi að bæjarstjórn hafi ekki rannsakað sérstaklega áhrif þess að mannvirki séu innan mismunandi skilgreindra hættusvæða en að mati kæranda séu áhrifin þau sömu enda hafi kærandi þurft að loka starfsemi sinni vegna yfirvofandi hættu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur kærandi að úrskurða beri að ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar frá 5. febrúar 2024 um niðurfellingu fasteignaskatts fyrir árið 2024, taki einnig til fasteignar kæranda við Norðurljósaveg [], Grindavík, fnr. [].

III.      Sjónarmið sveitarfélagsins, Grindavíkurbæjar

Af hálfu Grindavíkurbæjar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið skýrt afmörkuð og byggi á fullnægjandi lagagrundvelli. Um afar óvenjulegar aðstæður sé að ræða og mikilvægt sé fyrir sveitarfélagið að fá efnislega úrlausn vegna málsins. Verði úrskurður yfirfasteignamatsnefndar sveitarfélaginu í óhag sé nauðsynlegt að úrskurðurinn feli í sér leiðbeiningu sem auðveldi sveitarfélaginu að taka afstöðu til sambærilegra mála.

Sveitarfélagið bendir á að tilvísun til hættukorts Veðurstofu Íslands feli í sér að aðeins ein fasteign sem staðsett sé utan þéttbýlismarka samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins sé undanþegin fasteignaskatti. Umrædd fasteign hafi orðið fyrir altjóni og ekki hafi þótt rétt að leggja fasteignaskatt á hana.  Fasteignaskattur sé lagður á allt annað atvinnu- og íbúðarhúsnæði utan skilgreinds þéttbýlis. Einnig sé  fasteignaskattur lagður á allar fasteignir samkv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, bæði innan og utan þéttbýlis.

Þrátt fyrir endurtekin eldgos á Reykjanesi undanfarna mánuði hafi atvinnustarfsemi haldið áfram en fyrirtæki hafi mörg hver þurft að laga starfsemi sína að breyttum aðstæðum. Aðstæður hafi á köflum verið breytilegar frá degi til dags en segja megi að aðstæður til atvinnustarfsemi í Grindavík hafi almennt verið mjög erfiðar í janúar og febrúar 2024. Aðstæður hafi lagast frá þeim tíma þótt þéttbýli Grindavíkur sé enn skilgreint sem hættusvæði. Takmarkanir séu á umferð inn í þéttbýlið og ferðamönnum og öðrum óviðkomandi vísað frá bænum. Hluta yfirstandandi árs hafi ekki verið mögulegt að komast að fasteign kæranda án þess að fara um lokunarpósta á Grindavíkurvegi. Ferðamönnum sem áttu erindi til Svartsengis hafi þó undantekningarlaust verið hleypt í gegn eftir því sem best sé vitað. Grindavíkurvegur hafi þó verið ófær um tíma vegna eldgosa í desember 2023 og mars 2024 en þær lokanir hafi ekki staðið lengi yfir í hvort sinn.

Vísað er til umsagnar sveitarfélagsins um það frumvarp sem varð að lögum nr. 4/2024. Lagasetningin undirstriki að þar sem í lögum sé kveðið á um að sveitarstjórnir skuli leggja á fasteignaskatt þurfi sveitarstjórnir sérstaka lagaheimild til að geta tekið ákvörðun um að skattur verði ekki lagður á fasteignir í sveitarfélaginu. Lögskýringargögn undirstriki markmið um að við ákvörðun um beitingu þeirrar sérstöku lagaheimildar sem felst í lögum nr. 4/2024 hafi verið tekið mið af aðstæðum í sveitarfélaginu og ekki gengið lengra í beitingu heimildarinnar en tilefni hafi verið til.

Grindavíkurbær telur að grundvallarreglur stjórnskipunar og stjórnsýslulaga hafi verið virtar við ákvarðanatöku í málinu. Sérstaklega hafi verið horft til jafnræðisreglu, lögmætisreglu, meðalhófsreglu og rannsóknarreglu við undirbúning ákvörðunarinnar, miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir. Þar sem nauðsynlegt hafi verið að taka ákvörðun í byrjun ársins hafi óhjákvæmilega verið til staðar óvissa um hvernig náttúruhamfarir kæmu til með að þróast á Reykjanesi. Sú óvissa sé enn til staðar meðan kvikusöfnun haldi áfram í Svartsengi.

Sú ákvörðun bæjarstjórnar að einskorða ákvörðun um að leggja ekki fasteignaskatt á fasteignir í a- og c-flokki við fasteignir í þéttbýli byggðist á mati á áhrifum náttúruhamfaranna sem leiddu til rýmingar bæjarins 10. nóvember 2023. Á milli svæða sé verulegur eðlismunur á hættumati náttúruvár-sérfræðinga Veðurstofu Íslands. Í þéttbýli Grindavíkur (svæði 4 á hættumatskorti) sé varað við hættu á lífi og heilsu fólks vegna jarðfalls ofan í sprungur og sprunguhreyfingar. Hættumatið vari einnig við hraunflæði og gasmengun. Í meginatriðum hafi þetta hættumat verið svo til óbreytt frá rýmingu bæjarins 10. nóvember 2023. Með vísan til hættumats hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum viðhaldið takmörkunum á dvöl og atvinnustarfsemi í bænum sem hafi þó tekið nokkrum breytingum eftir mati á aðstæðum hverju sinni. Þessar takmarkanir útiloki að hægt sé að halda úti gististarfsemi innan þéttbýlis í Grindavík enda nái takmarkanir til alls þéttbýlisins. Málsástæða kæranda um að aðstæður innan þéttbýlis séu ólíkar og í því felist brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, á sér því enga stoð í atvikum málsins. Hið sama á við um tilvísun kæranda til lækkunarheimildar 5. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sem eigi að engu leyti við í því máli sem hér er til meðferðar.

Bent er á að á svæði 1 á hættumatskorti Veðurstofu Íslands, sem nær yfir Svartsengi, þar sem fasteign kæranda sé staðsett, séu aðstæður töluvert aðrar en í þéttbýli Grindavíkur. Þar sé ekki varað við hættu á lífi og heilsu fólks vegna jarðfalls ofan í sprungur eða sprunguhreyfingar. Hættumatið vari eingöngu við hættu á hraunflæði og gasmengun. Þeir varnargarðar sem hafa verið reistir á Svartsengisvæðinu hafi einnig minnkað verulega líkur á að hraun flæði að mannvirkjum kæranda. Hins vegar sé ekki gert lítið úr því að rekstur hótels á svæðinu feli í sér miklar áskoranir og séu endurtekin dæmi um rýmingar á svæðinu með skömmum fyrirvara. Það hafi verið val kæranda að hafa hótelið lokað á meðan í næsta nágrenni hafi verið rekið hótel sem rekstraraðilar hafi leitast við að halda opnu. Ákvarðanir rekstraraðila um að hafa ekki starfsemi í fasteign, hvort sem það sé vegna náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum, geti almennt ekki haft nein áhrif á skyldu eigenda fasteigna til að greiða fasteignaskatt af fasteignum sínum. Þá er á svæðum utan dreifbýlis ýmis önnur atvinnustarfsemi en hótelrekstur sem glími einnig við áskoranir í sínum rekstri vegna náttúruhamfara, m.a. raforku-framleiðsla í Svartsengi og fiskeldisstarfsemi á svæði 7 á hættumatskortinu. Þessir aðilar þurfi allir að greiða fasteignaskatt af sínum fasteignum.

Sveitarfélagið vísar á bug röksemdum kæranda um að það hafi víkkað út mörk þéttbýlis út fyrir skilgreiningu skipulagslaga, þannig að mörkin nái til flestra mannvirkja í sveitarfélaginu, en þó ekki fasteignar kæranda. Sú staðreynd að þéttbýlismörk nái til frekar dreifðrar, sögulegrar, íbúðabyggðar í Þórkötlustaðahverfi hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Sveitarfélagið telur samkvæmt framansögðu að málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun bæjarstjórnar að fella ekki niður álagningu fasteignaskatts á fasteignir í dreifbýli, að frátöldu einu mannvirki á svæði 3 á hættumatskorti Veðurstofu Íslands, sem hafði orðið fyrir altjóni. Bæjarstjórn sveitarfélagsins hafi verið meðvituð um þær áherslur löggjafans sem fram komu í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 4/2024 og hafi haft þær að leiðarljósi í ákvarðanatöku sinni. Um sé að ræða tímabundna heimild sem taki mið af núverandi aðstæðum varðandi búsetu og dvöl í sveitarfélaginu og gildi ákvörðun bæjarstjórnar aðeins fyrir yfirstandandi ár.

Vegna tilvísunar kæranda til meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna bendir sveitarfélagið á að það hafi leitast við að gæta meðalhófs, þó ekki með því að lækka skatthlutfall eða veita afslátt til fasteignaeigenda í dreifbýli, sem ef til vill hefði verið mögulegt, heldur með því að fresta hverjum gjalddaga fasteignaskatts um sex mánuði.

Varðandi meint brot gegn rannsóknarreglu þá telur sveitarfélagið að nægar upplýsingar hafi legið fyrir áður en ákvörðun var tekin. Á fundum bæjarstjórnar í aðdraganda ákvörðunar hafi fjármálastjóri sveitarfélagsins m.a. farið yfir hvaða fasteignir yrðu andlag fasteignaskatts. Á þeim tímapunkti sem ákvörðun var tekin í byrjun febrúar 2024 var almenn óvissa um rekstrarforsendur fyrirtækja og möguleika til búsetu í sveitarfélaginu og því tæplega grundvöllur til þess að leggja óhóflega ríka rannsóknarskyldu á bæjarstjórn varðandi forsendur einstakra fyrirtækja eða bera þær forsendur saman við stöðu fyrirtækja í þéttbýli sem fengu niðurfellingu fasteignaskatts. Við undirbúning ákvörðunar hafi verið gengið út frá því að rekstrarforsendur fyrir starfsemi kæranda væru sambærilegar við aðra ferðaþjónustustarfsemi í Svartsengi, enda hafi þau fyrirtæki leitast við að halda starfsemi áfram þrátt fyrir náttúruhamfarir.

Sveitarfélagið vekur athygli á minnisblöðum innviðaráðuneytisins til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Í öðru þeirra sé sérstaklega fjallað um 4. tl. 1. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 4/2024 en niðurstaða þingnefndarinnar var að fella umrætt ákvæði brott úr frumvarpinu. Fyrrgreindur töluliður hefði heimilað að byggja ákvörðun á öðrum málefnalegum sjónarmiðum en þeim sem rakin eru í 1. - 3. tl. greinarinnar. Telja verður að með þeirri breytingu hafi svigrúm bæjarstjórnar til þess að taka sérstakt tillit til einstakra fasteigna verið verulega skert. Verður m.a. að telja það miklum annmörkum háð að fella niður fasteignaskatt á fasteign kæranda, vegna þess að þar hafi ekki verið starfsemi, en innheimta á sama tíma fullan fasteignaskatt af öðrum fasteignum á svæði 4 á hættumatskorti Veðurstofu Íslands.

Sveitarfélagið telur að tilvísun kæranda til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 389/2011 eigi ekki við í málinu og þá sé ítrekað að ákvörðun bæjarstjórnar sveitarfélagsins gangi á engan hátt gegn markmiðum laga nr. 4/2024.

Vegna tilvísunar kæranda til breytinga á hættumatskorti Veðurstofu Íslands þá áréttar sveitarfélagið að ekki sé verið að gera lítið úr því að hótelrekstur við þessar aðstæður sé mjög krefjandi. Engu að síður virðist sem öðrum rekstraraðilum á Svartsengi hafi tekist að halda starfseminni áfram við þessar aðstæður. Þessi málsástæða kæranda geti því ekki haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Engin leið hafi verið fyrir bæjarstjórn Grindavíkurbæjar að sjá fyrir þær breytingar sem orðið hafa á hegðun eldgosa á Reykjanesi þegar hin kærða ákvörðun var tekin í byrjun febrúar sl.


 

IV.       Athugasemdir kæranda

Kærandi bendir á að fyrir liggi að aðeins ein fasteign sem staðsett sé utan þéttbýlismarka samkvæmt aðalskipulagi Grindavíkur sé undanþegin fasteignaskatti. Af þessu megi ráða að aðeins sú fasteign hafi verið undanþegin fasteignaskatti vegna staðsetningar á skilgreindu hættusvæði en aðrar fasteignir á þeim grundvelli að þær væru staðsettar í þéttbýli, án tillits til hættumats og þar með mats á áhrifum á óvissu af völdum náttúruhamfara. Því verði ekki séð að borin hafi verið saman áhrif náttúruhamfaranna á fasteignir innan og utan þéttbýlis. Þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi ekki byggt undanþágu frá fasteignagjöldum innan þéttbýlis á skilgreiningu hættusvæðis þá leggi sveitarfélagið  ríka áherslu á það í umsögn sinni vegna málsins að það hafi verið að byggja á hættumati. Látið sé að því liggja að ,,töluverð” hætta á hraunflæði og gasmengun sé léttvæg og valdi ekki hættu á lífi og heilsu. Kærandi ítrekar að hættusvæðið í Svartsengi sé sambærilegt svæði í þéttbýli, a.m.k. með tilliti til gistireksturs. Athygli sé vakin á því að á hættumatskorti Veðurstofu Íslands frá 29. maí 2024 sé svæði 1 rautt svæði, þ.e. svæði þar sem hætta sé mikil. Þegar mengun hafi verið mikil hafi gestum verið meinað að vera úti og skyldað til að hafa glugga lokaða. Þá séu dæmi um að starfsfólk annarra atvinnurekenda á svæðinu hafi lent á sjúkrahúsi vegna mengunar.

Þá bendir kærandi á að í umsögn sveitarfélagsins sé starfsemi í fasteign kæranda lögð að jöfnu við aðra starfsemi á Svartsengissvæðinu, einkum starfsemi Bláa lónsins, en því sé aftur á móti hafnað að bera hefði átt starfsemina saman við aðra starfsemi innan þéttbýlis. Vegna þessarar umfjöllunar ítrekar  kærandi að hann hafi leitast við að halda rekstri í fasteigninni gangandi. Hótelgisting sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að hafa fyrirsjáanleika í starfseminni en slíkt sé ekki til staðar. Gögn varðandi bókunarstöðu og nýting hótelsins á síðasta ári og það sem af er þessu ári sýni að bókunarstaðan hafi litið vel út í nóvember 2023 en hún hafi hrunið á næstu mánuðum eftir það og raunnýting verið nánast engin eða að meðaltali 9,8% fyrstu fjóra mánuði ársins 2024. Þetta helgist af því að lokað var til 11. janúar 2024 í kjölfar hamfaranna í nóvember 2023 og eldgoss í desember 2023. Síðan hafi þurft að loka á nýjan leik þegar eldgos hófst 14. janúar 2024. Þannig hafi sagan eldurtekið sig og nú síðast hafi hótelið opnað 22. maí 2024 en það hafi þurft að loka 29. maí sl. vegna eldgoss. Rekstraraðili fasteignar kæranda hefði kosið að fá til sín gesti sem höfðu bókað gistingu en óvissan af völdum náttúruhamfara gerði starfsemina ómögulega. Gestir hótelsins taki upplýsta ákvörðun með hliðsjón af tilmælum lögregluyfirvalda og almannavarna og umfjöllunar fjölmiðla. Rekstraraðilar hótelsins hafa þannig leitast við að hafa starfsemi sína opna en hafa ítrekað þurft að loka fyrirvaralaust. Fullyrðingu sveitarfélagsins um að það sé val rekstraraðila að hafa lokað sé mótmælt. Þvert á móti hafi opnun tekið mið af því hvað sé leyfilegt og raunhæft hverju sinni.

Samanburður við aðra eigendur fasteignaeigendur á Svartengissvæðinu sé afar ómálefnalegur, annars vegar er þar um að ræða Bláa lónið sem hafi 84% tekna sinna af starfsemi sem einungis sé rekin yfir daginn og lýtur þannig ekki sömu lögmálum og næturgisting. Sú starfsemi geti opnað um leið og takmörkunum sé aflétt. Hins vegar sé um að ræða aðila í raforkuframleiðslu eða fiskeldi og fái kærandi ekki séð að stöðu hans verði jafnað við stöðu þeirra enda geti þeir haldið starfsemi sinni áfram þrátt fyrir áskoranir. Í öllu falli liggi ekki fyrir rannsókn af hálfu sveitarfélagsins á tekjusamdrætti þessarar starfsemi til samanburðar við stöðu kæranda en í umfjöllun fjölmiðla hafi m.a. komið fram að unnt hafi verið að keyra raforkuframleiðslu á fullum afköstum. Eðli hótelreksturs sé sérstakur að því leyti að rekstraraðili þarf að útvega gestum annað sambærilegt gistirými á eigin kostnað, þ.m.t. að standa undir kostnaði við ferðalög og annan tilfallandi kostnað gesta. Tjónið sé því ekki einskorðað við tekjumissinn. Þá sé bent á að ýmsir aðilar innan þéttbýlis hafi fengið fasteignagjöld sín niðurfelld þrátt fyrir að geta haldið starfsemi sinni gangandi ólíkt kæranda.

Áréttað sé í tilefni af umsögn sveitarfélagsins þar sem fram komi að ákvarðanir rekstraraðila um að hafa ekki starfsemi í fasteign hvort heldur er vegna náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum, geti almennt ekki haft áhrif á skyldu fasteignaeigenda til að greiða fasteignaskatt, að þegar ákveðið sé að fella niður fasteignaskatt á grundvelli laga beri sveitarfélaginu samt sem áður að gæta jafnræðis og tryggja að kærandi njóti sama réttar og aðrir.

Kærandi telur að umfjöllun sveitarfélagsins um að meðalhófs hafi verið gætt með því að veita greiðslufrest á fasteignagjöldum verði vart skilin öðruvísi en að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Það sem mögulegt var að grípa til þess úrræðis að lækka fasteignagjöld kæranda, ef talið hefði verið að staða hans hefði einungis að hluta til verið sambærileg öðrum, þá hefði í samræmi við meðalhófsreglu átt að lækka gjöldin hlutfallslega. Við beitingu meðalhófsreglu mætti horfa til þess að hvaða marki hefði verið unnt að nýta fasteign kæranda.

Að mati kæranda staðfesti umfjöllun í umsögn sveitarfélagsins um að ekki sé grundvöllur til að leggja óhóflega ríka rannsóknarskyldu á bæjarstjórn hvað varðar forsendur einstakra fyrirtækja í sveitarfélaginu, að bæjarstjórn hafi ekki sinnt lögbundinni rannsóknarskyldu sinni við hina kærðu ákvörðun. Engra upplýsinga hafi t.d. verið aflað frá kæranda um starfsemi í fasteign hans áður en ákvörðunin var tekin. Einungis örfáir aðilar séu undanþegnir niðurfellingu fasteignagjalda og því bar bæjarstjórn að kanna stöðu þeirra sérstaklega. Við slíka rannsókn hefði komið í ljós að kærandi naut ekki jafnræðis á við aðra í sambærilegri stöðu. Rekstrarforsendur starfsemi kæranda séu gjörólíkar öðrum sem starfa í Svartsengi og mun sambærilegri þeim sem eru innan skilgreindra þéttbýlismarka Grindavíkur. Grundvallarforsenda sem sveitarfélagið lagði til grundvallar ákvörðun sinni um að undanskilja kæranda við niðurfellingu fasteignaskatts, þ.e. að staða hans sé sambærileg við aðra á Svartsengissvæðinu, sé því brostin.

Kærandi bendir á að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 389/2011 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið væri bótaskylt vegna þess að viðkomandi sveitarstjórn hafði ekki sýnt fram á að jafnræðissjónarmiða hafi verið gætt við úthlutun aflaheimilda fiskveiðiárið 2005/2006 þegar ákvörðun var tekin um að ganga á svig við skýrar reglur um jafna skiptingu kvóta milli umsækjenda. Sambærileg skylda hvíli á bæjarstjórn Grindavíkur við töku ákvörðunar um að veita tilteknum fasteignareigendum niðurfellingu fasteignagjalda en ekki öðrum, en að því hafi ekki verið gætt.

V.        Niðurstaða

I.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b- og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

i a-liðar gr. 3. gr. laga nr. 4/h falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaður-, skrifstofu- og verslunarhlið Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

II.

Þann 31. janúar 2024 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 4/2024 um breytingu á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Lögin voru samin í samráði við Grindavíkurbæ og Samband íslenskra sveitarfélaga og voru liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin í Grindavíkurbæ vegna aðsteðjandi náttúruvár. Með lögunum bættust fimm ný bráðabirgðarákvæði við  lög nr. 4/1995 þar sem m.a. var lögfest heimild fyrir Grindavíkurbæ til að lækka eða falla frá álagningu fasteignaskatt á árinu 2024.

Í greinargerð með frumvarpi til fyrrgreindra laga kom m.a. fram að einkum væri horft til þess að íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu kæmi ekki til með að nýtast eigendum til búsetu á árinu 2024 ef fram héldi sem horfði. Hið sama ætti í meginatriðum einnig við um atvinnuhúsnæði. Álagning fasteignaskatts við slíkar aðstæður væri í andstöðu við viðleitni stjórnvalda, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja til að skapa íbúum Grindavíkur greiðsluskjól á meðan aðstæður væru með þeim hætti að þeir gætu ekki notið eigna sinna í Grindavík vegna neyðarástands. Þar sem ekki væru að finna skýrar heimildir í lögum um heimild sveitarfélags til að fella niður fasteignaskatt vegna náttúruvár eða annarra neyðarsjónarmiða sem uppfylla lagaáskilnaðarkröfur stjórnarskrárinnar þætti nauðsynlegt að festa slíkar heimildir í lög til að enginn vafi léki á því að sveitarfélaginu yrði heimilt að lækka eða fella niður álagningu fasteignaskatt í sveitarfélaginu.

Bráðabirgðarákvæði XXIX í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sbr. a. (I.) lið 1. gr. laga nr. 4/2024 er svohljóðandi:

,,Þrátt fyrir 3. gr. er bæjarstjórn Grindavíkurbæjar heimilt að falla frá álagningu fasteignaskatts, í heild eða að hluta, á árinu 2024 vegna óvissu af völdum náttúruhamfara sem ógna öryggi íbúa sveitarfélagsins. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar er jafnframt heimilt að gera greinarmun á fasteignum þegar fasteignaskattur er felldur niður í heild eða hluta á grundvelli eftirfarandi atriða:

1. Í hvaða flokk fasteignir falla skv. 3. mgr. 3. gr.

  1. Staðsetningar fasteigna í þéttbýli og dreifbýli.
  2. Staðsetningar fasteigna á hættusvæðum sem skilgreind eru af Veðurstofu Íslands.”

Á grundvelli ofangreinds lagaákvæðis samþykkti bæjarstjórn Grindavíkurbæjar á fundi sínum þann 5. febrúar 2024 svofellda tillögu um að falla frá álagningu fasteignaskatts í Grindavík fyrir árið 2024 á fasteignir innan þéttbýlismarka Grindavíkur skv. aðalskipulagi Grindavíkurbæjar 2018-2032 sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, svo og á fasteignir innan hættusvæðis 3 skv. hættumatskorti Veðurstofu Íslands frá 1. febrúar 2024 kl. 15.00:

,,Alþingi samþykkti þann 31.01.2024, lög nr. 979/2024, um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (fasteignaskattur í Grindavíkurbæ). Með vísan til þessara laga er hér lögð fram tillaga um að falla frá álagningu fasteignaskatts í Grindavík fyrir árið 2024 á eftirfarandi eignir:

Að fallið verði frá álagningu á eignir sem falla undir a- og c- lið 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og eru innan þéttbýlismarka Grindavíkur skv. aðalskipulagi Grindavíkurbæjar 2018-2032. Auk þessa verði fallið frá álagningu fasteignaskatts á eignir sem eru innan hættusvæðis 3, skv. hættumatskorti Veðurstofu Íslands, útgefið 1. febrúar 2024.”

III.

Verði ágreiningur um gjaldskyldu samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sker yfirfasteignamatsnefnd úr, sbr. 2. málslið 3. mgr. 4. gr. laganna. Afmarkast valdheimildir yfirfasteignamatsnefndar í máli þessu því við að leysa úr því hvort kæranda beri skylda til að greiða fasteignaskatt af fasteign sinni að Norðurljósavegi [], Grindavík, vegna ársins 2024. Krafa kæranda um að ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar frá 5. febrúar 2024 um niðurfellingu fasteignaskatts í sveitarfélaginu taki einnig til fyrrgreindrar fasteignar hans fellur hins vegar utan valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar og verður henni því vísað frá nefndinni.

Í bráðabirgðaákvæði XXIX í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. a. (I.) lið 1. gr. laga nr. 4/2024, er eins og áður greinir m.a. tiltekið að heimilt sé að falla frá álagningu fasteignaskatts á fasteignir í Grindavík, í heild eða að hluta, á árinu 2024 vegna óvissu af völdum náttúruhamfara sem ógni öryggi íbúa sveitarfélagsins og sé bæjarstjórn heimilt að gera greinarmun á fasteignum þegar fasteignaskattur sé fellur niður í heild eða að hluta á grundvelli þess í hvaða flokk fasteignir falli skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, staðsetningar fasteigna í þéttbýli og dreifbýli og staðsetningar fasteigna á hættusvæðum sem skilgreind séu af Veðurstofu Íslands.

Ákvörðun um að fallið yrði frá álagningu fasteignaskatts á nánar tilgreindar fasteignir í Grindavík fyrir árið 2024 var tekin á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 5. febrúar 2024. Þannig ákvað sveitarfélagið Grindavíkurbær að falla frá álagningu fasteignaskatts á eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem staðsettar eru innan þéttbýlis Grindavíkur. Heyra fasteignir á því svæði undir hættisvæði 4 samkvæmt hættumatskorti Veðurstofu Íslands frá 15. febrúar 2024 kl. 15.00, þar sem hætta er talin töluverð samkvæmt þar til gerðum kvarða. Þá var ákveðið að falla frá álagningu fasteignaskatts á eignir sem heyra undir hættusvæði 3 samkvæmt sama hættumatskorti, en þar er hætta talin mikil samkvæmt þar til gerðum kvarða. Þar fyrir utan mun sveitarfélagið hafa fallið frá álagningu fasteignaskatts á eina eign í dreifbýli sem hafi orðið fyrir altjóni. Fasteign kæranda er á hinn bóginn staðsett í dreifbýli og heyrir undir hættusvæði 1 þar sem hætta er talin nokkur út frá sama kvarða. Var heimildarinnar í bráðabirgðaákvæði XXIX í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. a. (I.) lið 1. gr. laga nr. 4/2024, til að falla frá álagningu fasteignaskatta þannig ekki beitt gagnvart fasteign kæranda, en honum mun hafa boðist sex mánaða greiðslufrestur á skattinum.

Þó ekki verði af bókun bæjarstjórnar 5. febrúar 2024 einni ráðið á hvaða sjónarmiðum hafi verið byggt við töku ákvörðunarinnar verður af málatilbúnaði sveitarfélagsins fyrir yfirfasteignamatsnefnd ráðið að þar hafi verið litið til þeirra sjónarmiða sem heimilt sé að líta til við töku slíkrar ákvörðunar samkvæmt heimild í 1. til 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis XXIX í lögum nr. 4/1995, sbr. a. (I.) lið 1. gr. laga nr. 4/2024. Þá verður einnig ráðið af málatilbúnaði sveitarfélagsins að lagt hafi verið mat á stöðu fasteigna í sveitarfélaginu og þá með tilliti til þess hvort og með hvaða hætti væri hægt að nýta þær þrátt fyrir aðsteðjandi náttúruvá, m.a. í ljósi þess hvar þær væru staðsettar samkvæmt hættumatskorti Veðurstofu Íslands. Af hættumatskortinu leiðir að nokkur munur var á milli hættusvæða. Þannig voru aðstæður til atvinnureksturs á hættusvæði 1 nokkuð ólíkar þeim sem voru á hættusvæðum 3 og 4.

Þegar horft er til þess neyðarástands sem ríkt hefur í sveitarfélaginu vegna aðsteðjandi náttúruvár verður að telja fyrrgreindan rökstuðning sveitarfélagsins fullnægjandi. Mat sveitarfélagins á þeim fasteignum sem fallið var frá álagningu fasteignaskatt á var málefnalegt og grundvallaðist á þeim atriðum sem fram koma í bráðabirgðarákvæði XXIX í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. a. (I.) lið 1. gr. laga nr. 4/2024. Þá er einnig til þess að líta að stjórnvöld njóta víðtæks svigrúms við ákvörðun um álagningu skatta og það sama gildir um ákvörðun um að falla frá slíkri álagningu. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að ákvörðun sveitarfélagsins 5. febrúar 2024 um að falla frá álagningu fasteignaskatts á nánar tilgreindar fasteignir innan sveitarfélagsins beri hvorki vott um að ómálefnaleg sjónarmið hafi þar ráðið för né heldur að skattaðilum hafi við það tilefni verið mismunað. Að mati yfirfasteignamatsnefndar verður því að telja að fyrrgreind ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið byggð á lögmætum og málefnalegum forsendum.

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda, um að felld verður niður álagning fasteignaskatts árið 2024 á fasteign hans að Norðurljósavegi [], Grindavík, fnr. [], er hafnað.

Kröfu kæranda, um að ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar um niðurfellingu fasteignaskatts í sveitarfélaginu frá 5. febrúar 2024 taki einnig til fasteignar kæranda að Norðurljósavegi [], Grindavík, fnr. [], er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

              ________________________

  Björn Jóhannesson

______________________                                                    ______________________

                Axel Hall                                                                                                                              Valgerður Sólnes

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta