Mál nr. 11/2024-Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 11/2024
Frístundabyggð: Félagsaðild.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með álitsbeiðni, dags. 4. janúar 2024, beindi A, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 14. október 2024, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 24. október 2024, og athugasemdir gagnaðila, dags. 6. nóvember 2024, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 23. janúar 2025.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Álitsbeiðandi er félag um sameiginlega hagsmuni í frístundabyggð og gagnaðili er umráðamaður tveggja lóða í frístundabyggðinni.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að fasteign gagnaðila, C, beri skylduaðild að álitsbeiðanda með þeim réttindum og skyldum sem slíkri félagsaðild fylgi.
Í álitsbeiðni segir að á grundvelli 17. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús hafi álitsbeiðandi verið stofnaður 27. maí 2016. Gagnaðili hafi lýst yfir að hann teldi sig ekki eiga aðild að félaginu og neiti að greiða sameiginleg gjöld, nema þau sem séu honum þóknanleg. Þannig hafi hann greitt kröfur vegna framkvæmda árin 2017 og 2018 en hafnað greiðslu annarra krafna, þar með töldum félagsgjöldum. Lóð hans sé þó innan þess svæðis sem skilgreint hafi verið í samþykktum félagsins á stofnfundi árið 2016. Af fyrirliggjandi yfirlitsmynd megi sjá hvernig hagsmunir gagnaðila séu sameiginlegir öðrum félagsmönnum, þar sem aðgengi að lóð hans sé í gegnum sameiginlegt hlið og veg. Þá hafi hann ekki haft uppi nein málefnaleg andmæli við fyrirhugaðri stofnun álitsbeiðanda, aðild hans að félaginu eða tilgangi þess. Hann hafi tekið þátt í málefnum félagsins og mætt til funda, sbr. aðalfundargerð ársins 2017, þegar hann hafi tekið þátt í vinnu við endurbætur á sameiginlegum vegum. Hann hafi ávallt verið boðaður til funda og þannig fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka þátt í störfum félagsins. Gagnaðili hafi ekki sýnt fram á að forsendur séu fyrir því að hann geti staðið utan aðildar að félaginu, enda eigi þröngar undantekningar sem finna megi í 1.-3. tölul. 1. mgr. 17. gr. ekki við um lóð hans. Breyti þá engu um aðrar lóðir sem talið hafi verið að féllu undir þær undantekningar og fengið hafi leyfi til að standa að hluta til utan félagsins. Vísað sé í dóm Landsréttar í máli nr. 199/2020. Þá sé kveðið á um í samþykktum álitsbeiðanda að boða megi fund með tölvubréfi á það netfang sem forráðamaður eignarinnar hafi látið stjórninni í té og teljist það fullnægjandi svo fremi sem ekki komi boð um það til sendanda að tölvupósturinn hafi ekki komist til skila.
Gagnaðili kveður að árið 2006 hafi verið samþykkt deiliskipulag að frístundabyggð í landi D, þrátt fyrir mótmæli 9 af 11 lóðarhöfum sem þegar hafi verið með lóðir og/eða frístundahús á svæðinu. Í aðdraganda að stofnun álitsbeiðanda hafi gagnaðili, ásamt fleirum af lóðarhöfum utan deiliskipulags, gert athugasemdir við að ekki væri skýr aðskilnaður á hlutverki og rekstri félagsins gagnvart mismunandi sameiginlegum innviðum sem að stærstum hluta fælist í deiliskipulagi nýju byggðarinnar.
Gagnaðili sé ekki aðili að félaginu en telji sig þó hafa sama áheyrnarrétt líkt og kveðið sé á um í þeim samningum sem hafi verið gerðir við aðra um undanþágu um aðild. Þá hafi álitsbeiðandi ekki orðið við ítrekuðum beiðnum hans um aðgang að gögnum, heldur hafi verið vísað til þess að hægt sé að bóka fund og skoða gögn á skrifstofu E. Í 4. gr. í samþykktum álitsbeiðanda sé hlutverk hans skilgreint og séu þar annars vegar sameiginlegir hagsmunir og hins vegar hagsmunir þeirra sem falli undir deiliskipulag og tekið fram að eigendur í eldri byggð taki ekki þátt í því sem falli undir sameiginlegar skyldur og innviði samkvæmt deiliskipulagi. Samkvæmt gögnum álitsbeiðanda séu allir lóðarhafar krafðir um sömu fjárhæð og engin sundurliðun eða aðgreining gjalda sett fram, önnur en sú sem komi fram í ársreikningi sem sé ófullnægjandi. Gagnaðili hafi tekið fram að hann hygðist ekki ganga í félagið en skorist ekki undan skyldum um að greiða í eðlilegu viðhaldi stofnvegar svæðisins. Engin viðurkenning á félagsaðild hafi verið fólgin í greiðslu á tveimur reikningum vegna framkvæmda við veginn.
Gagnaðili hafi ekki alltaf fengið boð á fundi. Frá árinu 2017 hafi álitsbeiðandi notað óvirkt netfang en gagnaðili hafi skráð upplýsingar um breytt netfang á viðveruskjal á fundi það ár en fyrst árið 2020 hafi hann fengið fundarboð sent á það netfang. Aðalforsenda þess að gagnaðili telji að honum sé stætt á að standa utan álitsbeiðanda sé sú að ekki sé hægt að mismuna aðilum innan svæðisins sem séu þar á sömu forsendum og komi fram sem rök fyrir þeim samningum sem gerðir hafi verið við tvo landeigendur vegna undanþágu þeirra um aðild að álitsbeiðanda. Stjórn álitsbeiðanda hafi ekki svarað beiðni sem hafi komið fram á fundi um að aðrir sem væru í sömu stöðu fengju samskonar undanþágu.
III. Forsendur
Gagnaðili gerir ekki ágreining um að frístundahús hans falli innan félagssvæðis viðkomandi frístundabyggðar, þ.e. að lóð hans sé innan jarðarmarka, sbr. 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, heldur eru andmæli hans byggð á því að hagsmunir hans af aðildinni séu takmarkaðir enda séu þeir einungis tengdir sameiginlegum veg sem og að fordæmi séu fyrir því að umráðamenn lóða innan byggðarinnar hafi fengið undanþágu frá aðild.
Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008 segir að í frístundabyggð sé umráðamönnum lóða undir frístundahús skylt að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni, en í ákvæðinu eru jafnframt tilgreindar þrjár undantekningar frá þeirri skylduaðild sem ákvæðið kveður á um. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2008 kemur fram í 3. hluta VI. kafla að miðað sé við að heimildir löggjafans til að mæla fyrir um skylduaðild að félagi í frístundabyggð helgist af þeim nánu tengslum sem telja má að séu á milli manna og af 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum sem ákvæðið er byggt á.
Álitsbeiðandi sinnir lögbundnu hlutverki, sbr. 19. gr. laga nr. 75/2008, í þeirri frístundabyggð þar sem gagnaðili er umráðamaður lóðar. Í 2. mgr. 17. gr. er kveðið á um að félagssvæði ráðist af jarðarmörkum og að heimilt sé að sérstakir hagsmunir eða önnur landfræðileg mörk afmarki umdæmi félags þannig að fleiri en eitt félag geti starfað á sömu jörð eða félagssvæði nái til fleiri en einnar jarðar. Þrátt fyrir að gagnaðili nefni þetta sem möguleika hafa engar ákvarðanir verið teknar um stofnun fleiri en eins félags á svæðinu.
Gagnaðili byggir jafnframt á því að gerður hafi verið samningur við tvo lóðarhafa um undanþágu frá aðild að álitsbeiðanda þrátt fyrir að vera innan frístundabyggðarinnar. Með hliðsjón af framangreindri 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008 er aðild gagnaðila að álitsbeiðanda lög- og skyldubundin, en kærunefnd telur að það sé ekki á færi álitsbeiðanda að veita einstaka umráðamönnum lóða innan skilgreindrar frístundabyggðar undanþágur frá þeirri skylduaðild sem lögin kveða á um. Verður því fallist á kröfu álitsbeiðanda.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfu álitsbeiðanda.
Reykjavík, 23. janúar 2025
Auður Björg Jónsdóttir
Víðir Smári Petersen Eyþór Rafn Þórhallsson