Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 241/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

nr. 241/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 3. júní, er tekið fyrir mál nr. 228/2015; kæra A og B, dags. 9. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

 Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 5. ágúst 2014. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda var samtals 4.568.830 kr. en hámarksleiðrétting lána er 4.000.000 kr. Frádráttarliðir námu samtals 600.000 kr. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var því samtals 3.400.000 kr. og var hún birt kærendum 11. nóvember 2014.            

Með kæru, dags. 6. mars 2015, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru taka kærendur fram að óheimilt sé að draga vaxtabætur frá hámarksfjárhæð leiðréttingarinnar. Kærendur telja að hjá hvoru þeirra ættu vaxtabætur að fjárhæð 300.000 kr. að vera dregnar frá útreiknaðri leiðréttingu lána að fjárhæð 2.284.415 kr., án tillits til skerðingar vegna hámarksfjárhæð leiðréttingar, og ætti því leiðréttingin að nema samtals 1.984.415 kr. hjá hvorum kæranda. Kærendur benda á að í 6. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 sé talað um „heildarsamtölu útreiknaðrar leiðréttingar“ og í lögunum standi ekkert um að ef grundvöllur leiðréttingar sé hærri en 4 milljónir á par/hjón eigi að nota þá tölu sem hámark og taka svo tillit til frádráttarliða.         

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Útreiknuð leiðrétting lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, er 2.284.415 kr. hjá hvorum kærenda, eða samtals 4.568.830 kr., en með hliðsjón af hámarki leiðréttingar samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 var útreiknuð leiðrétting lána 4.000.000 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samtals 600.000 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 8. og 9. gr. sömu laga. Nánar tiltekið er um að ræða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu hjá báðum kærendum að fjárhæð 300.000 kr. árið 2011 og 300.000 kr. árið 2012.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í f-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. sérstaka vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Ágreiningslaust virðist vera að kærendur hafi notið þeirra úrræða sem koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu. Hefur því ekki verið mótmælt að sérstök vaxtaniðurgreiðsla hafi numið 600.000 kr. Kærendur virðast einkum byggja málatilbúnað sinn á því að niðurfærsla vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu skuli dragist frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 1.-5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014, en frá ekki hámarksfjárhæð 6. mgr. 7. gr. sömu laga. Í 6. mgr. 7. gr. laganna, kemur fram að heildarsamtala útreiknaðrar leiðréttingar einstaklings, hjóna, sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar og fleiri einstaklinga sem áttu í sameign heimili geti að hámarki orðið 4.000.000 kr. Af ákvæðinu leiðir að útreiknuð leiðrétting lána samkvæmt 7. gr. laganna verður að hámarki 4.000.000 kr. Ljóst er að leiðréttingarfjárhæð kærenda, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, er útreiknuð leiðrétting lána kærenda samkvæmt 7. gr. laganna að frádregnum frádráttarliðum einstaklinga samkvæmt 8. gr. laganna. Hámarkið sem kveðið er á um í 6. mgr. 7. gr. laganna kemur þannig til skoðunar áður en tekið er tillit til frádráttarliða samkvæmt 8. gr. laganna, eins og gert er í ákvörðun ríkisskattstjóra.

Eins og fyrr segir var hámarksleiðrétting samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 samtals 4.000.000 kr. Þar sem óumdeilt er að kærendur nutu sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012 kemur fjárhæð hennar, 600.000 kr., að fullu til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014.      

Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.


Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum