Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 7/2020

Árið 2020, 4. september, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 7/2020 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 11. júní 2020, kærði Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, ákvörðun sveitarfélagsins Húnavatnshrepps frá 19. mars 2020 varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignarinnar; Blönduvirkjun, starfsmannahús, matshluti 03-0101, Húnavatnshreppi, fnr. 213-7466, fyrir árið 2020.

 

Með bréfi yfirfasteignamatsnefndar, dags. 22. júní 2020, var kæran kynnt Húnavatnshreppi og jafnframt óskað eftir umsögn sveitarfélagsins vegna kærunnar. Umsögn sveitarfélagsins barst nefndinni með bréfi, dags. 25. júní 2020.

 

Umsögn sveitarfélagsins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. júní 2020, og var honum jafnframt gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 22. júlí 2020, bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Þá bárust frekari athugasemdir vegna málsins frá Húnavatnshreppi 26. ágúst 2020 og frá kæranda 3. september 2020.

 

Málið var tekið til úrskurðar 4. september 2020.

 

I.              Málavextir

Kærandi er eigandi fasteignarinnar; Blönduvirkjun, Húnavatnshreppi, fnr. 213-7466, en fasteignin skiptist upp í sjö matshluta. Einn þessara matshluta er; Starfsmannahús, matshluti nr. 03-0101, samtals 2.335 fermetrar að stærð. Að sögn kæranda er starfsmannahúsið á þremur hæðum auk kjallara sem er að hluta til niðurgrafinn en þar eru bílskúrar, spennurými, aðstaða til þvotta og geymslur. Á fyrstu hæðinni er sameiginleg aðstaða, s.s. fundaherbergi, setustofur, frístundarými, matsalur og eldhús. Á annarri og þriðju hæð hússins eru vistarverur starfsmanna virkjunarinnar, 24 herbergi eru á annarri hæðinni og er hvert þeirra með snyrtingu en á þriðju hæðinni eru 9 herbergi með sameiginlegri snyrtingu.

 

Kærandi kveður íbúa starfsmannshússins vera starfsmenn kæranda, bæði fastráðnir starfsmenn svo og sumarvinnufólk sem sinni verkefnum við rekstur Blönduvirkjunar.  Nokkuð misjafnt sé hversu lengi hver og einn starfsmaður dvelji í húsinu hverju sinni en það geti verið allt að 14 nætur á mánuði hjá föstum starfsmönnum og allt að 30 nætur yfir sumartímann hjá sumarstarfsmönnum. Verktakar hafi einnig fengið að nýta herbergin í húsinu til gistinga á meðan þeir sinni verkefnum á svæðinu fyrir kæranda, en að öðru leyti séu það einungis starfsmenn kæranda sem þar dvelja. Þá sé einnig nokkuð algengt að fjölskyldur starfsmanna á vakt gisti hjá þeim í starfsmannahúsinu yfir jól og áramót. Þannig séu önnur og þriðja hæð hússins ávallt nýttar sem vistarverur starfsmanna og kveður kærandi engar breytingar hafi orðið á notkun hússins allt frá því það var byggt á árinu 1991. Af hálfu sveitarfélagsins, Húnavatnshrepps, hefur hins vegar verið talið að notkun starfsmannahússins hafi breyst nokkuð frá því að virkjunin tók til starfa. Rekstur virkjunarinnar hafi til að byrja með hvílt á því að starfsmenn hefðu lögheimilisskráningu og búsetu í húsinu og hafi verið stefnt að því að svo yrði. Nú eigi hins vegar enginn starfsmaður lögheimili á svæðinu og dvöl starfsmanna í húsinu sé bundin við vaktir þeirra í virkjuninni. Þessi breyttu not séu m.a. tilkomin vegna bættra samgangna, aukinnar fjarstýringar virkjunarreksturs og búsetu starfsmanna annars staðar.

 

Fram til ársins 2019 mun fasteignaskattur vegna starfsmannahússins að hluta til hafa verið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og að hluta til samkvæmt c-lið sama ákvæðis. Þetta má m.a. sjá af álagningarseðlum fasteignagjalda áranna 2018 og 2019 en þar kemur fram að fasteignaskattur reiknist 0,5% af hluta fasteigna-mats matshluta nr. 03-0101 (starfsmannahús) og matshluta nr. 04-0101 (stöðvarstjórahús). Álagningarseðlarnir bera það með sér að fasteignaskattur samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 hafi á þessum árum verið lagður á 48,72% af samanlögðu fasteignamati framangreindra tveggja matshluta, þ.e. starfsmannahúss og stöðvarstjórahúss.

 

Við álagningu fasteignagjalda ársins 2020 var álagningu fasteignaskatts breytt frá því sem áður hafði verið. Allir matshlutar fasteignarinnar að undanskildum matshluta nr. 04-0101 (stöðvarstjórahús) voru skattlagðir samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Þannig var ákveðið að breyta skattlagningu fasteignaskatt á starfsmannahúsið (matshluta nr. 03-0101), frá því sem verið hafði.

 

Með tölvubréfi, dags. 26. mars 2020, leitaði kærandi eftir því við Húnavatnshrepp að álagning fasteignagjalda ársins 2020 vegna starfsmannahússins yrði leiðrétt og var bent á að álagning fasteignaskatts á starfsmannahúsið (matshluti nr. 03-0101) hefði allt fram til ársins 2020 verið að hluta til samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og að hluta til samkvæmt c-lið sama ákvæðis.

 

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, hafnaði sveitarfélagið beiðni kæranda um leiðréttingu fasteignagjalda ársins 2020. Í bréfinu kom m.a. fram að forsenda fyrir skiptingu fasteignaskatts milli gjaldflokka a- og c-liðar laga nr. 4/1995 mætti væntanlega rekja til eldri stöðu s.s. til notkunar eignanna þegar starfsmenn Blönduvirkjunar voru þar búsettir, þágildandi löggjafar og annarra atriða sem hafi þótt skipta máli á þeim tíma. Breytt álagning tæki mið að núverandi notkun húsnæðisins sem sé einkum íverustaður fastra starfsmanna á vöktum og starfsmannaíbúðir fyrir tímabundna starfsmenn. Starfsmannahúsið sé auk þess á skráðri iðnaðar- og athafnalóð og nýting þess í beinum tengslum við atvinnustarfsemi kæranda á fasteigninni. Jafnframt hafi verið höfð hliðsjón af framkvæmd álagningar fasteignagjalda þar sem sambærileg nýting húsnæðis fyrir starfsmenn færi fram. Um væri að ræða tímabæra leiðréttingu fasteignagjalda sem fæli í sér jafnræði með tilliti til álagningar á sambærilegt húsnæði.

 

Kærandi vill ekki una við framangreinda ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

 

II.           Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að álagning fasteignaskatts vegna fasteignarinnar; Blönduvirkjun, starfsmannahús, matshluti 03-0101, Húnavatnshreppi, fnr. 213-7466, fyrir árið 2020 verði samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna þess hluta fasteignarinnar sem tekur til annarrar og þriðju hæðar hússins, alls um 44,91% flatarmáls fasteignarinnar, en samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna fasteignarinnar að öðru leyti.

 

Kærandi telur að með réttu beri að leggja fasteignaskatt á starfsmannahúsið hlutfallslega eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 miðað við raunverulega notkun mismunandi hluta hússins. Samkvæmt álagningarseðlum fasteignagjalda fyrri ára hafi fasteignaskattur samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verið lagður á 48,72% samanlagðrar fjárhæðar fasteignamats fyrir starfsmannahús auk stöðvarstjórahúss. Kærandi telur ljóst að álagning alls stöðvarstjórahússins hafi verið samkvæmt a-lið ákvæðisins sem leiði til þess að álagningunni hafi verið háttað með sama hætti fyrir 44,91% af starfsmannahúsinu eins og tiltekið sé í kröfugerð kæranda.

 

Kærandi vísar til þess að hluti starfsmannahússins sé aðeins notaður sem vistarverur starfsmanna á meðan þeir eru staðsettir á svæðinu vegna starfa sinna í tengslum við Blönduvirkjun. Á þetta við um 2. og 3. hæð hússins en aðrir hlutar þess séu á hinn bóginn nýttir í atvinnustarfsemi kæranda. Kjallarinn sé notaður til geymslu á bifreiðum og öðrum eignum kæranda og á fyrstu hæð hússins sé sameiginleg aðstaða fyrir alla þá sem eru á svæðinu, en ekki aðeins fyrir þá sem eru búsettir í herbergjunum á 2. og 3. hæð hússins.

 

Bendir kærandi á að ef afnotum fasteignar sé háttað þannig að greiða beri fasteignaskatt af eigninni á grundvelli fleiri en eins gjaldflokks, sbr. a-, b- eða c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu álagningar milli gjaldflokka á mismunandi hluta fasteignarinnar sbr. 6. gr. laganna. Krafa kæranda um hlutfallslega skiptingu álagningar fasteignaskatts á starfsmannahús kæranda við Blönduvirkjun styðjist við fyrrgreint ákvæði laganna og úrskurðarframkvæmd yfirfasteignamatsnefndar, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 21/2016, 10/2017 og 11/2017. Telur kærandi að leggja beri fasteignaskatt á 2. og 3. hæð starfsmannahússins samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en það ákvæði eigi m.a. við um íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum. Hugtökin íbúð eða íbúðarhús séu ekki skilgreind nánar í lögunum eða lögskýringargögnum með þeim og hafi því verið horft til annarra laga eða réttarheimilda við skýringa á ákvæðinu.

 

Við mat á því hvort fasteign telst til íbúðarhúsnæðis í skilningi fyrrgreinds lagákvæðis ber að mati kæranda að líta til þess grundvallaratriðis hver sé raunveruleg notkun þess hluta fasteignarinnar sem um ræðir. Þetta fái stoð í dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006 svo og í úrskurðarframkvæmd yfirfasteignamatsnefndar. Við mat á því hvort um íbúðarhúsnæði sé að ræða hafi yfirfasteignamatsnefnd m.a. litið til þess hvort húsnæði uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar, hvort húsnæði sé innréttað til íbúðar, hvort íbúar hafi þar skráð lögheimili og hve lengi íbúar hafi haft þar búsetu.

 

Kærandi bendir á að öll herbergin á 2. og 3. hæð starfsmannahússins séu innréttuð til íbúðar. Sérstakt baðherbergi fylgi sumum þeirra en önnur deili slíkri aðstöðu. Þeir íbúar sem dvelji í húsinu hafi hins vegar ekki skráð lögheimili þar. Þó að litið hafi verið til slíkra sjónarmiða í úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar þar sem fallist hefur verið á að álagning fasteignaskatts skuli fara eftir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 telur kærandi að ekki sé sambærileg staða upp í því máli sem hér um ræðir. Úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar beri það mér sér að skráning lögheimilis geti sýnt nægilega fram á að húsnæði sé íbúðarhúsnæði, sér í lagi ef búseta hefur verið til lengri tíma, en það sé hins vegar ekki nauðsynlegt skilyrði þess að húsnæði teljist til íbúðarhúsnæðis. Fyrst og fremst beri að horfa til raunverulegrar notkunar húsnæðisins. Notkun 2. og 3. hæðar starfsmannahússins sé sambærileg og ef um hefðbundið íbúðarhúsnæði væri að ræða.  Þó að breytilegt sé hvaða einstakingar hafi búsetu í herbergjum hússins og hversu lengi sé notkunin ávallt sú sama, þ.e. sem vistarverur starfsmanna. Notkunin sé sambærileg því ef fyrirtæki ætti fasteign hér á landi sem erlendir starfsmenn þess notuðu sem dvalarstað meðan þeir væru hér á landi að vinna í þágu viðkomandi fyrirtækis. Eðli málsins samkvæmt ættu starfsmennirnir ekki lögheimili þar og þó að íbúar væru ekki alltaf þeir sömu og dvöl þeirra mislöng væri notkun húsnæðisins alltaf óbreytt. Húnavatnshreppur hafi í rökstuðningi sínum vísað til þess að tekið hafi verið mið af framkvæmd álagningar fasteignagjalda þar sem sambærileg nýting húsnæðis fyrir starfsmenn færi fram en ekki nefnt nokkur dæmi því til stuðnings.

 

Kærandi telur að opinber skráning starfsmannahússins eða staðsetning þess á iðnaðarlóð hafi ekki þýðingu við mat á því hvort um íbúðarhúsnæði sé að ræða eða ekki. Í úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar, m.a. í máli nr. 12/2017, hafi verið talið að opinber skráning hafi ekki þýðingu að þessu leyti. Þá telur kærandi að tilvísun Húnavatnshrepps til þess að fasteignin sé í beinum tengslum við atvinnurekstur kæranda ekki standast skoðun og vísar í því sambandi m.a. til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 5/2014.

 

Þá bendir kærandi á að starfsmannahúsið hafi verið byggt á árinu 1991 í samræmi við þá-gildandi byggingarreglugerð og fengið úttektir yfirvalda. Í úrskurðum yfirfasteignamats-nefndar þar sem litið hafi verið til þess hvort íbúðarhúsnæði samræmist byggingarreglugerð hafi álitaefnið oftast nær snúist um húsnæði sem hafi verið breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Slík staða sé ekki upp í þessu máli enda starfsmannahúsið byggt í þeim tilgangi að þar séu vistarverur starfsmanna og hafi notkun þess verið óbreytt í 29 ár. Kærandi fái því ekki séð að tilefni eða rök standa til þess að breyta álagningu fasteignaskatts frá því sem áður hafi verið enda hafi sveitarfélagið ekki bent á fordæmi eða úrskurði yfirfasteignamatsnefndar til stuðnings fyrrgreindri ákvörðun sinni.

 

 

III.       Sjónarmið Húnavatnshrepps

Af hálfu Húnavatnshrepps er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Vísað er til þess að álagning fasteignaskatts á stöðvarhús Blönduvirkjunar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 byggi á því að matshlutar stöðvarhússins séu ekki íbúðir eða íbúðarhús í þeim skilningi sem lögin byggi á og hvíli m.a. á stöðu eignanna samkvæmt annarri löggjöf og raunverulegri notkun.

Vísað er til þess að lýsing á vistarverum starfsmanna á 2. og 3. hæð starfsmannahússins gefi til kynna að ekki sé um íbúðir að ræða. Húsnæðið sé útbúið og innréttað fyrir dvöl og gistingu fólks en hins vegar blasi við að það sé ekki innréttað sem íbúðir. Atvik í því máli sem hér sé til úrlausnar séu því önnur en fram komi í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 5/2014 þar sem íbúðir höfðu verið innréttaðar í atvinnuhúsnæði auk þess sem útleiga eða nýting þess húsnæðis hafði engin tengsl við starfsemi húseigandans. Frágangur starfsmannahússins sé í raun sambærilegur við hótel eða gistihús, þar sem herbergi eru innréttuð og þá með og án snyrtingar. Önnur aðstaða sé sameiginleg og í öðrum hluta byggingarinnar. Umfjöllum um innréttingu herbergjanna hafi því takmarkaða þýðingu, enda leiði það til þess að hvers kyns herbergi til gistingar gætu talist íbúðarhúsnæði.

Sveitarfélagið telur að dómur Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 85/2006 hafi ekki fordæmisgildi fyrir það mál sem hér sé til meðferðar hvað varðar frágang íbúða og raunverulega notkun, enda sé dvöl í húsnæðinu í þessu tilviki háð starfsemi húseigandans. Fyrrgreint dómsmál hafi varðað tilvik þar sem íbúðir höfðu verið innréttaðar í skráð atvinnuhúsnæði og þær nýttar almennt til íbúðar. Hins vegar sé ástæða til að taka undir þýðingu dómsins varðandi það meginatriði að líta skuli til raunverulegrar notkunar þegar gjaldflokkun sé ákveðin, en skráning húsnæðis hafi ekki úrslitaáhrif.

Þau sjónarmið sem sveitarfélagið telji að líta beri til við úrlausn málsins séu í fyrsta lagi hvernig húsnæðið sé skráð, þ.e. íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði, í öðru lagi hvernig frágangi þess sé háttað, þ.e. hvort um hefðbundið íbúðarhúsnæði sé að ræða og í þriðja lagi hvert sé eðli notkunar húsnæðisins. Það húsnæði sem hér um ræðir sé skráð sem atvinnuhúsnæði en ekki sé um hefðbundar íbúðir að ræða, hvorki samkvæmt viðmiðum þágildandi eða núgildandi byggingarreglugerðar. Varðandi notkun húsnæðisins þá verði það ekki lagt að jöfnu við notkun á hefðbundnum íbúðum. Ráða megi að lýsingu kæranda að dvöl starfsmanna í húsnæðinu sé í beinum tengslum við starfsemi kæranda einkum varðandi rekstur Blönduvirkunar. Fastráðnir starfsmenn dvelji í húsnæðinu þegar þeir séu á vöktum og þá sé húsnæðið einnig notað fyrir aðra starfsmenn, fjölskyldur starfsmanna svo og verktaka sem vinna við tímabundin viðhaldsverkefni fyrir kæranda.

Vísað er til þess að dvöl í húsnæðinu sé bundin við ráðningarsamband eða þjónustu við kæranda. Húsnæðið sé ekki og hafi ekki verið til almennrar útleigu eða annarrar leigu sem íbúðarhúsnæði. Réttarstaða þeirra sem dvelja í húsnæðinu byggist þannig ekki á húsaleigusamningum um íbúðarhúsnæði sbr. húsaleigulög nr. 36/1994.

Af hálfu sveitarfélagsins er talið að það hafi einnig þýðingu hver sé staða húsnæðisins og þeirra sem þar dvelja með tilliti til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tillit til þeirrar löggjafar sé einnig rökrétt með vísan til þess að mál þetta varði framkvæmd skattlagningar, þótt um annars konar skattlagningu sé að ræða. Í þessu sambandi megi benda á reglur um hlunnindamat sem hvíli m.a. á 7. gr. laga nr. 90/2003. Þær reglur feli það í sér að ef launagreiðandi lætur starfsmanni sínum í té endurgjaldslaus afnot af íbúðarhúsnæði eigi að meta þau hunnindi starfsmanninum til tekna samkvæmt árlegu skattmati ríkisskattstjóra. Heimilt sé að lækka hlunnindamatið ef starfinu fylgi kvöð um búsetu í húsnæðinu. Afnot af húsnæði í verbúð eða vinnubúðum telst hins vegar ekki til skattskyldra hlunninda. Í ljósi framangreinds sé eðlilegt að kærandi upplýsi hvernig litið sé á dvöl starfsmanna í starfsmannahúsinu með tilliti til laga um tekjuskatt og framkvæmd þeirra laga. Gjaldfrjálst afnot af íbúðarhúsnæði séu skattskyld en ekki afnot af vinnubúðum. Óumdeilt sé að verbúðir og vinnubúðir teljist ekki íbúð eða íbúðarhúsnæði og ef dvöl starfsmanna flokkist undir slíkt telst húsnæðið ekki íbúðarhúsnæði. Skýring laga nr. 4/1995 með tilliti til laga um tekjuskatt sé skynsamleg og rökrétt þegar fjallað er um hver sé raunveruleg notkun húsnæðis.

Varðandi greinarmun á vinnubúðum og starfsmannabústöðum megi einnig vísa til laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga skal lögheimili skráð í eign sem er íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í 3. gr. laganna sé þó sérstaklega vísað til heimildar til skráningar lögheimilis í starfsmannabústöðum. Ljóst sé að starfsmannabústaðir verða ekki lagðir að jöfnu við íbúðarhúsnæði, heldur sé um að ræða sérstaka tegund húsnæðis sem geri ráð fyrir dvöl fólks, en ekki sé um að ræða íbúðarhúsnæði.

Þá er bent á að aflað hafi verið upplýsinga um framkvæmd álagningar fasteignaskatts í Fljótsdalshreppi vegna Fljótsdalsstöðvar. Þar sé hluti stöðvarhússins starfsmannaaðstaða vegna reglulegra vaktmanna og tímabundinnar dvalar við viðhaldsverkefni og mun álagning fasteignaskatts á það húsnæði miðast við atvinnuhúsnæði. Þá sé einnig stuðst við almennar fyrirspurnir um skattlagningu tímabundinna vinnubúða en slíkt húsnæði virðist vera skattlagt sem atvinnuhúsnæði.

IV.        Athugasemdir kæranda

Með bréfi, dags. 22. júlí 2020, kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Húnavatnshrepps í málinu.

 

Kærandi vill leiðrétta það sem fram komi í umsögn sveitarfélagsins að notkun hluta starfsmannahússins hafi breyst frá því sem fyrri álagning fasteignaskatts miðaði við en í umsögninni sé fullyrt að rekstur Blönduvirkjunar hafi til að byrja með hvílt á því að starfsmenn hefðu skráð lögheimili í starfsmannahúsinu og það hafi verið stefnan í upphafi. Hið rétta sé að starfsmenn kæranda hafi aldrei frá því að virkjunin tók til starfa haft skráð lögheimili í starfsmannahúsinu. Forsendur álagningarinnar sé því óbreyttar að þessu leyti og styðji það sjónarmið kæranda um að ekki séu rök fyrir breyttri álagningu.

 

Kærandi kveðst ekki geta fallist á þau sjónarmið sveitarfélagsins að frágangur vistarvera í starfsmannahúsinu samræmist ekki íbúðarhúsnæði. Herbergin séu öll innréttuð til íbúðar og hafi íbúar aðgang að snyrtiaðstöðu. Þá sé aðgengi að sameiginlegri eldunaraðstöðu á fyrstu hæð hússins. Í úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar varðandi álagningu fasteignaskatts hafi m.a. verið litið til þess hvort húsnæði samræmist byggingarreglugerð um íbúðarhúsnæði en þau sjónarmið hafi þó aðeins verið höfð til viðmiðunar og þá einkum þegar atvinnuhúsnæði hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði. Starfsmannahúsið hafi verið byggt í þeim tilgangi að þar yrðu vistarverar starfsmanna og hafi svo verið frá upphafi. Kærandi hafni samanburði sveitarfélagsins á starfsmannahúsinu annars vegar og hótelum og gististöðum hins vegar. Ólíkt starfsmannahúsinu séu hótel og gistihús mannvirki sem nýtt séu til ferðaþjónustu og falla því skýrlega undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. 

 

Þá áréttar kærandi að hvorki í lögum nr. 4/1995 né í úrskurðarframkvæmd yfirfasteignamatsnefndar sé að finna skilyrði um að íbúðir og íbúðarhús í skilningi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 megi ekki vera í tengslum við atvinnustarfsemi eigenda þess eða að íbúar húsnæðisins megi ekki vera starfsmenn hans. Það virðist í raun óumdeild í málinu að við álagningu fasteignaskatt beri að horfa til raunverulegrar notkunar húsnæðisins. Fyrirliggjandi gögn sýni að starfsmannahúsið sé notað til íbúðar fyrir starfsmenn kæranda og taka beri mið af þeirri notkun við álagningu fasteignaskatts eins og gert hafi verið allt fram til ársins 2020.

 

Þá telur kærandi að það standi sveitarfélaginu nær að leggja fram gögn til stuðnings álagningu fasteignaskatts enda beri sveitarfélaginu að gæta að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við þá framkvæmd. Þrátt fyrir það hafa engin gögn eða heimildir verið lögð fram af hálfu sveitarfélagsins til stuðnings áðurnefndri breytingu á álagningu fasteignaskatts fyrir starfsmannahúsið heldur sé aðeins vísað til munnlegra upplýsinga og almennra fyrirspurna í umsögn sveitarfélagsins. Þá hafi ekki verið vísað til úrskurðarframkvæmdar til stuðnings fyrrgreindri ákvörðun sveitarfélagsins.

VI.        Niðurstaða

I.

Kærandi gerir þá kröfu að álagning fasteignaskatts vegna fasteignarinnar; Blönduvirkjun, starfsmannahús, matshluta nr. 03-0101, Húnavatnshreppi, fnr. 213-7466, vegna ársins 2020 verði samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, vegna þess hluta fasteignarinnar sem tekur til annarrar og þriðju hæðar hússins, alls um 44,91% flatarmáls matshlutans, en samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna matshlutans að öðru leyti. Af hálfu sveitarfélagsins, Húnavatnshrepps, er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

 

II.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Þá er það í höndum byggingarfulltrúa að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka þegar það á við, sbr. 6. gr. sömu laga.

 

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en allt að 1,32% af þeim fasteignum sem falla undir stafliði b og c. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

 

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sem fjallar meðal annars um íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verði lagður á fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25 hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna. Ákvæðið heimilar þannig mismunandi álagningarprósentu fasteignaskatts eftir notkun eða tegund fasteigna.

 

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs. Hefur í því sambandi m.a. verið vísað til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild eru með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna þá skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Má í þessu sambandi m.a. vísa til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015.

 

III.

Álitaefni þessa máls lýtur að því hvort önnur og þriðja hæð starfsmannahúss kæranda að Blönduvirkjun, sem nýttar eru sem vistarverur starfsmanna kæranda, skuli taldar til íbúða eða íbúðarhúss í skilningi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og þá hvort fasteignaskattur skuli lagður á þann hluta starfsmannahússins samkvæmt áðurgreindu lagaákvæði eða hvort fyrrgreindur matshluti fasteignarinnar skuli að öllu leyti falla undir ákvæði c-liðar sömu lagagreinar.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006, skal raunveruleg notkun fasteignar ráða því hvernig hún flokkast með tilliti til fasteignaskatts, en ekki skráð notkun hennar eða samþykki byggingaryfirvalda. Í eldri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar hefur verið byggt á framangreindum sjónarmiðum, og má þar t.d. nefna úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 5/2019, 12/2017, 5/2014, 12/2013 og 3/2009, enda liggur fyrir dómafordæmi Hæstaréttar Íslands í þá veru.

 

IV.

Hvorki í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga né í reglugerð um fasteignaskatt nr. 1160/2005 er að finna skilgreiningu á því hvaða skilyrði þurfi vera uppfyllt til þess að húsnæði teljist vera íbúð eða íbúðarhús í skilningi laganna.

Í fyrri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar hefur m.a. verið litið til þess hvort húsnæði falli að þeirri skilgreiningu á íbúðum sem fram kemur í byggingarreglugerð. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum, er í grein 6.7.3 fjallað um hvaða almennar kröfur séu gerðar til íbúða, en þar segir: 

,,Íbúð skal hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi sem er a.m.k. 18 m2 að stærð, eldhús og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skulu tengd innbyrðis og ekki skal þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Íbúð skal tilheyra geymslurými, þvottaherbergi í séreign eða sameign, ásamt geymslu fyrir barnavagna og hjól.

Hver einstök íbúð skal sérstaklega afmörkuð með gólfi, lofti og veggjum ásamt hurðum og gluggum, sem hver um sig uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar um hljóðvist, eldvarnir og varmaeinangrun. Íbúðir skulu loftræstar skv. ákvæðum reglugerðar þessarar.

Anddyri skal vera í íbúðum nema gengið sé inn í þær úr sameiginlegu lokuðu stigahúsi eða milligangi enda séu kröfur um hljóðvist og eldvarnir uppfylltar á annan fullnægjandi hátt.

Í hverri íbúð skulu vera læsanlegir skápar fyrir geymslu á lyfjum og öðrum efnum hættulegum börnum, reykskynjari og slökkvitæki.

Hverri íbúð skal að jafnaði fylgja hæfilega stór skápur eða geymsla undir nauðsynleg ræstingatæki.

Íbúðum skal fylgja aðstaða til flokkunar og geymslu á sorpi. Hindrunarlaust aðgengi      skal vera að flokkunaraðstöðu sorps.

Af fyrirliggjandi gögnum, m.a. teikningum af innra skipulagi starfsmannahússins, er ljóst að sú aðstaða sem er á annarri og þriðju hæð hússins uppfyllir ekki þær almennu kröfur sem gerðar eru til íbúða í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

V.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar er einnig rétt, þegar lagt er mat á það hvort um íbúðir eða íbúðarhús í skilningi laga nr. 4/1995 sé að ræða eða ekki, að líta til þess hvernig búsetu eða dvöl þeirra er háttað er dvelja í viðkomandi húsnæði, s.s. hvort um viðvarandi búsetu sé að ræða eða ekki og hvort viðkomandi húsnæði sé almennt nýtt með þeim hætti að um íbúð eða íbúðarhús sé að ræða.

Óumdeilt er að dvöl í starfsmannahúsinu er fyrst og fremst bundin við þá starfsmenn kæranda sem eru við vinnu í Blönduvirkjun hverju sinni eða við störf sem tengd er þeirri starfsemi sem þar fer fram. Afnot starfsmanna af húsnæðinu afmarkast þannig við þann tíma sem viðkomandi starfsmenn eru á vakt við virkjunina eða við önnur tímabundin störf fyrir kæranda á svæðinu, s.s. sumarstarfsmenn kæranda. Dvöl þeirra sem dveljast í húsnæðinu hverju sinni er þannig ekki viðvarandi, grundvallast alfarið á starfsambandi við kæranda og er í nánum tengslum við atvinnustarfsemi hans. Með hliðsjón af framangreindri nýtingu starfsmannahússins verður að telja að hún sé almennt ekki með þeim hætti sem gildir alla jafnan um íbúðir eða íbúðarhús.

Við mat á því hvort 2. og 3. hæð starfsmannahúss kæranda geti talist íbúð eða íbúðarhús í skilningi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður jafnframt að hafa það í huga að ákvæði a-liðar felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í c-lið sama ákvæðis en almennt ber að túlka undantekningarákvæði sem þessi þröngt þegar vafi er og valinn er skýringarkostur.

 

VI.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að fasteignaskattur vegna starfsmannahúss kæranda að Blönduvirkjun, matshluti, 03-0101, fnr. 213-7466 vegna ársins 2020 skuli að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

 

Úrskurðarorð

 

Staðfest er ákvörðun Húnavatnshrepps um að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda, Blönduvirkjun, starfsmannahús, matshluti nr. 03-0101, Húnavatnshreppi, fnr. 213-7466, fyrir árið 2020, skuli vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

 

 

 

___________________________

                                                           Björn Jóhannesson

 

 

 

___________________________                                           __________________________

                 Axel Hall                                                                          Valgerður Sólnes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum