Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 94/2021 Úrskurður 11. ágúst 2021

Mál nr. 94/2021                    Eiginnafn:     Gunnarson (kk.)

 

 

Hinn 11. ágúst 2021 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 94/2021 en erindið barst nefndinni 4. ágúst.

Samkvæmt 1. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, eru flokkar mannanafna þrír. Í fyrsta lagi eiginnöfn, í öðru lagi millinöfn og í þriðja lagi kenninöfn. Samkvæmt 8. gr. laganna eru kenninöfn tvenns konar, föður- eða móðurnöfn annars vegar og ættarnöfn hins vegar. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að föður- og móðurnöfn myndast með þeim hætti að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef viðkomandi ber millinafn, kemur nafn föður eða móður í eignarfalli, að viðbættu son ef karlmaður er en dóttir ef kvenmaður er auk þess sem heimild er fyrir einstaklinga með hlutlausa skráningu kyns að nota sem kenninafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótar eða að viðbættu bur. Nafnið Gunnarson fellur í þennan flokk og er myndað eins og kenninafn manns þar sem móðir ber eða hefur borið eiginnafnið Gunnur. Einnig kemur til greina að um sé að ræða nafn myndað eins og kenninafn manns þar sem faðirinn ber eða hefur borið eiginnafnið Gunnar. Sem slíkt brýtur nafnið Gunnarson þó í bág við íslenskar orðmyndunarreglur því að samkvæmt þeim eru föður- og móðurnöfn mynduð af eignarfallsmynd nafns föður eða móður, þ.e. Gunnarsson. Í þessu máli er hins vegar ekki óskað eftir að bera kenninafnið Gunnarson heldur eiginnafnið Gunnarson og er það einungis sá þáttur málsins sem er til umfjöllunar í þessum úrskurði.

Ekkert ákvæði mannanafnalaga bannar berum orðum að nafn sem myndað er eins og föður- eða móðurnafn verði notað sem eiginnafn. Verður því að líta nánar á samhengi viðkomandi lagaákvæða, forsögu þeirra og lögskýringargögn, til þess að leiða fram niðurstöðu um það hvort nöfn sem mynduð eru nákvæmlega eins og föður- eða móðurnöfn megi nota sem eiginnöfn.

Eins og fram kemur í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, var einn megintilgangur þeirra sá að vernda hinn íslenska kenninafnasið, þar sem einstaklingar kenna sig til föður eða móður, og bæta við endingunni son eða dóttir, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um mannanöfn. Með setningu laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, var þessu ákvæði mannanafnalaga breytt að því marki sem talið var nauðsynlegt til að jafna rétt einstaklinga með kynhlutlausa skráningu, en megininntak þess er eftir sem áður hið sama. Sá tilgangur mannanafnalaga að vernda hinn íslenska kenninafnasið er áréttaður víða í lögskýringargögnum, s.s. í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins sem síðan varð að mannanafnalögum. Telur mannanafnanefnd þennan megintilgang mannanafnalaga og þá skýru aðgreiningu mismunandi flokka mannanafna og sérgreindra skilyrða um myndun nafna í hverjum flokki fyrir sig, sbr. hér bæði ákvæði 5. gr. um skilyrði eiginnafna og 8. gr. um skilyrði kenninafna, leiða til þess að ekki sé heimilt að fallast á að nöfn sem mynduð eru með nákvæmlega sama hætti og föður- og móðurnöfn eru mynduð, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna, séu notuð sem eiginnöfn.

Með vísan til þessa er mannanafnanefnd skylt að hafna umsókn um eiginnafnið Gunnarson.

Til samanburðar vísast til úrskurðar mannanafnanefndar frá 26. ágúst 2013 í máli nr. 23/2013, vegna umsóknar um eiginnafnið Hreinsdóttir.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Gunnarson (kk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira