Mál nr. 74/2024-Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 23. janúar 2025
í máli nr. 74/2024 (frístundahúsamál)
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen prófessor og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A
Varnaraðili: B
Krafa sóknaraðila er að staðfest verði að uppsagnarfrestur sé í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Einnig gerir sóknaraðili kröfu um innlausn á mannvirki og endurbótum sem hann gerði á leigutíma.
Eftirtalin gögn bárust kærunefnd:
Með kæru, dags. 19. júlí 2024, beindi sóknaraðila til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með tölvupósti 26. sama mánaðar óskaði nefndin eftir frekari upplýsingum frá sóknaraðila sem bárust með tölvupóstum 7. og 8. ágúst 2024.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. mars 2024, barst sóknaraðila uppsögn varnaraðila á munnlegum samningi aðila um leigu sóknaraðila á hluta lóðar í eigu varnaraðila að C í D undir hjólhýsi og viðbyggingu. Jafnframt var farið fram á að sóknaraðili fjarlægði hjólhýsið og annað lausafé af svæðinu.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að ágreiningur sé um ótímabundinn munnlegan lóðarleigusamning sem hafi verið í gildi í 30 ár. Sóknaraðili hafi tekið yfir lóðarleigusamning föður síns en á lóðinni sé hjólhýsi og viðbygging sem hafi verið varanlega skeytt við landið í 30 ár. Lögmaður varnaraðila hafi sent sóknaraðila uppsögn á lóðarleigusamningnum 27. mars 2024 þar sem þess hafi verið farið á leit að hann fjarlægði hjólhýsið og annað lausafé á reitnum.
III. Niðurstaða
Í 2. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús er frístundahús skilgreint þannig að um sé að ræða hús utan þéttbýlis sem sé aðallega nýtt til að fólk geti dvalist þar tímabundið til að eyða frítíma sínum og þar sem að öðru jöfnu sé óheimilt að hafa skráð lögheimili. Mannvirki sem standi á lóð fyrir frístundahús, svo sem geymsla, en sé ekki samtengt frístundahúsi, er hluti hússins í skilningi laganna. Þá er kveðið á um að þó teljist eftirfarandi mannvirki ekki frístundahús í skilningi laganna: fjallaskálar, gangnamannaskálar, aðstöðuhús, neyðarskýli, kofar og önnur slík mannvirki utan þéttbýlis. Enn fremur teljast hús og önnur mannvirki, sem standi á landi sem falli utan 3. tölul., ekki frístundahús í skilningi laganna. Kærunefnd telur að hjólhýsi sóknaraðila og viðbygging þess falli ekki undir skilgreiningu á frístundahúsi í skilningi framangreinds ákvæðis, og standi ekki á lóð undir frístundahús í skilningi 3. tölul. sama ákvæðis. Af þeim sökum fellur ágreiningurinn ekki undir lögin, sbr. 2. mgr. 1. gr. téðra laga.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá kærunefnd.
Reykjavík, 23. janúar 2025
Auður Björg Jónsdóttir
Víðir Smári Petersen Eyþór Rafn Þórhallsson