Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 31/2024-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 12. desember 2024

í máli nr. 31/2024

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen prófessor og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A

Varnaraðili: B

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða bætur samtals að fjárhæð 636.257 kr. vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma, sem og málunar íbúðarinnar við lok leigutíma

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði vísað frá. Til vara krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Til þrautavara krefst varnaraðili lækkunar á kröfufjárhæð sóknaraðila.

Eftirtalin gögn bárust kærunefnd: 
Kæra sóknaraðila, dags. 22. mars 2024.
Tölvupóstur varnaraðila 10. apríl 2024 þar sem hann upplýsti að hann myndi ekki láta sig málið varða

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 15. maí 2023 til 15. maí 2026 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að C í D. Leigutíma lauk 31. janúar 2024 samkvæmt samkomulagi aðila. Sóknaraðili kveður skemmdir hafa orðið á borðplötu á leigutíma sem og pönnu og þá þurfi að heilmála íbúðina.

II. Niðurstaða

Sóknaraðili kveður að brotið hafi verið gegn leigusamningi aðila þar sem ástand íbúðarinnar við lok leigutíma hafi verið ófullnægjandi. Sendiráðið er aðili að leigusamningum, en íbúðin var tekin á leigu fyrir starfsmann þess. 

Á grundvelli 22. gr. Vínarsamnings um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem öðlaðist lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóta sendiráðssvæði friðhelgi. Sendiráðssvæði er skilgreint í i lið 1. gr. samningsins sem byggingar eða hluti bygginga og tilheyrandi lóð, hver sem eigandinn er, sem nýtt er af sendiráði, þar á meðal íbúð forstöðumanns sendiráðs. Á grundvelli 1. mgr. 31. gr. nýtur einkaheimili sendierindreka sömu friðhelgi og verndar sem sendiráðssvæðið, sbr. 22. gr. samningsins. Samkvæmt 41. gr. samningsins er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.

Varnaraðili er erlent sendiráð en á grundvelli framangreindra ákvæða vínarsamningsins njóta sendiráð friðhelgi frá lögsögu móttökuríkis. Þá komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í máli nr. 299/1995, að sendiráð nyti ekki slíkrar stöðu samkvæmt íslenskum réttarfarslögum að það komi fram sem sjálfstæður aðili að dómsmáli, en ágreiningur í því máli varðaði leigusamning sem sendiráð var aðili að. Kærunefnd telur ekki unnt að líta öðruvísi á en að hið sama gildi um aðild að stjórnsýslumáli hjá nefndinni og að nefndin hafi því ekki lögsögu yfir rétti eða skyldum varnaraðila. Verður því að vísa málinu frá kærunefnd. 

Í 7. mgr. 85. gr. húsaleigulaga er kveðið á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður sé kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

ÚRSKURÐARORР       

Málinu er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 12. desember 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Víðir Smári Petersen                                       Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta