Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 95/2020 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 3. desember 2020

í máli nr. 95/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að gera lagfæringar á loftnetskerfi fyrir sjónvarp.

Varnaraðili segir að þegar hafi verið fallist á kröfu sóknaraðila.

Með kæru, dags. 31. ágúst 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 14. september 2020, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 25. september 2020, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 30. september 2020, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 30. september 2020, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 7. október 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 5. janúar 2018 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C í Reykjavík. Ágreiningur er um loftnetskerfi hússins.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að loftnetstengill íbúðarinnar hafi verið aftengdur fyrir nokkrum dögum. Eigi hann að streyma sjónvarpinu í gegnum netið þurfi hann að auka hraðann á tengingunni sem kosti 1.000 kr. meira á mánuði hjá þjónustufyrirtæki, þ.e. úr 7.900 kr. fyrir 50MB/sek í 8.900 kr. fyrir 500 MB/sek.

Einnig þurfi hann að fjárfesta í jaðarbúnaði til að streyma sjónvarpinu þar sem hann noti tölvu sína til annarra hluta. Annað þjónustufyrirtæki hafi mælt með að nota apple tv. Það hafi komið fyrir í nokkur skipti að nettenging sóknaraðila hafi legið niðri sökum viðhalds vegna bilunar hjá þjónustufyrirtækinu en þá hafi hann getað horft á sjónvarpið á meðan. Sá möguleiki verði ekki fyrir hendi verði sjónvarpið nettengt.

Það kosti einnig raforku að hafa enn eitt tækið í gangi til að streyma sjónvarpsefni í stað loftnets. Tekið skuli fram að sé fólk á annað borð með áskrift að streymisveitu sé þetta ekki vandamál en sóknaraðili sé ekki með neitt slíkt og vilji aðeins geta horft á RÚV.

Það sé því nokkuð ljóst að ákvörðun varnaraðila um að leggja niður loftnetskerfi fyrir sjónvarp sé að valda honum og væntanlega öðrum íbúum óhagræði og kostnaði.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að búið sé að ráða bót á loftnetskerfi hússins. Einhver hafði tekið búnað fyrir loftnetskerfið úr sambandi í sameign hússins. Þann 24. september 2020 hafi maður á vegum varnaraðila farið og stungið þessum búnaði í samband og kerfið ætti því að vera komið í lag.

Þá biðst varnaraðili velvirðingar á því að þetta hafi farið svona, en beiðni um að lagfæra þetta hafi líklega ekki verið sinnt.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að kerfið sé ekki komið í lag að öllu leyti. Sóknaraðili hafi haft samband við varnaraðila og hann lofað viðgerð.

Varnaraðili hafði þó neitað sóknaraðila um viðgerð og fullyrt að það ætti að taka kerfið úr sambandi en það sé ástæðu kæru í máli þessu.

V. Niðurstaða              

Í 3. mgr. 14. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að húsnæði, sem leigt sé til íbúðar, skuli fylgja það fylgi sem hafi verið til staðar við sýningu þess sé eigi sérstaklega um annað samið. Þá segir í 1. mgr. 20. gr. sömu laga að telji leigjandi viðhaldi af hálfu leigusala ábótavant skuli hann gera leigjanda skriflega grein fyrir því sem hann telur að úrbóta þarfnist og skora á hann að bæta úr því.

Með rafrænum skilaboðum sóknaraðila 23. ágúst 2020 upplýsti hann varnaraðila að hann ætti í erfiðleikum með að ná sjónvarpsrásum á sjónvarp sitt. Varnaraðili svaraði næsta dag og spurði hvort hann væri að nota loftnet til að horfa á sjónvarp. Sóknaraðili sagðist stundum gera það en  oftast horfi hann á sjónvarp í gegnum netið. Varnaraðili sagði þá í skilaboðum sama dag að loftnetin væru að detta út og að nú væri einungis hægt að horfa á sjónvarpið í húsinu í gegnum netið. Í greinargerð varnaraðila í máli þessu, dags. 25. september 2020, kemur aftur á móti fram að þegar hafi verið orðið við beiðni sóknaraðila og að loftnetskerfið hafi verið sett aftur í samband. Sóknaraðili greinir frá því í athugasemdum sínum að kerfið hafi ekki verið lagað að öllu leyti en þeirri fullyrðingu fylgja engar útskýringar.

Að framangreindu virtu fær kærunefnd ekki ráðið að ágreiningur sé um loftnetskerfið þar sem varnaraðili hefur fallist á kröfu sóknaraðila og lagfært kerfið. Þá kemur fram í málatilbúnaði varnaraðila að ekki standi til að taka kerfið úr notkun þrátt fyrir það sem komi fram í rafrænum skilaboðum hans í ágúst. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er kæru sóknaraðila vísað frá kærunefnd.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru sóknaraðila er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 3. desember 2020

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira