Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 100/2023 Úrskurður 2. október 2023

Mál nr. 100/2023                  Eiginnafn:     Winter (kvk.)

Hinn 2. október 2023 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 100/2023 en erindið barst nefndinni 29. september.   

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Winter uppfyllir skilyrði nr. eitt, tvö og fjögur hér að framan. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Winterar, brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Nafnið er aftur á móti ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, meðal annars af því að bókstafurinn w er ekki í íslenska stafrófinu. Þannig er aðeins hægt að samþykkja nafnið að hefð sé fyrir því.

Við túlkun mannanafnanefndar á hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn er nú stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin uppfærði síðast á fundi 22. mars 2022 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum, eldri vinnulagsreglum, dómaframkvæmd og sjónarmiðum sem fjallað er um í fundargerð:

  1. Nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

    Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

    Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

    Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);

    Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.

  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  3. Nafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
  4. Þrátt fyrir að ekki sé hefð fyrir tökunafni á grundvelli framanritaðs telst ritháttur þess hefðbundinn sé hann gjaldgengur í veitimáli og nafnið ekki ritháttarafbrigði rótgróins nafns. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands ber ein stúlka nafnið Winter í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglna mannanafnanefndar varðandi hefð, sbr. 2. gr. þeirra. Hún er fædd árið 2020. Nafnið kemur hins vegar ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920 og telst þannig ekki hefð fyrir nafninu í skilningi 1. gr. reglnanna. Aftur á móti er nafnið tökunafn, þekkt víða erlendis, m.a. í Þýskalandi og enskumælandi löndum, og er samþykkt vegna hefðar á grundvelli 4. gr. vinnulagsreglnanna.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Winter (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum