Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 13/2021

Árið 2022, 24. febrúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 13/2021 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 13. desember 2021, kærðu X, kt. [] og Y, kt. [], [], [], ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 17. maí 2021.

Með tölvubréfi, dags. 15. desember 2021, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst nefndinni með bréfi, dags. 4. janúar 2022.

Með tölvubréfi, dags. 5. janúar 2022, var umsögn sveitarfélagsins send kærendum og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir kærenda bárust með tölvubréfi, dags. 21. janúar 2022.

Málið var tekið til úrskurðar 24. febrúar 2022.

I.         Málavextir       

Kærendur eiga fasteignina að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi, sem skráð er sem sumarbústaður, geymsla og gestahús. Fasteignin mun hafa verið nýtt til útleigu á árunum 2019 og 2020 og auglýst til leigu á vefsíðum leigumiðlana. Höfðu kærendur skráð leyfi til heimagistingar (gististaður í flokki I) í fasteigninni samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og var fasteignaskattur vegna eignarinnar á þeim árum ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærendur hafa upplýst að í byrjun janúar 2021 hafi þau ætlað að endurnýja skráningu fyrir heima-gistingu í fasteigninni en þá hafi komið fram á vefsíðu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að vegna kerfisbreytinga hjá embættinu yrði lokað fyrir skráningu heimagistingar fram til 14. janúar 2021 en að samþykktar skráningar vegna ársins 2020 giltu fram til þess dags. Kærendur hafi því þurft að fresta skráningunni.

Að sögn kærenda ákváðu þau að hafa sumarhúsið ekki til útleigu í janúar, febrúar og fram í miðjan mars 2021 vegna snjóþunga og vandamála með vatnsinntaks sumarhússins. Þau hafi því lokað fyrir bókanir á vefsíðum og því ekki haft sérstakar áhyggjur af því að sækja um skráningu heimagistingar en engu að síðar hafi ætlun þeirra verið að ganga frá slíkri skráningu við fyrsta tækifæri. Í lok janúar 2021 hafi orðið vatnstjón í sumarhúsinu og þurftu kærendur af þeim sökum að ráðast í umtalsverðar lagfæringar og endurbætur á eigninni sem hafi tekið lengri tíma en ráðgert hafði verið í fyrstu. Kærendur hafi af þessum sökum ekki opnað fyrir útleigu á sumarhúsinu fyrr en um miðjan maí og þá endurnýjað leyfi til heimagistingar í eigninni.

Í lok febrúar 2021 gaf Grímsnes- og Grafningshreppi út álagningarseðla vegna álagðra fasteignagjalda ársins 2021 í sveitarfélaginu. Álagningarseðill fasteignagjalda vegna fyrrgreindrar fasteignar kærenda gaf til kynna umtalsverða hækkun á gjöldunum frá því sem var fyrir árið 2020. Kærendur sendi sveitarfélaginu tölvupóst þann 31. maí 2021 þegar þau urðu þess áskynja að fasteignagjöldin höfðu hækkað verulega. Óskuðu kærendur eftir að fá nýjan álagningarseðil vegna fasteignagjaldanna þannig að þau gætu gengið úr skugga um að álagningin væri rétt. Sveitarfélagið svaraði kærendum með tölvupósti þann 1. júní 2021 þar sem fram kom að samkvæmt upplýsingu frá sýslumanni hefði verið skráð leyfi til heimagistingar í fasteigninni frá og með 17. maí 2021 og frá þeim tíma hefði fasteigna-skattur vegna eignarinnar verið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en á tíma-bilinu 1. janúar til 17. maí 2021 hefði álagningin hins vegar verið samkvæmt c-lið sama lagaákvæðis. 

Kærendur mótmæltu fyrrgreindri ákvörðun sveitarfélagsins samdægurs og vísuðu m.a. til þess að lokað hafi verið fyrir útleigu á fasteigninni fram til 17. maí 2021 eða þar til sótt hafði verið um leyfi til heimagistingar, auk þess sem unnið hafi verið við lagfæringar og endurbætur á eigninni vegna vatnstjóns á áðurnefndu tímabili. Sveitarfélagið vísaði hins vegar til þess að fasteignin hefði verið auglýst til útleigu á vefmiðlum á fyrrgreindu tímabili og þannig nýtt til ferðaþjónustu án þess að leyfi til heimagistingar hafi verið til staðar og því bæri að miða álagningu fasteignaskatts við ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Kærendur vilja ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignarskatts vegna fasteignarinnar fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 17. maí 2021 og hafa því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.        Sjónarmið kærenda

Kærendur geri kröfu um að fasteignaskattur vegna fasteignar þeirra að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Kærendur vísa til þess að í upphafi ársins 2021 hafi þau ætlað að endurnýja leyfi til heimagistingar (gististaðar í flokki I) í fasteigninni en þá hafi komið í ljós að ekki væri hægt að endurnýja leyfið fyrr en eftir 14. janúar 2021 vegna upptöku á nýju tölvukerfi hjá leyfisveitanda. Þau hafi því þurft að fresta skráningu umsóknar um leyfi til heimagistingar. Kærendur hafi síðan ákveðið, m.a. vegna snjóa og erfiðleika með vatnsinntaks sumarhússins, að loka fyrir leigubókanir á sumarhúsinu fram í miðjan mars 2021. Í lok janúar 2021 varð vatnstjón í sumarhúsinu og þurftu kærendur af þeim sökum að ráðast í verulegar lagfæringar og endurbætur á fasteigninni sem tóku mun lengri tíma en áætlað var í upphafi. Vinna við lagfæringar og endurbætur á eigninni hafði það í för með sér að ekki var opnað fyrir útleigu fasteignarinnar fyrr en um miðjan maí 2021 en samhliða sóttu kærendur um endurnýjun á leyfi til heimagistingar, sem síðan var veitt 17. maí 2021.   

Kærendur telja sterk rök hníga að því að endurskoða beri þá ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps að ákvarða fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á tímabilinu 1. janúar til 17. maí 2021 en ekki samkvæmt a-lið sömu lagagreinar.

Kærendur benda í fyrsta lagi á að þeir hafi enga tilkynningu fengið um hækkun fasteignagjalda ársins 2021 þar sem sveitarfélagið sendi aldrei út tilkynningar um hækkun gjaldanna þó seint sé sótt um leyfi til heimagistinga hjá sýslumanni. Ef tilkynning um hækkun gjaldanna hefði borist kærendum hefði þeim verið gert mögulegt að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja rétta álagningu gjaldanna. Heimild sé í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 fyrir sveitarfélög til að senda út tilkynningar þessa efnis með rafrænum hætti og verði að telja það í samræmi við góða stjórnsýslu að upplýsa fólk með skýrum og skilmerkilegum hætti ef gjaldstofni álagningar sé breytt með íþyngjandi hætti. Í þessu sambandi sé einnig vert að hafa sérstaklega í huga að töluverður fjöldi fólks leigir út sumarhús sín og ætti Grímsnes- og Grafningshreppi að vera kunnugt um það.

Í öðru lagi vísa kærendur til þess að sumarhús þeirra hafi ekki verið til útleigu á tímabilinu frá 1. janúar til 17. maí 2021 eins og fram komi í yfirliti yfir greiðslur til þeirra vegna leigu eignarinnar. Mjög erfitt sé að fá yfirlit aftur í tímann frá leigusíðum varðandi það hvernig skráningu leigu hafi verið háttað en greiðsluyfirlit sýni hvernig þetta hafi verið í raun.

Í þriðja lagi benda kærendur á að sumarbústaður þeirra hafi ekki staðið til útleigu á fyrrgreindu tímabili vegna vatnstjóns og viðgerða af þeim sökum og því hafi fasteignin ekki verið til reiðu fyrir leigutaka. Í eldri úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í svipuðu máli hafi komið fram að ef sumarbústaður væri til reiðu til útleigu bæri að innheimta hærra gjald þrátt fyrir að hann hafi ekki verið leigður út. Í því máli sem hér um ræðir hafi sumarbústaður kærenda hins vegar sannanlega ekki verið til reiðu til útleigu vegna framkvæmda og því telji kærendur að ákvörðun sveitarfélagsins um hærri gjaldtöku eigi ekki við. Þá benda kærendur á að í samskiptum þeirra við sveitarfélagið fullyrði sveitarfélagið að skattlagningin taki mið að því að fasteignin hafi verið nýtt til ferðaþjónustu. Í tölvupósti sveitarfélagsins frá 8. júní 2021 sé hins vegar vísað til þess að ekki skipti máli við mat á álagningunni hvernig eigendum hafi tekist að nýta fasteignina. Kærendur árétti að í þeirra tilviki hafi ekki verið hægt að leigja sumarbústaðinn út né hafi það nokkurn tímann staðið til. Sú staðreynd ein og sér að eignin hafi á ákveðnu tímabili verið auglýst á vefmiðlum fái ekki hnikað þeirri staðreynd að sumarbústaðurinn hafi ekki verið nýttur fyrir ferðaþjónustu og átti því ekki, miðað við forsendur sveitarfélagsins sjálfs, að sæta skattlagningu samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Kærendur vísa jafnframt til sanngirnissjónarmiða, sjónarmiða um meðalhóf og þeirrar skýru meginreglu að skattlagning verði að byggja á skýrri lagaheimild, til stuðnings kröfu sinni í málinu.

III.      Sjónarmið sveitarfélagsins, Grímsnes- og Grafningshrepps

Grímsnes- og Grafningshreppur hafnar kröfu kærenda og gerir jafnframt kröfu um að álagning fasteignaskatts vegna Oddsholts [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, eins og henni var breytt 17. maí 2021, verði staðfest.

Sveitarfélagið vísar til þess að fyrrgreind fasteign kærenda hafi verið auglýst til útleigu á vefsíðunum www.airbnb.com og www.bungalo.com á tímabilinu 1. janúar 2021 til 17. maí 2021 án þess að hún hafi verið skráð fyrir heimagistingu á grundvelli laga nr. 85/2007. Í samræmi við það hafi álagning fasteignaskatts á fasteignina verið ákveðin samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá 1. janúar 2021 til 17. maí 2021, en samkvæmt a-lið sama ákvæðis eftir þann tíma. Fasteignin hafi verið skráð fyrir heimagistingu frá 17. maí 2021 og þá þegar hafi sveitarfélagið framkvæmd breytingarálagningu og fært fasteignina úr gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 yfir í gjaldflokk a-liðar sömu lagagreinar.

Vísað er til þess að heimfærsla undir gjaldflokka fasteignaskatts byggist á raunverulegri notkun fasteigna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 5. október 2006 í máli nr. 85/2006. Þó svo að kærendur hafi ekki fengið útgefið rekstrarleyfi eða leyfi til heimagistingar á grundvelli laga nr. 85/2007 breyti það ekki þeirri staðreynd að eignin hafi verið auglýst til útleigu fyrir ferðamenn þannig að kærendur teljist hafa nýtt hana fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. til hliðsjónar úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 13/2016, 11/2017 og 2/2020. Þá sé gisting sem boðin sé fram á áðurgreindum vefsíðum leyfisskyld, sbr. t.d. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/2015 og 18/2015.

Sveitarfélagið vísar jafnframt til þess að yfirfasteignamatsnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að sveitarfélögum sé heimilt að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs, sbr. m.a. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/1995 og 9/2017. Í slíkum tilvikum skuli álagning samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin sé nýtt til ferðaþjónustu, sbr. til hliðsjónar m.a. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016. Sveitarfélag þurfi ekki að bera hallann af því að tilskilins leyfis hafi ekki verið aflað á umræddu tímabili.

Sveitarfélagið telur að það skipti ekki máli í þessu sambandi hvernig eiganda fasteignar tókst til við að nýta hana í atvinnurekstri sínum og það geti ekki ráðið ákvörðun um álagningu fasteignaskatts.

Þó svo að kærendur kveði það ekki hafa verið ætlunina að leigja fasteignina út á umræddu tímabili þá geti það ekki breytt því að sveitarfélaginu hafi borið að fella eignina undir gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 eins og gert hafi verið. Fasteignin hafi verið auglýst á hinu skilgreinda tímabili til útleigu þar sem boðin var fram gisting til ferðamanna, þó að kærendur kveði nú að það hafi ekki verið ætlunin eða að það hafi ekki verið unnt síðar sökum viðgerða og endurbóta.

Að öllu framgreindu virtu hefðu kærendur þurft að tilkynna fyrirfram til heilbrigðiseftirlits sveitarfélagsins hvernig nýtingu fasteignarinnar yrði háttað á árinu 2021 og að eignin yrði ekki til útleigu til ferðamanna, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/2021, 4/2015 og 18/2015. Ekki sé nægjanlegt að taka eignina frá til eigin nota á vefsíðum, eins og gert hafi verið af hálfu kærenda, sbr. mál yfirfasteignamatsnefndar nr. 4/2021.

Sveitarfélagið telur samkvæmt framansögðu að álagning fasteignaskatts á fasteign kærenda fyrir umrætt tímabil byggi alfarið á lögum nr. 4/1995 með tilliti til túlkunar yfirfasteignamatsnefndar.

Þá sé vakin athygli á því að kærufrestur til yfirfasteignamatsnefndar hafi verið löngu liðinn þegar kærendur sendu kæru sína til nefndarinnar. Kærufrestur séu þrír mánuðir, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Álagning fasteignagjalda á fasteign kærenda hafi farið fram með hefðbundnum hætti í samræmi við lög nr. 4/1995 en hafi síðan verið breytt 17. maí 2021. Kærendur hafi átt í samskiptum við sveitarfélagið í lok maí 2021 og voru þeir upplýstir nánar um álagninguna þann 8. júní 2021 og að ekki væri hægt að fallast á kröfur þeirra. Þá var þeim jafnframt bent á að þeir gætu leitað til yfirfasteignamatsnefndar ef þeir væru ósáttir við ákvörðun sveitarfélagsins. Þannig hafi sveitarfélagið sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum. Kærendur hafi hins vegar ekki sent kæru til yfirfasteignamatsnefndar fyrr en 13. desember 2021. Það sé hins vegar lagt í mat yfirfasteignamatsnefndar að taka afstöðu til þess hvort vísa beri kærunni frá af þessum sökum.

IV.      Athugasemdir kærenda

Kærendur benda á að samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993 skuli kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Kærendur hafi hins vegar enga tilkynningu fengið um breytta álagningu hvorki til hækkunar á áður ákvörðuðum fasteignagjöldum fasteignarinnar né þegar breyting átti sér stað til lækkunar í maí 2021. Á engum tímapunkti hafi þeim verið birt stjórnvaldsákvörðun sem þeir gætu gert sér grein fyrir að væri kæranleg til yfirfasteignamatsnefndar.

Þá benda kærendur á að samkvæmt 7. gr. laga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfsvið þess. Stjórnvöldum beri að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem reynir á við úrlausn máls og þegar fyrir liggi að málsaðili eigi raunhæfa möguleika á að leggja mál í tiltekinn farveg beri stjórnvaldinu að vekja athygli hans á því. Það hafi ekki verið fyrr en með tölvupósti 8. júní 2021 sem kærendur hafi fengið þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að þeir gætu leitað til yfirfasteignamatsnefndar vegna málsins. Sveitar-félagið hafi látið þess ógetið að í því fælist að kæra þyrfti álagninguna og að jafnframt þyrfti að huga að almennum reglum um kærufresti sem fram kæmu í stjórnsýslulögum. Sveitarfélagið hafi heldur aldrei upplýst kærendur um að hér væri um kæranlega stjórnvaldsákvörðun að ræða.

Vísað sé til þess að reglur um kæruheimildir séu margar og ósamstæðar og erfitt sé fyrir ólöglærða að átta sig á þeim og af þeim sökum sé lögfest sú regla að stjórnvaldi beri að veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert skuli beina kæru, sbr. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 37/1993. Almenn tilvísun Grímsnes- og Grafningshreppi í tölvupósti 8. júní 2021 þess efnis að séu kærendur ósáttir geti þeir leitað til yfirfasteignamatsnefndar geti að mati kærenda ekki talist uppfylla hina almennu leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttarins samkv. 7. gr. laga nr. 37/1993 né þá sértæku reglu sem birtist í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga.

Kærendur vísa einnig til svonefndrar skýrleikareglu sem sé óskráð grundvallarregla stjórnsýslu-réttarins sem stjórnvöldum beri að fylgja, en af henni leiði að ákvarðanir stjórnvalda og tilkynningar þeirra sem beint sé til borgaranna verði jafnan að vera eins skýrar og glöggar að efni til, og kostur er. Reglan feli í sér þá kröfu að stjórnvaldsákvörðun verði að vera efnislega bæði ákveðin og skýr en vandséð sé að svo hafi verið í því máli sem hér um ræðir.

Telji yfirfasteignamatsnefnd, þrátt fyrir fyrrgreindan annmarka á því að sveitarfélagið hafi gætt leiðbeiningarskyldu sinnar eða meginreglu stjórnsýsluréttarins um skýrleika stjórnvaldsákvarðana, að kærufrestur hafi verið liðinn þann 14. desember 2021, þá byggja kærendur á því að líta skuli til 2. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993 þar sem afsakanlegt hafi verið að kæran hafi ekki borist fyrr.

V.        Niðurstaða

I.

Kærendur gera kröfu um að fasteignaskattur vegna fasteignar þeirra að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, verði alfarið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað og að álagning fasteignaskatts vegna eignarinnar fyrir árið 2021, eins og henni var breytt þann 17. maí 2021, verði staðfest.

II.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í lögum nr. 4/1995 er ekki kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds og fer því um hann samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef kæra berst að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. þess segir svo að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kærendum var tilkynnt um álagningu fasteignagjalda ársins 2021 með álagningarseðli, dags. 23. febrúar 2021, en álagningarseðlar sveitarfélagsins voru sendir rafrænt í pósthólf fasteignaeigenda á vefsíðunni www.island.is.

Í gögnum málsins kemur fram að kærendur hafi sent Grímsnes- og Grafningshreppi tölvupóst þann 31. maí 2019 þar sem leitað var upplýsinga um álögð fasteignagjöld vegna fasteignar kærenda. Í framhaldinu áttu sér stað tölvupóstssamskipti milli aðila þar sem m.a. forsendur upphaflegrar álagningar og þeirra breytinga sem gerðar voru 17. maí 2021 voru skýrðar af hálfu sveitarfélagsins. Í tölvupóstum sveitarfélagsins til kærenda 1. og 8. júní 2021 kom m.a. fram að hægt væri að kæra ákvörðun sveitarfélagsins til yfirfasteignamatsnefndar, en ekki var þar getið um kærufrest.

Ljóst er að kærufrestur vegna fyrrgreindrar ákvörðunar sveitarfélagsins var liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd þann 13. desember 2021. Ekki verður hins vegar séð af gögnum málsins að kærendum hafi verið leiðbeint um kærufrest vegna áðurnefndrar ákvörðunar sveitarfélagsins í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, hvorki þegar upphafleg álagning fasteignaskatts var tilkynnt þeim með rafrænum álagningarseðli í febrúar 2021 né þegar breyting var gerð á álagningu í maí 2021 eða í tölvupóstssamskiptum sveitarfélagsins og kærenda í maí og júní 2021. Í ljósi þess telur yfirfasteignamatsnefnd afsakanlegt að kæran hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests þar sem telja verður að sveitarfélagið hafi vanrækt að veita kærendum leiðbeiningar um kærufrest. Verður málinu því ekki vísað frá yfirfasteignamatsnefnd af þeim sökum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

III.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

i a-liðar gr. 3. gr. laga nr. 4/h falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaður-, skrifstofu- og verslunarhlið Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni er þar meðal annars tilgreind ,,mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.” Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna, en gististaðir í skilningi þeirra laga eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

IV.

Álitaefni þessa máls snýr að því hvernig ákvarða skuli fasteignaskatt á fasteign kærenda að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 17. maí 2021. Af gögnum málsins virðist óumdeilt að fasteign kærenda hafi verið auglýst á opinberum vefsíðum á fyrrgreindu tímabili. Að sögn kærenda mun hins vegar ekki hafa verið hægt að bóka gistingu í eigninni á áðurgreindu tímabili þar sem lokað hafi verið fyrir bókanir sökum þess að kærendur höfðu tekið eignina frá til eigin nota. Kærendur hafa einnig upplýst að ekki hafi reynst mögulega að leigja fasteignina út á fyrrgreindu tímabili vegna vinnu við viðgerðir og endurbætur á eigninni eftir vatnstjón sem varð á eigninni í lok janúar 2021. Sveitarfélagið, Grímsnes- og Grafningshreppur, hefur hins vegar vísað til þess að fasteignin hafi verið auglýst til útleigu á vefsíðum þrátt fyrir að ekki hafi verið sótt um leyfi til sölu gistingar í eigninni. Þó kærendur hafi ekki ætlað sér að leigja eignina út til gistingar á fyrrgreindu tímabili breyti það ekki þeirri staðreynd að eignin hafi sannanlega verið auglýst til útleigu á fyrrgreindu tímabili.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að gisting sem boðin er á opinberum vefsíðum sé leyfisskyld, sbr. m.a. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/2015 og 18/2015, enda sé um að ræða sölu á gistingu sem teljist til ferðaþjónustu. Um slíka sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá hefur einnig komið fram í fyrri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs, sbr. m.a. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/1995. Hefur í því sambandi verið vísað til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild eru með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka.

Þá hefur verið talið að sveitarfélögum sé heimilt að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á frístundahús (sumarbústaði) sem nýtt eru hluta úr ári sem gististaðir til ferðamanna. Skal álagning samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin er nýtt til ferðaþjónustu en eigendum ber að tilkynna fyrirfram um það tímabil innan hvers árs sem þeir ætla að nýta eignina með þeim hætti, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur jafnframt komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram, sbr. m.a. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2015, 18/2015 og 1/2021. Það fyrirkomulag að eigendur fasteigna geti tilkynnt í lok ákveðins tímabils eða í lok hvers ár hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað er að mati yfirfasteignamatsnefndar andstætt lögum nr. 4/1995 sem og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Af málsatvikum verður ráðið að kærendur hafi ekki tilkynnt fyrirfram til heilbrigðiseftirlits sveitarfélagsins hvernig nýtingu fasteignarinnar að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi, yrði háttað á árinu 2021 og að fasteignin yrði ekki til nýtt til útleigu til ferðamanna um ákveðinn tíma. Þegar það er haft í huga að fasteignin var auglýst á vefsíðu þar sem boðin er gisting til ferðamanna verður að telja að nauðsynlegt hafi verið fyrir kærendur að tilkynna sveitarfélaginu fyrirfram um að fasteignin yrði eingöngu nýtt til eigin nota á ákveðnu tímabili á árinu 2021 þannig að fasteignaskattur vegna eignarinnar yrði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna þess tímabils, sbr. t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 18. maí 2021 í máli nr. 1/2021. Ekki verður talið að nægilegt hafi verið að taka fasteignina frá á vefsíðum til eigin nota með þeim hætti sem gert var af hálfu kærenda, sbr. t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 19. september 2016 í máli nr. 13/2016.

Kærendur hafa lagt fram í málinu afrit af tilkynningu frá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. janúar 2021, til einstaklinga með skráða heimagistingu á árinu 2020. Í tilkynningunni kemur fram að töf verði á upptöku nýs kerfis hjá embættinu fyrir skráningu heimagistingar og að nýtt kerfi verði ekki tekið í notkun fyrr en 14. janúar 2021 og að lokað verði fyrir skráningu heimagistingar fram til þess dags.  Hins vegar er tekið fram í tilkynningunni að samþykktar skráningar vegna almanaksársins 2020 muni gilda áfram til og með 14. janúar 2021. Óumdeilt er að kærendur höfðu á árinu 2020 skráð leyfi til heimagistingar í fasteigninni að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi og er ljóst af framangreindri tilkynningu sýslumanns að sú skráning hélt gildi sínum til og með 14. janúar 2021. Með vísan til fyrri úrskurða yfirfasteignamatsnefndar, m.a. í máli nefndarinnar nr. 9/2017, skal fasteignaskattur á því tímabili sem skráð heimagisting er í gildi, ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Á tímabilinu 1. – 14. janúar 2021 voru kærendur með skráð leyfi til heimagistingar í fasteigninni að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið skal fasteignaskattur fasteignar kærenda að Oddsholti [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tímabilið 15. janúar 2021 til 17. maí 2021 og samkvæmt a-lið sömu lagagreinar fyrir aðra hluta ársins 2021.

 

 

 

 


 

Úrskurðarorð

Álagning fasteignaskatts vegna Oddsholts [], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [], fyrir árið 2021, skal vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tímabilið 15. janúar 2021 til 17. maí 2021 en samkvæmt a-lið sömu lagagreinar fyrir aðra hluta ársins 2021.

 

            ______________________________

  Björn Jóhannesson

 

 

___________________________                                       ___________________________         

                      Axel Hall                                                                         Valgerður Sólnes

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum