Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 610/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 610/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 553/2015; kæra A, dags. 23. júní 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 29. ágúst 2014. Samhliða umsókn sendi kærandi athugasemd til ríkisskattstjóra þess efnis að hún væri að sækja um leiðréttingu á láni hjá sjóði X nr. 1, sem móðir hennar, B, hafi verið skuldari að. Móðir kæranda hafi látist í byrjun árs 2013 og kærandi erft fasteign hennar og tekið yfir lánið. Kærandi tók fram í athugasemdinni að hún hafi alltaf búið með móður sinni í fasteigninni og greitt af láninu með henni. Hún sjái hvergi í reglunum hjá ríkisskattstjóra að þær eigi ekki rétt á að fá þetta lán leiðrétt.

Ríkisskattstjóri svaraði erindi kæranda þann 22. maí 2015. Í svarinu var tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána taki leiðrétting samkvæmt lögunum til verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá segi í framangreindri 1. mgr. 3. gr. laganna að skilyrði sé að lánin hafi verið nýtt, að hluta eða að öllu leyti, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota á Íslandi og að þau hafi verið til staðar í heild eða að hluta, á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Vaxtagjöld af sömu lánum skuli jafnframt hafa verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ennfremur er gert að skilyrði að lánin hafi verið tekin hjá lánveitendum sem falli undir 1. mgr. 2. gr. tilvitnaðra laga. Ríkisskattstjóri tók síðan fram að ekki yrði séð af skattframtölum kæranda 2009 og 2010 að hún hefði verið skráður lántaki verðtryggðra lána, sem lög nr. 35/2014 taki til, þ.e. á árunum 2008 og 2009. Því væri ekki séð að kærandi uppfyllti skilyrði laga nr. 35/2014 og var umsókn hennar um leiðréttingu því synjað.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 23. júní 2015, kemur fram að kærandi hafi sótt um leiðréttingu á láni sem móðir hennar hafi tekið en kærandi erft þegar móðir hennar lést í febrúar 2013. Kærandi vísaði síðan til niðurstöðu ríkisskattstjóra og kvaðst vel vita að hún hafi ekki verið skráður lántaki, enda hafi hún tekið fram í umsókn sinni að hún væri að sækja um f.h. látinnar móður sinnar, lántaka. Kærandi kveðst hafa hringt í þjónustusímann og fengið að heyra að þar sem hún væri hvorki eftirlifandi maki né barn undir en 18 ára eigi hún ekki rétt á að lánið verði leiðrétt. Kærandi kveðst ekki geta skilið hver munurinn sé á því hvort hún sé 18 ára eða eldri. Hún sé jafn mikið dóttir móður sinnar og hafi sjálf búið í þessari íbúð með henni frá því hún hafi verið nokkurra ára. Kærandi hafi meira að segja borgað af þessu láni með móður sinni meðan hún var á lífi. Síðustu tvö árin hafi móðir kæranda barist við veikindi og þá hafi kærandi tekið sér frí úr vinnu til að hugsa um hana og þar með talið greitt af láninu. Kærandi vísar til þess að henni finnist þetta ósanngjarnt. Þetta lán sé alveg jafn vitlaust og ólöglegt, hvort sem manneskjan sem tók lánið upprunalega sé látin eða ekki og hvort sem kærandi sé orðin eldri en 18 ára eða ekki. Kærandi kveðst ekki getað skilið af hverju lánið sé ekki leiðrétt.

 

II.

 

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán séu leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrædd lán hafi verið verðtryggð, veitt einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla ákveðin skilyrði, að þau hafi verið til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hér á landi og hafi verið til staðar á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 eða hluta þess. Vaxtagjöld af sömu lánum skulu hafa verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða að hluta, á sama tímabili.Óumdeilt er að kærandi uppfyllir ekki þau skilyrði að hafa sjálf verið skuldari verðtryggðra lána á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 og þar af leiðandi voru engin lán viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta vegna sama tíma. Kærandi var á þessum tíma heldur ekki eigandi fasteignar. Á hún því ekki sjálfstæðan rétt til leiðréttingar samkvæmt lögum nr. 35/2014.

Þá kemur til skoðunar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Samkvæmt henni tekur leiðrétting ekki til dánarbúa. Eftirlifandi maki eða börn sem eru undir 18 ára aldri á árinu 2014, sem hafa yfirtekið eignir og skuldir hins látna, geta þó sótt um leiðréttingu vegna lána hins látna. Ljóst er að kærandi var ekki undir 18 ára aldri á árinu 2014. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að hún gat ekki sótt um eða átt tilkall til leiðréttingar vegna lána látinnar móður sinnar, jafnvel þótt hún kunni að hafa yfirtekið eignir og skuldir hennar.

Með vísan til framangreinds er ljóst að niðurstaða ríkisskattstjóra er í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kæranda er hafnað.Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum