Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 73/2022-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 2. mars 2023

í máli nr. 73/2022

 

A og B

gegn

C og D

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Sigurlaug Helga Pétursdóttir lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðilar: B, og A, bæði til heimilis að E. Umboðsmaður sóknaraðila er Arnar Þór Stefánsson lögmaður.

Varnaraðilar: C, og D, bæði til heimilis að F.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að þeim sé heimilt að halda eftir tryggingarfé að fjárhæð 275.000 kr. Einnig er þess krafist að viðurkennt verði að varnaraðilar greiði sóknaraðilum þar til viðbótar in solidum 928.550 kr.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað að því undanskildu að þau viðurkenna bótaskyldu vegna sófaborðs, borðplötu, rúmdýnu og glasa.

Með kæru, dags. 18. júlí 2022, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 27. júlí 2022, var varnaraðilum gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 8. ágúst 2022, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 15. ágúst 2022, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 17. ágúst 2022. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, mótteknu 26. ágúst 2022, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.

Með tölvupósti 18. janúar 2023 óskaði kærunefnd frekari skýringa frá varnaraðila. Með tölvupósti næsta dag barst svar varnaraðila og var það sent sóknaraðila með tölvupósti 27. janúar. Kærunefnd óskaði frekari skýringa frá sóknaraðila með tölvupósti 18. janúar. Svar sóknaraðila barst með tölvupósti 20. janúar 2023 og var það sent varnaraðila með tölvupósti kærunefndar 27. janúar 2023. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með tölvupósti 1. febrúar og voru þær sendar sóknaraðila með tölvupósti kærunefndar 2. febrúar 2023.

Kærunefnd óskaði frekari skýringa frá sóknaraðila með tölvupósti 7. febrúar 2023 en engin svör bárust.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 10. ágúst 2021 til 31. maí 2022 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að E. Um var að ræða framlengingu á fyrri leigusamningi sem hafði gilt veturinn á undan. Ágreiningur er um bótarétt vegna skemmda sem sóknaraðilar segja að hafi orðið á hinu leigða á leigutíma, einnig vegna horfinna muna, þrifa og vangoldinnar leigu. Þar á meðal snýst ágreiningur um hvort sóknaraðilum sé heimilt að halda eftir tryggingarfé sem varnaraðilar lögðu fram við upphaf leigutíma.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðilar segja að með íbúðinni hafi verið leigð öll húsgögn, raftæki og allir heimilismunir, svo sem eldhúsáhöld, handklæði og þess háttar, rétt eins og um Airbnb íbúð væri að ræða. Umsamin leigulok hafi verið 31. maí 2022 en sóknaraðilar hafi fallist á að framlengja um nokkra daga til að koma til móts við varnaraðila vegna flutninga þeirra í nýtt leiguhúsnæði. Skilin hafi verið 5. júní 2022.

Við móttöku á hinu leigða þann dag hafi þegar orðið ljóst að ástandi þess hafi sumpart verið verulega ábótavant, til dæmis hafi teppi upp gang verið ónýtt enda virðist sem gengið hafi verið um á útiskóm þvert á ákvæði leigusamnings og fleira. Þá hafi ýmsir munir verið skemmdir og sumir ónýtir.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 27. júní 2022, hafi varnaraðilum verið tilkynnt um skemmdir á hinu leigða og um bótakröfu þeirra af þeim sökum. Bréfinu hafi fylgt listi þar sem tilgreint hafi verið af nákvæmni hvað hafi verið skemmt eða ónýtt í íbúðinni og með hvaða hætti. Þá hafi í listanum verið tilgreindur kostnaður vegna þessa sem hafi byggt ýmist á áætlunum, tilboðum eða uppflettingum. Ennfremur hafi verið upplýst að myndir hefðu verið teknar til sönnunar. Til viðbótar hafi verið nefndir þeir munir sem hafi vantað og sem varnaraðilar hafi ekki skilað. Nefnt hafi verið að varnaraðilar væru bótaskyldir vegna þessa á grundvelli 63. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, leigusamningsins og almennra reglna skaðabótaréttar. Þá hafi leiga verið ógreidd vegna 1. til 4. júní 2022.

Samantekið hafi krafan að hámarki numið 1.136.993 kr. og vísað hafi verið um sundurliðun hennar til yfirlitsins, sem hafi fylgt bréfinu. Tilgreint hafi verið að frá drægist tryggingin að fjárhæð 275.000 kr. Krafan næmi því 861.993 kr. og hafi verið skorað á varnaraðila að greiða hana innan tíu daga og réttur áskilinn til að hækka hana.

Með tölvupósti varnaraðila 30. júní 2022 hafi kröfunum verið hafnað og farið fram á endurgreiðslu tryggingarfjárins. Enginn rökstuðningur hafi fylgt höfnuninni og þannig engin afstaða tekin til einstakra liða í kröfubréfinu. Þá hafi ekki einu sinni verið fallist á kröfu um leigu vegna nokkurra daga í júní. Höfnunin hafi að hluta verið þvert á rafræn samskipti aðila þar sem viðurkennd hafi verið ábyrgð á nokkrum munum sem ýmist hafi vantað og hefðu ekki skilað sér eða skemmst, svo sem eldfast mót úr gleri, IKEA ljósafjarstýring, tvö irish-coffee glös, handklæði og lyklar.

Vegna höfnunar varnaraðila og vegna 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga sé þessi kæra lögð fram.

Nánari sundurliðun og gögn um einstaka liði sem krafa sé gerð fylgi kærunni. Samtala kröfunnar sé örlítið hærri en gerð hafi verið krafa um í bréfinu 27. júní 2022 enda áskilnaður um slíka hækkun í bréfinu. Í yfirlitinu sé meðal annars leigukrafa vegna ógreiddrar leigu í júní sem miðist við fimm daga en ekki fjóra svo sem gert hafi verið í kröfubréfinu 27. júní en óumdeilt sé að varnaraðilar hafi afhent íbúðina 5. júní.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðilar segja að þegar við upphaf leigutíma hafi þau séð að kröfur sóknaraðila væru óraunhæfar en vegna þess hve þröngur leigumarkaðurinn sé og valdastaða leigusala mikil hafi þau sett sér mark um að gangast við þeim. Kröfur sóknaraðila hafi meðal annars verið að varnaraðilar hefðu persónulega muni frá þeim uppi eins og myndir af börnum þeirra og nágranna, listaverk og að varnaraðilar færðu ekki neitt til eða gerðu húsnæðið þannig að þeim gæti liðið eins og þetta væri þeirra heimili. Við upphaf leigutíma hafi verið léttir að sjá að það væru engin dýr eða ný húsgögn og það hafi mátt sjá á flestu. Húsnæðið hafi ekki verið nýmálað, baðherbergið ófrágengið og það hafi ekki verið þrifið að fullu.

Sóknaraðilar hafi beðið varnaraðila að sjá um tvo ketti fyrir þau. Þau hafi sagt að annar einstaklingur kæmi með mat fyrir kettina en það hafi ekki gengið eftir. Sóknaraðilar neiti nú að greiða útlagðan kostnað varnaraðila vegna fæðu fyrir kettina á leigutíma.

Í janúar 2021 hafi annar sóknaraðila sagst vera íhuga að bjóða varnaraðilum að vera áfram næsta vetur en sóknaraðilar hafi þó gert kröfu um að varnaraðilar færu úr íbúðinni yfir sumarið þar sem þau hafi verið að koma til landsins. Varnaraðilar hafi ekki fengið staðfestingu fyrr en í maí 2021 um að þau gætu verið áfram næsta vetur.

Varnaraðilar hafi komið dóti sínu fyrir í geymslunni en fengið leyfi til að skilja eftir nokkra hluti sem sóknaraðilar hafi síðan verið búnir að henda út í garð þegar varnaraðilar hafi komið til baka. Þá hafi sóknaraðilar verið búnir að fjarlægja hluti úr íbúðinni fyrir seinna leigutímabilið sem þau höfðu farið fram á að varnaraðilar pössuðu fyrir þau áður.

Kröfum sóknaraðila sé hafnað. Sóknaraðilar hafi ekki getað sýnt fram á ástand íbúðarinnar fyrir og eftir leigutíma. Þau hafi ekki getað sýnt fram á að varnaraðilar hefðu skemmt eitthvað viljandi eða af gáleysi. Engin húsgögn hafi verið ný eða í fullkomnu ástandi við upphaf leigutíma, húsnæðið hafi ekki verið málað og ekki hafi verið tekið sérstaklega fram að búið væri að djúphreinsa við afhendingu. Um sé að ræða venjulega notkun á húsnæðinu eftir tveggja ára leigutímabil og ekki sé hægt að krefjast þess að ekkert sjáist á húsgögnum eftir svo langan tíma. Þá sé sóknaraðilum skylt að temja kostnað á kröfum eftir bestu getu. Varnaraðilar hafi ekki stolið neinu eða vísvitandi valdið neinum skemmdum.

Þó sé fallist á að borðplata í eldhúsi hafi orðið fyrir skemmdum á leigutíma og séu varnaraðilar tilbúnir að greiða kostnað vegna þessa. Einnig séu þau tilbúin að greiða kostnað vegna yfirdýnu, sex glasa, krydds sem og leigu vegna dagana í júní. Varnaraðilar geri þó kröfu á hendur sóknaraðila vegna kattarfóðurs sem þau hafi keypt á leigutíma þar sem móðir sóknaraðila hafi aldrei komið með mat eins og lofað hafði verið.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að sérstaklega sé tekið fram að gagnkrafa varnaraðila vegna kattarfóðurs sé hafnað sem haldlausri, rangri og ósannaðri. Þar að auki komist hún ekki að í málinu sem sé rekið eftir farvegi 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga enda samkvæmt orðalagi þess nái málið aðeins til kröfu leigusala um bætur úr hendi leigjanda, en ekki öfugt.

Þegar sóknaraðilar hafi hitt varnarðila hafi verið útskýrt fyrir þeim að tekk húsgögnin væru antík munir og erfðagripir og því væri nauðsynlegt að passa þá vel. Varnaraðilar hafi sagt að þau myndu passa upp á dótið og setja dúk yfir þannig að engar skemmdir yrðu.

Eftir fyrra leigutímabilið hafi sóknaraðilar íhugað að rifta leigusamningi eftir að hafa séð slæmt ástand íbúðarinnar. Þau hafi þó ákveðið að gera það ekki en þess í stað hafi þau gert breytingar á því hvaða dót væri skilið eftir og hafi þau fjarlægt ýmsa muni.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila eru fyrri sjónarmið ítrekuð.

VI. Niðurstaða            

Við upphaf leigutíma lögðu varnaraðilar fram tryggingarfé að fjárhæð 275.000 kr. til tryggingar fyrir réttum efndum á leigusamningi aðila. Sóknaraðilar gera kröfu um að viðurkennt verði að þeim sé heimilt að halda tryggingarfénu eftir og að varnaraðilum beri að auki að greiða 928.550 kr. í skaðabætur vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma, horfinna muna, þrifa og vangoldinnar leigu.

Í 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali megi ekki ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðurstaða um bótaskyldu leigjanda. Þó sé leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans.

Í 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu. Ákvæði 5. mgr. kveður á um að geri leigusali kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins samkvæmt 4. mgr. skuli leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafni eða fallist á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar. Jafnframt segir að hafni leigjandi kröfu leigusala beri honum að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu hans innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni, ella skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar.

Samkvæmt leigusamningi átti leigutíma að ljúka 31. maí 2022 en óumdeilt er að leigutími framlengdist til 5. júní 2022 og var íbúðinni skilað þann dag. Með bréfi, dags. 27. júní 2022, gerðu sóknaraðilar sundurliðaða kröfu í tryggingarfé varnaraðila og að auki skaðabótakröfu að fjárhæð 861.993 kr. með fyrirvara um hækkun hennar. Kröfunni höfnuðu varnaraðilar með tölvupósti 30. júní 2022 og fóru fram á endurgreiðslu tryggingarfjárins. Kæra barst kærunefnd 18. júlí 2022 og þar með innan tilskilins frests, sbr. 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga.

Eins og að framan greinir er óumdeilt að leigutíma lauk 5. júní 2022 og að varnaraðilar hafi ekki greitt leigu fyrir tímabilið 1.-5. júní 2022. Telur kærunefnd því að sóknaraðilum sé heimilt að ráðstafa 54.167 kr. af tryggingarfénu vegna þessa, sbr. 2. máls. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. húsaleigulaga skal leigjandi að leigutíma loknum skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Beri leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt teljist ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafi af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi. Þá segir í 1. mgr. 64. gr. sömu laga að bótakröfu sinni á hendur leigjanda verði leigusali að lýsa skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins. Ljóst er að bótakrafa sóknaraðila var gerð innan tiltekins frests, sbr. framangreint.

Þá segir í 1. mgr. 69. gr. húsalaga að leigjandi og leigusali eða umboðsmenn þeirra skuli gera úttekt á ástandi hins leigða húsnæðis áður en afhending fari fram og við lok leigutíma. Óháður úttektaraðili skuli annast úttektina óski annar aðilinn þess og skiptist kostnaðurinn við úttektina þá að jöfnu milli þeirra.

Íbúðin var leigð með húsgögnum, raftækjum og heimilismunum sóknaraðila. Krafa þeirra á hendur varnaraðilum sundurliðast með eftirfarandi hætti:

  1. Tekkborð í eldhúsi…………………60.000 kr.
  2. Borðstofuborð ………………………60.000 kr.
  3. Tekkskenkur……………………….80.000 kr.
  4. Borðplata í eldhúsinnréttingu ……..150.000 kr.
  5. Sófaborð úr IKEA VITTSJÖ ………..8.950 kr.
  6. Skrifborð x2 ALEX………….….39.900 kr.
  7. Teppi á stiga og gangi………….250.000 kr.
  8. Heilsudýna úr DORMA………..135.000 kr.
  9. Málun á barnaherbergjum……….50.000 kr.
  10. Gardínur í barnaherbergi………….7.980 kr.
  11. Motta KYNDBY………………...15.990 kr.
  12. Brauðrist………………………….7.995 kr.
  13. KVISTBRO borð úr IKEA………9.950 kr.
  14. VOLFGANG stólar……………..17.900 kr.
  15. Eldfast mót……………………….8.000 kr.
  16. Gufustraujárn…………………….7.995 kr.
  17. Teflon panna……………………..4.990 kr.
  18. Fjarstýring á IKEA ljós…………..1.490 kr.
  19. Þrif………………………………91.243 kr.
  20. Djúphreinsun sófa………………35.000 kr.
  21. Leiga fyrir tímabilið 1.-4. júní….54.167 kr.
  22. Brotnar steinhellur………………42.500 kr.
  23. Lyklar af Tekkskenki…………...20.000 kr.
  24. Lyklar á innihurðir………………20.000 kr.
  25. Handklæði og glös………………24.500 kr.

Varnaraðilar viðurkenna að á leigutíma hafi orðið skemmdir á borðplötu í eldhúsi sem og á VITTSJÖ sófaborði, sbr. kröfur nr. 4 og 5. Samkvæmt gögnum málsins kostar téð sófaborð 8.950 kr. Varnaraðilar hafa ekki mótmælt þeirri fjárhæð en boðist til að finna notað sófaborð. Kærunefnd telur þannig að óumdeilt sé að þörf sé á nýju sófaborði vegna skemmda og verður því fallist á að sóknaraðilum sé heimilt að ráðstafa 8.950 kr. af tryggingarfénu í þessu tilliti. Þá hafa sóknaraðilar upplýst að samkvæmt verðtilboði Fanntófell kosti ný borðplata með efni og vinnu ca. 300.000 kr. Varnaraðilar fallast á að greiða kostnað vegna nýrrar borðplötu þar sem hún hafi orðið fyrir skemmdum á leigutíma og leggja til að miðað verði við 8.900 kr. sem sé kostnaður vegna borðplötu í IKEA. Um hafi verið að ræða gamla borðplötu og segja þau að unnt hefði verið að finna aðra lausn, svo sem setja filmu, enda skemmdin aðeins á um 10 cm svæði. Sóknaraðilar upplýstu að ekki lægju fyrir upplýsingar um aldur borðplötunnar en að hún hafi verið í íbúðinni þegar sóknaraðilar hafi keypt hana árið 2011. Nefndin óskaði frekari upplýsinga frá aðilum vegna þessarar kröfu, svo sem um tegund þeirrar borðplötu sem var í hinu leigða á leigutíma og staðfestingu sóknaraðila á því að ekki væri unnt að bæta fyrir skemmdir á henni öðruvísi en að skipta henni alveg út. Ekki bárust skýringar frá sóknaraðilum vegna þessa. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin að meta verði bætur hér að álitum. Tilboð sem sóknaraðilar óskuðu eftir frá Fanntófelli gerði ráð fyrir borðplötu sem er 60 cm að dýpt og 600 cm að lengd. Nefndin telur að hæfilegt sé að miða bætur við helming af kostnaði vegna nýrrar borðplötu frá Fanntófelli sem hljóðaði upp á 165.418 kr. Verður því fallist á að sóknaraðilum sé heimilt að ráðstafa 82.709 kr. af tryggingarfénu vegna nýrrar borðplötu.

Varnaraðilar fallast á að þeim beri að greiða kostnað vegna nýrrar yfirdýnu að fjárhæð 10.000 kr., sbr. hluti af kröfu nr. 8. Þá fallast þau á að fjögur til sex glös hafi brotnað, sbr. krafa nr. 25, og fallast á kostnað að fjárhæð 5.000 kr. vegna þessa. Telur kærunefnd því að sóknaraðilum sé heimilt að ráðstafa þeim fjárhæðum af tryggingarfénu. Að öðru leyti hafna varnaraðilar kröfu sóknaraðila.

Sameiginleg úttekt aðila var hvorki gerð við upphaf né lok leigutíma í samræmi við framangreint ákvæði 1. mgr. 69. gr. húsaleigulaga. Þá var hakað við í leigusamningi aðila að hlutlaus úttektaraðili kæmi ekki til með að gera úttekt við upphaf og lok leigutíma. Máli sýnu til stuðnings leggja sóknaraðilar fram myndir af ástandi hins leigða sem voru einhliða teknar af þeim við lok leigutíma án þess þó að dagsetning þeirra liggi fyrir. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að myndirnar sýni ýmsar skemmdir á húsgögnum og hellum utan við húsið þá verði ekki fram hjá því litið við úrlausn málsins að úttekt sem sýnir ástand þessara muna og hellna við upphaf leigutíma liggur ekki fyrir. Gegn neitun varnaraðila á því að hafa valdið téðum skemmdum og því að hafa fjarlægt muni úr íbúðinni sem og þeirri staðreynd að úttekta var ekki aflað í samræmi við ákvæði húsaleigulaga fellst kærunefndin ekki á bótaskyldu varnaraðila vegna krafna sóknaraðila að öðru leyti en að framan greinir.

Sóknaraðilar gera kröfu um að varnaraðilum beri að greiða kostnað vegna þrifa á hinu leigða en varnaraðilar segja að þau hafi keypt flutningsþrif við lok leigutíma. Gögn málsins sýna ekki annað en að fyrst hafi verið gerðar athugasemdir vegna þrifa með kröfubréfi sóknaraðila 27. júní 2022. Verður að telja að eðlilegt hefði verið að varnaraðilum hefði verið gefinn kostur á að bæta úr þrifum um leið og þeim urðu sóknaraðilum ljós. Þess utan liggja ekki fyrir staðfestingar á neinum fjárútlátum sóknaraðila vegna þrifa þeirra. Með hliðsjón af framangreindu er kröfu sóknaraðila hér um hafnað.

Að öllu framangreindu virtu er sóknaraðilum heimilt að ráðstafa 160.826 kr. af tryggingarfé varnaraðila. Ber sóknaraðilum því að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 114.174 kr. ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er þeir skila tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem varnaraðilar skiluðu sóknaraðilum íbúðinni 5. júní 2022 reiknast dráttarvextir frá 4. júlí 2022.

Varnaraðilar gera kröfu um að sóknaraðilum beri að endurgreiða þeim kostnað sem þau greiddu á leigutíma vegna kaupa á fóðri fyrir tvo ketti sóknaraðila. Á leigutíma kom fram beiðni af hálfu sóknaraðila um að varnaraðilar önnuðust kettina sem þeir féllust á. Telur kærunefnd að hér sé um að ræða sjálfstætt samningsatriði aðila á milli sem fellur utan leigusamnings aðila. Er þessari kröfu því vísað frá kærunefnd.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Sóknaraðilum ber að endurgreiða varnaraðilum tryggingarfé að fjárhæð 114.174 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram til 4. júlí 2022 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Kröfu varnaraðila um greiðslu vegna kattafóðurs er vísað frá.

 

 

Reykjavík, 2. mars 2023

f.h. kærunefndar húsamála

 

Auður Björg Jónsdóttir formaður

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum