Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 54/2024-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 54/2024

 

Beiðni eiganda um að mál verði sett á dagskrá aðalfundar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 2024, beindi A hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 14. júní 2024, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 19. júní 2024, og athugasemdir gagnaðila, dags. 19. júní 2024, lagðar fyrir nefndina. 

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 12. desember 2024.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C í D, alls 28 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi eignarhluta í húshluta nr. 4 en gagnaðili er húsfélagið. 

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera.

I. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila upplýsi um fundargerð stjórnarfundar sem haldinn var 24. apríl 2024.

II. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila beri að setja á dagskrá aðalfundar mál sem álitsbeiðandi hafi borið upp á stjórnarfundi 24. apríl 2024 um lagfæringu á galla í bílageymslugólfi.  

III. Að viðurkennt verði að stjórnarfundurinn 24. apríl 2024 og aðalfundur sem haldinn hafi verið 15. maí 2024 séu ólögmætir.

 Álitsbeiðandi kveður stjórn gagnaðila ekki hafa sett á dagskrá aðalfundar mál sem hann hafi borið upp á stjórnarfundi 24. apríl 2024. Gagnaðili kveður að af ýmsum ástæðum hafi dregist að afhenda álitsbeiðanda fundargerð téðs stjórnarfundar, en það hafi nú verið gert. Síðasta vetur hafi álitsbeiðandi rætt við nokkra úr stjórninni um fjölgun niðurfalla aftan við bílastæði hans í bílskýlinu til að varna því að vatn frá bílaþvottastæði næði inn á bílastæði hans. Honum hafi verið bent á að kynna málið fyrir stjórninni ásamt kostnaðaráætlun. Hann hafi kynnt erindi sitt á téðum stjórnarfundi og síðan tilkynnt að hann myndi leggja málið fyrir væntanlegan aðalfund, sem stjórnin hafi ekki gert athugasemd við. Við boðun aðalfundarins hafi stjórnin þó ekki talið þörf á að auglýsa þennan væntanlega dagskrárlið sérstaklega í fundarboði, félagmönnum sé heimilt að bera upp mál/erindi undir dagskrárliðnum „önnur mál“, án sérstakrar tilkynningar í fundarboði. Að kynna erindið og koma því á framfæri hafi því verið í höndum álitsbeiðanda, en hann hafi svo ekki mætt á aðalfundinn. Stjórnin hafi ekki talið við hæfi að kynna málið að honum fjarstöddum. Álitsbeiðandi kveður að sú fundargerð sem hafi verið sett í póstkassa hans sé ólögleg. Hún sé óundirrituð og auk þess vanti fylgigögn hennar. 

III. Forsendur

Álitsbeiðandi hefur nú fengið fundargerð stjórnarfundar sem haldinn var 24. apríl 2024 afhenda, enda var hún lögð fram sem fylgigagn greinargerðar gagnaðila í málinu. Eins og álitsbeiðandi bendir á var fundargerðin lögð fram án þeirra fylgigagna sem vísað er til í henni og verður því fallist á kröfu hans í lið I að því leyti að hann eigi rétt að aðgengi að þeim gögnum.  

Verður þá vikið að kröfu álitsbeiðanda í lið II. Kveðið er á um í 4. mgr. 59. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að vilji eigandi fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skuli hann greina stjórn frá því skriflega og/eða rafrænt með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði. Með vísan til þessa ákvæðis ber stjórn gagnaðila að setja mál álitsbeiðanda á dagskrá aðalfundar og geta þess í fundarboði. Verður því fallist á þessa kröfu.

Þrátt fyrir að fallist sé á kröfu álitsbeiðanda hér að framan þá hafa engin sjónarmið komið fram sem stutt geta það að stjórnarfundurinn 24. apríl 2024 og aðalfundurinn 15. maí 2024 séu ólögmætir. Verður því ekki fallist á kröfu álitsbeiðanda í lið III.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfu álitsbeiðanda í lið I og II eins og í forsendukafla greinir.

Kröfu álitsbeiðanda í lið III er hafnað.

 

Reykjavík, 12. desember 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Sigurlaug Helga Pétursdóttir                                     Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta