Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 127/2024 Úrskurður 9. janúar 2025

Mál nr. 127/2024                  Eiginnafn: Hrafnadís (kvk.)

Hinn 9. janúar 2025 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 127/2024 en erindið barst nefndinni 13. desember 2024.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) uppfyllir skilyrði nr. eitt, þrjú og fjögur. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Hrafnadísar, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Hér reynir aftur á móti á skilyrði númer tvö. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Enn fremur segir að skilyrðið komi í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur.

Nefndin lítur svo á að eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) sé afbökun á eiginnafninu Hrafndís. Um leið fari það í bág við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna. Eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) fer gegn þeirri meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns. Öðru máli kann að gegna um uppnefni og viðurnefni. Enginn forliður er í eignarfalli fleirtölu framan við endinguna –dís í íslenskum eiginnöfnum með einni undantekningu sem eðli málsins samkvæmt skapar ekki fordæmi til nýmyndunar þ.e. Vanadís, fornt kveðskaparheiti Freyju. Einkvæði forliðurinn, hrafn-, sem stofnsamsetning við endingu, felur í sér hefð og reglu sem á sér fornar rætur sbr. eiginnöfnin Hrafnhildur og Hrafnkell. Telur mannanafnanefnd skilyrði 5. gr. því ekki öll uppfyllt.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta