Mál nr. 127/2024 Úrskurður 9. janúar 2025
Mál nr. 127/2024 Eiginnafn: Hrafnadís (kvk.)
Hinn 9. janúar 2025 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 127/2024 en erindið barst nefndinni 13. desember 2024.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) uppfyllir skilyrði nr. eitt, þrjú og fjögur. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Hrafnadísar, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Hér reynir aftur á móti á skilyrði númer tvö. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Enn fremur segir að skilyrðið komi í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur.
Nefndin lítur svo á að eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) sé afbökun á eiginnafninu Hrafndís. Um leið fari það í bág við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna. Eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) fer gegn þeirri meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns. Öðru máli kann að gegna um uppnefni og viðurnefni. Enginn forliður er í eignarfalli fleirtölu framan við endinguna –dís í íslenskum eiginnöfnum með einni undantekningu sem eðli málsins samkvæmt skapar ekki fordæmi til nýmyndunar þ.e. Vanadís, fornt kveðskaparheiti Freyju. Einkvæði forliðurinn, hrafn-, sem stofnsamsetning við endingu, felur í sér hefð og reglu sem á sér fornar rætur sbr. eiginnöfnin Hrafnhildur og Hrafnkell. Telur mannanafnanefnd skilyrði 5. gr. því ekki öll uppfyllt.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Hrafnadís (kvk.) er hafnað.