Hoppa yfir valmynd

Mál 138/2020-Úrskurður

.

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 13. apríl 2021

í máli nr. 138/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila kostnað sem hann greiddi vegna útkalls Securitas sem og innheimtukostnað.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, móttekinni 2. desember 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 10. desember 2020, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 7. janúar 2021, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 12. janúar 2021, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 19. janúar 2021, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 22. janúar 2021. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 29. janúar 2021, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að D. Ágreiningur er um innheimtu varnaraðila á kostnaði úr hendi sóknaraðila vegna útkalls öryggisvarðar Securitas eftir að brunakerfi hússins fór í gang.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að í september 2020 hafi honum borist innheimtukrafa í heimabanka sinn frá varnaraðila vegna kostnaðar við útkall öryggisvarðar Securitas. Reykskynjari hafði farið í gang í íbúðinni við eldamennsku og þar með hafi farið út brunaboð til Securitas. Vegna slíkra aðstæðna hafi varnaraðili komið þeim upplýsingum á framfæri við leigjendur sína að þeir þurfi að hlaupa fram í anddyri hússins að stjórnstöð brunakerfisins til að slökkva á bjöllu og endurræsa kerfið. Einnig þurfi að hringja í Securitas. Þetta þurfi að gera til þess að verða ekki fyrir „gríðarlegum kostnaði“ vegna útkalls.

Eftir að reykskynjarinn hafði farið í gang hafi það tekið sérstaklega langan tíma að slökkva á brunabjöllunni og endurræsa kerfið þar sem það hafi sífellt farið í gang á ný. Þegar búið hafi verið að stimpla inn símanúmer og á meðan beðið var eftir að Securitas svaraði hafi öryggisvörður birst í anddyrinu. Það hafi hreinlega verið um sekúnduspursmál að ræða að símtalið færi í gegn áður en vörðurinn hafi mætt en útkallið hafi þó verið skráð. Í kjölfarið hafi innheimtukrafan birst í heimabanka sóknaraðila.

Sóknaraðili hafi komið því á framfæri að sér þætti innheimtan ósanngjörn. Hann hefði einungis verið að elda og það væri talsvert algengt að brunakerfið færi í gang við eldamennsku í þessum litlu íbúðum. Raunar svo algengt að íbúar væru farnir að ganga að því sem vísu að um eldamennsku væri að ræða þegar bjallan færi í gang. Aðalatriðið hafi þó verið að sóknaraðili hafi farið eftir fyrirmælum varnaraðila. Enginn ásetningur verið um að bregðast rangt við og fá öryggisvörð á staðinn. Þegar sóknaraðili hafi fengið símtal frá innheimtulögfræðingi á vegum varnaraðila hafi hann ákveðið að greiða kostnaðinn og þann lögfræðikostnað sem hafði bæst við, enda upphæðin nógu há fyrir.

Það sé leigusali sem beri ábyrgð á brunavörnum leiguhúsnæðis samkvæmt húsaleigulögum. Lögin geri einungis ráð fyrir að kostnaður við minniháttar viðhald (eins og skipti á rafhlöðum) leggist á leigjanda þegar komi að kostnaði vegna brunavarna. Það sé því frávik frá ákvæðum húsaleigulaga að leigusali leggi kostnað á leigjanda vegna brunavarna leiguhúsnæðis. Innheimtan byggi ekki á ákvæðum leigusamnings, heldur einungis á orðalagi í leiðbeiningum um brunaviðvörunarkerfi sem hangi uppi í leiguíbúðum.

Mat varnaraðila á því hvort leigjendur bregðist við með réttum eða röngum hætti þegar brunaviðvörunarkerfi fari í gang byggi ekki á því hvort tiltekin þrjú atriði hafi verið framkvæmd, heldur hvort þessi þrjú atriði hafi verið framkvæmd áður en öryggisvörður Securitas mæti á svæðið. Varnaraðili meti því frammistöðu íbúanna út frá viðbragðsflýti þeirra, en þó liggi ekki fyrir hve langan tíma íbúarnir hafi í raun til að bregðast við. Það séu því engin hlutlæg viðmið sem varnaraðili styðjist við þegar metið sé hvort íbúar hafi brugðist við með réttum eða röngum hætti. Það blasi auk þess við að íbúar hafi í raun mislangan tíma að til að bregðast við, allt eftir því hversu fljótur öryggisvörðurinn sé á svæðið. Það hljóti að vakna upp spurningar um jafnræði þegar leggja eigi kostnaðinn á leigjendur varnaraðila.

Vísað sé til 2. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 19. gr. húsaleigulaga. Varnaraðili hafi tekið ákvörðun um að haga brunavörnum með þeim hætti að útkall fari út til Securitas þegar reykskynjari fari í gang. Þótt þetta fyrirkomulag sé viðhaft breyti það því ekki að það sé leigusali sem beri ábyrgð á brunavörnum hússins. Það sé því varla hægt að sjá að varnaraðili geti ákveðið að leigjandinn eigi að bera kostnaðinn af brunavörnum einungis vegna þess að útkall sé „gríðarlega kostnaðarsamt“.

Í leigusamningi aðila sé ekki tekið fram hvaða frávik frá húsaleigulögum sé að finna í honum, heldur sé það einungis gefið í skyn í 1. gr. samningsins. Þar sem svo sé ekki verði að slá því föstu að ákvæði húsaleigulaga gildi um samninginn án undantekninga.

Í mánaðarlegu leigugjaldi sé innifalið leigugjald, gjald í hússjóð, umsýslugjald og rekstrarkostnaður. Þetta sé fastur kostnaður leigjanda samkvæmt leigusamningi. Þó sé einnig gert ráð fyrir kostnaði sem geti lagst ofan á þetta mánaðarlega gjald, vanræki leigjendur tilteknar verkskyldur. Í leigusamningi segir eftirfarandi um kostnað leigjanda vegna brunakerfis að leigjandi skuli bæta skemmdir sem hann sé valdur að:

Eigi íbúar við skynjara svo að það hafi áhrif á brunaboða í húsnæði B lendir kostnaður við lagfæringar alfarið á viðkomandi íbúum. Umsjón með kerfum og viðgerð er einungis í höndum öryggisþjónustu og fer kostnaður eftir gjaldskrá viðkomandi fyrirtækis hverju sinni. Íbúum er ekki heimilt að sinna lagfæringum á kerfinu til að forðast/takmarka kostnað ef átt hefur verið við kerfið á annan hátt en leiðbeiningar sýna.

Þá segi um verkskyldur leigjenda varðandi brunakerfi:

Leigutakar skuli kynna sér sérstaklega brunakerfi húsa og fylgja leiðbeiningum um kerfi í hvívetna. Leiðbeiningar má finna í öllum íbúðum og herbergjum.

Leigjendur eigi því að þekkja leiðbeiningar um brunakerfið og fara eftir þeim en ekkert komi fram í leigusamningi um að leigjendur eigi að taka á sig kostnað vegna vanrækslu á einhverjum verkskyldum þegar komi að brunakerfi hússins. Það sé aðeins í leiðbeiningum um brunakerfið sem leigjendur fái upplýsingar um slíka innheimtu. Leiðbeiningarnar hangi uppi í íbúðum varnaraðila. Í þeim sé útlistað hvernig leigjendur eigi að bregðast við fari brunakerfið í gang án þess að bein hætta sé á ferð, til dæmis sé um eldamennsku að ræða. Það sé athyglisvert að í þessum leiðbeiningum sé einnig tekið fram að „gríðarlegur kostnaður“ muni lenda á íbúum sem nái ekki að uppfylla þessar verkskyldur.

Það sé engin ástæða til að efast um að varnaraðili sé í fullum rétti með að hengja upp leiðbeiningar um umgengni og umhirðu B og biðja leigjendur um að fylgja ákveðnum reglum í því sambandi. En það sé full ástæða til að efast um rétt hans til að tilkynna í sama plaggi að brot á umræddum reglum muni hafa „gríðarlegan kostnað“ í för með sér fyrir þá sem ekki fylgi reglunum og senda í framhaldinu innheimtuseðla í heimabanka viðkomandi þegar „brot“ eigi sér stað.

Í 1. gr. leigusamnings aðila segi þó að um samningssamband aðila fari meðal annars samkvæmt reglum „sem leigusali hefur sett eða kann að setja vegna þess húsnæðis sem um ræðir“. En opin heimild varnaraðila til að setja reglur um leiguhúsnæði sé ekki það sama og heimild til að leggja „gríðarlegan kostnað“ á leigjendur ofan á umsamið leigugjald í leigusamningi. Það eina sem segi um skyldu leigjenda þegar komi að reglusetningu varnaraðila um húsnæðið sé að slíkum reglum beri að fylgja.

Varnaraðili hafi sagt í svari sínu til sóknaraðila að hann geti krafið leigjanda um útlagðan kostnað sem leigjandi stofni til eða verði til vegna athafna hans eða athafnaleysis. Hér sé því rétt að spyrja sig að því hvernig leigjandi stofni til kostnaðar með athöfnum sínum eða athafnaleysi því að ekki sé þá víst að leigusali eigi skilyrðislausan rétt á því að krefja leigjanda um útlagðan kostnað, sama hvernig til hans sé stofnað.

Útkall Securitas sé hluti af brunavörnum hússins. Reykskynjarar fari ítrekað í gang við eldamennsku. Íbúðirnar séu litlar og reykskynjari sé í sama rými og eldunaraðstaða. Gufugleypirinn sem fylgi íbúðunum sé ef til vill ekki af kraftmeiri gerðinni því að hann virðist ekki alltaf hafa mikið að segja. Þetta þýði að það sé viðbúið að ákveðið magn af falsboðum fari út til Securitas þegar eldamennska kveiki á reykskynjaranum. Þetta þýði að athöfnin eldamennska geti orðið til þess að leigjandi sitji uppi með gríðarlega háan reikning.

Varnaraðili hafi sagt við sóknaraðila að hann hefði getað hringt þegar í Securitas til að tilkynna að um falsboð væri að ræða, þrátt fyrir að kerfið væri ítrekað að fara í gang og þá hefði verið unnt að afturkalla útkallið. Sóknaraðili velti því upp hversu langan tíma hann hafi til að fara eftir leiðbeiningum varnaraðila þegar brunabjalla fari í gang.

Þá séu leigjendur í misgóðri aðstöðu til að uppfylla verkskyldurnar þrjár samkvæmt fyrrnefndum leiðbeiningum þar sem sumir búi næstum því við hliðina á stjórnstöð brunakerfisins en aðrir búi á efri hæðum hússins og þurfi að hlaupa eftir göngum og niður stiga til að komast að stjórnstöðinni.

Það sé afar vafasamt af leigusala að ætla sér að innheimta útlagðan kostnað sem eigi að vera tilkominn vegna athafnaleysis leigjenda þegar athafnir séu skilgreindar með svo huglægum hætti eins og hér sé raunin.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að atvik málsins séu þau að þann 13. september 2020 hafi brunaboði í íbúð sóknaraðila farið í gang. Hann hafi ekki upplýst Securitas, sem sé umsjónaraðili kerfisins, um að eldur væri ekki laus í íbúðinni og að um falsboð væri að ræða í samræmi við þær reglur sem gildi um öryggiskerfið og sóknaraðili þekki til. Öryggisvörður hafi því komið á staðinn til að kanna aðstæður með tilliti til hugsanlegs bruna og til að slökkva á brunaboðinu og endurræsa kerfið, væri ekki um lausan eld að ræða.

Útlagður kostnaður við útkallið hafi verið 7.794 kr. með virðisaukaskatti. Stofnuð hafi verið krafa á hendur sóknaraðila 23. september 2020 en hann hafi ekki greitt kröfuna. Sóknaraðili hafi síðar greitt kröfuna 28. október 2020 en þá hafði fallið á hana kostnaður að fjárhæð 2.450 kr. Samtals hafi greiðslan því numið 10.244 kr. sem sundurliðist með eftirfarandi hætti:

 1. Höfuðstóll7794 kr.
 2. Úthringigjald682 kr.
 3. Úthringigjald682 kr.
 4. Dráttarvextir66 kr.
 5. Innh. banka.120 kr.
 6. Vanskilagjald900 kr.

Skýrt hafi komið fram í 6. mgr. 16. gr. leigusamnings aðila að skylda leigutaka væri meðal annars sú að kynna sér sérstaklega brunakerfi og fylgja leiðbeiningum um kerfið í hvívetna. Í þessu máli sé enginn ágreiningur um að reglurnar hafi verið til staðar í íbúðinni og sóknaraðili þekkt til þeirra.

Í 1. mgr. 19. gr. húsaleigulaga komi skýrt fram að leigutaka sé skylt að hlíta þeim húsreglum sem leigusali hafi sett eða kunni að setja, enda séu slíkar reglur hluti af samningi aðila. Slíkar reglur geti verið íþyngjandi gagnvart leigjanda.

Bein tenging sé því á milli leigusamningsins og brunareglnanna.

Í leigusamningi komi skýrt fram að með kostnaði við áhrif á því að brunaboð lendi á íbúa sé átt við skynjara. Að mati varnaraðila falli eldamennska, sem leiði til þess að skynjari fari í gang, undir það. Því til viðbótar komi skýrt fram í þeim reglum, sem gildi um brunaviðvörunarkerfið, að fari brunabjalla í gang og ekki sé um eld að ræða beri leigjanda skylda til eftirfarandi athafna:

 1. Afboða útkall til Securitas.
 2. Fara að brunaviðvörunarkerfi og slökkva á bjöllu.
 3. Endurræsa kerfið samkvæmt leiðbeiningum.

Um sé að ræða röð aðgerða sem þurfi að framkvæma í þeirri röð, sem þær séu taldar upp, og eðli máls samkvæmt, án tafar. Um skýrar reglur sé að ræða og hlutlægan mælikvarða. Sé reglunum fylgt skipti lengd frá íbúð til stjórnstöðvar ekki máli. Sé þessu verklagi ekki fylgt og öryggisvörður mæti á staðinn, komi skýrt fram í reglunum að kostnaður við það lendi á viðkomandi íbúa. Hefði sóknaraðili fylgt þessari röð aðgerða og hefði öryggisvörður ekki komið á staðinn, hefði því ekki orðið um neinn kostnað að ræða. Sjónarmið sóknaraðila um að öryggisvörður Securitas hafi komið á staðinn áður en honum hafi gefist ráðrúm til að hringja til Securitas eigi því ekki við.

Í öðru lagi sé enginn ágreiningur um það að varnaraðila beri skylda til að tryggja brunavarnir í húsinu í samræmi við almennar reglur, þar með talin ákvæði gildandi byggingarreglugerðar og ákvæði 2. mgr. 14. gr. húsaleigulaga. Í því felist einnig skylda til að sinna nauðsynlegu viðhaldi á kerfunum. Í öllum fasteignum varnaraðila séu öflug brunaviðvörunarkerfi sem tryggi öryggi íbúa. Varnaraðili beri allan kostnað af rekstri og viðhaldi þessara kerfa. Það að varnaraðili innheimti útlagðan kostnað vegna þess að kerfið hafi farið í gang og öryggisvörður mætt á staðinn vegna athafna eða athafnaleysis leigjanda feli ekki í sér að leigjandi greiði sérstaklega fyrir brunavarnir í hinu leigða.

Engin ákvæði í húsaleigulögum komi í veg fyrir innheimtuna. Um frávik frá lögunum geti því ekki verið að ræða. Ekki sé um viðgerðar- eða viðhaldskostnað á brunaviðvörunarkerfinu að ræða, sbr. meðal annars 3. mgr. 19. gr. húsaleigulaga, heldur beinan útlagðan kostnað sem komi til vegna athafna leigjanda, í þessu tilviki eldamennska án nægjanlegrar loftræstingar, eitthvað hafi brunnið við eða annað gerst sem valdi því að reykskynjari sendi brunaboð og svo eftirfarandi athafnaleysis, þ.e. að gera ekki Securitas aðvart í samræmi við þær reglur sem gildi. Meginregla húsaleigulaga og allra kröfuréttarsambanda sé sú að menn beri ábyrgð á þeim kostnaði eða því tjóni sem verði vegna athafna eða athafnaleysis viðkomandi aðila, sbr. meðal annars meginreglu 2. mgr. 19. gr. húsaleigulaga.

Í 1. mgr. 25. gr. húsaleigulaga sé sérstaklega gert ráð fyrir að leigusali geti lagt rekstrargjöld á leigjanda og innheimt þau.

Því sé hafnað að öryggiskerfin fari oft í gang, þótt vissulega komi það fyrir. Um hafi verið að ræða 45 tilfelli á síðasta ári þar sem öryggisvörður hafi mætt á svæðið og innheimta hafi þurft leigjendur vegna þess kostnaðar. Í ljósi þess að leigusamningar varnaraðila séu um 1.500 og íbúar á þriðja þúsund, sem búi þar 365 daga ársins, sé um mjög lágt hlutfall að ræða miðað við alla mælikvarða. Varnaraðili hafi ekki yfirlit yfir það hversu oft kerfin hafi farið í gang, án þess að öryggisvörður hafi mætt, enda séu þau tilfelli óskráð. Varnaraðila hafi ekki borist margar kvartanir um of næm brunaviðvörunarkerfi, en hafa þurfi í huga varðandi staðsetningu reykskynjara að almennt séu íbúðirnar litlar og nauðsynlegt sé að hafa reykskynjara nálægt eldunaraðstöðu.

Með vísan til framangreinds rúmist innheimta á hendur sóknaraðila innan ákvæða húsaleigulaga, gildandi leigusamnings og reglna settra á grundvelli hans.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að varnaraðili segi að það sé bein tenging á milli leigusamnings og brunareglnanna. Sú tenging feli þó aðeins í sér að í leigusamningi sé kveðið á um rétt leigusala til að setja reglur um leiguhúsnæðið. Ekkert sé sagt í leigusamningi eða húsaleigulögum um rétt leigusala til að senda út innheimtukröfur á grundvelli slíkra reglna.

Þá sé það einkennilegt ef leigusali geti sent innheimtukröfur á leigjendur ofan á leigugjald, einungis með vísun í reglur sem leigusali setji einhliða.

Það sé mat varnaraðila að þegar eldamennska íbúa kveiki á reykskynjara þá séu viðkomandi íbúar að eiga við skynjara í skilningi 16. gr. leigusamnings aðila. Samkvæmt þessum rökum sé innheimta varnaraðila með stoð í leigusamningnum sjálfum. Í reglum varnaraðila vegna brunakerfisins sé að finna tvær útgáfur af röð aðgerða þegar brunaviðvörunarkerfi fari í gang og því sé ekki hægt að segja að það sé skýrt gagnvart leigjendum í hvaða röð eigi að framkvæma þær. Samkvæmt varnaraðila megi finna í reglunum hlutlægan mælikvarða á því hvort viðbrögð leigjenda séu rétt eða röng þegar kerfið fari í gang. Samkvæmt honum feli þessi hlutlægi mælikvarði í sér áðurnefnda röð aðgerða sem framkvæma verði án tafar. Það eina sem sé skýrt hér sé það að rétt viðbrögð leigjenda þegar brunaviðvörunarkerfi fari í gang að þau séu séu metin út frá viðbragðstíma þeirra. Leigjendum sé gert að framkvæma þrjár aðgerðir áður en öryggisvörður komi á svæðið, en það komi hvergi fram hversu langan tíma þeir hafi til þess.

Varnaraðili vilji ekki kannast við að kostnaður við útköll Securitas þegar brunaviðvörunarkerfi fari í gang sé hluti af rekstri brunaviðvörunarkerfi B. Það sé varnaraðili sem hafi ákveðið að haga brunavörnum með þeim hætti að brunaboð fari út til Securitas. Þar með sé þjónusta Securitas hluti af brunavörnum hússins og sú þjónusta hljóti að falla undir rekstur brunakerfisins sem sé á ábyrgð leigusala.

Þá virðist sem málflutningur varnaraðila sé sá að hann geti fært rekstrarkostnað við brunavarnir á B yfir á leigjendur sína með vísan í 1. mgr. 25. gr. húsaleigulaga.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir að afleiðingar þess að reglunum sé ekki fylgt geti leitt til þess að leigjandi þurfi að greiða útlagðan kostnað eins og í tilfelli þessu.

Varðandi röð aðgerða þá skipti þær ekki máli þar sem alltaf sé nægur tími til að bregðast við áður en öryggisvörður komi á svæðið. Aðalmálið sé að leigjandi þurfi að bregðast við með því að slökkva á bjöllunni og hringja í Securitas. Almennt hafi það ekki vafist fyrir leigjendum, enda fátítt að Securitas þurfi að koma á staðinn. Það segi sig sjálft að þegar brunaviðvörun fari í gang þurfi að bregðast við án tafar. Ekki þurfi að skrifa það sérstaklega inn í reglurnar.

Kostnaður við útkall geti aldrei talist vera rekstrarkostnaður brunakerfis.

VI. Niðurstaða            

Deilt er um hvort sóknaraðila beri að greiða reikning vegna útkalls öryggisvarðar Securitas í kjölfar þess að brunaboði fór í gang í íbúðinni við eldamennsku hans. Sóknaraðili lagði fram leigusamning sem er þó ekki undirritaður af aðilum, en óumdeilt virðist þó af beggja hálfu að leggja hann til grundvallar við úrlausn málsins.

Í 1. mgr. 2. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að óheimilt sé að semja um að leigjandi íbúðarhúsnæðis taki á sig ríkari skyldur og öðlist minni réttindi en lögin mæla fyrir um nema ákvæði laganna hafi að geyma sérstök frávik þess efnis. Í 3. mgr. sömu greinar segir þó að þegar um sé að ræða leigu íbúðarhúsnæðis til námsmanna á vegum lögaðila sem ekki sé rekinn í hagnaðarskyni og hafi þjónustu við námsmenn að meginmarkmiði sé þrátt fyrir 1. mgr. heimilt vegna sérstaks eðlis og tilgangs starfseminnar að víkja frá einstökum ákvæðum laga þessara með samningi. Í samningi ber að geta þeirra frávika sem um ræðir.

Í 1. gr. leigusamningsins segir:

Að öðru leyti en greinir í samningi þessum fer um samningssamband aðila samkvæmt húsaleigulögum nr. 36, 1994 með síðari breytingum, úthlutunarreglum B eins og þær eru á hverjum tíma og gildandi húsreglum fyrir það húsnæði sem um ræðir hverju sinni, auk annarra reglna sem leigusali hefur sett eða kann að setja vegna þess húsnæðis sem um ræðir.

Þá segir í 6. mgr. 16. gr.:

Leigutakar skulu kynna sér sérstaklega brunakerfi húsa og fylgja leiðbeiningum um kerfi í hvívetna. Leiðbeiningar má finna í öllum herbergjum og íbúðum. Eigi íbúar við skynjara svo að það hafi áhrif á brunaboða í húsnæði B lendir kostnaður við lagfæringar alfarið á viðkomandi íbúa. Umsjón með kerfum og viðgerð er einungis í höndum öryggisþjónustu og fer kostnaður eftir gjaldskrá viðkomandi fyrirtækis hverju sinni. Íbúum er ekki heimilt að sinna lagfæringum á kerfinu til að forðast/takmarka kostnað ef átt hefur verið við kerfið á annan hátt en leiðbeiningar sýna.

Í nefndum leiðbeiningum varnaraðila segir:

 1. Ef brunabjalla fer í gang, athugið hvort rautt viðvörunarljós logar á reykskynjara í íbúðinni. Sé rautt ljós á skynjara þínum fer af stað boð um eld í íbúð þinni.
 2. Ef svo er, en ekki um eld að ræða, ber þér skylda til að A) afboða útkall Securitas, B) fara að brunaviðvörunarkerfi til að slökkva á bjöllu og C) endurræsa kerfi skv. leiðbeiningum.
 3. Hringið í stjórnstöð Securitas í síma 533 5533 og gefið upp nafn og ástæðu þess að bjallan fór í gang. Ef þú gerir ekki allt af eftirfarandi: slekkur á bjöllu, hringir í Securitas og endurræsir kerfi mætir öryggisvörður á staðinn, slær út kerfið og sendir B tilkynningu um hvaða reykskynjari olli útkallinu. Útkall er gríðarlega kostnaðarsamt og lendir á viðkomandi íbúa.

Í 2. mgr. 14. gr. húsaleigulaga segir meðal annars að við afhendingu húsnæðis skuli reykskynjarar vera í lagi og að húsnæðið skuli fullnægja kröfum um brunavarnir sem settar séu fram í lögum og reglugerðum. Til að fullnægja kröfum um brunavarnir hefur varnaraðili sett upp sérstakt brunaviðvörunarkerfi sem sendir boð til Securitas, fari það í gang.

Óumdeilt er að sóknaraðili þekkti þær leiðbeiningar sem hanga á vegg í íbúð hans um aðgerðir ef reykskynjari færi í gang og ekki væri um hættu að ræða. Þar kemur fram að það fyrsta sem gera skal sé að tilkynna það Securitas. Þetta verður að teljast eðlileg forgangsröðun, enda byggir kerfið á því að unnt sé að bregðast sem skjótast við þegar raunveruleg hætta er fyrir dyrum. Þetta gerði sóknaraðili ekki heldur einbeitti sér að því að slökkva á brunabjöllunni og endurræsa kerfið en það hafi gengið illa. Öryggisvörður hafi svo birst skömmu eftir að símanúmer Securitas hafði verið valið. Samkvæmt þessu fór sóknaraðili ekki eftir skriflegum leiðbeiningum sem leiddu til þess að öryggisvörður var að tilefnislausu kallaður til. Verður sóknaraðili því að bera kostnað sem af þessu leiddi, auk þess sem sérstaklega er tekið fram í leiðbeiningunum að kostnaður í tilvikum sem þessum lendi á leigjanda. Af þeim sökum verður því að hafna kröfu sóknaraðila.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

 

Reykjavík, 13. apríl 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira