Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 96/2020 Úrskurður 28. október 2020

Mál nr. 96/2020                     Eiginnafn:      Theó (kk.)

 

Hinn 28. október 2020 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 96/2020 en erindið barst nefndinni 2. október.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Ritháttur nafnsins Theó er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem samstafan th er ekki notuð í ósamsettum orðum í íslensku nema í ritmyndum nafna sem hafa öðlast hefð. Er því aðeins unnt að samþykkja ritháttinn Theó að hefð sé fyrir honum.

Við túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn er stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 19. janúar 2015 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;

Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.

2.  Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Tekið skal fram að vinnulagsreglurnar eru mannafnanefnd til stuðnings við mat sitt, en ekki ráðandi um niðurstöðuna bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá ber enginn sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna eiginnafnið Theó. Nafnið kemur heldur ekki fyrir í neinu manntali frá 1703–1920. Miðað við þessar forsendur hefur mannanafnanefnd áður komist að þeirri niðurstöðu að eiginnafnið Theó (kk.) hafi ekki unnið sér hefð í íslensku, sbr. úrskurð frá 14. janúar 2020 í máli 123/2019 og úrskurð frá 15. maí 2008 í máli 34/2008.

Til nánari útskýringar á niðurstöðu téðra úrskurða er rétt að benda á að í lagaákvæðinu sem um ræðir, þ.e. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr., er talað um hefð fyrir rithætti tiltekins nafns, en ekki um hefð fyrir tilteknum bókstaf eða samstöfu. Til þess að hægt sé að fallast á að ritháttur nafns, sem víkur frá almennum ritreglum íslensks máls, hafi unnið sér hefð í íslensku verða að jafnaði að vera ákveðið mörg dæmi, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur, um þennan rithátt nafnsins. Ritháttur annars nafns myndar aftur á móti ekki grundvöll hefðar fyrir nafnið sem um ræðir. Til dæmis er nafnið Walter ekki ritað í samræmi við almennar íslenskar ritreglur þar sem bókstafurinn w er ekki hluti af íslensku stafrófi. Hins vegar er Walter á mannanafnaskrá með þessum rithætti þar sem nafnið telst hafa unnið sér hefð í íslensku. Þetta hefur þó ekki í för með sér að bókstafurinn w hafi unnið sér hefð og leiðir ekki til þess að önnur nöfn rituð með w, t.d. Wilma, teljist hafa unnið sér hefð í málinu. Sama gildir um samstöfuna th. Ekki er til dæmis hægt að fallast á að hefð sé fyrir rithættinum Thalía þótt th komi fyrir í upphafi nafnsins Thelma sem hefur unnið sér hefð í íslensku. Þessi túlkun er í samræmi við texta laga, nr. 45/1996, um mannanöfn og greinargerð með frumvarpi að lögunum.

Aftur á móti eru í sumum tilvikum sérstök tengsl milli nafna, svo sem milli mismunandi ritmynda sama nafns, sbr. t.d. Nathalia ~ Natalía og Marzellíus ~ Marsellíus; einnig milli nafna sem telja má orðhlutalega skyld, t.d. kvenmannsnöfn sem leidd eru af karlmannsnöfnum, sbr. t.d. Einara ~ Einar og Baldur ~ Baldína, og gælunöfn sem leidd eru af öðrum nöfnum, t.d. Jón ~ Jónsi, Kristín ~ Stína. Þegar metið er hvort tiltekinn ritháttur nafns hafi unnið sér hefð í íslensku virðist eðlilegt að líta til þess hvort samsvarandi ritháttur tíðkist í öðru nafni sem hefur sérstök tengsl – á borð við þau sem hér var lýst – við nafnið sem verið er að meta. Ekki verður séð að þessi undantekning hafi veruleg áhrif á gildi þeirrar reglu að hefð í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga skírskoti til ritháttar ákveðinna nafna en ekki til ákveðinna bókstafa eða samstafna.  Jafnframt er þessi túlkun að ákveðnu leyti í samræmi við mikilvæga reglu í íslenskri stafsetningu, þ.e. að stofn orða hafi sem líkasta ritmynd þrátt fyrir framburðarmun í stofni á milli ólíkra orðmynda, sbr. dæmi á borð við marg-ur og marg-t, hag-i og hag-a og vatni og vatns (gjarnan vass í framburði).

Þar sem eiginnafnið Theó getur að uppruna talist gælunafn leitt af eiginnafninu Theódór, sem hefð er fyrir að rita með samstöfunni th, lítur mannanafnanefnd svo á að rithátturinn Theó styðjist við hefð í íslensku.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Theó (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd nafnsins Teó (kk.).

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum