Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2021

Árið 2021, 22. júní, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 3/2021 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi, dags. 28. mars 2021, kærði X, Reykjavík, kt. [], til yfirfasteignamatsnefndar álagningu fasteignaskatts á tengigang að Hverafold [], Reykjavík, fnr. [].

Með bréfi, dags. 7. apríl 2021 óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 4. maí 2021. Þá óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir því með tölvubréfi, dags. 8. apríl 2021, að fá umsögn Þjóðskrár Íslands vegna málsins og barst sú umsögn þann 3. maí 2021.

Með tölvupósti, dags. 4. maí 2021, voru umsagnir Reykjavíkurborgar og Þjóðskrár Íslands sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 17. maí 2021.

Málið var tekið til úrskurðar 22. júní 2021.

 

 1. Málavextir

  Kærandi sér um rekstur sameigna fasteignanna að Hverafold [] og Hverafold [], Reykjavík, en í fasteignunum er rekin margvísleg verslunar- og þjónustustarfsemi, s.s., verslanir, hárgreiðslu- og snyrtistofur, bakarí, tannlæknastofur og tónlistarskóli, svo nokkur dæmi séu nefnd. Fyrrgreindar fasteignir eru tengdar saman með yfirbyggðum tengigangi sem var byggður á árunum 1992 - 1993, skömmu eftir að áðurnefndar húseignir voru fullbyggðar. Að sögn kæranda var tengigangurinn að öllu leyti byggður í samræmi við fyrirliggjandi teikningar sem samþykktar voru af hlutaðeigandi aðilum. Í eignaskiptasamningum beggja húsanna var skilgreind hlutdeild hvorrar byggingar fyrir sig í umræddum tengigangi.

  Af gögnum málsins verður ráðið að á árinu 1994 hafi tengigangurinn verið skráður sem sjálfstæð fasteign í eigu kæranda og þá fengið fastanúmer í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins og síðar hjá Þjóðskrá Íslands. Fasteignagjöld munu hafa verið greidd af tengiganginum í samræmi við innheimtuseðla sem bárust kæranda frá Reykjavíkurborg en af gögnum málsins er ekki að fullu ljóst hvenær innheimta fasteignagjalda hófst.   

  Þann 3. september 2020 sendi kærandi tölvupóst til Þjóðskrár Íslands þar sem óskað var eftir upplýsingum varðandi tengiganginn og ástæðum þess að hann væri skráður sem sjálfstæð eining í fasteignaskrá. Þjóðskrá Íslands áframsendi tölvupóstinn til Reykjavíkurborgar. Eftir nánari skoðun á málinu komst Reykjavíkurborg að þeirri niðurstöðu í samráði við Þjóðskrá Íslands að tengigangurinn væri tvískráður, þ.e. bæði sem sjálfstæð fasteign og sem eignarhluti í fasteignunum að Hverafold [] og Hverafold [], Reykjavík. Eftir að þetta lá fyrir var tengigangurinn afskráður sem sjálfstæð fasteign úr fasteignaskrá í lok nóvember 2020. 

  Þann 8. febrúar 2021 sendi kærandi bréf til Reykjavíkurborgar þar sem krafist var endurgreiðslu á fasteignagjöldum áranna 1991 - 2020 vegna fyrrgreinds tengigangs auk vaxta og var í bréfinu vísað til þess að fasteignagjöldin hefðu aldrei átt rétt á sér. Í tölvupósti Reykjavíkurborgar til kæranda þann 11. mars 2021 kom fram að kærandi ætti að beina erindi sínu til Þjóðskrár Íslands og eftir atvikum til yfirfasteignamatsnefndar þar sem fasteignamat eignarinnar væri unnið af Þjóðskrá Íslands. Þá kom jafnframt fram að kröfur vegna fasteignagjalda ársins 2020 hefðu verið felldar niður en fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar hefði ekki heimild til leiðréttingar á eldri álagningu fasteignagjalda nema samkvæmt úrskurði þar um.

  Í framhaldinu snéri kærandi sér til Þjóðskrár Íslands vegna málsins en stofnunin taldi sig ekki geta úrskurðað í málinu. Vísaði Þjóðskrá Íslands m.a. til þess að ágreiningurinn snéri að gjaldskyldu fasteignaskatts fremur en að gjaldstofni og þar sem ekki væri unnt að taka fasteignamatið til endurskoðunar lægi beinast við fyrir kæranda að leita úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar vegna málsins.

  Í samræmi við fyrrgreindar leiðbeiningar Reykjavíkurborgar og Þjóðskrár Íslands leitaði kærandi til yfirfasteignamatsnefndar vegna málsins með bréfi, dags. 28. mars 2021, líkt og að framan greinir.

 2. Sjónarmið kæranda

  Kærandi telur að með afskráningu tengigangsins að Hverafold [], Reykjavík, úr fasteignaskrá á árinu 2020 hafi verið viðurkennt að tengiganginn hafi aldrei átt að skrá sem sjálfstæða fasteign þar sem fyrirliggjandi eignaskiptasamningar hafi gefið til kynna hlutdeild fasteignanna að Hverafold [] og Hverafold [] í umræddum tengigangi. Í raun sé tengigangurinn sambærilegur stigagangi í fjölbýlishúsi en í slíkum tilvikum sé stigagangurinn aldrei skráður sem sjálfstæð eign.

  Kærandi telur að með því að afskrá tengiganginn úr fasteignaskrá hafi jafnframt verið viðurkennt að sérstök innheimta fasteignagjalda af tengiganginum hafi ekki átt rétt á sér og þess vegna beri Reykjavíkurborg að endurgreiða fasteignagjöldin skilvíslega til kæranda.

  Vísar kærandi til þess að hann hafi ítrekað á árum áður haft samband við byggingarfulltrúann í Reykjavík símleiðis og innt hann eftir því hverju það sætti að tengigangurinn væri skráð sem sérstök fasteign. Því hafi ætíð verið lofað að þetta yrði skoðað en þrátt fyrir það hafi aldrei neitt gerst í málinu. Kærandi hafi greitt fasteignagjöld vegna tengigangsins í yfir 20 ár með skilum enda hafi forsvarsmenn kæranda frá upphafi verið skilvísir og borið virðingu fyrir skráningu og kröfum opinberra aðila á borð við Reykjavíkurborg.

  Telur kærandi að Reykjavíkurborg beri að endurgreiða kæranda öll greitt fasteignagjöld tengigangsins allt frá því að innheimta fasteignagjaldanna hófst á árinu 1994 og þá jafnframt með vöxtum.

 3. Sjónarmið Þjóðskrár Íslands

  Þjóðskrá Íslands kveðst vera skráningarstofnun sem fari með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Meðal hlutverka stofnunarinnar sé að staðfesta upplýsingar í fasteignaskrá sem sveitarfélög hafa forskráð, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2001. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna séu sveitarstjórnir ábyrgar fyrir því að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, og um öll mannvirki, sem gerðar eru í umdæmum þeirra hvers um sig, svo og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra.

  Samkvæmt innsendum gögnum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík í ágúst 1994 hafi tengibyggingin (matshluti 03) á milli Hverafoldar [] og Hverafoldar [], Reykjavík, verið sögð í eigu kæranda og því hafi byggingin verið skráð og metin hjá Þjóðskrá Íslands (áður Fasteignamati ríkisins) í samræmi við þær upplýsingar. Þess beri þó að geta að eignaskiptayfirlýsing hafi ekki fylgt með þessum gögnum frá byggingarfulltrúa.

  Á árinu 2004 hafi ný eignaskiptayfirlýsing komið til skráningar hjá Þjóðskrá Íslands fyrir matshluta 01 og síðan aftur fyrir sama matshluta á árinu 2015. Ekki hafi verið getið um matshluta 03, þ.e. áðurnefnda tengibyggingu í fyrrgreindum eignaskiptayfirlýsingum en hins vegar hafi verið talað um ,,göngugötu” í yfirlýsingunum og sömuleiðis í eignaskiptayfirlýsingu fyrir matshluta 02 sem kom til yfirferðar hjá Þjóðskrá Íslands á árinu 2018.

  Þann 23. september 2020 hafi komið tilkynning frá byggingarfulltrúa um að fjarlægja ætti matshluta 03 úr skráningu og þá hafi matshlutinn verið tekinn úr fasteignaskrá sem sérstakur matshluti og þess í stað tengdur við eignirnar í samræmi við gildandi eignaskiptayfirlýsingu um göngugötuna. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að um tvískráningu hafi verið að ræða eins og fram hafi komið hjá Reykjavíkurborg.

  Þjóðskrá Íslands vísar til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skuli vísa ágreiningi um gjaldstofn fasteignaskatts samkvæmt 3. gr. laganna til úrskurðar Þjóðskrár Íslands. Stofn til álagningar fasteignaskatta á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Verði ekki annað ráðið af lögunum en að gjaldstofn fasteignagjalda sé fasteignamat fasteigna. Þá komi jafnframt fram í athugasemdum með lögum nr. 140/2005 um breytingu á lögum nr. 4/1995 að sveitarfélög taki ákvarðanir um gjaldtöku fasteignagjalda innan þess ramma sem lögin setja, s.s. varðandi tegundir gjalda, gjald- og skatthlutfall, einingaverð, hlutfall og upphæð afslátta. 

  Ráða megi af erindi kæranda að ekki hafi verið farið fram á endurmat fasteignamats heldur sé um að ræða ágreining á milli kærenda og Reykjavíkurborgar um greiðslu fasteignagjalda. Í tölvupóst-samskiptum kæranda og Reykjavíkurborgar, komi fram að Reykjavíkurborg telji sig ekki geta leiðrétt fasteignagjöld eignarinnar nema Þjóðskrá Íslands úrskurði fasteignamat umrædds matshluta aftur í tímann, en slíkt sé ekki mögulegt eins og stofnunin hafi þegar bent á.

  Þjóðskrá Íslands telur að erindi kæranda verði ekki leyst með úrskurði Þjóðskrár Íslands um gjaldstofn, þ.e. fasteignamat, enda sé slíkt ómögulegt þegar umræddum matshluta (matshluti 03) hafi verið eytt úr fasteignaskrá. Telur stofnunin því að rétt hafi verið að leiðbeina kæranda um að leita úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga vegna gjaldskyldu fasteignagjalda.

 4. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

  Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að svo virðist sem að á árinu 1994 hafi umræddur tengigangur að Hverafold [] verið tvískráður í fasteignaskrá, bæði sem sjálfstæð eign í eigu kæranda svo og með séreignahlutum í Hverafold [] og Hverafold [], Reykjavík.

  Vísað er til þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi með höndum skráningu fasteigna innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Breytt skráning sé jafnframt í höndum byggingarfulltrúa. Hinn umræddi tengigangur hafi verið afskráður í lok nóvember 2020. Fasteignagjöld hafi verið greidd af tengiganginum frá árinu 2007. Bent sé á að það sé á ábyrgð húseiganda að breyta skráningu, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 6/2001 og því sé ekki einungis við aðra að sakast sé skráning ekki í lagi. Bent sé á að fyrningarákvæði fasteignagjalda séu fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og skuli endurgreiðsla fasteignagjalda reiknast frá nóvember 2020.

  Afstaða byggingarfulltrúans í Reykjavík sé að um skráningarvillu hafi verið að ræða þar sem tengigangur með fastanúmerið 221-7111 að Hverafold [], Reykjavík hafi verið tvískráður og því sé fallist á að forsendur séu fyrir endurgreiðslu fasteignagjalda í samræmi við kröfu kæranda með þeim fyrirvara sem gildi varðandi fyrningu.

 5. Athugasemdir kæranda

Kærandi telur að ekki séu forsendur til andmæla vegna umsagnar Þjóðskrár Íslands en öðru máli gegni hins vegar um umsögn Reykjavíkurborgar. Fyrir það fyrsta sé andmælt þeirri viðleitni Reykjavíkurborgar að koma hluta af ábyrgðinni yfir á kæranda og þá þannig að halda því fram að kærandi hafi ekki brugðist við rangri skráningu tengigangsins. Kærandi bendir á að í upphaflegu erindi til Reykjavíkurborgar hafi komið skýrt fram að forsvarsmenn kæranda hefðu ítrekað gert tilraunir til að gera athugasemdir við skráningu eignarinnar í fasteignaskrá en ávallt fengið þau svör að þetta yrði skoðað. Erfitt sé hins vegar að færa sönnur á þessar óskir þar sem þær hafi verið gerðar símleiðis.

Í öðru lagi sé fullyrt af hálfu Reykjavíkurborgar að fasteignagjöld hafi verið greidd af tengiganginum frá árinu 2007. Gögn málsins gefi hins vegar til kynna að tengigangurinn hafi verið skráður hjá Fasteignamati ríkisins í ágúst 1994 og þá sem eign kæranda. Kærandi telur því líklegt að upplýsingar um greiðslur fasteignagjalda til Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007 hafi af einhverjum ástæðum ekki fundist, s.s. vegna breytinga á tölvukerfum, enda hafði kærandi gert athugasemdir löngu fyrir árið 2007 eftir því sem best sé vitað. Ekki sé trúlegt að fasteignin hafi verið skráð án þess að greidd væru af henni fasteignagjöld.

Í þriðja lagi láti Reykjavíkurborg hjá líða að geta þess í umsögn sinni að kærandi eigi rétt á fullum dráttarvöxtum á allar þær fjárhæðir sem kærandi hafi greitt til Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg telji aðeins vera forsendur til endurgreiðslu fasteignagjalda fjögur ár aftur í tímann, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007. Því sé andmælt og þess krafist að öll fasteignagjöld matshlutans frá árinu 2007 verði endurgreidd eða frá þeim tíma sem Reykjavíkurborg tilgreinir að innheimta gjaldanna hafi hafist, þrátt fyrir að rökstuddar líkur séu á því að greiðslur hafi átt sér stað allt frá árinu 1994. Í 3. gr. laga nr. 150/2007 sé aðeins talað um að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár en í 4. gr. laganna sé talað um tuttugu ára fyrningartíma og þá sé í 6. gr. sömu laga nefndur tíu ára fyrningarfrestur.

Kærandi áréttar að krafa hans sé ekki byggð á leiðréttingu, breytingu eða endurmati á gjaldstofni sem leiði síðan til þeirrar fjárkröfu sem hér sé höfð uppi. Staðreyndin sé einfaldlega sú að Reykjavíkurborg hafi innheimt fjármuni sem hún hafi aldrei átt rétt á og þá fjármuni beri að endurgreiða að fullu með vöxtum. Samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt sé hægt að innheimta opinber gjöld sex ár aftur í tímann komi til endurákvörðunar á sköttum. Um verulegt ójafnræði sé að ræða ef einungis eigi að endurgreiða fjögur ár aftur í tímann í því tilviki sem hér um ræði. Líta beri á mistök starfsmanna Reykjavíkurborgar sem óviljandi lántöku borgarinnar hjá kæranda og því eigi að endurgreiða allar greiddar fjárhæðir með vöxtum og vísist í því sambandi til 4. gr. laga nr. 150/2007 varðandi tímalengd fyrningar. 

VI.       Niðurstaða

Mál þetta varðar álagningu fasteignaskatts á svonefndan tengigang (matshluti 03) fasteignarinnar að Hverafold [], Reykjavík, fnr. [], en umræddur gangur tengir saman fasteignirnar að Hverafold [] og Hverafold [], Reykjavík. Af gögnum málsins verður ráðið að fyrrgreindur matshluti hafi a.m.k. frá árinu 1994 verið skráður sem sjálfstæð eign í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins og síðar Þjóðskrár Íslands. Á árinu 2020 kom í ljós að samkvæmt eignaskiptasamningum fyrir fasteignirnar að Hverafold [] og Hverafold [], Reykjavík hafi séreignarhlutar fasteignanna verið skráðir með ákveðna hlutdeild í áðurnefndum tengigangi (matshluta 03). Þannig var tengigangurinn í raun tvískráður í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðinu ári samkvæmt fasteignaskrá, sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr. laganna þar sem tilgreindar eru ákveðnar fasteignir sem eru undanþegnar fasteignaskatti. Stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Það er í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinar í a- c liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Verði ágreiningur um gjaldstofn samkvæmt 3. gr. laganna skal vísa honum til úrskurðar Þjóðskrár Íslands en þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Verði hins vegar ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Þjóðskrá Íslands hefur staðfest að umræddur tengigangur að Hverafold [], Reykjavík (matshluti 03) hafi verið tvískráður í fasteignaskrá en þegar það kom í ljós á árinu 2020 hafi verið tekin ákvörðun um að fella matshlutann úr fasteignaskrá sem sjálfstæða fasteign. Samkvæmt framansögðu er tengigangurinn ekki lengur með sérstakt fasteignamat og því verður ekki séð að til staðar sé ágreiningur um gjaldstofn fasteignaskatts.

Þá liggur einnig fyrir að Reykjavíkurborg hefur í umsögn sinni til yfirfasteignamatsnefndar staðfest að forsendur séu til endurgreiðslu fasteignagjalda vegna áðurnefnds tengigangs í samræmi við kröfu kæranda þar um en þó með fyrirvara um fyrningu.

Í kæru sinni til yfirfasteignamatsnefndar gerir kærandi kröfu um að nefndin úrskurði um að Reykjavíkurborg beri að endurgreiða öll álögð fasteignagjöld vegna umrædds tengigangs að Hverafold [], Reykjavík, fnr. [], allt frá árinu 1994 auk vaxta.

Í ljósi framangreindra ákvarðana Þjóðskrár Íslands um að fella fyrrgreindan tengigang að Hverafold [] (matshluta 03) úr fasteignaskrá og Reykjavíkurborgar um að forsendur séu til endurgreiðslu á álögðum fasteignaskatti tengigangsins liggur fyrir að eftir stendur einungis ágreiningur um lengd endurgreiðslutímabils fasteignaskatts vegna áðurnefnds tengigangs. Það fellur ekki undir valdsvið yfirfasteignamatsnefndar að taka afstöðu til krafna um endurgreiðslu á þegar álögðum fasteignaskatti né um lengd mögulegs endurgreiðslutímabils, sbr. lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Í ljósi alls framangreinds er kærunni vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

Úrskurðarorð

Kæru Húsfélagsins Hverafold [] vegna álagningar fasteignaskatts á tengigang að Hverafold [], Reykjavík, fnr. [], er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

 

_____________________

Björn Jóhannesson

 

________________________                                      ________________________

            Axel Hall                                                                     Valgerður Sólnes

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira