Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 65/2021 Endurupptökubeiðni Úrskurður 26. júlí 2021

Mál nr. 65/2021                    Endurupptökubeiðni

Eiginnafn:     Lúsífer (kk.)

                                               

 

 

 

 

 

 

 

 

Hinn 26. júlí 2021 tekur mannanafnanefnd fyrir beiðni um endurupptöku máls nr. 121/2019 Lúsífer (kk.) en erindið barst nefndinni 1. júní.

Með úrskurði mannanafnanefndar frá 14. janúar 2020 var umsókn um eiginnafnið Lúsífer (kk.) hafnað (mál nr. 121/2019). Niðurstaða nefndarinnar í málinu var sú að nafnið uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, sem kveður á um að nafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Nefndin benti á að þar sem Lúsífer væri eitt af nöfnum djöfulsins væri ljóst að það gæti orðið nafnbera til ama.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7099/2020 frá 25. maí 2021 var fyrrnefndur úrskurður mannanafnanefndar felldur úr gildi. Í niðurstöðu dómsins segir að hann telji:

að það hafi skort verulega á að mannanafnanefnd tæki tillit til mismunandi merkingar hins umbeðna heitis og leitaðist við að leggja mat á hvaða þýðingu það hefði í huga almennings í dag. Að sama skapi gætti nefndin ekki nægilega að því að beita bar 3. mgr. 5. gr. af varfærni að virtum lögskýringargögnum. Af þessum sökum var nefndinni ekki unnt að leggja til grundvallar að nafnið hefði neikvæða eða óvirðulega merkingu þannig að uppfyllt væru skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Þar sem þessi grunnforsenda úrskurðarins stóðst ekki verður fallist á kröfu stefnanda um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

Því er ljóst að forsendur eru til að fallast á beiðni um endurupptöku málsins og fylgir nýr úrskurður í málinu hér á eftir:

Hinn 26. júlí 2021 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í málinu sem hefur fengið málsnúmerið 65/2021.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Lúsífer tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Lúsífers. Nafnið brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

Í málinu reynir á síðastnefnda skilyrðið hér að ofan um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama (3. mgr. 5. gr. laganna). Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að það séu auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi, svo sem nöfn eins og Þrjótur, Hel og Skessa. Í þessu sambandi er ástæða til að árétta það, sem bent er á í fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7099/2020, að

[f]yrirkomulag laga[ um mannanöfn, nr. 45/1996,] er með þeim hætti að samþykki mannanafnanefnd að tiltekið nafn fari á mannanafnaskrá, svo sem vegna beiðni einstaklings um nafnbreytingu, er öllum frjálst að gefa börnum sínum umrætt nafn og fullorðnum að taka það upp. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að heimild til að bera tiltekið eiginnafn sé háð aldri, trúar- eða lífsskoðunum þess sem í hlut á eða að nefndin geti byggt úrskurð sinn á slíkum sjónarmiðum.

Í greinargerð með lögunum er jafnframt bent á að ákvæðið um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé vandmeðfarið þar sem erfitt sé að leggja hlutlægt mat á ama. Enn fremur segir þar að besta tryggingin fyrir því að jafnræðis borgaranna sé gætt við framkvæmd ákvæðisins sé að því sé beitt mjög varlega. Ekki séu rök til að beita ákvæðinu „gegn gælunöfnum eða á grundvelli nafnformsins eins“, heldur sé eðlilegt að „ákvæðinu sé því aðeins beitt að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega.“

Nafnið Lúsífer er þegar til sem sérnafn. Sem slíkt er það einkum þekkt sem vísun til persónugervingar hins illa í kristnum trúarhugmyndum sem eru áhrifamiklar í vestrænni menningu og þar með á Íslandi. Önnur heiti sem notuð eru í sömu andrá og Lúsífer eru t.d. Satan, djöfullinn og kölski. Í Íslenskri orðabók (5. útg. frá 2010) segir að sérnafnið Lúsífer merki 'freistarinn, djöfullinn'. Þar er einnig getið um samnafnið lúsífer notað sem heiti á afar sjaldséðri og fremur ófrýnilegri fisktegund (lat. himantolophus groenlandicus).

Þegar litið er á merkingu sérnafna þarf að gera greinarmun á því sem nafnið vísar til, sem er hin eiginlega merking nafnsins, og því sem kallað hefur verið orðasafnsmerking þess. Sem dæmi vísar sérnafnið Reykjavík á tiltekinn stað og eiginleg merking þess er 'höfuðborg Íslands, staðsett við sunnanverðan Faxaflóa á suðvesturhorni landsins'. Sérnafnið Reykjavík er samsett úr orðunum reykur og vík og dregur orðasafnsmerkingu frá þessum orðum, sem sé vík þar sem er reykur eða gufa. Sérnafnið Reykjavík er dæmigert að því leyti að orðasafnsmerkingin er greinilega í bakgrunni en tilvísun á tiltekinn stað er hin eiginlega merking.

Afar mismunandi er hve áberandi orðasafnsmerkingin er í íslenskum mannanöfnum. Mörg nöfn eru dregin af samnöfnum sem eru lifandi í málinu, s.s. Steinn, Bogi og Birna. Í tilviki slíkra nafna er orðasafnsmerkingin í öllu falli til í málvitund almennings, en þó hefur það hve rík hefð er fyrir mannsnafninu áhrif á hve áberandi þessi merking er. Almennt séð leiðir fólk sjaldnar hugann að orðasafnsmerkingu nafna sem eiga sér ríka hefð, svo sem fyrrnefnd nöfn, en oftar að orðasafnsmerkingu nýrra nafna með litla hefð, s.s. Bylur, Tófa og Regn, sem einnig eru dregin af lifandi samnöfnum, og þess vegna er orðasafnsmerkingin meira áberandi í þessum nöfnum.

Í mörgum tilvikum er orðasafnsmerkingin síður eða ekki til í málvitund almennings, en þó má finna upprunalega merkingu nafns með hjálp orðsifjafræði. Þess vegna er fremur við hæfi að tala um orðsifjamerkingu en orðasafnsmerkingu í slíkum tilvikum. Þetta á við um fjölda nafna í íslenskum mannanafnaforða sem eru svo gömul að upphafleg merking er ekki lengur aðgengileg, s.s. Ólafur sem merkir 'sá sem lifir/erfir forfeðurna'. Einnig á þetta við um nöfn af erlendum uppruna, s.s. Diljá, aðlögun á gríska nafninu Delia sem merkir 'sú sem er frá Delos', eða Jónas sem á rætur að rekja til hebreska nafnsins Jonah sem merkir 'dúfa'.

Nafnið Lúsífer er af erlendum uppruna. Í Íslenskri orðsifjabók segir að í nútímamáli merki sérnafnið Lúsífer 'sá vondi, djöfullinn' en að samnafnið lúsífer sé heiti á fisktegund. Þar segir enn fremur að orðið sé tökuorð úr latínu lūcifer, sem merki þar eiginlega 'ljósberi', og bent er á til frekari upplýsingar að latneska orðið lūcifer hafi verið notað (í latínu) um morgunstjörnuna (Venus).

Eins og segir hér að framan er fyrirkomulag laga um mannanöfn, nr. 45/1996, með þeim hætti að eiginnöfn, sem mannanafnanefnd samþykkir, fara á mannanafnaskrá og er þá öllum frjálst að gefa börnum sínum þau nöfn. Einnig hefur verið bent á að við setningu laganna áleit löggjafinn það augljósa mikilvæga hagsmuni barna að þeim væru ekki gefin nöfn sem teldust ósiðleg, niðrandi eða meiðandi og var ákvæði 3. mgr. 5. gr laganna, um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama, sett með það fyrir augum. Eins og rakið hefur verið hér að framan verður ekki annað séð en að í nútímamáli merki sérnafnið Lúsífer 'djöfullinn' og hafi þess vegna auðsæilega neikvæða og niðrandi merkingu í málvitund almennings, sbr. bæði Íslenska orðabók (5. útg. frá 2010) og Íslenska orðsifjabók. Að vísu hefur einnig komið fram að samnafnið lúsífer er heiti á fisktegund og að í latínu merkti orðið lūcifer, sem sérnafnið Lúsífer á rætur að rekja til, 'ljósberi' sem og að þetta nafn var í rómverskri þjóðtrú notað um morgunstjörnuna (Venus). Eins og farið var yfir hér að framan er eiginleg merking sérnafna það fyrirbæri sem þau vísa til, en í tilviki sérnafnsins Lúsífer er það persónugerving hins illa í djöflinum, Satan. Sérnöfn geta einnig haft annars konar merkingu sem nefnd hefur verið orðasafnsmerking eða orðsifjamerking. Þótt kalla megi þetta upprunalega merkingu nafns er hún samt sem áður í bakgrunni ef hún er þá yfirleitt til í málvitund almennings. Þess konar merking er að jafnaði aðeins lifandi í huga almennings í tilvikum þar sem sérnafn hefur greinileg tengsl við samnafn sem til er í málinu, sbr. nöfn eins og Steinn og Kría. Í mörgum tilvikum er ekki um slíkt að ræða, s.s. í nöfnum eins og Ólafur, Diljá og Jónas. Sérnafnið Lúsífer á það sammerkt með síðastnefndum nöfnum að til að átta sig á upprunalegri merking nafnanna þarf að skoða orðsifjar þeirra. Að teknu tilliti til merkingar sérnafnsins Lúsífer og samnafnsins lúsífer í nútímamáli sem og orðsifja þeirra er það niðurstaða nefndarinnar að eiginnafnið Lúsífer brjóti í bág við ákvæðið um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Eins og fyrr segir kemur fram í greinargerð með mannanafnalögum að ákvæðinu um ama skuli beitt mjög varlega og þá aðeins „að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega“, eins og segir þar. Þar sem nafnið Lúsífer hefur mjög neikvæða merkingu, þ.e. 'djöfullinn, freistarinn' verður ekki annað annað ráðið en að sú niðurstaða að nafnið brjóti í bág við fyrrgreint ákvæði sé í samræmi við áskilnað greinargerðarinnar um að því skuli beitt af varfærni. Til hliðsjónar má benda á að í greinargerðinni er nafnið Hel tekið sem dæmi um nafn sem geti orðið nafnbera til ama, en samkvæmt Íslenskri orðabók (5. útg. 2010) merkir sérnafnið Hel 'gyðja dauðaríkisins' í (norrænni) goðafræði og samnafnið hel 'ríki dauðra, bani, dauði'.

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Lúsífer (kk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira