Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 4/2023

Árið 2023, 25. maí, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 4/2023 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 16. febrúar 2023, kærði X, fyrir hönd Y, kt. [], Skólavörðustíg [], Reykjavík, ákvörðun Reykjavíkurborgar varðandi álagningu fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. [], fyrir tímabilið 22. janúar 2020 til 13. október 2022.

Með tölvubréfi, dags. 21. febrúar 2023, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst nefndinni með bréfi, dags. 23. mars 2023.

Með tölvubréfi, dags. 23. mars 2022, var umsögn sveitarfélagsins send umboðsmanni kæranda og var honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda þann 13. apríl 2023.

Með tölvubréfi, dags. 16. maí 2023, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir álagningarseðlum frá kæranda vegna fasteignar kæranda fyrir gjaldárin 2017-2022. Með tölvubréfi frá kæranda sama dag bárust umbeðnar upplýsingar.

Málið var tekið til úrskurðar 25. maí 2023.

 

I.         Málavextir

Í kæru kemur fram að kærandi hafi á árinu 2011 fest kaup á tveimur fasteignum hér á landi og hafi önnur þeirra verið að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. []. Kærandi hafi í framhaldinu ráðist í endurbætur og breytingar á eignunum og að því búnu sótt um leyfi til rekstur gististaðar í flokki I (heimagistingar) í eignunum í samræmi við ákvæði laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Rekstrarleyfi hafi verið gefin út á árinu 2011 en áður hafi eignirnar verið teknar út af hlutaðeigandi aðilum, þ.e. slökkviliði, heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar og lögreglu.

Kærandi kveðst hafa rekið gististað (heimagistingu) í fasteigninni að Skólavörðustíg [], Reykjavík frá því í janúar 2012 og fram til október 2017 þegar rekstri hafi verið hætt. Reykjavíkurborg hafi verið tilkynnt um að rekstri væri hætt í báðum fasteignunum. Í kjölfar þess hafi Reykjavíkurborg gert kauptilboð í báðar eignirnar og hafi mál þróast með þeim hætti að Reykjavíkurborg hafi keypt aðra eignina en kærandi hins vegar haldið fasteigninni að Skólavörðustíg [], Reykjavík og nýtt þá eign til íbúðar fyrir sig.

Gögn málsins gefa til kynna að leyfi til heimagistingar (gististaður í flokki I) samkvæmt lögum nr. 85/2007 í fasteigninni að Skólavörðustíg [], Reykjavík hafi verið í gildi frá 15. júlí 2011 og fram til 22. janúar 2020. Þá liggur það einnig fyrir að fasteignaskattur vegna eignarinnar var á árunum 2011 - 2015 ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en samkvæmt c-lið sama lagaákvæðis vegna áranna 2016 - 2022.

Kærandi kveðst hafa áttað sig á því í september 2022 að hann væri enn að greiða fasteignaskatt af fasteigninni í samræmi við ákvæði c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, þ.e. eins og um atvinnurekstur væri að ræða í eigninni, þrátt fyrir að rekstri hafi verið hætt í október 2017. Hann hafi þá haft samband við Reykjavíkurborg og leyfisdeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins og kom þá í ljós að engin breyting hafði verið gerð á álagningu fasteignaskatts við rekstrarlok í október 2017. Hann hafi þá farið þess á leit við Reykjavíkurborg að álagningin yrði leiðrétt fyrir árin 2017 – 2022 og að oftekin fasteignagjöld yrðu endurgreidd. Eftir ítrekuð samskipti hafi Reykjavíkurborg fallist á það í janúar 2023 að leiðrétta álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar fyrir tímabilið 13. október 2022 til og með 31. desember 2022 auk þess sem álagning ársins 2023 hafi verið breytt og hún ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.   

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignarskatts vegna fasteignarinnar fyrir tímabilið 1. nóvember 2017 til og með 13. október 2022 og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir en samkvæmt endanlegri kröfugerð kæranda lýtur kæran þó aðeins að tímabilinu 22. janúar 2020 til 13. október 2022.

II.        Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst kæra niðurstöðu Reykjavíkurvíkur varðandi álagningu fasteignagjalda og gera kröfu um leiðréttingu gjaldanna. Kærandi gerir kröfu um að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar hans að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. [], vegna tímabilsins 22. janúar 2020 til 13. október 2022 verði að öllu leyti ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en ekki samkvæmt c-liðar sömu lagagreinar eins og gert hafi verið.

 

Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að rekstri gististaðar (heimagistingar/flokkur I) hafi verið hætt í fasteigninni í október 2017. Reykjavíkurborg hafi þá verið tilkynnt um lok rekstrar og í framhaldinu hafi Reykjavíkurborg gert tilboð í fyrrgreinda fasteign auk annarrar fasteignar í eigu kæranda við Sóleyjargötu í Reykjavík. Kærandi hafi selt Reykjavíkurborg eignina við Sóleyjargötu en átt áfram fasteignina að Skólavörðustíg [], Reykjavík og hafi nýtt þá eign til íbúðar fyrir sig. 

Kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi verið fullkunnugt um það þegar í október 2017 að rekstri gistiheimilis hafi verið hætt í báðum fasteignunum. Fyrir það fyrsta vísar kærandi til þess að þegar hann hafi sent beiðni til sýslumanns um leyfi til reksturs gistiheimilis í eignunum á sínum tíma hafi eignirnar þurft að uppfylla ákveðin skilyrði sem sett hafi verið af hálfu heilbrigðiseftirlits, slökkviliðs og lögreglu. Fyrsta rekstrarleyfið hafi verið gefið út í janúar 2012 þegar rekstur hófst í eigninni að Skólavörðustíg [], Reykjavík og hafi það leyfi gilt til janúar 2016. Við framlengingu á því leyfi hafi Reykjavíkurborg þurft að senda nýjar beiðnir til slökkviliðs, lögreglu og heilbrigðiseftirlits og í kjölfar þess hafi fulltrúar þeirra komið og tekið eignina út og lagt mat á það hvort eignin uppfyllti þau skilyrði sem gerð væri til reksturs gististaðar. Rekstarleyfið hafi verið framlengt í janúar 2016 og gilt fram í janúar 2020 en  rekstri hafi hins vegar verið hætt í október 2017.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að eftir að hann hafi tilkynnt Reykjavíkurborg um lok rekstrar hafi borgin falast eftir því að kaupa fasteignina ásamt annarri fasteign kæranda við Sóleyjargötu í Reykjavík en þar hafi kærandi einnig verið með rekstur gistiheimilis. Innan fjögurra mánaða frá rekstrarlokum hafi kærandi selt Reykjavíkurborg fasteignina við Sóleyjargötu en hann hafi hins vegar haldið fasteigninni að Skólavörðustíg [], Reykjavík. Reykjavíkurborg hafi þannig á þessum tíma verið fullkunnugt um að öllum rekstri hafi verið hætt í fasteignunum.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að í janúar 2020 hafi leyfi til reksturs gistiheimilis í eigninni runnið út og að Reykjavíkurborg hafi þá þurft að senda hlutaðeigendum aðilum beiðni um nýja úttekt á eigninni ef til áframhaldandi rekstrar kæmi. Það hafi hins vegar ekki verið gert þar sem Reykjavíkurborg hafi verið með það skráð hjá sér að rekstri gistiheimilis hafi verið hætt í október 2017 enda hafi Reykjavíkurborg þá verið búin að kaupa aðra fasteignina.

Kærandi kveðst hafa leitað til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar í október 2022 vegna málsins og óskað eftir leiðréttingu á álagningu fasteignagjalda af eigninni. Í byrjun febrúar þessa árs hafi loks komið svar frá Reykjavíkurborg um að leiðrétting yrði aðeins gerð aftur til 13. október 2022 þegar fyrst hafi komið fram athugasemdir af hálfu kæranda við álagninguna. Hafi Reykjavíkurborg vísað til þess að það væri á ábyrgð kæranda að tilkynna um að rekstri hafi verið hætt.

Kærandi vísar jafnframt til heiðarleika og sanngirnissjónarmiða til stuðnings kröfu sinni í málinu.

III.      Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg hafnar kröfu kæranda og telur ekki forsendur til að miða leiðréttingu fasteignagjalda við annað tímamark en þegar kærandi óskaði sannarlega eftir breytingu á álagningu gjaldanna þann 13. október 2022.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að nokkurra rangfærslna gæti í málatilbúnaði kæranda varðandi veitingu rekstrarleyfa gististaða. Veiting slíkra leyfa sé alfarið í höndum sýslumanns en ekki sveitarfélaga sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sækja þurfi skriflega um slík leyfi sem séu háð úttekt heilbrigðisnefnda sveitarfélaga sbr. a. og h. liði 1. mgr. 25. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að öðru leyti komi sveitarfélögin hvergi að umsýslu gistileyfa, hvorki útgáfu þeirra né breytingum vegna rekstrarloka.

Vakin sé athygli á því að hafi leyfishafi í hyggju að hætta leyfisskyldri starfsemi beri honum að tilkynna sýslumanni um slíkt tafarlaust á þar til gerðu eyðublaði, sbr. 29. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Engar sjálfvirkar tilkynningar eða gögn gangi á milli sýslumanns og sveitarfélaga varðandi leyfisveitingar enda um aðskildar stofnanir að ræða. Það sé því ávallt á forræði leyfishafa að hlutast til um að láta hlutaðeigandi aðila vita um upphaf og lok rekstrar með framlagningu nauðsynlega gagna þar um.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 annist sveitarstjórn álagningu fasteignaskatts en álagning fari fram í fasteignaskrá. Eigandi fasteignar greiði fasteignaskatt en ágreiningur um gjaldstofn eigi undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fasteignaskrá sé í höndum þeirrar stofnunar en sveitarfélög annist innheimtu gjaldanna. Óheimilt sé að innheimta fasteignaskatt á annan hátt en álagning segi til um samkvæmt fasteignaskrá.

Í 3. gr. laga nr. 4/1995 sé kveðið á um skattflokkun fasteigna við álagningu fasteignaskatt sem taki mið af því um hvers konar húsnæði sé að ræða. Undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna falli íbúðir og íbúðarhúsnæði en undir c-lið sömu málagreinar falli mannvirki sem m.a. séu nýtt í atvinnustarfsemi, þ.m.t. til ferðaþjónustu. Sé rekstri hætt eða rekstrarleyfi renni út eigi sér ekki stað sjálfvirk breyting skattflokks yfir í íbúðarhúsnæði enda sé ekki til að dreifa sameiginlegu skráningarkerfi sýslumanna, sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Eigandi fasteignar þurfi því að óska eftir breytingu á skattflokkun eftir að hafa tilkynnt til sýslumanns að rekstri hafi verið hætt og fengið útgefið afskráningarskjal.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar sé bent á að kærandi hafi haft samband símleiðis við byggingarfulltrúann í Reykjavík þann 13. október 2022 til þess að tilkynna að rekstri gistiheimilis að Skólavörðustíg [], Reykjavík, hafi verið hætt og þá jafnframt óskað eftir endurgreiðslu á ofgreiddum fasteignagjöldum. Engin gögn hafi hins vegar fylgt þeirri tilkynningu og því ekki ljóst við hvaða tímabil hafi verið átt. Kærandi hafi ítrekað beiðni sína með tölvupósti þann 10. nóvember 2022 og þá hafi byggingarfulltrúi haft samband við embætti sýslumanns til að kanna með gildistíma rekstrarleyfis. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sýslumanns hafði verið gefið út leyfi til reksturs gistiheimilis í fasteigninni þann 2. janúar 2016 og hafi leyfið runnið út 22. janúar 2020. Kærandi hafi á þessum tíma verið eigandi fasteignarinnar og jafnframt verið eigandi einkahlutafélags sem hafi verið handhafi rekstrarleyfsins. Kærandi hafi ekki óskað eftir breytingu á skattflokki vegna niðurfellingu rekstrarleyfsins fyrr en 13. október 2022 en ekki liggi fyrir hvort starfsemi hafi í raun verið hætt við það tímamark er rekstrarleyfið rann út eða á þeim tíma er kærandi hafði samband við byggingarfulltrúa.

Upplýsingar frá sýslumanni staðfesti að leyfi til reksturs gististaðar í Skólavörðustíg [], Reykjavík hafi verið í gildi frá 15. júlí 2011 til 22. janúar 2020 að undanskildu tímabilinu 15. júlí 2015 til 22. janúar 2016. Að sögn starfsmanns sýslumanns hafi verklag við útgáfu rekstrarleyfa áður verið þannig að leyfin hafi verið gefin út til fjögurra ára í senn og runnið sjálfkrafa út kæmi ekki til endurnýjunar. Nú séu hins vegar gefin út ótímabundin leyfi sem þurfi að segja upp skriflega.

Það sé áréttað að byggingarfulltrúi hafi ekkert með útgáfu rekstrarleyfa gistiheimila að gera annað en að gefa út staðfestingu á skyldubundinni úttekt húsnæðis vegna slíks rekstrar. Vegna óljóss verklags um framkvæmd breytinga á skattflokkum fasteignaskatts hafi byggingarfulltrúi hlutast til um að koma upplýsingum frá leyfishöfum til fjárstýringar- og innheimtuskrifstofu Reykjavíkurborgar um útrunnin rekstrarleyfi, hafi aðilar leitað til byggingarfulltrúa með slíkt. Fjárstýringar- og innheimtuskrifstofa hafi ekki það formlega hlutverk að breyta skattflokkun fasteigna enda sé álagningarkerfið í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem og fasteignaskrár. Í áranna rás hafi þannig verið óljóst hvernig skuli standa að því að fá skattflokkun breytt eftir að rekstrarleyfi renni út. Í tilviki kæranda hafi nú þegar verið framkvæmd breyting varðandi álagningu ársins 2022 þrátt fyrir að langt hafi verið liðið á álagningarárið. Leiðrétting hafi verið gerð frá 13. október 2022 og álagning eftir það miðuð við a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í staða c-liðar sömu málsgreinar. Þá hafi samsvarandi leiðrétting einnig verið gerð vegna álagningar ársins 2023.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni um útgefin rekstrarleyfi og yfirlit fjárstýringar- og innheimtuskrifstofu yfir greidd fasteignagjöld af Skólavörðustíg [], Reykjavík sé ljóst að aðeins hafi verið greiddur fasteignaskattur samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tímabilið mars 2016 til og með október 2022. Á tímabilinu júlí 2011 til og með janúar 2016 hafið fasteignaskattur vegna eignarinnar verið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, þ.e. eins og um íbúðarhúsnæði væri að ræða, og það þrátt fyrir að rekstrarleyfi væru í gildi. Virðist því sem kærandi hafi á þeim tíma ekki hlutast til um að fá skattflokki breytt til samræmis við þá starfsemi sem hafi verið í fasteigninni á því tímabili. 

Að mati Reykjavíkurborgar séu ekki forsendur til að miða leiðréttingu fasteignagjalda við annað tímamark en þegar kærandi óskaði fyrst sannanlega eftir breytingu skattflokks þann 13. október 2022. Þá hafi sveitarfélagið ekki heimild til að lækka eða fella niður fasteignaskatt umfram það sem lög kveði á um. Engar augljósar undanþáguheimildir í lögum eigi við um tilvik kæranda svo unnt sé að miða við annað tímamark en það sem gert hafi verið. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort rekstri hafi sannanlega verið hætt þegar rekstarleyfi kæranda rann út vegna gistirekstrar að Skólavörðustíg [], Reykjavík þar sem engin gögn hafi borist sem styðji þá fullyrðingu. Að öllu framangreindu virtu sé frekari endurgreiðslu fasteignagjalda, umfram það sem nú þegar hefur verið endurgreitt, hafnað af hálfu Reykjavíkurborgar.

IV.       Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum sínum vísar kærandi til þess að það geti ekki talist sanngjarnt að sveitarfélag komist upp með það að innheimta gjald fyrir eitthvað sem ekki sé til staðar og slíkt beri að leiðrétta. Í ljósi þess sé eðlilegt að Reykjavíkurborg leiðrétti öll fasteignagjöldin a.m.k. frá janúar 2020 þegar rekstrarleyfið hafi fallið úr gildi.

Kærandi kveðst hafa boðið Reykjavíkurborg að hann tæki á sig óbreytt fasteignagjöld vegna fasteignarinnar fyrir árin 2018 og 2019 ef sveitarfélagið væri reiðubúið að leiðrétta gjöldin frá janúar 2020 en því hafi sveitarfélagið hins vegar hafnað.

Þá áréttar kærandi að hann hafi nú þegar bent á aðila innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar sem hafi komið að gerð kauptilboðs í fasteignina eftir að rekstri hafði verið hætt í eigninni. Því til viðbótar hafi kærandi fengið upplýsingar um að Reykjavíkurborg fái afrit af breytingum á rekstrarleyfum enda sé það forsenda þess að hægt sé að ákvarða álagningu fasteignaskatts.

Kærandi kveðst treysta því að bæði lög og heiðarleiki sem eigi að vera grunnur í öllum viðskiptum nái fram að ganga fram í því máli sem hér um ræðir.

V.        Niðurstaða

I.

Samkvæmt endanlegri kröfugerð kæranda lýtur krafa hans að því að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar hans að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. [], fyrir tímabilið 22. janúar 2020 til 13. október 2022, verði leiðrétt og alfarið ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og að ofgreiddur fasteignaskattur vegna fyrrgreinds tímabils verði endurgreiddur. Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og vísað til þess að ekki sé heimilt að gera frekari leiðréttingu á álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar en þegar hafi verið gerð af hálfu sveitarfélagsins.

II.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005, er fasteignum skipt í þrjá gjaldflokka við álagningu fasteignaskatts. Af fasteignum sem falla undir upptalningu í a-lið ákvæðisins skal skatturinn vera allt að 0,5% af álagningarstofni en samkvæmt b-lið og c-lið allt að 1,32% af öðrum fasteignum. Fasteignir sem falla undir a-lið ákvæðisins eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum. Undir b-lið falla sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn. Undir c-lið 3. mgr. 3. gr. falla allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind ,,mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.” Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna, en gististaðir í skilningi þeirra laga eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

III.

Í lögum nr. 4/1995 er ekki kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds og fer því um hann samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef kæra berst að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. þess segir svo að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Fasteignaeigendum, þ.m.t. kæranda, er alla jafnan tilkynnt um álagningu fasteignagjalda í janúar ár hvert með sérstökum álagningarseðli, en álagningarseðlar Reykjavíkurborgar hafa síðustu árin verið sendir rafrænt í pósthólf fasteignaeigenda á vefsíðunni www.island.is.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi þann 13. október 2022 haft samband við byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og þá gert athugasemdir við álögð fasteignagjöld vegna fasteignar hans að Skólavörðustíg [], Reykjavík. Í framhaldinu hafi átt sér stað samskipti milli aðila m.a. varðandi þær forsendur sem legið hafi að baki álagningu gjaldanna síðustu árin. Í upphafi þessa árs samþykki Reykjavíkurborg að gera breytingarálagningu vegna fasteignagjalda ársins 2022 þar sem fasteignaskattur vegna eignarinnar var ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tímabilið 13. október - 31. desember 2022 í stað c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem byggt hafi verið á við upphaflega álagningu fyrir árið 2022. Ekki hafi af hálfu Reykjavíkurborgar verið fallist á að gera frekari leiðréttingu á álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar.

Kærufrestur vegna álagningar fasteignaskatts á fasteign kæranda að Skólavörðustíg [], Reykjavík á árunum 2020 - 2022 var löngu liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd 16. febrúar 2023. Kæranda var tilkynnt um álagningu fasteignaskatts gjaldárin 2020 - 2022 með álagningarseðlum fasteignagjalda þar sem meðal annars komu fram upplýsingar um að álagningin miðaðist við fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði. Á álagningarseðlunum komu hins vegar ekki fram upplýsingar um kæruheimild eða kærufrest vegna álagningar gjaldanna sem þó hefði verið rétt að gera í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Slíkar upplýsingar er heldur ekki að finna á vefsíðunni https://www.reykjavik.is/fasteignagjold, en á álagningarseðlunum er tilgreint að nánari upplýsingar megi sjá á þeirri slóð. Þar sem fyrir liggur að meira en ár var liðið frá því að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda fyrir árin 2020 - 2021 lá fyrir og var tilkynnt kæranda er kröfu hans vegna álagningar fasteignaskatts fyrir þau ár vísað frá yfirfasteignamatsnefnd, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 5/2019 og 1/2022.

Álagning fasteignaskatts á fasteign kæranda að Skólavörðustíg [], Reykjavík vegna ársins 2022 var tilkynnt kæranda með álagningarseðli fasteignagjalda, dags. 21. janúar 2022. Eins og áður greinir verður ekki ráðið af álagningarseðlinum eða öðrum gögnum sem liggja fyrir í málinu að veittar hafi verið leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggur að kærandi gerði ekki athugasemdir við álagningu fasteignaskattsins fyrr en með tölvupósti 13. október 2022. Þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd 16. febrúar 2023 var því jafnframt liðinn kærufrestur vegna álagningar fasteignaskatts fyrir árið 2022. Yfirfasteignamatsnefnd telur þó afsakanlegt að kæra vegna gjaldársins 2022, nánar tiltekið tímabilsins 1. janúar 2022 til 13. október sama ár, hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests þar sem telja verður að sveitarfélagið hafi vanrækt að veita kæranda leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga. Verður kröfu kæranda vegna álagningar fasteignaskatts fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 13. október sama ár, því ekki vísað frá af þeim sökum, sbr. 1. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá niðurstöðu styður jafnframt það sem greinir í málatilbúnaði Reykjavíkurborgar, um að framkvæmd breytinga á skattflokkum fasteignaskatts sé óljóst og að í áranna rás hafi verið óljóst hvernig standa skuli að því að fá skattflokkun breytt eftir að rekstrarleyfi hafi runnið út. Hafi byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar af þeim sökum t.d. hlutast til að um að koma upplýsingum frá handhöfum rekstrarleyfa samkvæmt lögum nr. 85/2007 til tilgreindrar skrifstofu innan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar hafi þeir leitað til byggingarfulltrúa með erindi sem lúti að skattflokkun, þótt jafnframt hafi verið á það bent af hálfu Reykjavíkurborgar að breyting á skattflokkun fasteigna sé ekki í verkahring sveitarfélagsins heldur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og fasteignaskrár.

Af gögnum málsins verður ráðið að ekki hafi verið í gildi leyfi til reksturs gististaðar (heimagisting) í fasteigninni að Skólavörðustíg [], Reykjavík á árinu 2022 og þá er ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að fasteignin hafi á því ári verið nýtt til ferðaþjónustu eða annarrar atvinnustarfsemi. Með hliðsjón af því svo og þeirri staðreynd að raunveruleg notkun fasteignar skal ráða því hvernig hún flokkast með tilliti til fasteignaskatts er fallist á að fasteignaskattur vegna eignarinnar á árinu 2022 skuli að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. 

 

 

IV.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfu kæranda varðandi álagðan fasteignaskatt vegna fasteignar kæranda að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árin 2020 - 2021, vísað frá yfirfasteignamatsnefnd. Álagður fasteignaskattur vegna fyrrgreindrar fasteignar fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 13. október sama ár skal ákvarðaður samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda varðandi álagðan fasteignaskatt á fasteign hans að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árin 2020 – 2021 er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Álagning fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda að Skólavörðustíg [], Reykjavík, fnr. [], fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 13. október 2022, skal vera samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

             _________________________

  Björn Jóhannesson

 

_______________________                                                   ________________________

                      Axel Hall                                                                       Valgerður Sólnes

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum