Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2020 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 53/2020

Tvíbýli: Viðhald.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 6. maí 2020, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 13. júní 2020, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 19. júní 2020, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. september 2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls tvo eignarhluta. Aðilar eru eigendur hvor að sínum eignarhlutanum. Ágreiningur er um viðhald gagnaðila á eignarhluta hans.

Krafa álitsbeiðanda er:

     Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að sinna viðhaldi á eignarhluta sínum.

Í álitsbeiðni kemur fram að eignarhluti gagnaðila sé í mjög slæmu ástandi. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir að gagnaðili sinnti viðhaldsskyldu sinni en því hafi hvorki verið svarað né sinnt. Skortur á viðhaldi gagnaðila hafi leitt til skemmda á garði álitsbeiðanda og bifreiðar, sem staðið hafi í porti hjá eignarhluta hennar, hafi orðið fyrir tjóni er steinar skutust í þær er gras í garði gagnaðila var slegið með sláttuorfi.

Kröfum álitsbeiðanda um greiðslu fyrir vinnu, efniskostnað og viðgerðir vegna eignarhluta gagnaðila hafi verið hafnað sem og úrbótum á tjóni hennar.

Í greinargerð gagnaðila segir að hann geti fallist á að húsið sé í slæmu ástandi og að eðlilegu viðhaldi hafi ekki verið sinnt undanfarin ár. Gagnaðili muni hlutast til um að láta fagmenn framkvæma ástandsskoðun á húsnæðinu og í framhaldinu ráðast í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar séu til að koma ástandi hússins í betra horf. Gagnaðili muni vera í sambandi við álitsbeiðanda og kynna fyrirhugaðar framkvæmdir.

Í athugasemdum álitsbeiðanda fer hún fram á að fá skriflega áætlun í tímaröð. Einnig að hún fái upplýsingar í hvert skipti sem viðhaldsvinna eigi að fara fram þar sem bæði bílar og gróður í hennar eigu hafi orðið fyrir skemmdum, til dæmis á meðan sláttur hafi átt sér stað, svo að hægt sé að fjarlægja þær eignir sem séu í mestri hættu.

III. Forsendur

Álitsbeiðandi segir að eignarhluti gagnaðila sé í slæmu ástandi og að viðhaldi hans sé ekki sinnt. Í greinargerð gagnaðila er það viðurkennt og mun gagnaðili hlutast til um að fá ástandsskoðun á húsnæðinu og í framhaldinu ráðast í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar séu til að koma ástandi hússins í betra horf.

Þar sem ekki er til staðar ágreiningur um kröfu álitsbeiðanda telur kærunefnd að vísa beri málinu frá. Telur kærunefnd þó rétt að benda á að vanræki eigandi viðhald á séreign sinni, búnaði hennar og lögnum getur hann samkvæmt 51. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, orðið ábyrgur gagnvart öðrum eigendum hússins og afnotahöfum vegna fjártjóns sem verður á eignum þeirra. Þá segir í 1. mgr. 38. gr. laganna að eiganda sé rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra, liggi hún eða séreignarhlutar undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafi ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Í 2. mgr. sömu greinar segir að áður en framkvæmdir hefjist skuli viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana og öðrum atriðum sem máli geti skipt. Skuli viðgerðin síðan framkvæmd á þeim grundvelli en óveruleg og óhjákvæmileg frávik skipta þó ekki máli.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri frá kröfu álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 1. september 2020

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                              Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira