Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. desember 2004 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Vísinda- og tæknistefna

Vísinda- og tæknistefna
Framsaga forsætisráðherra á fundi Vísinda- og tækniráðs 17. desember 2004

Ég segi þennan fjórða fund Vísinda- og tækniráðs settan og býð ykkur öll velkomin til fundarins. Þetta er fyrsti fundur minn í ráðinu og vil ég lýsa ánægju minni með að fá að taka þátt í störfum ráðsins og eiga þátt í að móta heildstæða stefnu Íslands á sviði vísinda og tækni.

Ég geri mér ljósa grein fyrir mikilvægi vísinda og tækni fyrir íslenskt þjóðfélag. Við lifum á tímum mikilla framfara. Ný tækni í fjarskiptum hefur m.a. leitt til þess að fjarlægðir eru afstæðar og landamæri milli þjóða hafa opnast í margvíslegum skilningi. Um það er ekki deilt að menntun, rannsóknir, nýsköpun og frumkvæði eru drifafl hagvaxtar í okkar þjóðfélagi.

Að baki setningar laga um Vísinda- og tækniráð fyrir tæpum tveimur árum lá sá ásetningur stjórnvalda að samhæfa krafta stjórnvalda, vísindasamfélagsins og atvinnulífsins um mótun og framkvæmd markvissrar stefnu í rannsóknum og tækniþróun. Fyrsta skrefið í þá átt var samþykkt Vísinda- og tækniráðs á vísinda- og tæknistefnu fyrir réttu ári síðan sem ætlað er að treysta menningarlega og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þannig að efnahagur og lífsgæði Íslendinga skipi þeim áfram í fremstu röð meðal þjóða.

Eitt stefnumiða vísinda- og tæknistefnu er að auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða og samhæfa starfsemi þeirra þannig að það nýtist sem best vísinda- og tæknirannsóknum og nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Framlög til opinberra vísinda- og tæknisjóða hafa aukist verulega frá árinu 2003 og munu á kjörtímabilinu aukast um að minnsta kosti einn milljarð króna sem er ríflega tvöföldun. Þá hafa stjórnir þessara sjóða yfirfarið reglur sem beitt er við úthlutun fjár með það m.a. fyrir augum að samræma þær þar sem ástæða er til og gera þær gegnsæjar fyrir umsækjendur. Gert er ráð fyrir að ljúka því samræmingarstarfi fyrir næstu úthlutun úr sjóðunum.

Efling opinberra samkeppnissjóða er meðal annars ætlað að leiða til aukinnar nýsköpunar í atvinnulífinu. Að undanförnu hafa kröfur fjárfesta til arðsemi aukist sem þrengt hefur að áhættufjármagni til sprotafyrirtækja. Fjármagn til nýsköpunar verður að vera samfellt svo atvinnulíf þjóðarinnar endurnýist með eðlilegum hætti. Til að svo megi verða er mikilvægt að fjárfestar og fyrirtæki skynji sína ábyrgð horfi til lengri framtíðar þegar kemur að ákvörðun um ráðstöfun fjár.

Annað stefnumið vísinda- og tæknistefnu er að efla háskóla sem rannsóknastofnanir og byggja upp og efla fjölbreyttar háskólarannsóknir á Íslandi. Nú er unnið að sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík annars vegar og háskólastofnana landbúnaðarins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hins vegar og munu þessar nýju stofnanir taka til starfa á næsta ári. Jafnframt hefur menntamálaráðuneytið unnið að því að tryggja háskólum ákveðið grunnframlag til að fjármagna rannsóknir og innra þróunarstarf þeirra til að geta tekið virkan þátt í samkeppni um vaxandi fjármagn samkeppnissjóðanna.

Aðgangur að góðri menntun á öllum skólastigum er einn mikilvægasti þátturinn í þróun byggðar. Hugmyndir um þekkingarsetur á landsbyggðinni sem hafa verið til skoðunar hjá menntamálaráðuneyti byggja á samstarfi milli svæðisbundinnar sérfræðistofnana svo að unnt verði betur en nú er að mæta þörfum landsbyggðarinnar fyrir rannsóknir og grunnmenntun á háskólastigi á tilteknum sviðum.

Þriðja stefnumið vísinda- og tæknistefnu er að endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana með það að markmiði að sameina krafta þeirra og tengja starfsemi þeirra betur við háskólana og atvinnulífið í landinu.

Starfshópur um matvælarannsóknir skipaður af forsætisráðherra hefur skilað áliti. Meðal verkefna var möguleg samþætting eða sameining matvælarannsókna í eina stofnun eða fyrirtæki.

Lagt er til að Rannsóknastofnun  fiskiðnaðarins, matvælarannsóknir Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar Íslands (MATRA) og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar renni inn í eina öfluga stofnun, Matvælarannsóknastofnun Íslands. Í álitinu er gert ráð fyrir virkri aðkomu viðkomandi ráðuneyta og aðila atvinnulífs á sviði matvælaframleiðslu í stjórn hennar og að stofnunin verði starfrækt á ábyrgð ríkisins og samtaka atvinnulífsins á þessu sviði. Í því sambandi verði athugaðir möguleikar þess að reka stofnunina sem sjálfseignarstofnun eða hlutafélag.

Það er mitt álit að miklu skiptir fyrir framtíð og þróun matvælarannsókna að atvinnulífið komi með ábyrgum hætti að rekstri fyrirhugaðrar stofnunar. Þó að ég hafi ekki skoðað það til hlítar þá hugnast mér best að rekstrarfom  matvælarannsóknarstofnunar verði hlutafélag. Það rekstrarform kveður skýrt á um ábyrgð og hlutverk einstakra aðila í rekstrinum og gefur nauðsynlegan sveigjanleika í starfseminni sem framsækið fyrirtæki þarf á að halda.

Að undanförnu hefur verið unnið ötullega að því að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og tækni. Því starfi verður haldið áfram. Hæst ber öfluga þátttöku í rammaáætlun ESB og endurskipulagningu á norræna samstarfinu. Ennfremur er unnið að eflingu rannsóknasamstarfs milli aðildarríkja Norðurskautsráðsins að frumkvæði Íslands sem fór með formennsku í Norðurskautsráðinu og Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2004.

Sú ályktun Vísinda- og tækniráðs sem liggur fyrir þessum fundi til afgreiðslu er ætlað að fylgja eftir þeirri stefnu sem ráðið hefur markað. Framundan er nánari útfærsla á einstökum þáttum stefnunnar undir forystu viðkomandi ráðuneyta. Við þá útfærslu skiptir miklu að haft sé samráð við hlutaðeigandi aðila og höfðað til ábyrgðar þeirra til að tryggja að gengið sé í takt að settu marki.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum