Hoppa yfir valmynd

Sögulegt efni

Úr sögu heilbrigðisráðuneytisins

Upphafið

Heilbrigðisráðuneytið

Með lögum um Stjórnarráð Íslands sem sett voru 1969 og gengu í gildi 1. janúar 1970, var gerð veruleg breyting á ráðuneytum og þeim fjölgað. Eitt af þeim ráðuneytum sem varð til við þessa breytingu var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Málefni þessa ráðuneytis höfðu áður verið vistuð á ýmsum stöðum, en heilbrigðismálin aðallega í dóms- og kirkjumálaráðueyti og almannatryggingamál í félagsmálaráðuneyti.

Verkefni ráðuneyta voru skilgreind í reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sem tók gildi sama dag og lögin, og var þar kveðið á um að undir heilbrigðisráðuneytið skyldu heyra öll almenn heilbrigðismál, læknaskipan, embætti landlæknis, sjúkrahús og heilsuhæli, hjúkrunar- og elliheimili, lyf og lyfjasala, eiturefni og hættuleg efni, áfengisvarnir og bindindisstarfsemi, sem allt gat talist til heilbrigðismála.

Hin hlið hins nýja ráðuneytis var hlutverk tryggingamálaráðuneytis, en þar undir heyrði hvers konar trygginga- og vátryggingastarfsemi svo og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins með almannatryggingar, þ.e. lífeyristryggingar, sjúkratryggingar og slysatryggingar, sem og atvinnuleysistryggingar.

Ráðherrar

Ráðherrar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og seinna heilbrigðisráðuneytisins urðu 16 talsins á 41 árs starfstíma þess og á þeim tíma sátu 24 ríkisstjórnir. Tveir ráðherrar komu aftur eftir að þeir höfðu áður gengt því starfi, en það voru þeir Matthías Bjarnason, 1983, og Sighvatur Björgvinsson, 1994.

  1. Eggert G. Þorsteinsson, A, 1970 – 1971
  2. Magnús Kjartansson, G, 1971 – 1974
  3. Matthías Bjarnason, D, 1974 - 1978
  4. Magnús H. Magnússon, A, 1978 - 1980
  5. Svavar Gestsson, G, 1980 - 1983
  6. Matthías Bjarnason, D, 1983 - 1985
  7. Ragnhildur Helgadóttir, D, 1985 - 1987
  8. Guðmundur Bjarnason, B, 1987 – 1991
  9. Sighvatur Björgvinsson, A, 1991 - 1993
  10. Guðmundur Árni Stefánsson, A, 1993 - 1994
  11. Sighvatur Björgvinsson, A, 1994 –1995
  12. Ingibjörg Pálmadóttir, B, 1995 - 2001
  13. Jón Kristjánsson, B, 2001 - 2006
  14. Siv Friðleifsdóttir, B, 2006 - 2007
  15. Guðlaugur Þór Þórðarson, D, 2007 – 2008
  16. Ögmundur Jónasson, V, 2008 – 2009
  17. Álfheiður Ingadóttir, V, 2009 – 2010
  18. Guðbjartur Hannesson, S, 2010 – 2010

Sé litið yfir þetta 41 árs tímabil hefur Matthías Bjarnason lengst allra gegnt starfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, í rúm 6 ár eða í 2.368 daga, en Ingibjörg Pálmadóttir hefur átt lengstan samfelldan feril sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í tæp 6 ár, eða í 2.184 daga. Framsóknarflokkurinn hefur farið með málaflokkinn í 16 ár, Sjálfstæðisflokkurinn í 10 ár, Alþýðubandalagið í 7 ár, Alþýðuflokkurinn í 5 ár, Vinstri grænir í 2 ár og Samfylking í 1 ár. Aðstoðarmenn ráðherra sem starfað hafa á tímabilinu eru 21.

Læknisþjónusta

 Með stofnun heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytisins var að því stefnt að taka heilbrigðismálin öðrum og fastari tökum en áður hafði verið gert og til þess að svo gæti orðið þurfti lagabreytingar. Í ársbyrjun 1974 tóku gildi lög um heilbrigðisþjónustu, sem var eitt fyrsta málið sem tekið var upp eftir að ráðuneytið var stofnað og sem kváðu mjög skýrt á um hvaða breytingar ætti að gera í heilbrigðismálum til þess að bæta og auka þjónustuna. Lögin kveða all ítarlega á um hvaða störf eigi að vinna á heilsugæslustöðvum og með reglugerð var ákveðið nánar hvernig heilsuverndarstarfið skyldi útfært. Í öllum landshlutum spruttu á nokkrum árum upp glæsilegar heilsugæslustöðvar. Þessar stöðvar voru vel búnar tækjum og þar var sköpuð aðstaða til þess að samþætta almennar lækningar og heilsuvernd.

Frá og með þessum tíma og fram yfir síðustu aldamót var landinu skipt í 8 læknishéruð í samræmi við þágildandi kjördæmaskipan, 31 umdæmi og 85 heilsugæslusvæði. Með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu (lög nr. 40/2007), sem tóku gildi 1. september 2007, var grunnskipulagi heilbrigðisþjónustunnar breytt. Samkvæmt nýja skipulaginu er landinu skipt í 7 heilbrigðisumdæmi og að því stefnt að í hverju heilbrigðisumdæmi skuli starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir. Þessar stofnanir hafa með höndum starfrækslu heilsugæslustöðva og umdæmissjúkrahúsa sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu.  Skref í þessa átt hafði raunar verið tekið í ársbyrjun 1999 þegar 14 sjúkrahús og 14 heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni voru sameinaðar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er langstærsti rekstraraðilinn innan heilsugæslunnar og starfrækir nú 15 heilsugæslustöðvar. Innan vébanda stofnunarinnar eru einnig Þróunarstofa heilsugæslunnar, Þroska- og hegðunarstöð, Göngudeild sóttvarna, Hugarafl-eftirfylgni og iðjuþjálfun og stjórnsýsla HH. Á höfuðborgarsvæðinu eru þess utan starfandi tvær einkareknar heilsugæslustöðvar, skv. útboði ráðuneytisins, auk tólf sjálfstætt starfandi heimilislækna utan heilsugæslustöðva (HUH). Enn fremur starfrækir Læknavaktin ehf. vaktþjónustu á höfuðborgarsvæðinu utan venjulegs opnunartíma.

Sá þáttur, sem nefndur hefur verið annað stig heilbrigðisþjónustunnar, er starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga, en hann hefur vaxið mikið á síðustu áratugum. Þar hefur ráðið miklu að rýmkaðar hafa verið heimildir sérgreinalækna til þess að sinna flóknum og dýrum læknisverkum á eigin stofum.  Einnig hefur frjálst aðgengi að sérgreinalæknum gert að verkum að stór hluti sjúklinga leitar beint til þeirra án viðkomu hjá heimilis- eða heilsugæslulæknum.

Ríkissjóður kostar útgjöld heilsugæslunnar utan komugjalda sjúklinga, en Sjúkratryggingar Íslands kosta útgjöld vegna sérgreinalækna utan greiðsluþátttöku sjúklinga.

Sjúkrahús

 Í lögum um heilbrigðisþjónustu eru sérstök ákvæði um sjúkrahús, en á upphafsárum ráðuneytisins voru sjúkrahúsmál landsins þegar orðin fastmótuð og lögin tóku hvorki á því hvar sjúkrahús skyldu vera né hvernig starfi þeirra skyldi háttað á hverjum stað. Ráðuneytið lagði árið 1971 fram áætlun um þörf á uppbyggingu sjúkrahúsa í landinu og hefur að mestu verið fylgt þeirri stefnu sem þar er mörkuð. Á þessum tíma varð mikil uppbygging á Landspítala og sérhæfðum deildum fjölgaði mjög.

Borgarspítalinn var nýlega opnaður þegar ráðuneytið var stofnað. Þar var frá byrjun aðal slysamóttaka landsins og miðaðist starfsemi sjúkrahússins við það að miklu leyti. Borgarspítali ásamt Landakotsspítala, sem var keyptur árið 1976, voru síðan sameinaðir í Sjúkrahús Reykjavíkur. Það sameinaðist síðan Landspítala og úr varð Landspítali-háskólasjúkrahús um síðustu aldamót. Unnið er að því að sameina einnig St. Jósepsspítala í Hafnarfirði við Landspítala.

Af hálfu ráðuneytisins hefur ávallt verið kappkostað að sjúkrahúsin á Íslandi gætu veitt eins fullkomna sérfræðiþjónustu miðað við fjármagn og mannafla og hægt hefur verið en rekstur sjúkrahúsa er dýr og tækjavæðing fjármagnsfrek.

Á þessum tímamótum liggja hins vegar fyrir gagngerar áætlanir að hefja byggingu nýs Landspítala sem á að mæta öllum kröfum nútíma háskólasjúkrahúss.

Frá og með 1. janúar 1990 hefur ríkissjóður kostað útgjöld sjúkrahúsa að fullu.

Stofnanir ráðuneytisins

 Tryggingastofnun ríkisins hefur starfað síðan 1936 og séð um alþýðu- og síðar almannatryggingar, en það eru lífeyris-, slysa- og sjúkratryggingar. Frá og með árinu 2008 var Tryggingastofnun klofin upp í tvær stofnanir, eða Tryggingastofnun ríkisins, sem sér um lífeyrismál og heyrði frá og með þeim tíma undir félagsmálaráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands, sem sjá um slysa- og sjúkratryggingar og heyrðu áfram undir heilbrigðisráðuneytið.

Landspítalinn er langstærsta sjúkrahúseining og stærsti vinnustaður í landinu, háskólasjúkrahús með um 670 sjúkrarúm. Þá heyra nánast allar heilbrigðisstofnanir landsins, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, undir umsjá ráðuneytisins.

Landlæknisembættið er með elstu embættum landsins, stofnað árið 1760. Landlæknir er ráðgjafi ráðherra um allt sem viðkemur heilbrigðismálum og hann á einnig að hafa faglegt eftirlit með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum.

Af öðrum stofnunum, sem undir ráðuneytið heyra, verður að nefna Lýðheilsustöð, Geislavarnir ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Lyfjastofnun en allar hafa þær sérstökum lögbundnum málefnum að sinna.

Fjölmargar nefndir starfa á vegum ráðuneytisins samkvæmt lögum og eru þessar helstar: Lyfjagreiðslunefnd og Vísindasiðanefnd.

Fyrrverandi verkefni ráðuneytisins

 Árið 1990 var Hollustuvernd ríkisins færð undir nýtt umhverfisráðuneyti. Þá voru einir þrír skólar, sem heyrðu undir ráðuneytið fram að þeim tíma færðir undir menntamálaráðuneyti, en það voru Lyfjatækniskóli Íslands, Ljósmæðraskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands. Árið 1992 var svo Tryggingaeftirlit ríkisins fært undir viðskiptaráðuneyti og það sama ár var Atvinnuleysistryggingasjóður færður undir félagsmálaráðuneyti, sem fékk einnig umsjón með framkvæmd laga um fæðingarorlof árið 1998. 

Árið 2008 var helmingur almannatrygginga, eða lífeyristryggingar, færðar yfir til félagsmálaráðuneytis, sem eignaði sér um leið heitið tryggingamálaráðuneyti. Samhliða var ábyrgð umsjónar með málefnum aldraðra færð yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytis og einnig málefni sjónskertra og þar með Sjónstöð Íslands.

Forvarnir og heilbrigðisáætlun

 Í lögum um heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir að jöfnum höndum sé unnið heilsuverndarstarf og lækningastarf í heilsugæslunni. Þrátt fyrir þetta hefur ráðuneytið haft forgöngu um sérstök forvarnarverkefni og má telja þessi helst: Tóbaksvarnir, áfengisvarnir, tannverndarmál, krabbameinsvarnir, varnir gegn hjartasjúkdómum og manneldismál. Auk þess hefur ráðuneytið tekið þátt í alþjóðlegu forvarnarverkefni. (CINDI.)

Í lok síðasta áratugar ákvað Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að þjóðir heims skyldu setja sér ákveðin markmið í heilbrigðismálum. Byrjað var að vinna að þessum málum hér á landi 1986 og 1987 voru kynnt drög að heilbrigðisáætlun, sem voru rædd á heilbrigðisþingi 1988. Áætlunin var lögð fram sem þingsályktunartillaga 1989 og samþykkt á Alþingi árið 1991. Endurskoðuð heilbrigðisáætlun til ársins 2010 með nýjum markmiðum var síðan samþykkt af Alþingi 20. maí 2001.

Að lokum

Flestir munu sammála um að stofnun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hafi verið skynsamleg á sínum tíma og að uppbygging heilbrigðismála hafi orðið markvissari með því að beina verkefnunum í sjálfstætt ráðuneyti. Tengsl almannatrygginga og heilbrigðismála eru auðsæ því að meira en helmingur útgjalda almannatrygginga svo og stór hluti útgjalda bótaþega þeirra fara til heilbrigðismála. Nú, með sameiningu heilbrigðis-, félags- og tryggingamálaráðuneyta í eitt velferðarráðuneyti, standa vonir til að ná megi enn öflugra átaki þeim til góða, sem eiga undir málaflokka nýs ráðuneytis að sækja frá og með 1. janúar 2011.

Heilbrigðisráðuneytinu,
desember 2010


Samantektin er lauslega byggð á grein eftir Pál Sigurðsson sem rituð var í tilefni 20 ára afmælis ráðuneytisins.

Úr sögu velferðarráðuneytisins

Þann 9. september 2010 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969, þar sem kveðið var á um sameiningu ráðuneyta og fækkun þeirra úr tólf í níu. Samkvæmt lögunum varð til nýtt velferðarráðuneyti við sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Velferðarráðuneytið tók til starfa 1. janúar 2011.

Helstu rök fyrir sameiningu ráðuneytanna tveggja snúa að því að móta heildstæða stefnu á sviði velferðarþjónustu á öllum stigum, frá félagslegum stuðningi til heilbrigðisþjónustu. Í greinargerð með lagafrumvarpinu um sameininguna er bent á að óskýr verkaskipting milli þessara ráðuneyta standi í ýmsum tilvikum þjónustu fyrir þrifum og bitni á þeim sem þurfi á velferðarþjónustu að halda. Með sameiningunni er stefnt því að koma á sveigjanlegri og samþættri þjónustu um allt land, bæta nýtingu fjármuna, efla eftirlit með velferðarþjónustu á öllum stigum, samþætta velferðarúrræði, til dæmis heimahjúkrun og heimaþjónustu og einnig að einfalda samstarf og samskipti við sveitarstjórnarstigið.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum