Hoppa yfir valmynd

Heilbrigðisþing 2022

 

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Stefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Lýðheilsuþingið var haldið undir sömu formerkjum og heilbrigðisþingin sem haldin hafa verið árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 var í mótun. Með því að helga þingið 2022 lýðheilsu er fylgt eftir þeim áherslum sem fram koma í nýrri lýðheilsustefnu með áherslu á innleiðingu hennar.  Á þinginu var einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem við getum sjálf gert til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt var fjallað um hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geta með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum.

Dagskrá

Hægt er að horfa á einstök erindi með því að smella á þau hér í dagskránni að neðan. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flytur opnunarávarp.

I Heilsulæsi í víðu samhengi og alþjóðlegu ljósi

II Heilsulæsi í víðu samhengi - innleiðing lýðheilsustefnu

III Að auka vitund almennings um heilsulæsi

IV Betri heilsuvitund og hagræn áhrif heilsulæsis

V Samantekt lýðheilsuþings

Fundarstjóri: Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri Lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis

Um fyrirlesarana

Willum Þór Þórsson

Willum tók við embætti heilbrigðisráðherra 28. nóvember 2021 í ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Willum hefur setið á Alþingi frá árinu 2013 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann hefur setið í efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og þingskapanefnd. Hann átti sæti í Íslandsdeild þingmanna EFTA og EES 2013-2016, þingmannanefnd Íslands og ESB 2013-2016 og Íslandsdeild NATO-þingsins 2017-2021. Nánari upplýsingar á vef Alþingis.

Hans Kluge

Dr. Hans Henri P. Kluge er framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og tók við því embætti í febrúar árið 2020. Hann er læknir að mennt og hefur unnið á sviði lækninga og lýðheilsu víða um heim. Nánari upplýsingar á vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar

Chris Brown

Chris stýrir skrifstofu Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Feneyjum um fjárfestingu og þróun á sviði heilbrigðismála. Hún hefur m.a. unnið að þróun mælikvarða um jöfnuð. Chris leiðir þverfaglegt teymi sem starfar með stjórnvöldum og fleiri aðilum við að innleiða í heilbrigðisstefnur áherslur sem lúta að félagslegum og efnahagslegum þáttum með áherslu á jöfnuð og jafnrétti. Nánari upplýsingar.

Marion Devaux

Marion Devaux er sérfræðingur í heilbrigðisstefnugreiningu hjá OECD og hefur þar umsjón með verkefnum á sviði heilbrigðishagfræði og lýðheilsu. Hún er með doktorsgráðu í heilsuhagfræði frá Dauphine háskólanum í París og meistaragráðu í tölfræði frá National School of Statistics and Information Analysis í Frakklandi. Marion hefur unnið að greiningum á stefnum sem hafa þann megintilgang að sporna við offitu, reykingum og óhóflegri áfengisnotkun. Hún hefur einnig unnið greiningar á árangursríkum stefnum á sviði lýðheilsu (e. Best practice in Public health). Meðal verkefna sem hún hefur komið að er þróun líkans OECD sem nýtt er til að meta árangur af stefnum/áætlunum sem beinast að áhættuþáttum tengdum lífsstíl og langvinnum sjúkdómum þeim tengdum. Verkefni Marion hjá OECD um þessar mundir tengjast stefnumótun sem miðar að bættri heilsu og vellíðan fólks á vinnustað.

Vinna á vegum OECD í lýðheilsumálum hefur að markmiði að efla bestu starfshætti (e. best practice) aðildarþjóðanna í lýðheilsumálum. Sérstök áhersla er lögð á að efla getu þjóða til að takast á við hátt hlutfall ofþyngdar íbúa með íhlutun sem byggir á bestu starfsháttum. Slík íhlutun getur beinst að einstaklingbundinni hegðun, s.s. ráðgjöf um lífsstíl eða breytinga í nærumhverfi fólks sem stuðla að heilsueflandi samfélagi.

Í erindi sínu mun Marion Devaux, sérfræðingur í stefnugreiningu á heilbrigðissviði hjá OECD, fjalla um mat á aðferðafræði fjölþættrar heilsuræktar (e. Multimodal Training Intervention - MTI) og möguleika þess að innleiða hana hjá aðildarríkjunum.  OECD hefur skilgreint MTI aðferðafræðina sem þróuð hefur verið á Íslandi, til verkefna sem falla undir bestu starfshætti á sviði lýðheilsumála. MTI felur í sér einstaklingsmiðaða íhlutun sem miðar að því að bæta þrek og viðnámsþrótt markhópsins með skipulagðri þjálfun í tvö ár. Markhópurinn er fólk 65 ára og eldra sem býr eitt. Þátttakendum er jafnframt veitt fræðsla um næringu, hreyfingu og svefn. Ljóst er að MTI skilar árangri meðal eldra fólks og dregur úr tíðni sjúkdóma meðal þátttakenda. Aftur á móti er þessi íhlutun kostnaðarsöm sem leið til að fyrirbyggja offitu þar sem hún krefst þjálfunar undir eftirliti og sérsniðinnar fræðslu í formi fyrirlestra fyrir takmarkaðan fjölda fólks.

Aðferðafræði MTI hefur verið prófuð á afmörkuðum svæðum á Spáni og í Litháen. Sú reynsla sýnir að slík yfirfærsla er möguleg. Enn fremur er þessi aðferðafræði í samræmi við opinberar áherslur í lýðheilsumálum sem eykur líkur á pólitískum stuðningi þar sem markmiðið er að sporna við hreyfingarleysi og óhollu mataræði. Þetta er jafnframt forgangsmál hjá OECD. Aftur á móti getur það reynst hindrun hvað þessi íhlutun er kostnaðarsöm, einkum ef þátttakendur í MTI þurfa að greiða kostnaðinn úr eigin vasa.

Alma D. Möller

Alma hefur gegnt embætti landlæknis frá árinu 2018. Hún er sérfræðingur og doktor í svæfinga- og gjörgæslulækningum, auk þess að vera með sérfræðiviðurkenningu og meistarapróf í lýðheilsu og heilbrigðisstjórnun og diplóma í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur unnið fjölbreytt störf í heilbrigðisþjónustu, bæði klínísk störf og við stjórnun. 

Í erindi sínu á þinginu mun Alma leitast við að varpa sýn á mikilvægi lýðheilsu í ljósi þeirra áskorana sem þjóðin sem og alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Einnig verður fjallað um sýn landlæknis og embættisins á lýðheilsu í nútíð og framtíð. Enn fremur um hvernig embætti landlæknis sem gegnir forystuhlutverki á þessu sviði í íslensku samfélagi, stuðlar að innleiðingu á lýðheilsustefnu stjórnvalda.

Gylfi Ólafsson

Gylfi er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hann er með doktorspróf í heilsuhagfræði frá Karolinska-stofnuninni í Stokkhólmi. Áður en Gylfi tók við núverandi starfi (júlí 2018) var hann meðal annars sjálfstætt starfandi heilsuhagfræðingur, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og stundakennari við Háskóla Íslands.

Gylfi ætlar í erindi sínu að velta fyrir sér ýmsum brennandi heilsuhagfræðilegum spurningum: „Hver eru hagræn áhrif heilsu(ó)læsis? Ef rétt er að hver króna sem fer í forvarnir komi margföld til baka, er þá ekki hægt að búa til eilífðarvél með því að setja allan peninginn okkar í forvarnir?"

Erla Björnsdóttir

Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns. Erla lauk B.A prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2007 og kandídatsprófi frá Háskólanum í Árósum 2009. Erla lauk svo doktorsprófi í líf-og læknavísindum frá Háskóla Íslands í janúar 2015. Í doktorsnámi sínu rannsakaði Erla svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn. Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) og  hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og einnig skrifað um svefn á innlendum vettvangi. Erla hefur haldið fjölda fyrlestra og námskeiða og má þar helst nefna fyrirlestra og fræðslu um svefn og svefnvenjur fyrir fyrirtæki og hópa ásamt því að vera með hópnámskeið við svefnleysi. Erla er einnig höfundur bókarinnar Svefn sem kom út í mars 2017 og barnabókarinnar Svefnfiðrildin sem kom út árið 2020.

Í erindi sínu á þinginu mun Erla fjalla um svefn ungmenna á Íslandi, hvaða þættir hafa áhrif á svefn þeirra og hvaða leiðir eru færar til að bæta svefn hjá þessum hópi.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir

Margrét er er þekkingarstjóri hjá Planet Youth og sérfræðingur hjá Rannsóknum & greiningu. Margrét hefur síðastliðin ár unnið sem sérfræðingur í málefnum barna og ungmenna með sérstaka áherslu á að efla lýðheilsu og bæta umhverfi. Þá er Margrét kennari við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík.

„Engar skyndilausnir takk  – nýting gagna í nærumhverfi barna og ungmenna" er umfjöllunarefni Margrétar Lilju á þinginu. Allt frá árinu 1992, í þrjá áratugi  hafa niðurstöður úr rannsóknunum Ungt fólk verið nýttar í forvarnarvinnu á Íslandi. Gögnin hafa verið nýtt með staðbundnum hætti, hjá opinberum stofnunum, innan sveitarfélaga, hverfa og skóla til að auka skilning á högum ungs fólks og bæta aðstæður þeirra, heilsu og líðan. Fókusinn jafnframt verið sá að hlúa að verndandi þáttum og draga úr áhættuþáttum. Mikill árangur hefur náðst í því að draga úr áfengis- kannabisneyslu og tóbaksreykingum á Íslandi – það mikill að eftir því er tekið erlendis og nú er unnið með aðferðafræði íslenska forvarnarmódelsins í fimm heimsálfum, yfir 15 löndum og hundruðum borga og sveitarfélaga.

Nýjar áskoranir eru í lífi barna og ungmenna hér á landi líkt og annars staðar í heiminum. Neysla koffíns og nikótíns hefur aukist, ungmenni meta andlega heilsu sína lakari nú samanborið við fyrri ár, of hátt hlutfall barna fær og lítinn nætursvefn og erfitt reynist að koma böndum á skjátíma- og samfélagsmiðla notkun. Í erindinu er fjallað um mikilvægi þess að vinna með ný, fersk gögn í nærumhverfi bara. Einnig hvernig vinna má með nýjar áskoranir og beita sömu aðferðafræði og reynst hefur vel í íslenska forvarnarmódelinu.  

Jórlaug Heimisdóttir

Jórlaug er verkefnastjóri á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og vinnur með heilsugæslu á landsvísu við að samræma þjónustu við fólk með langvinnan heilsuvanda og þjónustu við aldraða. Jórlaug er hjúkrunarfræðingur og með meistarapróf í lýðheilsu með áherslu á faraldsfræði og einnig með meistarapróf í lýðheilsu og heilbrigðisstjórnun. Jórlaug hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum tengdum lýðheilsu meðal annars innan heilbrigðisþjónustu og með sveitarfélögum.

Heilsuefling í heilsugæslu og Heilsuvera verður umfjöllunarefni Jórlaugar á þinginu. Þar mun hún ræða um samræmda, þverfaglega og framvirka þjónustu í heilsugæslu á landsvísu. Fjalla um heilsueflingu og hvernig Heilsuvera er nýtt í þjónustunni, meðal annars til að auka heilsulæsi. Horft verður til skipulags þjónustunnar, stuðnings við ákvarðanir í áætlun skjólstæðinga auk þátta sem stuðla að því að skjólstæðingurinn taki málin í sínar eigin hendur. Síðast en ekki síst ræðir Jórlaug um hvernig upplýsingatækni og rafrænar lausnir styðja við þjónustuna. 

Ásgerður Guðmundsdóttir

Ásgerður er sjúkraþjálfari, íþróttakennari og verkefnastjóri heilsueflingar hjá Landssambandi eldri borgara. Hún og Margrét Regína Grétarsdóttir, íþróttafræðingur og verkefnastjóri heilsueflingar eldra fólks hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands flytja sameiginlegt erindi á þinginu. Þær munu annars vegar leggja áherslu á myndun stýrihópa í sveitarfélögum með áherslu á að stuðla að þverfaglegu samstarfi til að auka líkamlega, andlega og félagslega virkni hjá 60 ára og eldra fólki á landsvísu. Hins vegar fjalla þær um mikilvægi þess að auka heilsulæsi og ná til þeirra sem ekki eru að hreyfa sig. Nánari upplýsingar á www.bjartlif.is

Margrét Regína Grétarsdóttir

Margrét Regína er íþróttafræðingur og verkefnastjóri heilsueflingar eldra fólks hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Hún og Ásgerður Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari, íþróttakennari og verkefnastjóri heilsueflingar hjá Landssambandi eldri borgara flytja sameiginlegt erindi á þinginu. Þær munu annars vegar leggja áherslu á myndun stýrihópa í sveitarfélögum með áherslu á að stuðla að þverfaglegu samstarfi til að auka líkamlega, andlega og félagslega virkni hjá 60 ára og eldra fólki á landsvísu. Hins vegar fjalla þær um mikilvægi þess að auka heilsulæsi og ná til þeirra sem ekki eru að hreyfa sig. Nánari upplýsingar á www.bjartlif.is

Sigrún Daníelsdóttir

Sigrún hefur unnið að eflingu geðræktar í skólum í yfir áratug, fyrst hjá embætti landlæknis og nú hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem hún er verkefnastjóri.

Geðrækt er mikilvægur hluti lýðheilsustarfs enda áskoranir á sviði geðheilbrigðis einhverjar þær brýnustu sem stjórnvöld í dag standa frammi fyrir. Geðrækt og forvarnir snúa m.a. að því að efla persónulega færni sem styður við góða geðheilsu, svo sem félags- og tilfinningafærni. Niðurstöður rannsókna sýna skýrt að þessi færni er mikilvæg forsenda velfarnaðar í lífinu og undirstaða farsællar skólagöngu. Engu að síður hefur markviss kennsla á þessu sviði ekki náð að festa rætur í íslensku menntakerfi. Lífsleikni, sem almennt hefur verið vettvangur þessarar kennslu, er ekki sjálfstæð námsgrein í aðalnámskrá, hæfniviðmið hafa ekki skilgreind og ekki er gerð krafa um að skólar geri sérstaka áætlun um kennslu félags- og tilfinningafærni. Námsefnisútgáfa hefur auk þess verið af skornum skammti og tiltækt kennsluefni er komið vel til ára sinna. Minna en helmingur starfsfólks í leikskólum og grunnskólum telur börn fá nægilega kennslu og þjálfun í hegðunar-, félags- og tilfinningafærni og aðeins fimmtungur starfsfólks í framhaldsskólum.

Í erindi sínu fjallar Sigrún um vinnu sem framundan er innan mennta- og barnamálaráðuneytisins um að auka áherslu á félags- og tilfinningafærni í skólakerfinu með markvissri geðræktarkennslu í gegnum alla skólagöngu barna.

Guðmundur Arnar Guðmundsson

Guðmundur Arnar er framkvæmdastjóri og annar eigandi Akademias. Ennfremur er hann í hluthafahóp og stjórn Hoobla og sinnir þar vexti og þróun. Hann hefur starfað sem markaðsstjóri Íslandsbanka, Nova og WOW air en hann sat jafnframt í framkvæmdastjórn félaganna. Ennfremur var hann markaðsstjóri Icelandair í Bretlandi og vörumerkjastjóri Icelandair á Íslandi. Guðmundur hefur kennt markaðsfræði og vörumerkjastjórnun við Háskólann í Reykjavík ásamt því að vera reglulegur gestafyrirlesari í öllum háskólum landsins. Hann er hagfræðingur frá Acadia University í Kanada og með MBA, auk þess að hafa lokið stjórnendanámi, þ. á m. við Harvard Business School og IESE. Í gegnum tíðina hefur Guðmundur verið jafnframt verið ráðgjafi fyrir tugi fyrirtækja þ.m.t. Eldum rétt, Play, Heimkaup o.fl.

Hvernig fáum við fólk með eðluheila til að lifa heilbrigðara lífi? heitir erindið sem Guðmundur ætlar að flytja á þinginu:

Þekking á mannlegri hegðun, hnippingar (e. behavioural economics) og tilraunir (e. growth hacking) eru að umbylta markaðsstarfi. Guðmundur mun fjalla um aðferðir sem Google, Facebook og Amazon nota, byggt á sálfræði, tilraunum og skilning á markhópum til að breyta vana og margfalda árangur markaðsstarfs fyrir mun minni kostnað.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir er sviðstjóri Lýðheilsusviðs hjá Embætti landlæknis. Fyrir sameiningu Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins starfaði hún m.a. sem forstjóri Lýðheilsustöðvar. Hún er með kandídatspróf í klínískri sálfræði og vinnusálfræði ásamt því að vera með doktorsgráðu í lýðheilsuvísindum. Dóra hefur rannsakað hvaða þættir hafa áhrif á hamingju, heilsu og vellíðan.Hún hefur jafnframt unnið að því að finna hagnýtar leiðir til að nýta niðurstöðurnar og ritað fjölda greina um efnið sem hafa birst bæði innan lands og utan.

Dóra hefur unnið að nokkrum lýðheilsustefnum og aðgerðaráætlunum um bætta lýðheilsu.  Má þar nefna Heilsustefnu frá 2008, Lýðheilsustefnu 2016-2030 ásamt því að stýra vinnu við gerð Lýðheilstefnu Reykjavíkur til 2030 . Á þinginu mun hún kynna drög að aðgerðaráætlun til fimm ára um framkvæmd þingsályktunar um lýðheilsustefnu sem samþykkt var í fyrra. Dóra mun fjalla sérstaklega um helstu áherslur fyrir árið 2023 ásamt því að fá ábendingar frá þátttakendum þingsins um það sem þau telja mikilvægast að komi fram í aðgerðaráætluninni.

Janus Guðlaugsson

Janus er með doktorspróf í íþrótta- og heilsufræðum frá Háskóla Íslands. Hann tók BSc-próf frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1997 með áherslu á heilsu og íþróttir fyrir sértæka hópa, s.s. fatlaða, börn og fólk á efri árum. Á heilbrigðisþinginu mun Janus fjalla um aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum og stöðu helstu áhættuþátta sem áhrif hafa á heilbrigðiskerfið í komandi framtíð. Þá er komið inn á möguleikann á að endurskapa ýmislegt sem líkaminn glímir við með hækkandi aldri, fjallað stuttlega um verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ í sveitarfélögum og að lokum fjallað um miðlæga nálgun á heilsutengdum forvörnum í „húsi heilsueflingar“.

Janus rekur og stýrir í dag eigin fyrirtæki; Janus heilsuefling slf. sem stofnað var 2016. Hann hefur starfað sem kennari og fræðimaður, lektor við Kennaraháskóla Íslands og síðar Menntavísindasið Háskóla Íslands 2005–2016 og var námsstjóri í íþróttum hjá menntamálaráðuneytinu 1986-1996.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Halla Karen er íþróttakennari að mennt og þjálfari.  Hún hefur kennt íþróttir í 25 ár í framhaldsskóla ásamt því að þjálfa alls lags hópa í líkamsræktarstöðvum.  Einnig hefur hún komið mikið að þjálfun og fræðslu hjá eldra fólki í Mosfellsbæ ásamt því að halda fyrirlestra.  „Ég er svo heppin að ég vinn við eitt að því skemmtilegasta sem ég geri og það er að miðla heilsu og heilbrigði til ungra jafnt sem aldna.  Ég ákvað í vor 2022 að bjóða mig fram í sveitastjórn og í dag er ég komin í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og er formaður bæjarráðs, er í velferðarnefnd og í öldungaráði" segir Halla Karen. Hún ætlar á þinginu að fjalla um heilsueflandi samfélagið Mosfellsbæ, þróun þess og framtíðaráform um að efla þennan þátt. Yfirskrift erindisins er Af hverju skiptir heilsa og vellíðan sveitarfélög máli?

Sveinn Waage

Sveinn Waage starfar sem rekstrar- og markaðsstjóri  hjá Svarinu ehf. sem setur upp grænar þjónustu-miðstöðvar um landið, ásamt að veita ráðgjöf í markaðs- og samskiptamálum. Undanfarið ár hefur Sveinn verið víðsvegar að flytja fyrirlesturinn „Húmor Virkar“ sem hann setti saman eftir að hafa útbúið námskeið með sama nafni fyrir Opna Háskólann í HR. Sveinn útskrifaðist úr HR í markaðsfræðum og almannatengslum ásamt diplómu frá LHÍ en hann nam líka alþjóðleg viðskipti í Columbus, GA í USA. Hann hefur átt farsælan feril hjá fyrirtækjum eins og 365, Creditinfo, Birtingi, Ölgerðinni, Meniga og Íslandsstofu. Honum var falið að ritstýra samfélagsmiðlum og vefsíðuráðgjöf í forsetaframboði Guðna Th. Jóhannessonar árin 2016 og 2020. Sveinn vann hjá Íslandsstofu árin 2017-2019 þar sem hann sá um samfélagsmiðla fyrir margverðlaunuðu markaðsherferðina, „Inspired by Iceland“ Sveinn hefur einnig verið talsvert í ýmiskonar skemmtun og framkomu frá 1998. Þessi fjölbreytta reynsla var grunnurinn að því að Sveinn var beðinn af HR að setja saman námskeið um Húmor, Heilsu og atvinnulífið sem seinna þróaðist í samnefndan fyrirlestur.

Fyrirlesturinn Húmor Virkar var frumfluttur á Læknadögum í Hörpu í janúar og hefur notið vinsælda síðan og fengið frábærar viðtökur. Húmor Virkar er unninn upp úr 8 klst. samnefndu námskeiði í Háskólanum í Reykjavík sem Sveinn Waage setti saman árið 2021 með liðsinni dr. Kristínar Sigurðardóttur og sr. Bjarna Karlssonar.  Fyrirlesturinn samanstendur m.a. af niðurstöðum viðamikilla rannsókna og vinnu á virkni húmors á heilsu (líkamlega sem andlega) og sem árangursaukandi afl í atvinnulífinu og lífinu almennt. Á Lýðheilsuþinginu 2022 fá ráðstefnugestir stutta kynningu og samantekt á fyrirlestrinum, sem vonandi kveikir áhuga á að fræðast meira um þetta magnaða fyrirbæri Húmor og virkni hans.

Ítarefni

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum