Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2004 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Áramótaávarp forsætisráðherra 2004

Áramótaávarp forsætisráðherra 2004
Áramótaávarp forsætisráðherra 2004


Góðir Íslendingar,

Í kvöld kveðjum við enn eitt árið á lífsleið okkar; ár framfara, ár mikilla breytinga. Um leið höldum við áfram inn í nýtt ár með þá von í brjósti að okkur farnist öllum vel og fáum notið þess tíma sem framundan er.

Sérhver stund, sérhvert ár er dýrmætt á lífsins göngu. Sjálf ráðum við miklu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Með góðri samstöðu og trú á eigin mátt höfum við Íslendingar sannarlega náð miklum árangri á undanförnum árum. Við skulum halda áfram á þeirri braut á næsta ári með eigin hag og komandi kynslóða í fyrirrúmi.

Alþjóðavæðingin skipar æ stærri sess í lífi okkar og starfi og á þeirri vegferð er saga þjóðarinnar dýrmæt. Sérhverjum manni er nauðsynlegt að þekkja sjálfan sig og til þess þarf að þekkja sögu sína. Menn mótast af uppeldi, umhverfi og reynslu og sækja þrek og þrautseigju í sögu lands og þjóðar.

Sögusvið Snorra Sturlusonar var ekki Ísland eitt, heldur öll Norðurálfan sem svo var nefnd, öll Vesturlönd. Fátt hefur aukið hróður landsins meira en snilld og andagift þeirrar sögu sem þá var skráð. Varla hefur önnur íslensk bók haft meiri áhrif en Heimskringla. Hún tengir norrænar þjóðir saman og leysti úr læðingi eldmóð og kraft. Bókin er því miklu meira en saga, hún hefur mótað nýja sögu frá fyrstu tíð. Það er umfram allt þessi forni arfur sem einkennir okkur sem þjóð.

Sjaldan eða aldrei hafa tækifæri Íslendinga verið meiri. Landar okkar ganga djarflega fram víða um heim við að nýta tækifærin. Óhætt er að fullyrða að sókn íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum sé mesta hreyfiaflið í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Þetta er í takt við sögulega hefð okkar Íslendinga þar sem samskipti við aðrar þjóðir hafa ávallt skipt sköpum í örlögum þjóðarinnar.

Allt er þetta af hinu góða. Hins vegar er nauðsynlegt að varúð sé viðhöfð á þessari vegferð. Það hefur ætíð verið góð regla að ganga hægt um gleðinnar dyr. Við höfum skapað einstök skilyrði til að gera marga hluti samhliða. Við höfum fengið mikið frelsi til athafna sem verður að nýta vel. Þessu frelsi fylgir ábyrgð sem við verðum að axla hvert og eitt. Hættur geta leynst víða og mesta hættan skapast þegar farið er of geyst og stofnað er til of mikilla skulda. Það á jafnt við um fyrirtæki og heimili.

Alþingi hefur samþykkt að létta undir með heimilunum í landinu með því að lækka skatta og hækka um leið bætur til barnafólks. Með þeim breytingum er lögð sérstök áhersla á barnafjölskyldur. Það er ekki að ástæðulausu því ýmis teikn eru á lofti um að gömul og gróin fjölskyldugildi séu á undanhaldi með óæskilegum afleiðingum. Samheldni fjölskyldna virðist minni. Við vitum að börn þarfnast umhyggju foreldra sinna og tíma fyrir leik og samræðu. Nútímaþjóðfélagið hefur breytt lífsmynstrinu og í kjölfarið hafa samverustundir fjölskyldunnar tekið breytingum.

Hverju er um að kenna? Langur vinnudagur margra er auðvitað nærtæk ástæða, en örugglega ekki eina skýringin. Er mögulegt að ýmis konar afþreying tefji svo fyrir börnum og fullorðnum að heimanám, elskulegur agi og uppeldi líði fyrir? Er ástæða til að sjá fjölskyldugerð fyrri tíma í hillingum? Hefur stórfjölskyldan gefið um of eftir? Látum við aðra um uppeldi barna okkar – dýrmætustu eignina í lífinu?

Það er bjargföst trú mín að samheldin og ástrík fjölskylda sé kjarninn í hverju þjóðfélagi. Þann kjarna þarf að styrkja og treysta og við höfum komið til móts við breyttar kröfur með fæðingarorlofi fyrir báða foreldra, sem var mikið jafnréttismál. Að sama skapi höfum við lagt áherslu á að allir geti eignast sitt eigið húsnæði. En betur má ef duga skal. Ég hef því ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar.

Við Íslendingar búum við betri afkomu en almennt gerist og eitt öflugasta velferðarkerfi heims. Við sjáum fleiri stoðir styrkja innviði þjóðlífsins. Fjármálastarfsemi, ferðaþjónusta, þekkingariðnaður og stóriðja skipa vaxandi sess í efnahagsstarfseminni. Við verðum að halda áfram á þessari braut. Á næstu árum verða framlög til vísinda- og tæknirannsókna tvöfölduð og verður þannig einum milljarði bætt við þennan mikilvæga málaflokk sem leiðir okkur inn í framtíðina.

Ekkert lát er á hagvexti sem eykur bjartsýni um það sem koma skal. Það er frumskylda okkar að takast á við bágindi í eigin landi, en það leysir okkur ekki frá þeirri skyldu að hjálpa öðrum sem ekki búa við sömu tekjur og þann frið sem við njótum. Við getum lagt mikið af mörkum með þróunarhjálp, friðargæslu, mannúðarstarfsemi og þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna.

Við Íslendingar höfum lengi verið eftirbátar annarra vestrænna þjóða í þessum efnum. Nú höfum við hins vegar tekið okkur verulega á með þreföldu framlagi til þróunarmála og aukinni þátttöku í friðargæslu.

Eitt þeirra landa sem við Íslendingar höfum tekið upp samvinnu við er Sri Lanka. Þar, eins og víðar í Suður Asíu, dvelur nú hugur og samúð heimsbyggðarinnar eftir skelfilegar náttúruhamfarir fyrir nokkrum dögum sem kostuðu tugi þúsunda mannslífa og leiddu af sér gríðarlega eyðileggingu.

Eitt af því sem gerir okkur að þjóð meðal þjóða er að láta okkur varða framtíð og farsæld annarra. Ef við látum sára neyð annarra okkur litlu skipta verður gleðin yfir eigin velsæld bæði hol og innantóm.

Á þessari stundu er hugur okkar hjá fjölskyldu og ástvinum. Flestir hafa yfir miklu að gleðjast, aðrir hafa mætt andstreymi og sorg. Öllum hafa orðið á mistök á liðnu ári, það fylgir okkur í gegnum lífið. Mikilvægast af öllu er að læra af þeim. „Þekktu sjálfan þig” er gamalt boðorð. Besta leiðin til að gera betur er að þekkja sjálfan sig. Við eigum það öll sameiginlegt að elska fjölskyldu okkar og við eigum það líka sameiginlegt að elska landið okkar. Þótt við höfum ólíkar skoðanir á mörgu er enn fleira sem sameinar. Það er mikil gæfa að vera Íslendingur og það er mikil auðna að hafa tækifæri til að auðga arf forfeðra okkar og formæðra. Við höfum haft það að leiðarljósi að þegnum landsins séu búin þau skilyrði að allir geti notið sín og þroskast í umhverfi
sínu.

Árið sem nú er að líða var tíðindasamt. Á sama tíma og við fögnuðum sextíu ára afmæli lýðveldisins og aldarafmæli heimastjórnar voru óvenju mikil átök í íslenskum stjórnmálum. Þessir atburðir hafa fært okkur heim sanninn um nauðsyn þess að fram fari umræða um stjórnskipan landsins af víðsýni án tengsla við einstök deilumál.
Fyrr í þessum mánuði óskaði ég eftir tilnefningum þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi í nefnd sem hafi það hlutverk að undirbúa breytingar á stjórnarskránni.
Ég hvet til þess að við fjöllum um þetta stóra og mikilvæga verkefni af gætni og virðingu. Með nútíma samskiptatækni og fjölbreytni í fjölmiðlun er hægt að tryggja að sem flestir landsmenn geti lagt hönd á plóginn auk þess sem haldnir verði fundir og ráðstefnur um einstaka þætti stjórnarskrárinnar. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra og niðurstaðan á að endurspegla þjóðarvilja. Því er brýnt að sjónarmið sem flestra komist að við þessa mikilvægu vinnu. Í alþingiskosningum 2007, þegar kosið verður um stjórnarskrárbreytingarnar, eiga sem flestir að geta sagt: Ég hef tekið þátt í að ræða og móta stjórnarskrána.


Framtíðar þjóð, yfir ókomna öld
með alþjóð að vin láttu mannrétt þinn styrkjast.
Vort norræna mál gefur svip vorri sál;
það setur oss vé í lýðanna fjöld.
Í krafti og frelsi guðs veraldir virkjast.
Til vaxandi Íslands vor hjartaljóð yrkjast.

Þannig orti Einar Benediktsson skáld fyrir tæpum áttatíu árum en þetta á ekki síður við í dag. Megi komandi ár verða hverjum og einum og þjóð okkar til gæfu og farsældar. Ég þakka ykkur sameiginlega vegferð á liðnu ári, vináttu og góðan hug í minn garð og óska ykkur hverju og einu gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er að líða.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira